2021
Guð mun heyja orrustur yðar – á sinn máta
September 2021


„Guð mun heyja orrustur yðar – á sinn máta,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2021, 15–17.

Kom, fylg mér

Guð mun heyja orrustur yðar – á sinn máta

Fyrrtíðar heilagir lærðu eitt og annað um vegi Guðs.

Kenning og sáttmálar 103–105

Ljósmynd
Síonarfylkingin við ána Fishing River

Síonarfylkingin, eftir Judith Mehr

Hópur hinna heilögu sem skipaði Síonarfylkinguna vonaði og baðst fyrir um kraftaverk þegar reiður múgur yfir 300 manna hét því að gjöreyða þeim að morgni.

Síonarfylkingin, með Joseph Smith í fararbroddi, hafði gengið í margar vikur frá Ohio til Missouri. Þessir kirkjumeðlimir vonuðust til að liðsinna hinum heilögu, sem höfðu verið reknir á brott frá Jackson-sýslu, Missouri í Bandaríkjunum, við að endurheimta land sitt. Þeir horfðust þó í augu við hótanir og mótlæti á göngu sinni. Nú hótaði þeim enn einn múgurinn.

Brátt myndi undrið berast, sem hinir heilögu í Síonarfylkingunni báðust fyrir um. Það barst með dimmum skýjabakka í fjarlægð. Ofsafengið þrumuveður brast á út um allt og risavaxið haglél dundi yfir. Þrumuveðrið stöðvaði múginn í sporunum.

„Svo virtist sem tilskipun um hefnd hafi komið frá Guði orrusta, til verndar þjónum sínum frá tortímingu af höndum andstæðinga þeirra,“ segir í sögu Josephs Smith. „Haglið dundi á þeim en ekki á okkur og við urðum ekki fyrir skaða, ef frá eru talin nokkur fokin tjöld og önnur sem blotnuðu, á meðan fjendur okkar fengu göt á hatta sína og urðu fyrir annars konar skaða, rifflasköft þeirra brotnuðu og hestar þeirra flúðu.“1

Hið skaðlega haglél var aðeins einn hluti stormsins. Regnið var svo mikið að dýpt árinnar Fishing River, sem skildi hópana tvo að, jókst næstum upp í 12 metra. Hún hafði aðeins verið ökkladjúp að morgni.

Drottinn hét meðlimum Síonarfylkingarinnar að hann skyldi „heyja orrustur [þeirra]“ (Kenning og sáttmálar 105:14). Þegar það gerist, er enginn vafi á hver ber sigur út býtum.

Nútíma undur

Þegar þið lesið frásagnir líkar þessari, spyrjið þið ykkur stundum af hverju stórbrotin undur sem þessi virðist ekki gerast hjá okkur í erfiðleikum okkar.

Öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, miðlaði nýlega nokkrum punktum sem geta hjálpað. Hann sagði: „Verið svo væn að skilja, að sá sem aldrei sefur eða blundar er meira umhugað um hamingju og endanlega upphafningu barna sinna en nokkuð annað sem dýrðleg vera gæti fengist við. Hann er hin hreina ást, dýrðlega persónugerð, og Miskunnsamur faðir er nafn hans.

‚Sé þetta svo,‘ gætuð þið sagt, ‚ætti þá ást hans og miskunn ekki einfaldlega að kljúfa okkar persónulega Rauðahaf og leyfa okkur að ganga þurrum fótum í gegnum erfiðleika okkar?‘“

Með öðrum orðum, ef Guð hefur háð slíkar orrustur fyrir börn sín á liðinni tíð, hvers vegna gerir hann það þá ekki núna? Af hverju ekki að þurrka út alla sjúkdóma? Af hverju ekki að enda stríð og hungur og þjáningu um heim allan?

Hvers vegna ekki hið minnsta að stöðva hrellinn sem lætur ykkur ekki í friði? Eða að hjálpa fjölskyldu ykkar að semja betur hvert við annað?

Öldungur Holland kenndi áfram: „Svarið við slíkum spurningum er: ‚Já. Guð getur gert kraftaverk á stundinni, en fyrr eða síðar lærum við að tímar og tíðir jarðlífs okkar eru eingöngu undir hans stjórn.‘ Hann hefur slíkt tímatal fyrir sérhvert okkar persónulega.“2

Þegar þið fylgið boðorðum Guðs, eigið þið tilkall til liðsinnis Guðs. Ekkert okkar getur þó kosið hvernig eða hvenær hjálpin berst.

Óvæntar blessanir

Beinum athyglinni aftur að Síonarfylkingunni. Undrið við ána Fishing River var sannarlega stórbrotið. Það var þó ekki eina kraftaverkið sem meðlimir Síonarfylkingarinnar sáu á göngu sinni. Eins og þið munið lesa í Kom, fylg mér og læra í trúarskólanum þennan mánuð, atvikuðust hlutirnir ekki eins og hinir heilögu áætluðu.

Þeir héldu að tilgangurinn með Síonarfylkingunni væri að hjálpa til við endurheimt landsins í Jackson-sýslu, sem reiður múgur hafði stolið af hinum heilögu.

Endurheimtu hinir heilögu landið sitt? Nei.

Þjáðust hinir heilögu á næstum 1.448 kílómetra göngu sinni til Missouri? Já, reyndar. Stundum mikið. Þegar verst lét varð kólerusýking 13 manns í fylkingunni að bana.

Á yfirborðinu lítur út fyrir að allt erfiðið hafi verið til einskis. Margir sem gengu með fylkingunni, litu þó ekki á það þannig. Brigham Young sagði þetta um upplifun sína: „Ég [hef] hlotið góða umbun – með háum vöxtum – já, að bikar minn væri barmafullur af þeirri vitneskju að ég hefði ferðast með spámanninum [Joseph Smith].“3

Margir aðrir meðlimir Síonarfylkingarinnar ræddu einnig þær lexíur sem þeir lærðu og það gildi sem gangan hafði. Spámaðurinn Joseph sagði sjálfur: „Bræður, sumir ykkar eru mér reiðir vegna þess að þið börðust ekki í Missouri; en leyfið mér að segja ykkur að Guð vildi ekki að þið berðust. Hann gæti ekki komið reglu á ríki sitt … nema hann tæki [leiðtoga sína] úr hópi manna sem hefðu lagt lífið að veði og hefðu fært jafn mikilfenglega fórn og Abraham gerði.“4

Ljósmynd
Síonarfylkingin

Síonarfylkingin, eftir C.C.A. Christensen

Trúfesti þeirra leiddi kannski ekki til endurheimtar lands þeirra. Þeir voru þó ríkulega blessaðir á annan máta. Þetta mynstur gæti einnig verið kunnulegt í eigin lífi. Það sem Guð hjálpar okkur að verða með prófraunum okkar er yfirleitt meira undur en að hann bjargi okkur frá erfiðleikunum.

Öruggur sigur Guðs

Þegar þið lærið um líf fyrrtíðar heilagra, getið þið endurtekið séð áhrif Guðs. Þið lesið um djúpstæðar blessanir. Þið heyrið líka um mikla erfiðleikatíma. Eilíf umbun þeirra sem treystu Guði allt til enda, var þó vís.

Þegar þið fylgið Guði og leggið traust ykkar á hann, mun hann heyja orrustur ykkar og sjá ykkur fyrir þeim undrum sem þið þarfnist! Undrin berast á hans hátt og á hans tíma, en útkoman er örugg. Allar raunir munu að endingu til lyktar leiddar – í þessu lífi eða því næsta. Jafn mikilvægt er að þið þurfið aldrei að ganga ein þegar þið fylgið honum. „Verið þess vegna staðföst, og sjá og tak eftir. Ég er með yður, já, allt til enda“ (Kenning og sáttmálar 105:41).

Heimildir

  1. History, 1838–1856, bindi A-1 (23. desember 1805–30. ágúst 1834), 497, josephsmithpapers.org.

  2. Jeffrey R. Holland, (aðalráðstefna, október 2020).

  3. Brigham Young, „Discourse,“ Deseret News, 3. desember 1862, 177.

  4. Joseph Smith, í Joseph Young eldri, History of the Organization of the Seventies (1878), 14.

Prenta