„4 leiðir til að styrkja fjölskyldu ykkar,“ Til styrktar ungmennum, október 2023.
4 leiðir til að styrkja fjölskyldu ykkar
Þið getið styrkt fjölskyldu ykkar til að verða það besta sem hún getur orðið með því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.
Sama hversu sterk fjölskylda ykkar er, hún gæti alltaf haft gagn af aðeins meiri styrk. Þessa dagana virðist sem höggin haldi áfram að dynja á fjölskyldunni. Þetta er vegna þess að Satan veit að fjölskyldur eru nauðsynlegar í áætlun himnesks föður. Ef það er eitthvað sem andstæðingurinn getur gert til að trufla fjölskyldulífið, mun hann vissulega reyna það.
Þótt engin fjölskylda sé fullkomin, þá býr þín fjölskylda að því sem engin önnur býr að: Þér! Og þið hafið fagnaðarerindi Jesú Krists ykkur til hjálpar. Spámenn og postular hafa kennt: „Hamingju í fjölskyldulífi hljótum við fyrst og fremst þegar við byggjum á kenningum Drottins Jesú Krists.“1
Hér eru nokkrar leiðir til að styrkja og færa fjölskyldu ykkar hamingju með fagnaðarerindi Drottins:
-
Fjölskyldur geta verið innsiglaðar um alla eilífð.
-
Fjölskyldumeðlimir geta notið þess að verja tíma saman, þjóna hver öðrum og upplifa að þeir tilheyri og búi að guðlegri sjálfsmynd.
-
Fjölskyldur geta reitt sig á kraft Jesú Krists til að leysa misskilning, deilur og áskoranir með iðrun, fyrirgefningu og trú.
Hér eru fjórar leiðir fyrir ykkur til að styrkja fjölskyldu ykkar með því að lifa eftir fagnaðarerindinu:
1Hvetjið til bænagjörðar
Fjölskyldur verða sterkari þegar þær biðja saman. Bænin getur blessað fjölskyldu ykkar með friði, kærleika og samlyndi. Ef bæn er ekki venja í fjölskyldu ykkar, skuluð þið biðjast fyrir til að vita hvernig þið getið hjálpað fjölskyldu ykkar að biðja saman. Verið viðbúin að bregðast við þeim svörum sem þið hljótið.
2Farið í kirkju saman
Í kirkju lærum við um fagnaðarerindi Jesú Krists. Við tökum líka sakramentið og gerum sáttmála við Guð um að við séum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists og hafa hann ávallt í huga (sjá Mósía 18:8–10; Kenning og sáttmálar 20:77, 79).
Að fara í kirkju sem fjölskylda, hjálpar til við að færa alla nær Guði og hver öðrum. Það krefst skuldbindingar að fara í hverri viku, en Guð mun blessa viðleitni ykkar. Ef fjölskylda ykkar velur að fara ekki með ykkur í kirkju, vitið þá að mæting ykkar mun styrkja ykkur og hjálpa til við að finna aðrar leiðir til að styrkja fjölskyldu ykkar.
3Elskið og þjónið
Frelsarinn kenndi: „Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan“ (Jóhannes 15:12). Segið fjölskyldu ykkar hversu heitt þið elskið hana – jafnvel þótt þið séuð viss um að hún viti það nú þegar. Að tjá elsku ykkar til fjölskyldu ykkar með orðum og verkum, býður andanum inn á heimili ykkar.
Að þjóna fjölskyldumeðlimum, er mikilvæg leið til að sýna elsku ykkar. Og að þjóna öðrum saman færir fjölskyldu ykkar líka nær hvert öðru og himneskum föður. Þið þurfið ekki að skipuleggja risastórt þjónustuverkefni. Þjónusta getur verið einföld, eins og að tilreiða eftirlætis máltíð fyrir nágranna. Að þjóna sem fjölskylda færir gleði, því eins og við lesum í ritningunum: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar“ (Mósía 2:17).
4Lifið eftir fagnaðarerindinu
Í mörgum fjölskyldum eru þeir sem ekki eru kirkjumeðlimir eða hafa kosið að hætta að fara í kirkju. Án stuðnings fjölskyldunnar getur verið erfitt að taka þátt í kirkjunni. Ef fjölskylda ykkar er í svipaðri stöðu, munið þá að þið getið samt verið góð fyrirmynd með því að lifa eftir fagnaðarerindinu.
Látið fjölskyldu ykkar sjá að þið lifið eftir því sem þið trúið. Þið vitið aldrei hvenær þau fylgjast með því sem þið segið og gerið. Þetta mun færa fjölskyldu ykkar ljós fagnaðarerindisins. Sama hverjar fjölskylduaðstæður ykkar eru, þá getur stöðug viðleitni ykkar til að lifa eftir fagnaðarerindinu lokið upp dyrum fyrir andann til að leiðbeina, hafa áhrif á og upphefja fjölskyldu ykkar og hjálpa henni að komast nær frelsaranum, Jesú Kristi.