2023
Þrjár lexíur frá unglingsárum Josephs Smith
September 2023


„Þrjár lexíur frá unglingsárum Josephs Smith,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2023.

Þrjár lexíur frá unglingsárum Josephs Smith

Sjáið hvað þið getið lært af reynslu spámannsins fyrir 200 árum.

Ljósmynd
piltur

Hefur ykkur einhvern tíma liðið eins og það sé erfitt að tengja við fólk í fortíðinni? Getur fólk sem lifði fyrir svo löngu síðan – virkilega kennt ykkur eitthvað um líf ykkar? Já! Joseph Smith er gott dæmi um það. Þegar hann var 18 ára hafði hann lært nokkra hluti um að fá svör við bænum og samband sitt við himneskan föður sinn. Þessar lexíur geta hjálpað ykkur í dag.

Lexía #1: Stundum tekur tíma að fá svör.

Svör við bæn berast ekki alltaf fljótt. Það er ekki auðvelt að sýna biðlund – sérstaklega þegar skjót svör eru fáanleg á netinu við næstum öllum spurningum.

Ef ykkur finnst sem það taki langan tíma fyrir Guð að svara ykkur, þá eruð þið ekki ein um það. Joseph Smith var 12 ára þegar hann tók að hugsa um „hið mikla mikilvægi velferðar ódauðlegrar sálar [sinnar].“1 Hann glímdi við spurningar um eigin verðleika og illsku heimsins næstu tvö árin. Það tók tveggja ára ígrundun, nám í ritningunni og vinnu við að glíma við þessar spurningar, áður en Guð og Jesús Kristur birtust honum í Lundinum helga.

Það sama á við um okkur. Þegar við höfum spurningu gætu liðið dagar, mánuðir eða jafnvel ár þar til við hljótum svar. En það er allt í lagi. Sú vinna er nauðsynleg sem við leggjum á okkur meðan beðið er. Munið hvað öldungur Jeffrey R. Holland í Tólfpostulasveitinni kenndi: „Sáðkornið verður að næra og við verðum að bíða eftir því að það þroskist.“2

Ljósmynd
Joseph Smith les Jakobsbréfið

Lexía #2: Guð þekkir okkur með nafni.

Áður en Joseph varð 18 ára, hafði hann notið vitjunar Guðs föður, Jesú Krists og englsins Moróní. Það er frekar áhrifamikið! Og þessar guðlegu verur þekktu allar nafn Josephs. Þær þekktu hann persónulega!

Guð þekkir ykkur líka persónulega. Þið eruð barn hans og hann þekkir ykkur með nafni. Guð kenndi þennan sannleika um sköpunarverk sitt: „Á öllu hef ég tölu, því að það er mitt og ég þekki það“ (HDP Móse 1:35).

Hluti af ástæðu þess að Joseph hafði sjálfstraust til að gera það sem hann var beðinn um, var að hann skildi að hann var barn Guðs, sem þekkti hann persónulega.

Ljósmynd
Joseph Smith í Lundinum helga

Lexía #3: Þegar við iðrumst, gerum við okkur næm fyrir andlegum upplifunum.

Ein helsta hvatning Josephs til að fara í Lundinn helga var að iðrast synda sinna. Það er sama ástæðan fyrir því að hann bað nóttina sem engillinn Moróní birtist honum: „Til að biðja um fyrirgefningu á öllum syndum [sínum] og heimsku“ (Joseph Smith – Saga 1:29). Þetta kennir okkur tvennt:

Í fyrsta lagi, ef við höfum gert mistök, ættum við ekki að halda að við séum ekki verðug þess að biðjast fyrir. Joseph hafði drýgt „syndir og heimsku“ en samt vissi hann að hann gæti beðist fyrir og hlotið fyrirgefningu.

Í öðru lagi, þegar við iðrumst, erum við næmari fyrir andanum. Eins og öldungur Jörg Klebingat af hinum Sjötíu hefur útskýrt: „Andlegt sjálfstraust eykst þegar þið iðrist synda af fúsum og frjálsum vilja.“3

Russell M. Nelson forseti hefur kennt að iðrun hjálpi okkur að verða líkari frelsaranum. Þegar við iðrumst, ljúkum við upp gáttum himins. „Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar í honum.“4

Svo ef þið þurfið að iðrast vegna einhvers, gerið það þá! Það mun ekki aðeins færa ykkur frið og hjálpa ykkur að verða líkari frelsaranum, heldur mun það líka gera ykkur næmari fyrir andanum til að hljóta svör við bænum ykkar.

Joseph Smith lifði vissulega fyrir löngu síðan, en lexían sem hann lærði sem unglingur getur hjálpað okkur enn í dag. Það er bara enn ein ástæða til að vera þakklátur fyrir spámanninn Joseph Smith.

Prenta