Lausnarinn Kristur
Fórn [lausnarans] blessar alla, frá Adam, hinum fyrsta, allt til síðustu manneskjunnar.
Jesú Kristur, sonur Guðs, fæddist og dó við sérstakar aðstæður. Hann ólst upp og lifði við fábrotnar aðstæður, án veraldlegra hluta. Hann sagði sjálfur: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannsonurinn á hvergi höfði sínu að halla“ (Lúk 9:58).
Aldrei hlaut hann heiður, hylli, viðurkenningu né sérstaka meðferð af hálfu pólitískra leiðtoga jarðarinnar eða trúarleiðtoga síns tíma. Hann fékk heldur ekki hæsta sætið í samkunduhúsunum
Kenning hans var einföld og þjónusta hans snérist ætíð um að blessa fólk eitt í einu þrátt fyrir að fjölmargir hafi fylgt honum. Hann gjörði fjöldamörg kraftaverk meðal þeirra sem meðtóku hann sem sendan frá Guði.
Hann veitti postulum sínum vald og kraft til að gera „meiri [kraftaverk]“ (Jóh 14:12), en þau sem hann gerði en aldrei úthlutaði hann þeim þó valdi til þess að fyrirgefa syndir. Óvinir hans urður hneykslaðir þegar þeir heyrðu hann segja: „Far þú. Syndga ekki framar“ (Jóh 8:11) eða „Syndir þínar eru fyrirgefnar“ (Lúk 7:48). Sá réttur tilheyrði honum eingöngu því hann er sonur Guðs og vegna þess að hann átti eftir að greiða gjaldið fyrir þessar syndir með friðþægingarfórn sinni.
Vald hans yfir dauða
Vald hans yfir dauða var annar himneskur eiginleiki. Jaríus, forstöðumaður samkundunnar, „bað hann að koma heim til sín. Því hann átti einkadóttur, … og hún lá fyrir dauðanum“(Lúk 8:41–42). Meistarinn heyrði bónina og meðan þeir gengu kom þjónn til Jaríusar og sagði honum: „Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur“ (Lúk 8:49). Þegar Jesús kom inn í húsið bað hann alla að fara út, tók strax í hönd hennar og sagði: „Rís upp!“ (Lúk 8:54).
Eitt skipti þegar Jesús ferðaðist til borgarinnar Nain, átti sér stað á sama tíma jarðarför og grét þar ekkja nokkur yfir andláti einkasonar síns. Hann snerti líkbörurnar og sagði miskunnsamur: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp“ (Lúk 7:14). Þegar fólkið sá kraftaverkið hváði það: „Spámaður mikill er risinn upp meðal vor“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns“ (Lúk 7:16). Kraftaverkið hafði jafnvel enn meira vægi þar sem þau höfðu þegar lýst því yfir að ungi maðurinn væri látinn og þau voru á leið sinni til að jarða hann. Nú þegar hann hafði reist tvær manneskjur upp frá dauðum, vöktu sannindamerki um vald hans og kraft yfir dauðanum undrun meðal hinna trúuðu og fyllti efasemdamennina hræðslu.
Tilkomumest var þó þriðja tilefnið. Kristur heimsótti oft systkinin Mörtu, Maríu og Lasarus. Þegar fólkið færði honum þau tíðindi að Lasarus væri sjúkur, staldraði hann við í tvo daga áður en hann lagði af stað til systkinanna. Jesú vitnaði afdráttarlaust fyrir Mörtu er hann huggaði hana eftir dauða bróður hennar: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi“ (Jóh 11:25).
Þegar frelsarinn bað syrgjendurna að færa steininn frá gröfinni, hvíslaði Marta óframfærin að Jesú: „Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag“ (Jóh 11:39).
Jesús minnti hana á: „Sagði ég þér ekki: ‚Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs?‘“ (Jóh 11:40). Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu:
„Lasarus, kom út!“
Og „Hinn dáni kom út“ (Jóh 11:43–44).
Óvinir sonar Guðs stóðu nú frammi fyrir óhrekjanlegum sönnunum, eftir að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni, sem þeir gátu ekki litið framhjá, gert lítið úr eða afskræmt og af glóruleysi og illgirni voru þeir „upp frá þeim degi … ráðnir í að taka hann af lífi“ (Jóh 11:53).
Hið nýja boðorð
Síðar hélt hinn lifandi Kristur, ásamt postulum sínum, upp á síðustu páskahátíðina í Jerúsalem, innleiddi helgiathöfn sakramentisins og gaf þeim boðorð um að elska hver annan með einlægri þjónustu.
Þjáning hans í Getsemane.
Eftir það tókst Kristur af hugrekki og staðfestu á við mest krefjandi reynsluna, í göfugustu tjáningu kærleika hans fyrir mannkynið og af sjálfstæðum vilja. Jesú leið ákafa angist svo blóð draup úr hverri svitaholu í algjörri einsemd í Getsemanegarðinum. Hann friðþægði fyrir syndir okkur í algjörri undirgefni við föður sinn og tók einnig á sig sjúkdóma okkar og sársauka svo hann gæti vitað hvernig liðsinna ætti okkur (sjá Alma 7:11–13).
Við erum skuldbundin honum og föður okkar á himnum, því fórn hans blessar alla, frá Adam, hinum fyrsta, allt til síðustu manneskjunnar.
Sakfelling og krossfesting frelsarans
Sjálfviljugur gaf Jesús sig lösturum sínum á vald eftir að þjáningu hans lauk í Getsemane. Í flýti var hann sakfelldur á bæði óréttlátan og ólöglegan hátt eftir að hafa verið svikin af sínum eigin í hagræddum og ófullkomnum réttarhöldum. Hann var dæmdur fyrir guðlast þetta sama kvöld og hlaut dauðarefsingu fyrir. Vegna haturs og hefndarþorsta fengu óvinir Jesú Pílatus til að sakfella hann vegna þess að hann vitnaði fyrir þeim að hann væri sonur Guðs. Til þess að hann myndi deyja á krossnum breyttu þeir ásökunum frá guðlasti í uppreisnaráróður.
Sakfelling hans hjá Rómverjum var jafnvel enn miskunnarlausari: Flimtingar og háð vegna andlegs ríkis hans, auðmýkjandi krýning með þyrnikórónu, sársaukafull hýðing og löng þjáning hans vegna opinberrar krossfestingar var allt varnaðarmerki til þeirra sem voguðu sér að staðhæfa sig lærisvein hans.
Lausnari heimsins sýndi framúrskarandi sjálfsstjórn á sérhverju augnabliki þjáningu sinnar. Hann hugsaði ætíð um að blessa aðra með góðmennsku og blíðleika: Hann bað Jóhannes að hugsa um Maríu móður sína. Hann bað föður sinn að fyrirgefa þeim sem krossfestu hann. Hann fól Guði anda sinn, við sinn síðasta andardrátt, og verki hans á jörðunni var lokið. Líkami Krists var lagður í gröf og var þar í þrjá daga.
Starf endurlausnarans í andaheiminum
Frelsarinn, í öðrum þætti hinnar dýrlegu áætlunar föður síns, útvíkkaði þjónustu sína á nýjan hátt á meðan lærisveinar hans voru í óvissu ástandi, sorgmæddir og vonlitlir. Jesú starfaði sleitulaust við að skipuleggja hið mikla verk sáluhjálpar meðal hinna látnu á þremur stuttum dögum. Þessir dagar urðu einhverjir þeir vonarríkustu í fjölskyldu Guðs. Á meðan á heimsókn hans stóð skipulagði hann trúfasta fylgjendur sína á þann hátt að þeir gætu borið gleði tíðindi til þeirra sem fengu ekki tækifæri í lifanda lífi að kynnst hinni dýrlegu áætlun eða höfðu hafnað henni. Nú fengju þau tækifæri til að frelsast úr fjötrum sínum og vera endurleyst af Guði hinna lifandi og látnu (sjá K&S 138:19, 30–31).
Hann varð frumgróður upprisunnar.
Þegar verki hans lauk í andaheiminum, þá snéri Jesús til jarðar, til að sameina að eilífu anda sinn og líkama . Þrátt fyrir að Jesús hafði með valdsmannslegum hætti sannað mátt sitt yfir dauðanum þá sýna ritningarnar að þeir sem hann reisti upp frá dauðum fyrir upprisu sína hafi einungis verið lífgaðir við tímabundið vegna kraftaverka, þeir ættu enn eftir að deyja.
Kristur var fyrstur til að rísa upp og deyja aldrei aftur, fyrstur til að eignast fullkominn og eilífan líkama. Hann birtist Maríu í upprisnu ástandi sem tók að tilbiðja hann um leið og hún þekkti hann. Endurlausnari okkar varaði hana á mjög blíðan hátt við sínu nýja og dýrðlega ástandi: „Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns“ (Jóh 20:17) – sem veitti viðbótar vitni um það að þjónusta hans í andaheiminum væri raunveruleg og algjör. Síðar sagði hann með talsmáta sem staðfesti upprisu hans: „Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar“ (Jóh 20:17). Eftir að hann fór til föður síns, kom hann aftur og birtist postulum sínum. „Hann [sýndi] þeim hendur sínar og síðu Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin“ (Jóh 20:20).
Lausnarinn mun koma aftur
Ég vitna að Kristur mun koma aftur á allt annan hátt en fyrsta koma hans var. Hann mun koma í mætti og dýrð með hinum réttlátu og trúföstu heilögu. Hann mun koma sem konungur konunga, sem friðarhöfðingi, hinn lofaði Messías, frelsarinn og lausnarinn, til að dæma hina lifandi og látnu. Ég elska hann og þjóna honum af öllu hjarta og bið þess innilega að við megum þjóna af gleði og staðfestu og að við verðum trúföst honum allt til enda. Í nafni Jesú Krists, amen.