Ef yður brestur visku
Guð mun opinbera sannleikann þeim sem leita, eins og segir í ritningunum.
Um daginn var 10 ára gamall sonur minn á Alnetinu að læra um mannsheilann. Hann langar að verða skurðlæknir síðar meir. Það er auðséð að hann er miklu vitrari en ég.
Okkur líkar vel við Alnetið. Heima fyrir eigum við mikil samskipti við fjölskyldu og vini í gegnum samfélagsmiðla, tölvupóst og á annan hátt. Börnin mín vinna mikið af heimalærdómi sínum á Alnetinu.
Það skiptir ekki máli hver spurningin er, þegar okkur vantar nánari upplýsingar, þá leitum við að þeim á Alnetinu. Á nokkrum sekúndum er hægt að nálgast mikið af efni. Það er dásamlegt.
Alnetið veitir margvísleg tækifæri til lærdóms. Hins vegar vill Satan að við séum vansæl og hann afskræmir því hinn raunverulegan tilgang. Hann notar þetta mikla verkfæri til að vekja upp efasemdir og ótta og eyðileggja trú og von.
Þar sem hægt er að sækja mikið efni á Alnetinu þarf að gæta þess vel í hvað tímanum er varið. Satan getur haldið okkur uppteknum, afvegaleiddum og sýktum við að fara í gegnum upplýsingar, sem að miklu leyti er algjört sorp.
Við ættum ekki að reika um í sorpinu.
Hlustið á þessar leiðbeiningar úr ritningunum: „Andi Krists er gefinn hverjum manni, svo að hann megi þekkja gott frá illu. Þess vegna sýni ég yður leiðina til að dæma. Því að allt, sem hvetur til góðra verka og leiðir til trúar á Krists, er sent fyrir kraft og gjöf Krists. Þannig getið þér vitað … að það er frá Guði.“1
Í raun stöndum við frammi fyrir sama vanda og Joseph Smith gerði á unglingsárum sínum. Okkur skortir oft visku.
Í ríki Guðs er leitin að sannleika mikils metin, hvatt er til hennar og á engan hátt er slíkt bælt niður eða sveipað ótta. Þegnar kirkjunnar eru ríkulega hvattir af Drottni sjálfum til að leita sér þekkingar.2 Hann hefur sagt: „Leitið [af kostgæfni] … leitið að vísdómsorðum í hinum bestu bókum. Sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú.“3 Hvernig getum við, hins vegar, greint sannleikann í heimi sem í vaxandi mæli verður afdráttarlausari í árásum sínum á það sem Guðs er?
Ritningarnar kenna okkur:
Í fyrsta lagi getum við þekkt sannleikann með því að virða fyrir okkur ávexti hans.
Frelsarinn sagði í hinni miklu fjallræðu:
„Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda.
Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.“4
Spámaðurinn Mormón kenndi þessa sömu reglu þegar hann sagði: „Af verkum þeirra skuluð þér þekkja þá – séu verk þeirra góð, eru þeir einnig góðir.“5
Við bjóðum öllum að skoða ávexti og starf þessarar kirkju.
Þeir sem hafa áhuga á sannleikanum munu geta komið auga á það sem kirkjan og þegnar hennar leggja af mörkum þar sem kirkjan er staðsett. Þeir munu einnig sjá framfarirnar í lífi þeirra sem fylgja kenningum kirkjunnar. Þeir sem skoða þessa ávexti munu komast að því að ávextir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru gómsætir og eftirsóknarverðir.
Í öðru lagi þá getum við fundið sannleikann með því að gera sjálf tilraun með orðið.
Spámaðurinn Alma kenndi:
„Nú skulum við líkja orðinu við sáðkorn. … Ef þið gefið rúm í hjarta ykkar, þannig að gróðursetja megi sáðkorn þar, sjá, sé það sáðkorn sannleikans, [og] … þið varpið því eigi burt vegna vantrúar ykkar, … sjá, þá mun það fara að þenjast út í brjóstum ykkar. … munuð þið segja með sjálfum ykkur: Þetta hlýtur að vera gott sáðkorn … því að það er farið að víkka sálarsvið mitt. Já, það er farið að upplýsa skilning minn, já það er farið að verða mér unun. …
… Mun þetta ekki styrkja trú ykkar? Jú, það mun styrkja trú ykkar. …
… Ávöxtur sérhvers sáðkorns fer eftir gæðum þess.“6
Hversu frábært er boð þetta frá spámanni Drottins! Líkja mætti þessu boði við vísindalega tilraun. Okkur er boðið að láta reyna á orðið, við fáum færibreytur og okkur er sagt hver niðurstaða prófunarinnar verður ef við fylgjum leiðbeiningunum.
Þannig kenna ritningarnar okkur hvernig við getum þekkt sannleikann með því að fylgjast með ávöxtum hans eða með því að prófa sjálf, gefa orðinu rúm í hjarta okkar og rækta það, eins og sáðkorn.
Hins vegar er til þriðja leiðin til að þekkja sannleikann - persónuleg opinberun.
Kenning og sáttmálar, kafli 8 kennir að opinberun sé þekking –„[vitneskja] um allt það, sem [við] í trú og af einlægu hjarta [spyrjum] um, og í trú á að [við öðlumst] vitneskju.“7
Drottinn segir okkur ennfremur hvernig við munum meðtaka opinberunina. Hann segir: „Ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda, sem koma mun yfir þig og dvelja í hjarta þínu.“8
Þannig er okkur kennt að opinberun er hægt að hljóta með því að spyrja í trú, af einlægu hjarta og trúandi því að við munum hljóta.
Takið eftir að Drottinn gerði það mjög ljóst þegar hann varaði við: „Haf hugfast að án trúar getur þú ekkert gjört. Bið þess vegna í trú.“9 Trú krefst verka – verka eins og að kanna vel í huga okkar, síðan spyrja Drottinn hvort það sé rétt.
Drottinn sagði:
„Sé það rétt, mun ég láta brjóst þitt brenna hið innra með þér. Þú munt þess vegna finna að það er rétt.
En sé það ekki rétt, munt þú ekkert slíkt finna, heldur aðeins sljóleika, sem veldur því að þú gleymir því sem rangt er.“10
Trú án verka er dauð.11 Því þarf að „biðja í trú, án þess að efast.“12
Vinur minn, sem ekki tilheyrir kirkju okkar, gaf til kynna að hann væri ekki andleg manneskja. Hann hvorki les í ritningunum né biður bæna því hann segist ekki skilja orð Guðs og ekki vera viss um að Guð sé til. Þetta viðhorf útskýrir andleysi hans og mun leiða í gagnstæða átt við opinberun, eins og Alma útskýrði. Hann sagði: „Og þess vegna mun sá, sem herðir hjarta sitt, meðtaka lítinn hluta orðsins.“
En Alma bætti við: „En þeim, sem ekki herðir hjarta sitt, honum mun veitast stærri hluti orðsins, þar til honum er gefið að kynnast leyndardómum Guðs, þar til hann þekkir þá til fulls.“13
Alma og synir Mósía eru gott dæmi um að trúarreglan krefst verka. Í Mormónsbók lesum við:
„[Þeir] höfðu kynnt sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs.
En þetta var ekki allt. Þeir höfðu beðið mikið og fastað, og höfðu þar af leiðandi anda spádóms og anda opinberunar.“14
Jafn mikilvægt í þessu ferli er að biðja af einlægu hjarta. Ef við í einlægni leitum sannleikans, munum við gera allt sem er í okkar valdi stendur til að finna hann, t.d. lesa í ritningunum, sækja kirkjusamkomur og gera okkar besta til að halda boðorð Guðs. Það þýðir einnig að við erum reiðubúin að gera vilja Guðs þegar við finnum hann.
Gjörðir Joseph Smiths þegar hann leitaði visku eru fullkomið dæmi um einlægt hjarta. Hann sagðist vilja vita hvert trúfélaganna væri rétt, svo hann „vissi í hvert [hann] ætti að ganga.“15 Hann var reiðubúinn að bregðast við svarinu áður en hann bað bænarinnar.
Við verðum að spyrja í trú og af einlægu hjarta. Það þarf samt meira til. Við verðum einnig að trúa að við munum hljóta opinberun. Við verðum að treysta Drottni og loforðum hans. Munið að ritað hefur verið: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“16 Þetta er dásamlegt loforð!
Ég býð ykkur að nota einhverja af þessum leiðum til að leita sannleikans og sérstaklega frá Guði með persónlegri opinberun. Guð mun opinbera sannleikann þeim sem leita, eins og segir í ritningunum. Það krefst meira en einungis að leita á Alnetinu en það er þess virði.
Ég gef vitnisburð minn um að þetta er hin sanna kirkja Jesú Krists. Ég hef séð ávexti hennar í samfélögum okkar og í lífi margra þúsunda, þar á meðal fjölskyldu minnar því veit ég að hún er sönn. Í mörg ár hef ég einnig látið reyna á orðið í lífi mínu og fundið fyrir áhrifum þess á sál mína, því veit ég að þetta er sannleikur.. Mikilvægast er, að ég hef lært um sannleiksgildi hennar í gegnum opinberun með krafti heilags anda, því veit ég að hún er sönn. Ég býð ykkur öllum að gera hið sama. Í nafni Jesú Krists, amen.