Eftirfylgni
Við getum öll tekið aukinn þátt í trúboðsstarfi með því að láta sanna trú koma í stað ótta.
Fyrir sextíu og fjórum árum, nú í september, hélt ég heim af trúboði í Englandi. Þremur dögum eftir heimkomu mína fór ég á dansleikinn Hello Day í Utah háskóla með vini mínum. Hann sagði mér frá fallegri stúlku, að nafni Barbara Bowen, sem honum fannst að ég ætti að kynnast. Hann náði í hana, kynnti okkur og við tókum að dansa saman.
Því miður var það svo að maður gat aðeins dansað við einhverja stúlknanna þar til annar herra kom og vildi fá dansréttinn. Barbara var fjörug og vinsæl stúlka og því fékk ég aðeins að dansað við hana í innan við mínútu, áður en annar kom og leysti mig af.
Það var bara hreinlega ekki ásættanlegt fyrir mig. Þar sem ég hafði lært mikilvægi eftirfylgni í trúboði mínu, fékk ég símanúmerið hennar og hringdi í hana strax daginn eftir til að bjóða henni út, en hún var upptekin við skólann og félagslífið. Til allrar lukku, þá hafði mér lærst þrautseigja í trúboðinu, þótt á móti blési, svo mér tókst loks að fá hana á stefnumót. Það stefnumót leiddi svo til fleiri stefnumóta. Á þessum stefnumótum tókst mér einhvern veginn að sannfæra hana um að ég væri hinn eini, sanni og lifandi heimkomni trúboði - hið minnsta hvað hana varðaði. Nú, 64 árum síðar, eru börnin sjö og barnabörnin og barnabarnabörnin fjölmörg, sem staðfestir þann mikilvæga sannleika, að sama hve málflutningur okkar er góður, þá er ekki víst að hann komist til skila ef við sýnum ekki þrautseigju og fylgjum stöðugt eftir.
Þetta kann að vera ástæða þess að ég fékk skýrt hugboð um að fylgja nú eftir boðskapi tveggja fyrrum aðalrástefnuræða minna.
Á aðalráðstefnu í október 2011 hvatti ég til þess að við hefðum í huga þessi mikilvægu orð Drottins: „Því að svo mun kirkja mín nefnd á síðustu dögum, já, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“1
Með þessum orðum gefur Drottinn skýrt til kynna að þetta er ekki aðeins formlegur titill, heldur líka það nafn sem kirkja hans skal nefnd með. Þar sem þessi skýra yfirlýsing liggur fyrir, þá ættum við ekki að vísa til kirkjunnar með einhverju öðru nafni, svo sem „Mormónakirkjan“ eða „Kirkja Síðari daga heilagra.“
Hugtakið mormónar mætti réttilega nota í einhverju tilteknu samhengi þegar vísað er til meðlima kirkjunnar, svo sem brautryðjenda mormóna eða stofnana, líkt og Laufskálakór mormóna. Þegnar kirkjunnar eru almennt auðkenndir sem mormónar, og í samskiptum við þá sem ekki eru af okkar trú, gæti verið viðeigandi að vísa til okkar sem mormóna, að því tilskyldu að við gerum það samhliða því að nota fullt nafn kirkjunnar.
Ef kirkjuþegnum lærist að nota hið rétta nafn kirkjunnar samhliða hugtakinu mormónar, mun það undirstrika að við erum kristin, meðlimir kirkju frelsarans.
Bræður og systur, við skulum fylgja þessu eftir og ætíð gera ljóst að við tilheyrum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Annað atriðið sem mér finnst ég þurfa að fylgja betur eftir er boðskapur sem fluttur var á síðustu aðalráðstefnu, þar sem ég hvatti meðlimi til að biðja fyrir því að verða leiddir til, hið minnsta, einhvers eins fyrir jól sem þeir gætu boðið að læra um hið endurreista fagnaðarerindi. Margir kirkjuþegnar hafa miðlað mér sérstökum upplifunum, sem þeir hafa hlotið eftir að hafa beðið Drottin um tækifæri til trúboðs.
Trúboði nokkur bað til að mynda sérstaklega fyrir því að verða leiddur til „hins eina“ sem hann gæti haft áhrif á. Nafn á fyrrverandi skólafélaga kom upp í huga hans. Hann hafði samband við hana í gegnum Fésbók og komast að því að hún hafði verið að biðja fyrir tilgangi og lífsfyllingu. Hann fylgdi eftir einmitt á þeirri stundu er hún leitaði sannleikans og hún lét skírast í desember.
Mér var sagt frá mörgum álíka boðum, en aðeins fáeinum hefur verið fylgt eftir, líkt og hjá þessum bróður.
Ég hef mikla trú á reglunni um eftirfylgni. Líkt og segir í Boða fagnaðarerindi mitt, leiðarvísi trúboðsstarfs: „Skuldbindingarboð sem sett er fram án þess að því sé fylgt eftir, er líkt og ólokið ferðalag eða líkt og að kaupa aðgöngumiða á tónleika og fara svo ekki á þá. Sé verkið ekki fullunnið, verður skuldbindingin máttvana.“2
Í Boða fagnaðarerindi mitt er ekki aðeins kennt hvernig á að stand að boði, heldur líka hvernig fylgja á því eftir. Tilgangur trúboðsstarfs er sagður vera að „bjóða öðrum að koma til Krists með því að hjálpa þeim að meðtaka hið endurreista fagnaðarerindi fyrir trú á Jesú Krist og friðþægingu hans, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og með því að standast allt til enda.“3
Að bjóða er vissulega hluti að þessu ferli. Veitið þó athygli að mun meira felst í trúboðsstarfi meðlimanna, en að bjóða einungis fólki að hlusta á trúboðana. Það er líka að fylgja eftir með trúboðunum við innrætingu trúar, hvatningu til iðrunar, undirbúning til sáttmálsgjörðar og til að standast allt til enda.
Þessi regla um eftirfylgni er útskýrð í Postulasögunni:
„Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna.
Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn.
Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu.
Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: „Lít þú á okkur.“
Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim.
Pétur sagði: „Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!““
Þetta er áhrifaríkt boð frá þjóni Drottins, ekki satt? Pétur lét sér ekki nægja boðið eitt. Hin ritningarlega frásögn segir okkur: „Hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir,
hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð.“4
Með öðrum orðum, Pétur notaði ekki aðeins prestdæmisvaldið og bauð honum að stand upp og ganga. Hann fylgdi líka boði sínu eftir með því að rétta honum hönd sína, lyfta honum upp og ganga síðan með honum inn í musterið.
Mætti ég leggja til, í anda Péturs, að við öll helguðum okkur reglubundnu trúboðsstarfi með því að láta einlæga trú koma í stað ótta, og bjóða hið minnsta einhverjum einum ársfjórðungslega - sem er fjórum sinnum á ári - að taka á móti kennslu trúboðanna. Þeir eru undir það búnir að kenna með andanum, af sönnum og hjartnæmum innblæstri frá Drottni. Saman getum við fylgt boði okkar eftir, rétt öðrum hönd okkar, lyft þeim upp og gengið með þeim hina andlegu ferð.
Ykkur til gagns í þessu verkefni, þá býð ég öllum meðlimum, hver sem núverandi köllun þeirra er eða hvert sem starfssvið þeirra er í kirkjunni, að verða sér úti um eintak af bókinni Boða fagnaðarerindi mitt. Hún er fáanleg hjá dreifingarstöðvum og líka á netinu. Útgáfuna á netinu er hægt að lesa eða niðurhala án greiðslu. Hún er leiðarvísir að trúboðsstarfi - sem þýðir að hún er leiðarvísir fyrir okkur öll. Lesið hana, lærið hana og hagnýtið ykkur það sem þið lærið, til að þið fáið skilið hvernig færa á sálir til Krists með boði og eftirfylgni. Líkt og Thomas S. Monson forseti hefur sagt: „Nú er tíminn fyrir kirkjuþegna og trúboða að koma saman, að vinna saman, að þjóna í víngarði Drottins við að leiða sálir til hans.“5
Jesús Kristur kenndi lærisveinum sínum:
„Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir.
Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“6
Drottinn hefur orðið við þessari bæn á okkar tímum með mesta fjölda trúboða í sögu heimsins. Í þessari nýju bylgju trúfastra verkamanna, hefur Drottinn veitt okkur annað tækifæri til að aðstoða hann við þessa miklu sálnauppskeru.
Meðlimir geta á raunhæfan hátt aðstoðað og stutt okkar undraverðu trúboða. Þið getið til að mynda sagt trúboðunum að þið séuð að lesa Boða fagnaðarerindi mitt og beðið þá að sýna ykkur hvað þeir séu að læra í námsferli sínu. Þegar þið miðlið hver öðru, mun það stuðla að auknu trausti milli meðlima og trúboða, líkt og Drottinn bauð:
„Heldur megi hver maður mæla í nafni Guðs Drottins, já, frelsara heimsins.“7
„Sjá, ég sendi yður til að bera vitni og aðvara fólkið, og hverjum manni sem fengið hefur viðvörun ber að aðvara náunga sinn.“8
Bræður og systur, getið þið ímyndað ykkur áhrifin, ef fjölskylda og vinir skrifuðu líka um það sem þau læra í námi sínu í Boða fagnaðarerindið mitt og í bréfum sínum og netpósti til trúboðanna? Geti þið ímyndað ykkur blessanirnar sem foreldrar hljóta þegar þau vita og skilja betur það sem synir þeirra og dætur eru að læra í trúboði sínu? Fáið þið skilið til hlítar hina einstöku úthellingu náðar yfir okkur, persónulega og í heild, samkvæmt fyrirheiti frelsarans fyrir alla þá sem gefa vitnisburð sinn og bjóða öðrum að koma til hans - og fylgja síðan því boði eftir?
„Þér [eruð] blessaðir,“ sagði Drottinn með spámanninum Joseph Smith, „því að vitnisburður sá, sem þér hafið gefið, er skráður á himni fyrir englana að líta, og þeir gleðjast yfir yður og syndir yðar eru yður fyrirgefnar.“9
„Því að ég fyrirgef yður syndir yðar með þeim fyrirmælum - að þér með einbeittum huga … berið öllum heiminum vitnisburð um það, sem yður er gefið.“10
Ef við fylgjum eftir, mun Drottinn ekki bregðast okkur. Ég hef séð hina ólýsanlegu gleði meðal kirkjumeðlima um heim allan, sem hlýst af boði sem knúið er af vitnisburði og trúfastri eftirfylgni. Þegar ég var nýlega í Argentínu, hvatti ég kirkjuþegna til að bjóða einhverjum í kirkju áður en þessi aðalráðstefna hæfist. Átta ára gamall drengur, að nafni Joshua, lagði við hlustir og bauð besta vini sínum og fjölskyldu hans að koma í opið hús í deild hans í Buenos Aires. Ég ætla að lesa úr bréfi sem mér barst nýlega er segir frá boði Joshua og trúfastri eftirfylgni hans:
„Á nokkurra mínútna fresti hljóp [Joshua] út að hliðinu til að gá að því hvort þau væru að koma. Hann sagðist vita að þau kæmu.
Líða tók að kvöldi og ekki bar á vini Joshua, en hann gafst ekki upp. Hann fór staðfastlega út að hliði með nokkurra mínútna fresti. Þegar að því kom að gefa þau upp á bátinn, tók Joshua að stökkva upp og niður og segja: „Þau eru komin! Þau eru komin!“ Ég leit upp og sá alla fjölskylduna koma að kirkjunni. Joshua hljóp út til að heilsa þeim og faðma vin sinn. Þau komu öll inn fyrir og virtust njóta opna hússins afar mikið. Þau tóku með sér nokkra bæklinga og vörðu miklum tíma í að kynnast nýjum vinum. Það var dásamlegt að sjá trú þessa litla drengs og að vita að börnin í Barnafélaginu geta líka verið trúboðar.“11
Það er vitnisburður minn, að þegar við störfum saman, leitum hins eina, bjóðum honum og fylgjum eftir af trú og trausti, mun Drottinn hafa velþóknun á okkur og hundruð þúsunda barna Guðs munu finna tilgangi og frið í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég bið þess auðmjúkur að Drottinn megi blessa sérhvert okkar í þeirri viðleitni að hraða sáluhjálparstarfinu, í nafni Jesú Krists, amen.