Kynslóð valkosta
Þið voruð útvaldir til að taka þátt í verki hans á þessum tíma, því hann reiðir sig á að þið takið réttar ákvarðanir.
Ungu menn, þið hafið líklega heyrt að þið séuð „hin útvalda kynslóð,“ í þeirri merkingu að Guð hafi útvalið ykkur og búið ykkur undir jarðarkomu á þessum tíma í sínum undursamlega tilgangi. Þetta veit ég að er satt. Í kvöld ætla ég samt að ávarpa ykkur sem „kynslóð valkosta,“ af þeirri ástæðu að aldrei áður í sögu mannkyns hafa menn verið blessaðir með svo mörgum valkostum. Fleiri valkostir merkja fleiri tækifæri og fleiri tækifæri, meiri möguleika til að gera gott og því miður líka illt. Ég trúi að Guð hafi sent ykkur hingað á þessum tíma, því hann reiðir sig á að þið getið greint á milli allra þeirra undraverðu valkosta sem liggja fyrir.
Árið 1974 sagði Spencer W. Kimball forseti: „Ég trúi að Drottin vilji óþreyjufullur veita okkur uppfinningar er við sem leikmenn fáum vart ímyndað okkur“ („When the World Will Be Converted,“ Ensign, okt. 1974, 10).
Það hefur hann gert! Þið alist upp við eitt undraverðasta tæki til góðs í sögu mannsins: Alnetið. Því fylgja margbrotnir valkostir. Þessir mörgu valkostir fela líka í sér jafn mikla ábyrgð. Þeir veita okkur aðgang að bæði hinu besta og hinu versta sem heimsins er. Með því fáið þið áorkað mörgu stórkostlegu á skömmum tíma eða festst í óendanlegri endurtekningu smámuna sem spillir tíma ykkar og dregur úr möguleikum ykkar. Með einum smelli getið þið haft aðgang að öllu sem hjartað þráir. Það er lykilatriðið - hvað er það sem hjarta ykkar þráir? Hverju laðist þið að? Hvert látið þið leiðast af þrá ykkar?
Minnist þess að Guð „veitir mönnum … í samræmi við þrá þeirra“ (Alma 29:4) og að hann „mun dæma alla menn samkvæmt verkum þeirra, samkæmt því sem hjörtu þeirra þrá“ (K&S 137:9; sjá einnig Alma 41:3).
Öldungur Bruce R. McConkie sagði: „Á raunverulegan en táknrænan hátt, þá er bók lífsins heimild um verk manna og sú heimild er skráð í líkama þeirra. … Sem er, að hver hugsun, hvert orð og hvert verk hefur [áhrif] á mannslíkaman; allt skilur þetta eftir mark sitt, er hann, sem er eilífur, fær lesið jafn auðveldlega og orð í bók“ (Mormon Doctrine, 2. útg. [1966], 97).
Alnetið skráir líka þrár okkar, sem fram kemur í vafri okkar og smellum. Það er aragrúi sem bíður þess að uppfylla slíkar þrár. Þegar þið vafrið um Alnetið, skiljið þið eftir ykkur slóð - sem sýnir samskipti ykkar, hvert þið hafið farið og hve lengi þið hafið staldrað við og hvað vakið hefur athygli ykkar. Þannig býr Alnetið til sniðmát af ykkur - sem hægt væri að kalla „netbók lífsins.“ Líkt og á við um lífið, þá gefur Alnetið ykkur stöðugt meira af því sem þið berið ykkur eftir. Ef þrár ykkar eru hreinar, getur Alnetið magnað þær upp og gert ykkur afar auðvelt með að taka þátt í góðri iðju. Hið andstæða er líka til.
Öldungur Neal A. Maxwell orðaði það svo:
„Það sem við því þráum staðfastlega, er það sem gerir okkur að því sem við að lokum verðum og ákvarðar hvað við hljótum í eilífðinni. …
„… Aðeins með því að næra og efla þrár okkar geta þær orðið okkur bandamaður í stað óvinar!“ („According to the Desire of [Our] Hearts,“ Ensign, nóv. 1996, 21, 22).
Mínir ungu bræður, ef þið sjáið ekki sjálfir um að næra þrár ykkar, mun heimurinn gera það fyrir ykkur. Dag hvern reynir heimurinn að hafa áhrif á þrár ykkar, fá ykkur til að kaupa eitthvað, smella á eitthvað, fara í einhvern leik, lesa eða horfa á eitthvað. Valið er ykkar þegar uppi er staðið. Þið hafið sjálfræðið. Það er ekki aðeins kraftur til þess að breyta að þrám ykkar, heldur líka til að fága, hreinsa og upphefja þrár ykkar. Sjálfræðið er kraftur ykkar til að verða mikilhæfir. Hver valkostur færir ykkur annaðhvort nær eða fjær því sem ykkur er ætlað að verða; hver smellur skiptir máli. Spyrjið ykkur sjálfa ætíð: „Til hvers mun þessi valkostur leiða?“ Þróið með ykkur hæfni til að sjá lengra líðandi stundu.
Satan vill ná stjórn á sjálfræði ykkar, svo hann fái ráðið hvað úr ykkur verður. Hann veit að ein besta leiðin til að gera það er að veiða ykkur í gildru ánetjandi hegðunar. Val ykkar ákveður hvort tæknin muni veita ykkur kraft eða hneppa ykkur í þrældóm.
Leyfið mér að leggja fram fjórar reglur, til að hjálpa ykkur, kynslóð valkosta, að næra þrár ykkar og leiða ykkur í hagnýtingu tækninnar.
Í fyrsta lagi: Ákvarðanir verða auðveldari, ef þið vitið hverjir þið í raun eruð
Ég á vin sem lærði þann sannleika á afar persónulegan hátt. Sonur hans var alinn upp í fagnaðarerindinu, en virtist í andlegu fráhvarfi. Hann hafnaði oft tækifærum til að nota prestdæmið. Foreldrar hans voru vonsviknir þegar hann hafði ákveðið að þjóna ekki í trúboði. Vinur minn bað einlæglega fyrir syni sínum og vonaði að breyting yrði á hjarta hans. Sú von varð fyrir bí þegar sonur hans tilkynnti að hann væri trúlofaður og að fara að gifta sig.. Faðir þessi sárbað son sinn um að fá patríarkablessun sína. Sonur hans samþykkti að endingu, en krafðist þess að fá að heimsækja patríarkann einsamall.
Þegar hann kom til baka eftir blessunina, var hann afar meyr. Hann fór með kærustu sína út fyrir, þar sem hann gat rætt einslega við hana. Faðir hans gægðist út um gluggann og sá unga parið þerra tár hvors annars.
Síðar sagði hann föður sínum frá því sem gerst hafði. Af mikilli hjartnæmi útskýrði hann að meðan á blessuninni stóð hefði hann séð leiftursýn af því hver hann hefði verið í fortilverunni. Hann sá hve hugdjarfur og áhrifamikill hann hefði verið í því að sannfæra aðra um að fylgja Kristi. Hvernig gat hann ekki þjónað í trúboði, eftir að hann vissi hvar hann í raun væri?
Ungu menn, minnist þess hverjir þið í raun eruð? Minnist þess að þið hafið hið heilaga prestdæmi. Það mun innblása ykkur til að taka réttar ákvarðanir, við notkun Alnetsins og í lífinu öllu.
Í öðru lagi: Tengist uppsprettu kraftar
Við höfum visku aldanna rétt innan seilingar - og það sem mikilvægara er, orð spámannanna, frá tíma Gamla testamentisins til Thomas S. Monson forseta. Ef þið hlaðið ekki símana ykkar reglulega, er ekki hægt að nota þá og þið verðið utanveltu og sambandslausir. Þið gætuð ekki hugsað ykkur að hafa símann óhlaðinn einn einasta dag.
Þótt mikilvægt kunni að vera síminn sé fullhlaðinn þegar farið er að heiman, þá er mikilvægara að vera fullhlaðinn andlega. Alltaf þegar þið tengið símann til hleðslu, minnist þess þá og spyrjið ykkur sjálfa að því hvort þið hafið tengst mikilvægustu uppsprettu andlegs kraftar - bæninni og ígrundun ritninganna, sem býr ykkur undir innblástur heilags anda (sjá K&S 11:12–14). Það hjálpar ykkur að þekkja huga og vilja Drottins, er þið takið hinar smáu en mikilvægu ákvarðanir í daglegu lífi, sem setja stefnu ykkar. Margir okkar kasta öllu frá sér til að lesa textaskilaboð - en ættum við ekki að leggja meiri áherslu á skilaboð frá Drottni? Það ætti að vera okkur óhugsandi að vanrækja að tengjast þessum krafti (sjá 2 Ne 32:3).
Í þriðja lagi: Að eiga snjallsíma gerir ykkur ekki snjalla, en skynsamleg notkun getur gert það.
Ungu menn, notið snjallsíma ykkar ekki heimskulega. Þið vitið allir hvað ég á við (sjá Mósía 4:29). Tæknin getur á ótal vegu tekið okkur frá því sem mikilvægast er. Fylgið spakmælinu: „Látið huga fylgja verkum.“ Þegar þið akið, verið þá með hugann við það. Þegar þið eruð í kennslutíma, verið þá með hugann við kennsluna. Þegar þið eruð með vinum, sýnið þeim þá óspillta athygli. Heilinn getur ekki einblínt á tvennt í einu. Sé reynt að einblína á margt í einu, mun hugurinn brátt reika úr einu í annað. Fornt máltæki segir: „Eltir þú tvær kanínur, nærðu hvorugri.“
Í fjórða lagi: Drottinn leggur til tækni til að ná fram tilgangi sínum
Hinn guðlegi tilgangur tækninnar er að hraða verki sáluhjálpar. Þið, sem tilheyrið kynslóð valkosta, skiljið tæknina. Notið hana til að flýta fyrir þróun ykkar til fullkomnunar. Af Drottins náð var gefið mér, þá gef ég þér (sjá „Til endurgjalds,” Sálmar, nr. 219). Drottinn væntir þess að þið notið þessi undraverðu tæki til að færa verk hans á næsta stig, að miðla fagnaðarerindinu á þann hátt sem mín kynslóð fær vart ímyndað sér. Kynslóðir liðins tíma gátu haft áhrif á nágranna sína og bæjarfélög, en með tilkomu Alnetsins og félagsmiðlanna getið þið náð út fyrir öll landamæri og haft áhrif á allan heiminn.
Ég ber vitni um að þetta er kirkja Drottins. Þið voruð útvaldir til að taka þátt í verki hans á þessum tíma, því hann reiðir sig á að þið takið réttar ákvarðanir. Þið eruð kynslóð valkosta. Í nafni Jesú Krists, amen.