2010–2019
Rætur og greinar
Apríl 2014


Rætur og greinar

Hröðun ættfræði- og musterisstarfs á okkar tíma er nauðsynleg til sáluhjálpar og upphafningar fjölskyldna.

Rétt fyrir dauða sinn úr krabbameini árið 1981, sagði hinn umdeildi rithöfundur, William Saroyan, við fjölmiðla: „Allir verða að deyja, en ég trúði alltaf að í mínu tilviki yrði gerð undantekning. Hvað tekur nú við?“1

Að íhuga lífið eftir dauðann og að standa frammi fyrir dauðanum í þessu lífi og spyrja „hvað gerist nú?“ er spurning sálar okkar sem hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists svarar svo dásamlega í sæluáætlun föðurins.

í Þessu lífi hlæjum við, grátum, vinnum, leikum, elskum, lifum og deyjum loks. Job spyr hinnar kjarnyrtu spurningar: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“2 Svarið er afgerandi já, vegna friðþægingar frelsarans. Hluti af margbrotnu svari Jobs við þessari spurningu er áhugaverður. „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund. … Hann rennur upp og fölnar eins og blóm. … Því að tréð hefur von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp … og á það koma greinar eins og unga hríslu.“3

Áætlun föður okkar er um fjölskyldur. Í nokkrum af okkar áhrifaríku ritningargreinum er að finna orðtak um tré með rótum og greinum sem samlíkingu.

Í síðasta kapítula Gamla testamentisins, notar Malakí þessa eftirminnilegu samlíkingu er hann greinir frá síðari komu frelsarans. Hann talar um hina drambsömu og ranglátu og segir að þeir mun brenna sem hálmleggir, „svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur“4 Malakí lýkur þessum kapítula með hinu hughreystandi fyrirheiti Drottins:

„Sjá, ég sendi þér Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.

Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.“5

Í upphafi endurreisnarinnar lagði Moróní enn áherslu á þennan boðskap, í fyrstu fyrirmælum sínum til hins unga Josephs Smith árið 1823.6

Kristnir og Gyðingar um allan heim viðurkenna frásögn Gamla testamentisins um Elía.7 Hann var síðasti spámaðurinn sem hafði innsiglunarvald Melkísedeksprestdæmisins, fyrir tíma Jesú Krists.8

Elía endurreisir lykla

Endurkoma Elía átti sér stað í Kirtland musterinu 3. apríl 1836. Hann lýsti yfir að hann væri að uppfylla fyrirheit Malakís. Hann veitti prestdæmislyklana til innsiglunar fjölskyldna á þessari ráðstöfun.9 Andi Elía fylgdi í kjölfar komu Elía, líkt og það er stundum kallað, sem, eins og öldungur Russell M. Nelson hefur kennt, er „staðfesting á því að heilagur andi beri vitni um guðlegt eðli fjölskyldunnar.“10

Frelsarinn lagði áherslu á nauðsyn skírnar. Hann kenndi: „Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.“11 Frelsarinn var skírður í eigin persónu til að setja fordæmið. Hvað með hina dánu sem ekki hafa verið skírðir?

Kenning um ættfræði- og musterisstarf

Í Nauvoo, 11. október 1840, skrifaði Vilate Kimball bréf til eiginmanns síns, öldungs Heber C. Kimball, sem var í trúboði í Stóra-Bretlandi, ásamt öðrum af hinum Tólf. Októberráðstefnunni hafði lokið nokkrum dögum áður.

Ég vitna í hluta þessa persónulega bréfs Vilate. „Við vorum á fjölmennustu og áhugaverðustu ráðstefnu sem kirkjan hefur haft allt frá stofnun hennar. … [Joseph] Smith forseti hefur komið fram með nýtt og dýrðlegt málefni. … Sem er að láta skírast fyrir hina dánu. Páll ræðir um þetta í Fyrsta Korintubréfinu, 15. kapítula, 29. versi. Joseph hefur hlotið hlotið auknar útskýringar um hana með opinberun. Hann segir það forréttindi [meðlima] þessarar kirkju að láta skírast fyrir öll þau ættmenni sín sem dáið hafa áður en fagnaðarerindið kom fram. … Þegar við gerum það, komum við fram sem fulltrúar þeirra og gerum þeim kleift að njóta þeirra forréttinda að koma í fyrstu upprisunni. Hann segir að fagnaðarerindið verði prédikað fyrir þeim í varðhaldi.“

Vilate bætti svo við: „Ég vil láta skírast fyrir móður mína. … Er þetta ekki dýrðleg kenning?“12

Hin mikilvæga kenning um sameiningu fjölskyldna var sett fram orð á orð ofan og setning á setning ofan. Staðgengilshelgiathafnir eru kjarni þess að binda saman eilífar fjölskyldur, að tengja rætur og greinar.

Kenningin um fjölskylduna í tengslum við ættfræði- og musterisstarf er skýr. Í upphaflegum opinberuðum leiðbeiningum koma fram orðin „skírn fyrir yðar dánu.13 Hin kenningarlega skylda okkar er við okkar eigin áa. Það er vegna þess að himneska ríkið er grundvallað á fjölskyldum.14 Æðsta forsætisráðið hefur hvatt meðlimi, einkum æskufólk og einhleypt ungt fólk, til að beina kröftum sínum að ættfræði og helgiathöfnum fyrir nöfn eigin fjölskyldu eða áa meðlima deildar þeirrar eða stiku.15 Við þurfum að vera tengd bæði rótum og greinum. Hugsunin um að vera tengdur hinu eilífa ríki er vissulega dýrðleg.

Musteri

Wilford Woodruff nefndi að spámaðurinn Joseph Smith hafi lifað nógu lengi til að leggja grunn að musterisstarfinu. „Í síðasta sinn er hann kom saman með Tólfpostulasveitinni, var þegar hann veitti þeim musterisgjöf þeirra.“16

Eftir að spámaðurinn hafði verið myrtur, lögðu hinir heilögu lokahönd á Nauvoo musterið og innsiglunarvaldið var notað til að blessa þúsundir trúfastra meðlimi, áður en þeir héldu til fjallanna í vestri. Þrjátíu árum síðar, við lok St. George musterisins, staðfesti Brigham Young forseti eilíft gildi þess að hinar endurleysandi helgiathafnir væru loks tiltækar fyrir bæði lifandi og látna.17

Það var einfaldlega orðað af Wilford Woodruff forseta: „Það er varla nein regla sem Drottinn hefur opinberað, sem ég hef fagnað meira yfir, en sú sem varðar endurlausn hinna dánu; að við munum hafa feður okkar, mæður, eiginkonur og börn meðal okkar í fjölskyldunni, að morgni fyrstu upprisunnar og í himneska ríkinu. Þetta eru undursamlegir hlutir. Þeir eru allra fórna verðugir.“18

Hve dásamlegur tími að lifa á. Þetta er síðasta ráðstöfunin og við skynjum hinn aukna hraða sáluhjálparstarfsins á öllum svæðum þar sem endurleysandi helgiathafnir eru fyrir hendi.19 Við höfum nú musteri á flestum stöðum heimsins til að veita slíkar endurleysandi helgiathafnir. Það er okkur líka mikil blessun að fara í musterið til andlegrar styrkingar, friðar, verndar og handleiðslu.20

Tæplega ári eftir að Thomas S. Monson forseti var kallaður sem postuli, vígði hann Musterisættfræðisafn Los Angeles. Hann sagði frá látnum áum sem „biðu þess dags að við hæfumst handa við rannsókn okkar, sem nauðsynleg [væri] til að greiða leiðina … [og] líka að fara í hús Guðs til að framkvæma það verk … sem þeir [gætu] … ekki sjálfir framkvæmt.“21

Þegar öldungur Monson, sem hann var þá, flutti þessi vígsluorð, 20. júní 1964, voru starfrækt musteri aðeins tólf að tölu. Á þeim tíma sem Monson forseti hefur þjónað í yfirráði kirkjunnar, hafa 130 af okkar 142 musterum hlotið fyrstu vígslu. Það er ekkert minna en kraftaverk að sjá sáluhjálparstarfinu hraðað á okkar tíma. Tilkynnt hefur verið um byggingu 28 mustera til viðbótar og þau eru nú á hinum ýmsu byggingarstigum. Áttatíu og fimm prósent kirkjumeðlima búa nú í innan við 320 kílómetra fjarlægð frá musteri.

Tækni í ættfræði

Tækni í ættfræði hefur tekið miklum framförum. Howard W. Hunter forseti sagði í mars 1994: „Við höfum byrjað á því að nota upplýsingatækni til að hraða hinu helga verki að sjá hinum dánu fyrir helgiathöfnum. Hlutverki tækninnar … hefur verið flýtt af Drottni sjálfum. … Við höfum þó aðeins séð toppinn á ísjakanum á því sem við getum gert við þessi tæki.“22

Á þeim 19 árum sem liðið hafa frá þessari spámannlegu yfirlýsingu, er næstum ótrúlegt hvað tækninni hefur fleygt fram. Þrjátíu og sex ára gömul móðir ungra barna sagði nýverið við mig: „Hugsaðu þér bara - áður lásum við af örfilmum í sérstökum ættfræðisöfnum, en nú er eldhúsborðið sá staður sem við sitjum við og vinnum ættfræði, eftir að börnin eru loks sofnuð.“ Bræður og systur, ættfræðisöfnin eru nú á heimilum okkar.

Ættfræði- og musterisstarf snýst ekki aðeins um okkur. Hugsið um þá sem eru hinu megin hulunnar, bíðandi eftir endurleysandi helgiathöfnum sem megna að leysa þá úr ánauð andavarðhalds. Varðhald er skilgreint sem „prísund eða ánauð.“23 Þeir sem eru í ánauð gætu spurt eins og William Saroyan: „Hvað tekur nú við?“

Ein trúföst systir sagði frá sérstakri andlegri reynslu í Salt Lake musterinu. Þegar hún var í staðfestingarherberginu, heyrði hún, eftir að staðgengilshelgiathöfn staðfestingar hafði verið framkvæmd: „Og fangarnir skulu frjálsir verða!“ Hún fann til mikillar neyðar í þágu þeirra sem biðu skírnar og staðfestingar sinnar. Þegar hún kom heim, leitaði hún í ritningunum að orðtakinu sem hún hafði heyrt. Hún fann yfirlýsingu Josephs Smith í 128. kafla í Kenningu og sáttmálum: Hjörtu yðar fagni og gleðjist ákaft. Jörðin hefji upp söng. Hinir dánu syngi Immanúel konungi eilíft lof, honum, sem vígt hefur, áður en heimurinn varð til, það sem gjöra mun okkur kleift að leysa þá úr varðhaldi þeirra, því að fangarnir skulu frjálsir verða.“24

Spurningin er: Hvað þurfum við að gera? Spámaðurinn Joseph leiðbeindi að í musterinu yrði færð „skrá yfir okkar dánu, sem verðugir eru fullrar móttöku.“25

Leiðtogar kirkjunnar hafa gefið út ákall til hinnar rísandi kynslóðar um að vera leiðandi í notkun tækni til að upplifa anda Elía, og að leita áa sinna og framkvæma fyrir þá helgiathafnir musterisins.26 Stór hluti hinnar þungu byrði, að hraða verki sáluhjálpar fyrir bæði lifendur og látna, mun hvíla á ykkur, unga fólkinu.27

Ef unga fólkið í öllum deildum fer bæði í musterið til að framkvæma skírnir fyrir dána og vinnur líka með fjölskyldu sinni og öðrum deildarmeðlimum að því að leggja til nöfn ættmenna fyrir helgiathafnir sem það framkvæmir, munu bæði það og kirkjan hljóta ríkulegar blessanir. Vanmetið ekki áhrif hinn dánu til að hjálpa ykkur í viðleitni ykkar og gleðina sem þið munuð að lokum upplifa er þið eigið endurfund með þeim sem þið þjónið. Hin eilífa mikilvæga blessun sem hlýst af því að sameina ættmenni okkar og eigin fjölskyldu er næstum handan okkar skilnings.28

Fimmtíu og eitt prósent af öllum fullorðnum meðlimum kirkjunnar, hafa foreldra sína ekki skráða í hlutanum FamilyTree á vefsíðunni FamilySerch. Sextíu og sex prósent fullorðinna hafa ekki afa og ömmur sínar skráð það.29 Minnist þess að við fáum ekki frelsast án róta okkar og greina. Kirkjumeðlimir þurfa að verða sér úti um þessar mikilvægu heimildir og skrá þær.

Við höfum loks kenninguna, musterin og tæknina til að fjölskyldur geti unnið hið dýrðlega verk sáluhjálpar. Ég legg til eina leið til að gera þetta. Fjölskyldur gætu haft „FamilyTree samkomu.“ Það ætti að vera endurtekið verkefni. Allir kæmu með ættarsögu sína, sögur og myndir, ásamt dýrmætar eigur frá öfum og ömmum og foreldrum. Unga fólkið okkar er áhugasamt um að kynna sér líf ættmenna sinna - uppruna þeirra og búskaparhætti. Margt af því hefur hjarta sem snúið er að áum þess. Þau hafa unun af sögunum og myndunum og búa yfir tækniþekkingu til að skanna og senda slíkar sögur og myndir í FamilyTree og tengja við skjöl með áum, til ævarandi varðveislu. Auðvitað er megin viðfangsefnið að finna út hvaða helgiathafnir á enn eftir að framkvæma og gera ráðstafanir fyrir hið nauðsynlega musterisstarf. Hægt er að kynna sér bæklinginn My Family við skráningu ættarheimilda, frásagna og mynda, sem síðan er hægt að senda í FamilyTree.

Skyldur og væntingar varðandi ættmenni og fjölskyldu ættu að vera efst á lista okkar til að varðveita okkar guðlegu örlög. Þau ykkar sem vilja fá meira út út hvíldardeginum fyrir alla fjölskylduna saman, þá er upplagt að taka hraða þessu verki. Móðir ein segir glöð frá því að 17 ára sonur hennar setjist við tölvuna á sunnudögum til að vinna ættfræði og 10 ára sonur hennar hefur unun af því að hlusta á sögur um ættmenni þeirra og skoða myndir af þeim. Það hefur blessað alla fjölskylduna að upplifa anda Elía. Okkar dýrmætu rætur og greinar verður að næra.

Jesús Kristur gaf líf sitt og var staðgengill okkar í friðþægingu sinni. Hann leiddi til lykta hina mikilvægu spurningu Jobs. Hann sigraði dauðann fyrir allt mannkyn, sem við gátum ekki gert af eigin rammleik. Við getum aftur á móti framkvæmt helgiathafnir sem staðgenglar og sannlega orðið frelsarar á Síonsfjalli,30 fyrir okkar eigin ættmenni, svo við megum hljóta upphafningu með þeim og endurlausn.

Ég ber vitni um friðþægingu frelsarans og hina öruggu áætlun föðurins fyrir okkur og fjölskyldur okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. William Saroyan, in Henry Allen, “Raging against Aging,” Wall Street Journal, 31. des. 2011–1. jan. 2012, C9.

  2. Job 14:14.

  3. Job 14:1, 2, 7, 9.

  4. Mal 4:1. Nýlega hefur komið fram í ýmsum greinum að þeim fjölgi mikið kjósa að eiga ekki börn í þeim tilgangi að auka lífsgæði sín (sjá Abby Ellin, „The Childless Plan for Their Fading Days,“ New York Times, 15. feb. 2014, B4). Íbúum margra þjóða fer fækkandi, sem er afleiðing af þessu einstaklingsbundna vali. Stundum er vísað til þessa sem „demographic winter“ (sjá The New Economic Reality: Demographic Winter [heimildarmynd], byutv.org/shows).

  5. Mal 4:5–6.

  6. Sjá History of the Church, 1:12; Kenning og sáttmálar 2.

  7. Gyðingar hafa vænst endurkomu Elía í 2.400 ár. Fram á okkar tíma hafa þeir ákveðinn stað fyrir hann í kvöldmáltíðum sínum og fara til dyra í þeirri von að hann sé kominn til að boða komu Messíasar.

  8. Sjá Bible Dictionary, „Elijah.“

  9. Sjá Kenning og sáttmálar 110:14–16; sjá einnig Kenning og sáttmálar 2.

  10. Russell M. Nelson, “A New Harvest Time,” Ensign, maí 1998, 34.

  11. Jóh 3:5.

  12. Vilate M. Kimball til Heber C. Kimball, 11. okt. 1840, bréf Vilate M. Kimball, Sögusafn kirkjunnar; stafsetning og ritmál færð í nútímahorf.

  13. Kenning og sáttmálar 127:5; skáletrað hér.

  14. Sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Fielding Smith (2013), 68.

  15. Sjá bréf frá Æðsta forsætisráðinu, dagsett 8. okt. 2012.

  16. Sjá The Discourses of Wilford Woodruff, valið af G. Homer Durham (1946), 147.

  17. Brigham Young sagði: „Ég vil aðeins sjá að þetta fólk helgi eigur sínar og hugðarefni því að byggja upp ríki Guðs, reisa musteri og starfa í þeim í þágu lifenda og látinna … að þeir megi krýndir verða synir og dætur almættisins“ (Deseret News, 6. sept. 1876, 498) Skírnir fyrir hina dánu hófust 9. janúar 1877 og musterisgjafir fyrir hina dánu voru framkvæmdar tveimur dögum síðar. Gleðinni sem af þessu hlýst er lýst af Lucy B. Young, sem sagði: „Hjarta mitt er fullt af gleði við þá tilhugsun að [látin ættmenni mín] taki opnum örmum á móti því sem gert er, líkt og allir myndu gera sem ekki gætu unnið verkið fyrir sig sjálfir“ (í Richard E. Bennett, „Which Is the Wisest Course? The Transformation in Mormon Temple Consciousness, 1870–1898,” BYU Studies Quarterly, bindi 52, nr. 2 [2013], 22).

  18. Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2004), 192–93.

  19. Wilford Woodruff forseti (sem er kunnur sem einn mesti trúboði allra tíma meðal lifenda), sagði um verk í þágu hinna dánu: „Ég lít á þennan hluta trúboðsþjónustu okkar sem jafn mikilvægan og að prédika fyrir hinum lifandi; hinir dánu munu heyra rödd þjóna Guðs í andaheiminum og þeir geta ekki komið fram að morgni [fyrstu] upprisunnar nema ákveðnar helgiathafnir verið framkvæmdar fyrir [þá].“ Hann sagði líka: „Það þarf jafn mikið til að frelsa dauðann mann … og lifandi mann“ (Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff, 188).

  20. Howard W. Hunter forseti bauð kirkjumeðlimum að fara oft í musterið „til að hljóta sjálf blessanir musterisþjónustunnar, vegna helgi og öryggis sem við finnum innan þessara helgu og vígðu veggja. … Það er Drottni heilagt. Það ætti að vera okkur heilagt“ (“The Great Symbol of Our Membership,”Ensign, okt. 1994, 5;Tambuli, nóv. 1994, 6).

  21. “Messages of Inspiration from President Thomas S. Monson,” Church News, 29. des. 2013, 2.

  22. Howard W. Hunter, “We Have a Work to Do,” Ensign, mars 1995, 65.

  23. Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, 11. útg. (2003), “prison.”

  24. Kenning og sáttmálar 128:22, sjá einnig Kenning og sáttmálar 138:42. „Áður en heimurinn var, vígði Drottinn það sem gerir öndum í [varðhaldi] kleift að endurleysast“ (Index to the Triple Combination, „prison“).

  25. Kenning og sáttmálar 128:24.

  26. Sjá bréf frá Æðsta forsætisráðinu, 8. okt. 2012; sjá einnig David A. Bednar, „The Hearts of the Children Shall Turn,“ Ensign eða Líahóna, nóv. 2011, 24–27; R. Scott Lloyd, „Find Our Cousins,: Apostle [Neil L. Andersen] Counsels LDS Youth at RootsTech Conference,“ Church News, 16. feb. 2014, 8–9.

  27. Ein nýleg rannskókn sýnir að megin áhersla þessarar kynslóðar verði að lifa innihaldsríku lífi, þar sem menn „gefa öðrum og helga sig æðri tilgangi“ (Emily Esfahani Smith and Jennifer L. Aaker, „Millennial Searchers,“ New York Times Sunday Review, 1. des. 2013, 6).

  28. Sjá Howard W. Hunter, “A Temple-Motivated People,”Ensign, feb. 1995, 2–5;Liahona, maí 1995, 2–7.

  29. Tölfræðiupplýsingar frá Family History Department.

  30. Sjá Óbadía 1:21.