Aðstoð óskast: Hendur og hjörtu til að hraða verkinu
Systur, við getum boðið fram hönd til að hjálpa og hjarta til að hraða hinu dásamlega verki himnesks föður.
Kæru systur, hve þið eruð okkur kærar! Þegar við horfðum á þetta fallega myndband, gátuð þið þá séð ykkar eigin hönd út rétta til einhvers sem þarfnast hjálpar á ferð sinni á vegi sáttmálans? Ég var að hugsa um unga stúlku í Barnafélaginu að nafni Brynn, sem hefur aðeins eina hönd, sem hún notar til að blessa fjölskyldu sína og vini, bæði Síðari daga heilaga og fólk annarar trúar. Er hún ekki falleg? Þið eruð það líka! Systur, við getum boðið fram hönd til að hjálpa og hjarta til að hraða hinu dásamlega verki himnesks föður.
Á sama hátt og hinar trúföstu systur í ritningunum, Eva, Sara, María og margar aðrar, þekktu uppruna sinn og tilgang, þá veit Brynn að hún er dóttir Guðs.1 Við getum einnig þekkt guðdómlega arfleifð okkar sem ástkærar dætur Guðs og það mikilvæga starf sem hann ætlar okkur.
Frelsarinn kenndi: „Ef sá er nokkur er vill gjöra vilja hans, hann mun komast að raun um … [kenninguna]“2 Hvað þurfum við vita og gera „svo Guði [verðum] hjá“3 Við getum lært af sögunni um ríka unga manninum sem spurði Jesú hvað hann þyrfti að gera til þess að öðlast eilíft líf.
Jesús svaraði honum og sagði:„Ef þú vilt inn ganga til lífsins þá haltu boðorðin.“
Ungi maðurinn spurði hann hver þeirra hann ætti að halda. Þá minnti Jesús hann á nokkur af boðorðunum tíu sem við þekkjum öll.
Ungi maðurinn svaraði: „Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?“
Jesús sagði þá: „Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.“4
Jesús bauð honum að taka þátt í verki sínu - starfi lærisveinsins. Það er sama starfið og við höfum. Við eigum að:„Leggja til hliðar það sem þessa heims er,…halda fast við…sáttmála [okkar].“5 og koma til Krists og fylgja honum. Það gera lærisveinar!
Systur, nú skulum við ekki fara að vera erfiðar við okkur sjálfar, þótt frelsarinn hafi boðið ríka unga manninum að verða fullkominn. Hugtakið fullkomnun í þessari frásögn er þýðing grísks hugtaks sem merkir „fullgerður.“ Þegar við höldum áfram á vegi sáttmálans, verðum við fullgerðari og fullkomnari í þessu lífi.
Á sama hátt og ríki ungi maðurinn á tíma Jesú, þá eigum við það til að freistast til að gefast upp eða fara tilbaka, því að kannski finnst okkur að við getum þetta ekki einar. Þar höfum við rétt fyrir okkur! Við getum ekki gert þá erfiðu hluti sem ætlast er til af okkur án hjálpar. Hjálpin kemur með friðþægingu Jesú Krists, leiðsögn heilags anda og með hjálpandi höndum annarra.
Nýlega bar trúföst einhleyp systir vitnisburð um þann styrk sem hún hafði hlotið með friðþægingunni, við að nota sínar hjálpandi hendur við uppeldi fjögurra barna systur sinnar sem dáið hafði úr krabbameini. Það minnti mig á nokkuð sem öldungur Neal A. Maxwell sagði; „Allt það auðvelda sem kirkjan hefur þurft að gera, hefur þegar verið framkvæmt. Upp frá þessu verður þetta mikið ævintýri og reynt verður á staðfestu ykkar á athyglisverðan hátt.“6 Þið hafið verið sendar til jarðar á þessum ráðstöfunartíma, vegna þess hverjar þið eruð og hvers konar undirbúning þið hafið hlotið! Hvað svo sem Satan reynir að sannfæra okkur um að við séum, þá vitum við að við erum lærisveinar Jesú Krists.
Mormón var sannur lærisveinn sem lifði á tímum þar sem „hvert hjarta forhertist, …og aldrei fyrr hafði ríkt jafnt mikið ranglæti meðal barna Lehís.“7 Hvernig hefði ykkur þótt að vera uppi á þessum tíma? Samt lýsti Mormón djarflega yfir: „Sjá, ég er lærisveinn Jesú Krists, sonar Guðs.“8
Eruð þið ekki hrifnar af Mormón? Hann vissi hver hann var og hvert hlutverk hans var og lét ekki það illa umhverfis trufla einbeitinguna. Með sanni má segja að hann hafi álitið köllun sína gjöf.9
Hugsið ykkur hve mikil blessun það er að vera kallaður til þess að gefa Drottni gjöf lærisveinsins daglega, að lýsa yfir í orði og verki: „Sjá, ég er lærisveinn Jesú Krists, sonar Guðs!“
Mér þykir mjög vænt um söguna sem Packer forseti sagði af kærri systur sem varð fyrir háði fyrir það að fylgja ráði spámannsins um matarforða. Sú sem gagnrýndi sagði að ef upp kæmu neyðartímar, myndu leiðtogar hennar fara fram á að hún gæfi öðrum af matarforða sínum. Einfalt og einbeitt svar hennar var, eins og sönnum lærisvein sæmir: „Ég hef þá alla vega eitthvað fram að færa.“10
Ég elska konurnar í kirkjunni, ungar sem aldnar. Ég hef séð styrk ykkar. Ég hef séð trú ykkar. Þið hafa eitthvað til að gefa og eruð fúsar til þess. Það gerið þið án lúðraþyts eða tilkynninga og dragið athyglina að þeim Guði sem þið tilbiðjið en ekki að ykkur sjálfum og hugsið ekki um það hvað þið fáið tilbaka.11 Þannig starfa lærisveinar.
Nýlega hitti ég unga stúlku á Filippseyjum. Fjölskylda hennar dró úr virkni í kirkjunni þegar hún var 7 ára gömul. Það gerði það að verkum að hún gekk vikulega ein til kirkju eftir háskalegum vegi. Hún sagði frá því að 14 ára gömul hefðu hún ákveðið að halda sáttmála sína, svo að hún gæti alið börn sín í framtíðinni upp á heimili sem væri „blessað af prestdæmiskrafti.“12 Besta leiðin til að styrkja heimilið, nú eða síðar, er að halda sáttmálana, loforðin sem við höfum gefið hver annarri og Guði.
Það gera lærisveinar!
Trúföst systir frá Japan heimsótti trúboð okkar í Kóreu, ásamt eiginmanni sínum. Hún talaði ekki kóresku og afar takmarkaða ensku, en var mjög fús til að nota sínar einstöku gjafir og hjálpandi hendur til að vinna verk Drottins. Það gera lærisveinar! Hún kenndi trúboðunum okkar að gera einfalt pappírsbrot - munn sem gat opnast og lokast. Því næst notaði hún þau fáu orð sem hún kunni á ensku til að kenna trúboðunum að „opna munna sína“ til að deila fagnaðarerindinu. Þetta var lexía sem þeir gleyma aldrei.
Ímyndið ykkur eitt augnablik að við stæðum saman í kirkju hans, ásamt milljónum bræðra og systra, á mismunandi aldri, ákveðin í þjónustu og kærleika á sama hátt og frelsarinn. Hvað felst í því að vera lærisveinn Jesú Krists?
Vesti og bolir Hjálparhanda mormóna hefur verið fatnaður hundruð þúsunda óeigingjarnra lærisveina Jesú Krists, sem hafa tekið fagnandi því tækifæri að veita stundlega þjónustu. Það eru hins vegar aðrar leiðir til að þjóna sem sannur lærisveinn. Við skulum sjá fyrir okkur nokkrar mögulegar auglýsingar um „aðstoð óskast, “ sem tengjast starfi sáluhjálpar.
-
Aðstoð óskast: Foreldrar óskast til að sjá um uppeldi barna sinna í ljósi og sannleika.
-
Aðstoð óskast: Dætur, synir, systur, bræður, frænkur, frændur, ömmur og afar og sannir vinir óskast til að þjóna sem ráðgjafar og til að rétta hjálparhönd á vegi sáttmálans.
-
Aðstoð óskast: Þeir sem geta hlustað á hvatningu heilags anda og framkvæmt samkvæmt því.
-
Aðstoð óskast: Þeir sem geta lifað eftir fagnaðarerindinu daglega í hinu einfalda og smávægilega.
-
Aðstoð óskast: Ættfræði- og musterisþjónar til að tengja fjölskyldur saman að eilífu.
-
Aðstoð óskast: Trúboðar til að breiða út „fagnaðarboðskapinn“ - fagnaðarerindi Jesú Krists
-
Aðstoð óskast: Björgunarmenn óskast til að finna þá sem hafa villst af leið.
-
Aðstoð óskast: Þeir sem geta haldið sáttmála sína til að vera staðfastir í sannleika og réttlæti.
-
Aðstoð óskast: Sannir lærisveinar Drottins Jesú Krists
Fyrir mörgum árum lagði öldungur M. Russel Ballard fram ákall til systranna í kirkjunni, er hann sagði:
„Drottinn þarf á konum að halda í öllum fjölskyldum, öllum deildum, öllum samfélögum, öllum löndum, frá þessum tíma og fram að komu hans, að þær stígi fram í réttlæti og segi með orðum og gjörðum: ‚Hér er ég, send mig‘
Ég spyr: ‚Munuð þið vera ein þessara kvenna?‘“13
Ég vona að hver og ein okkar geti svarað þessu hátt og snjallt „Já!“ Ég lýk með orðum úr Barnafélagssálmi:
Við erum sáttmálsdætur og gefum gjöf.
Við sýnum orð hans með lífi okkar.
Með orðum og gjörðum vitnum við:
Við trúum og þjónum Jesú Kristi.14
Við getum boðið fram fúst hjarta og hjálpandi hönd sem sannir lærisveinar, til þess að hraða verki hans. Engu skiptir þótt við höfum aðeins eina hönd, líkt og Brynn. Það skiptir ekki máli þó við séum ekki enn fullkomnar né heilar. Við erum sannir lærisveinar sem réttum fram hönd og hjálpum hver annarri á leið okkar. Systrabönd okkar ná yfir kynslóðir trúfastra systra sem hafa gengið á undan. Við getum gengið saman í einingu með lifandi spámönnum, sjáendum og opinberurum, með endurreista prestdæmislykla, sem þjónar með fúst hjarta og fúsar hendur til að hraða verki sáluhjálpar. Ef við gerum svo, verðum við líkari frelsaranum. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.