Leyfið trú ykkar að sjást
Aukið trú ykkar daglega á leið að eilífum örlögum ykkar Lýsið yfir trú ykkar! Leyfið trú ykkar að sjást!
Kæru systkin, við sendum ykkur kærleiksríkar þakklætiskveðjur. Við erum þakklátir fyrir að fá að þjóna meðal ykkar.
Þegar ég var á flugi fyrir stuttu, þá tilkynnti flugstjórinn að við myndum finna fyrir ókyrrð er við lækkuðum flugið og að allir farþegar yrðu að spenna beltin. Svo sannarlega fengum við að finna fyrir ókyrrð. Það var mjög mikill hristingur. Kona sem sat hinum megin við ganginn og tveimur röðum aftar var gripin skelfingu. Í hvert skipti sem vélin féll eða kipptist til þá hrópaði hún hátt. Eiginmaður hennar reyndi að hugga hana en ekkert gekk. Móðursjúk hróp hennar héldu áfram þangað til að við komumst í gegnum ókyrrðina og lentum örugglega. Á meðan að hræðslan hélt henni fanginni, fann ég til með henni. Þar sem trúin er mótefni við ótta þá óskaði ég þess hljóðlega að ég gæti styrkt trú hennar.
Seinna, er farþegarnir yfirgáfu vélina, þá kom eiginmaður hennar að tali við mig. Hann sagði: „Mér þykir leitt að eiginkona mín var svona hrædd. Það eina sem huggaði hana var þegar ég sagði henni að öldungur Nelson væri í vélinni, svo að hún þyrfti ekkert að óttast.“
Ég er ekki viss um að nærvera mín í vélinni hefði átt að veita henni einhverja huggun en staðreynd lífsins er sú að trú okkar verður reynd og henni ögrað. Stundum koma þessar áskoranir þegar við stöndum frammi fyrir lífshættulegum reynslum. Hvað þessa óttaslegnu konu varðaði þá var þessi reynsla að vera í flugvél sem hristist og skókst ein af þeim stundum þar sem við stöndum frammi fyrir trúarstyrk okkar.
Þegar við tölum um trú - trú sem flytur fjöll - þá erum við ekki að tala um almenna trú heldur trú á Drottin Jesú Krist. Trú á Drottinn Jesú Krist getur styrkst þegar við lærum um hann og lifum samkvæmt trú okkar. Kenningar Jesú Krists voru hannaðar af Drottni til að hjálpa okkur að auka trú okkar. Á nútímamáli þá þýðir orðið trú ýmislegt fyrir ólíka einstaklinga.
Enska orðið trú þýðir bókstaflega „að binda aftur“ við Guð.1 Spurningin sem við gætum spurt okkur sjálf er, erum við bundin Guði á öruggan máta þannig að trú okkar sé sýnileg eða erum við í raun bundin einhverju öðru? Ég hef til dæmis heyrt umræður á mánudagsmorgni um íþróttakappleiki sem fóru fram á sunnudeginum áður. Hvað suma af þessum áköfu unnendum varðar þá hef ég velt því fyrir mér hvort „trú“ þeirra „bindi þá“ einungis við einhverskonar skoppandi bolta.
Við gætum spurt okkur sjálf, hvar er trú okkar? Er hún við ákveðið lið? Er hún við ákveðið vörumerki? Er hún við ákveðna kvikmyndastjörnu? Jafnvel hin bestu lið geta tapað. Stjörnur geta dofnað. Það er einungis einn, á hvern trú ykkar er ávallt örugg og það er trúin á Drottin Jesú Krist. Þið verðið að láta trú ykkar sjást!
Í fyrsta boðorði hinna tíu boðorða lýsti Guð yfir: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“2 Hann sagði einnig „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“3 Samt einblína svo margir aðeins á bankainnistæðu sína til að finna frið eða á aðra manneskju til að líkja eftir.
Læknar, fræðimenn og stjórnmálamenn standa oft frammi fyrir trúarlegum áskorunum. Mun trú þeirra skína í gegn eða mun hún vera falin er þeir vinna að markmiðum sínum? Eru þeir bundnir Guði eða mönnum?
Ég stóð frammi fyrir slíkri áskorun fyrir áratugum síðan þegar einn af samstarfsmönnum mínum ávítti mig fyrir að aðskilja fagþekkingu mína ekki frá trúarsannfæringu minni. Hann krafðist þess að ég blandaði þessu ekki saman. Hvernig gat ég gert það? Sannleikur er sannleikur! Það er ekki hægt að aðskilja þetta og það er ekki hægt að leggja neinn hluta þess til hliðar.
Hvort sem að sannleikurinn komi frá vísindalegri rannsóknarstofu eða frá opinberun þá streymir allur sannleikur frá Guði. Allur sannleikur er hluti af fagnaðarerindi Jesú Krists.4 Þrátt fyrir það var ég beðinn um að fela trú mína. Ég fór ekki að tilmælum vinnufélaga míns. Ég leyfði trú minni að sjást.
Í öllu faglegu starfi þá er krafist mjög strangra nákvæmnisstaðla. Fræðimennn meta tjáningarfrelsi sitt mikils. Ekki er hægt að upplifa algert frelsi ef skipun manna dæmir hluta þekkingar viðkomandi „utan marka.“
Ekki er hægt að hunsa andlegan sannleika - sérstaklega guðdómleg boðorð. Það færir alltaf blessanir að halda guðdómleg boðorð! Það er alltaf missir blessana að brjóta þessi sömu boðorð!5
Þar sem heimurinn er byggður ófullkomnu fólki þá eru vandamál allstaðar. Markmið þeirra og þrár verða fyrir áhrifum af trú þeirra eða trúleysi. Margir setja önnur forgangsatriði á undan Guði. Aðrir efast um mikilvægi trúar í nútíma heimi. Nú, eins og á öllum tímum, þá eru þeir sem hæða eða gera lítið úr trú. Sumir kenna jafnvel trú um ýmsa vonsku heimsins. Að vísu hafa verið þeir tímar þegar grimmdarverk hafa verið framin í nafni trúar. Að lifa eftir sannri kenningu Drottins, eða að leggja sig fram við að vera sannur lærisveinn Krists, er lífsstíll og dagleg skuldbinding sem mun veita guðdómlega leiðsögn. Þegar þið lifið eftir trú ykkar þá eruð þið að iðka hana. . Þá eruð þið að leyfa trú ykkar að sjást.
Drottinn vissi að börn hans yrðu að læra að leita hans. Hann sagði: „En þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og þeir fáir, sem finna hann.“6
Ritningarnar veita eina bestu leiðina til þess að finna veginn og að halda sig á honum. Þekking á ritningunum veitir líka dýrmæta vernd. Sýkingar eins og „barnsburðarveiki“ tók til dæmis líf margra saklausra mæðra og barna í gegnum söguna. Samt var rétt lögmál kennt í Gamla testamentinu um það hvernig hugsa ætti um sýkta einstaklinga, og var það skrifað fyrir meira en 3000 árum síðan!7 Margir dóu vegna þess að leit mannsins að þekkingu varð til þess að þeir hættu að hlusta á orð Drottins!
Kæru bræður og systur, hvers förum við á mis við í lífi okkar ef við erum „alltaf að reyna að læra, en getum aldrei komist til þekkingar á sannleikanum?“8 Við getum öðlast mikla þekkingu úr ritningunum og fengið innblástur í gegnum trúarbænir.
Ef við gerum svo þá mun það hjálpa okkur við daglegar ákvarðanatökur. Lögmál Guðs verða alltaf að vera mælikvarði okkar, sérstaklega þar sem lög manna eru sett og þeim framfylgt. Við ættum að leita fyrst leiðsagnar Guðs þegar við tökumst á við umdeild málefni.
„Við ættum að tileinka okkur allar ritningarnar, …okkur til gagns og fróðleiks.“9 Hættan liggur í leyni, ef við erum tvískipt og tjáning okkar verður: Þetta er „mitt einkalíf“ eða „mín besta hegðun.“ Þegar menn reyna að hólfa líf sitt niður á þennan hátt, munu þeir aldrei ná hæstu hæðum ráðvendni sinnar - aldrei ná að verða allt sem hið sanna sjálf gæti orðið.
Freisting vinsældar setur almenningsálitið í fremri forgang en orð Guðs. Stjórnmálaframboð og markaðsátök nota skoðanakannanir til að móta áætlanir sínar. Niðurstöður slíkra kannana veita upplýsingar. Þær geta hins vegar varla verið notaðar sem afsökun fyrir óhlýðni við boðorð Guðs. Jafnvel þó að „allir séu að gera það“ þá er rangt aldrei rétt. Vonska, mistök og myrkur verður aldrei sannleikur, jafnvel þó að það sé vinsælt. Viðvörun í ritningunum hljómar á þessa leið: „Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri.“10
Frekar dónalegt lag varð vinsælt eftir Fyrri heimstyrjöldina. Í laginu er því haldið fram að 50 milljón manns geti ekki haft rangt fyrir sér varðandi siðleysi. Í raun þá geta 50 milljón manns haft rangt fyrir sér - algerlega. Ósiðsemi er enn ósiðsemi í augum Guðs og sá dagur kemur að hann mun dæma allar gjörðir okkar og þrár.11
Berið saman óttann og trúleysið sem er útbreytt í heiminum í dag, við trú og hugrekki elskulegrar dóttur minnar Emily, sem lifir nú handan hulunnar. Er lífið var að fjara út í líkama hennar, sem var undirlagður af krabbameini, þá gat hún varla talað. Með brosi á andliti sínu sagð hún hins vegar: „Pabbi, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég veit að það verður allt í lagi með mig!“ Trú Emily var sjáanleg á þessari ljúfu stundu - skínandi björt -, nákvæmlega þegar við þurftum mest á henni að halda.
Þessi fallega unga fimm barna móðir hafði fulla trú á himneskum föður sínum og á eilífri velferð fjölskyldu sinnar. Hún var örugglega bundin Guði. Hún var algerlega trú sáttmálum þeim sem hún hafði gert við Drottinn og mann sinn. Hún elskaði börn sín en var friðsæl þrátt fyrir að skilnaður við þau vofði yfir. Hún hafði trú á framtíð sinni og þeirra einnig, vegna þess að hún hafði trú á himneskum föður og syni hans.
Thomas S. Monson forseti sagði árið 1986: „Að sjálfsögðu munum við finna ótta, mæta háði og mótlæti. Höfum hugrekki til þess að bjóða tíðarandanum byrginn, hugrekki til að standa fast á því sem rétt er. Guð hefur velþóknun á hugrekki, en ekki tilslökunum. … Minnist þess að allir menn óttast eitthvað, en þeir sem takast á við óttann með trú, eru líka hugrakkir.“12
Ráð Monson forseta eru óháð tíma! Því sárbæni ég ykkur kæru bræður og systur: Aukið trú ykkar daglega á leið að eilífum örlögum ykkar Lýsið yfir trú ykkar! Látið trú ykkar sjást!13
Ég bið þess að þið verðið bundin Guði í öryggi, að eilífur sannleikur hans verði ristur í hjörtu ykkar að eilífu. Ég bið þess líka að þið munið gera trú ykkar sýnilega allt ykkar líf. Í nafni Jesú Krists, amen.