2010–2019
Lyklar og vald prestdæmisins
Apríl 2014


Lyklar og vald prestdæmisins

Lyklar prestdæmisins stýra jafnt konum sem körlum og helgiathafnir prestdæmisins og vald prestdæmisins eiga jafnt við um konur og karla.

I.

Á þessari ráðstefnu höfum við séð embættisaflausn sumra trúfastra bræðra og við höfum stutt embættiskallanir annarra. Í þessum umskiptum - sem svo almenn eru í kirkjunni - þá „stígum við ekki niður“ við aflausn og við „stígum ekki upp“ við köllun. Það er ekkert „upp eða niður“ í þjónustu Drottins. Það er aðeins „áfram eða til baka“ og hvert við stefnum fer eftir viðbrögðum okkar við aflausnum okkar og köllunum. Ég var eitt sinn í forsæti við aflausn ungs stikuforseta sem veitt hafði fyrirtaks þjónustu í níu ár og fagnaði yfir aflausn sinni og nýju kölluninni sem hann og eiginkona hans voru nýbúin að meðtaka. Þau voru kölluð til að sjá um Barnastofuna í deild sinni. Aðeins í þessari kirkju er litið á slíkt sem samsvarandi heiður!

II.

Á kvennaráðstefnu nokkurri sagði Líknarfélagsforsetinn, Linda K. Burton: „Von okkar er sú að geta vakið innra með okkur öllum sterkari þrá eftir að skilja betur prestdæmið.“1 Sú þörf á við um okkur öll og ég ætla að leitast við að gera það með því að ræða um lykla og vald prestdæmisins. Þar sem efnið er jafn mikilvægt körlum og konum, gleðst ég yfir að fundur þessi sé sendur út og er aðgengilegur öllum meðlimum kirkjunnar. Kraftur prestdæmisins er okkur öllum til blessunar. Lyklar prestdæmisins stýra jafnt konum sem körlum og helgiathafnir prestdæmisins og vald prestdæmisins eiga jafnt við um konur og karla.

III.

Joseph F. Smith forseti sagði prestdæmið vera „kraft Guðs, falinn manninum til að starfa með á jörðunni til sáluhjálpar mannkyni.“2 Aðrir leiðtogar hafa kennt okkur að prestdæmið „sé fullkomnunarkrafturinn á þessari jörðu. Hann er sá kraftur sem jörðin var sköpuð með.“3 Ritningarnar kenna: „Þetta sama prestdæmi og var í upphafi skal einnig verða við endi veraldar“ (HDP Móse 6:7). Prestdæmið er því sá kraftur sem menn verða reistir upp með og stefna að eilífu lífi með.

Sú vitneskja sem við sækjumst eftir, hefst á því að skilja lykla prestdæmisins. „Lyklar prestdæmisins eru valdið sem Guð hefur veitt prestdæmishöfum, til stjórnunar og stýringar á notkun prestdæmis sína á jörðunni.“4 Allar athafnir eða helgiathafnir í kirkjunni eru framkvæmdar beint eða óbeint með valdsumboði einhvers sem hefur lykla að því verki. Líkt og öldungur M. Russell Ballard hefur útskýrt, þá „gera þeir sem hafa lykla prestdæmisins … öllum þeim kleift sem þjóna trúfastlega undir þeirra leiðsögn að iðka vald prestdæmisins og hafa aðgang að krafti prestdæmisins.“5

Hvað varðar stjórnun og notkun valds prestdæmisins, þá er virkni lykla prestdæmisins bæði útvíkkandi og takmarkandi. Hún er útvíkkandi í þeim skilningi að vald og blessanir prestdæmisins standa öllum börnum Guðs til boða. Hún er takmarkandi í þeim skilningi að því er stjórnað hverjum er veitt vald prestdæmisins, hverjir hafa embætti þess og hverjum er veittur réttur og kraftur þess. Einstaklingur sem til að mynda hefur prestdæmið getur ekki veitt öðrum embætti sitt eða valdsumboð, nema sá sem hefur lykla til þess heimili það. Án slíkrar heimildar væri embættisvígsla ógild. Þetta útskýrir ástæðu þess að prestdæmishafi - hvert sem embætti hans er - getur ekki vígt einhvern í fjölskyldu sinni eða þjónustað sakramentið á heimili sínu án heimildar frá þeim sem hefur viðeigandi lykla.

Að undanteknu þess helga verks sem systurnar framkvæma í musterinu með lyklunum sem musterisforseti hefur, sem ég mun útskýra hér á eftir, þá getur aðeins sá sem hefur embætti prestdæmisins framkvæmt prestdæmisvígslu. Allar heimilaðar prestdæmisvígslur eru skráðar í skýrslur kirkjunnar.

Allir lyklar prestdæmisins eru í höndum Jesú Krists, því prestdæmið tilheyrir honum. Hann er sá sem ákveður hvaða lyklum skal úthluta til manna og hvernig nota á þá lykla. Við erum vön þeirri hugsun að allir lyklar prestdæmisins hafi verið veittir Joseph Smith í Kirtland musterinu, en ritningarnar segja að allt sem þar var veitt voru „lyklar þessara ráðstafana“ (K&S 110:16). Á aðalráðstefnu fyrir mörgum árum minnti Spencer W. Kimball forseti okkur á að aðrir lyklar prestdæmisins væru til sem mönnum á jörðu hefðu ekki verið veittir, meðal þeirra væru lyklar sköpunar og upprisu.6

Guðlegt eðli þeirra takmarkana sem settar eru á notkun lykla prestdæmisins, útskýrir mikilvægan mun ákvarðana varðandi stjórnsýslu kirkjunnar og ákvarðana varðandi prestdæmið. Æðsta forsætisráðið og Ráð Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitin, sem eru í forsæti kirkjunnar, eru gæddir krafti til að taka ýmsar ákvarðanir varðandi stefnu og verklag kirkjunnar - svo sem varðandi staðsetningu kirkjubygginga og aldursmörk trúboðsþjónustu. Jafnvel þótt þessir ríkjandi valdhafar hafi og noti alla þá lykla sem hafa verið veittir mönnum á þessari ráðstöfun, er þeim ekki frjálst að breyta hinni guðlegu fyrirmynd að aðeins karlar hafi embætti í prestdæminu.

IV.

Ég ætla nú að ræða um vald prestdæmisins. Ég byrja á reglunum þremur sem þegar hafa verið nefndar: (1) Prestdæmið er kraftur Guðs veittur manninum til að starfa að sáluhjálp mannkyns, (2) valdi prestdæmisins er stjórnað af prestdæmishöfum sem hafa lykla prestdæmisins og (3) þar sem ritningarnar segja að „allt annað vald [og] önnur embætti kirkjunnar eru viðaukar við þetta [Melkísedeksprestdæmi]“ (K&S 107:5), er allt það sem gert er undir leiðsögn þessara lykla prestdæmisins, gert með valdi prestdæmisins.

Hvernig á þetta við um konur? Joseph Fielding Smith forseti, þá forseti Tólfpostulasveitarinnar, sagði þetta í ræðu til Líknarfélagsins: „Þótt systrunum hafi ekki verið veitt prestdæmið, merkir það ekki að Drottinn hafi ekki veitt þeim valdsumboð. … Einstaklingi kann að hafa verið veitt valdsumboð, til að framkvæma ákveðið verk í kirkjunni, sem er bindandi og algjörlega nauðsynlegt til sáluhjálpar, til að mynda verkið sem systurnar framkvæma í húsi Drottins. Þær hafa valdsumboð sem þeim hefur verið veitt til að framkvæma margt mikilvægt og dásamlegt, heilagt Drottni, og ekki síður bindandi og þær blessanir sem veittar eru af þeim körlum sem hafa prestdæmið.“7

Í þessari athyglisverðu ræðu nefndi Smith forseti endurtekið að konum hefði verið veitt valdsumboð. Við konurnar sagði hann: „Þið mælið með valdsumboði, því Drottinn hefur gætt ykkur valdsumboði.“ Hann sagði líka að Líknarfélaginu „[hafi] verið veittur kraftur og vald til að framkvæma margt og mikilvægt. Verk þeirra er framkvæmt með guðlegu valdsumboði.“ Verk kirkjunnar sem unnið er af konum eða körlum, hvort heldur í musterinu eða í deildum eða greinum, er auðvitað framkvæmt undir leiðsögn þeirra sem hafa lykla prestdæmisins. Smith forseti vísaði til Líknarfélagsins og útskýrði: „[Drottinn] hefur þannig falið þeim þetta mikilvæga félag, þar sem þær geta haft valdsumboð til að þjóna undir leiðsögn biskups deildar … , huga að hagsmunum fólks okkar, bæði andlegum og stundlegum.“8

Það er því vissulega sagt að Líknarfélagið er ekki aðeins námsbekkur fyrir konur, heldur nokkuð sem þær eiga hlutdeild í - guðlega stofnaður viðauki við prestdæmið.9

Við höfum ekki lagt í vana að tala um að konur hafi valdsumboð prestdæmisins í kirkjuköllunum sínum, en hvaða annað valdsumboð getur verið um að ræða? Þegar kona - yngri eða eldri - er sett í embætti til að prédika fagnaðarerindið, sem fastatrúboði, er henni veitt valdsumboð prestdæmisins til að framfylgja hlutverki innan prestdæmisins. Það sama á við þegar kona er sett í embætti sem fulltrúi eða kennari í félagi kirkjunnar, undir leiðsögn einhvers sem hefur lykla prestdæmisins. Sérhver sem starfar í embætti eða köllun, sem meðtekin er af hendi þess sem hefur lykla prestdæmisins, iðkar valdsumboð prestdæmisins við framkvæmd úthlutaðra skyldna hennar eða hans.

Sérhver sem iðkar valdsumboð prestdæmisins ætti að gleyma réttindum sínum og einblína á ábyrgð sína. Sú regla mætti almennt vera sýnilegri í samfélögum. Vitnað var í hinn fræga rússneska rithöfund, Aleksandr Solzhenitsyn, með þessum orðum: „Tími er kominn til að … leggja meiri áherslur á skyldur en réttindi manna.“10 Síðari daga heilögum er vissulega ljóst að fullgilding upphafningar felst ekki í því að standa fast á rétti sínum, heldur í því að framfylgja skyldum sínum.

V.

Drottinn hefur leiðbeint að aðeins karlar skuli vígðir í embætti prestdæmisins. Líkt og margir kirkjuleiðtogar hafa lagt áherslu á, þá eru karlar ekki prestdæmið.“11 Karlar hafa prestdæmið, með þeirri helgu skyldu að nota það til blessunar öllum börnum Guðs.

Ekki er hægt að iðka æðsta kraft Guðs veittum sonum hans, án samfélags við eina af dætrum hans, því Guð hefur aðeins veitt dætrum sínum kraftinn „til að vera skaparar líkama … svo að ásetningur Guðs og hin mikla áætlun hans geti borið ávöxt.“12 Þetta eru orð J. Reubens Clark forseta.

Hann hélt áfram: „Þetta er staða eiginkvenna okkar og mæðra í hinni eilífu áætlun. Þær eru ekki handhafar prestdæmisins; af þeim er ekki krafist að framfylgja skyldum og virkni prestdæmisins; þær bera heldur ekki ábyrgð á því; þær eru byggjendur og skipuleggjendur undir krafti þess og hluttakendur blessana þess, búa yfir viðbótarkrafti prestdæmisins og gegna hlutverki sem guðlega kallaðar, af jafn miklu eilífu mikilvægi í stöðu sinni og sjálft prestdæmið.“13

Með þessum innblásnu orðum var Clark forseti að fjalla um fjölskylduna. Líkt og segir í yfirlýsingunni um fjölskylduna, þá er faðirinn í forsæti fjölskyldu sinnar, og hann og móðirin hafa aðgeindar skyldur, en þeim ber „skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar.“14 Nokkrum árum fyrir yfirlýsinguna um fjölskylduna, sagði Spencer W. Kimball forseti þessi innblásnu orð: „Þegar við tölum um hjónaband sem samfélag, tölum þá um hjónaband sem jafngilt samfélag. Við viljum ekki að SDH konur okkar séu þögulir félagar eða takmarkaðir félagar í því eilífa verkefni! Verið gefandi og fullgildir félagar.“15

Konur og karlar eru jöfn í augum Guðs, hvort heldur í kirkjunni eða fjölskyldunni, með aðgreindar skyldur.

Ég lýk máli mínu með því að benda á sannleika um blessanir prestdæmisins. Gagnstætt lyklum og vígslum prestdæmisins, þá standa blessanir prestdæmisins konum og körlum til boða á sömu skilmálum. Gjöf heilags anda og blessanir musterisins eru þekktar útskýringar á þessum sannleika.

Í sinni hnitmiðuðu ræðu í fræðsluviku BYU á síðastliðnu sumri, setti öldungur M. Russell Ballard fram þessar kenningar:

„Kenning kirkju okkar gerir konuna jafna, en þó ólíka karlinum. Guð álítur hvorugt kynið betra eða mikilvægara hinu. …

„Þegar karlar og konur fara í musterið, er þeim báðum veittur sami krafturinn, sem er kraftur prestdæmisins. … Aðgangur að krafti og blessunum prestdæmisins stendur öllum börnum Guðs til boða.“16

Ég ber vitni um að kraftur og blessanir prestdæmis Guðs eru jafnt aðgengileg sonum hans og dætrum. Ég ber vitni um vald prestdæmisins, sem er virkt í öllum embættum og athöfnum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Ég ber vitni um guðlega umsjá og beina stjórnun lykla prestdæmisins, sem Thomas S. Monson forseti og spámaður okkar hefur og notar að fullu. Að lokum, og það sem mikilvægast er, þá ber ég vitni um Drottin okkar og frelsara, Jesú Krist, sem prestdæmið tilheyrir og við þjónum, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Linda K. Burton, „Priesthood:, A Sacred Trust to Be Used for the Benefit of Men, Women, and Children‘“ (ávarp á kvennaráðstefnu í Brigham Young háskóla, 3.maí), ce.byu.edu/cw/womensconference/transcripts.php.

  2. Joseph F. Smith, Gospel Doctrine, 5. útg. (1939), 139.

  3. Boyd K. Packer, “Priesthood Power in the Home” (worldwide leadership training meeting, feb. 2012); lds.org/broadcasts; sjá einnig James E. Faust, “Power of the Priesthood,” Ensign, maí 1997, 41–43.

  4. Handbook 2: Administering the Church (2010), 2.1.1.

  5. M. Russell Ballard, “Men and Women in the Work of the Lord,” New Era, apr. 2014, 4;Líahóna, apr. 2014, 48; sjá einnig Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 138.

  6. Sjá Spencer W. Kimball, “Our Great Potential,” Ensign, maí 1977, 49.

  7. Joseph Fielding Smith, “Relief Society—an Aid to the Priesthood,” Relief Society Magazine, jan. 1959, 4.

  8. Joseph Fielding Smith, “Relief Society—an Aid to the Priesthood,” 4, 5; sjá einnig Teachings of Presidents of the Church: Joseph Fielding Smith (2013), 302.

  9. Sjá Boyd K. Packer, “The Relief Society,” Ensign, maí 1998, 72; sjá einnig Daughters in My Kingdom, 138.

  10. Aleksandr Solzhenitsyn, “A World Split Apart” upphafsræða flutt í Harvard háskóla, 8. júní 1978); sjá einnig Patricia T. Holland, “A Woman’s Perspective on the Priesthood,” Ensign, júlí 1980, 25; Tambuli, júní 1982, 23; Dallin H. Oaks, “Rights and Responsibilities,” Mercer Law Review, útg. 36, nr. 2 (vetur 1985), 427–42.

  11. Sjá James E. Faust, “You Are All Heaven Sent,” Ensign or Líahóna, nóv. 2002, 113; M. Russell Ballard, “This Is My Work and Glory,” Ensign orLíahóna, maí 2013, 19; Dallin H. Oaks, “Priesthood Authority in the Family and the Church,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2005, 26. Stundum segjum við að Líknarfélagið sé „samstarfsfélag prestdæmisins.“ Réttara væri að segja að í verki Drottins eru Líknarfélagið og konur kirkjunnar „samstarfsfélagar þeirra sem hafa prestdæmið.“

  12. J. Reuben Clark Jr., “Our Wives and Our Mothers in the Eternal Plan,” Relief Society Magazine, des. 1946, 800.

  13. J. Reuben Clark Jr., “Our Wives and Our Mothers,” 801.

  14. „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,” Ensign eða Líahóna, nóv. 2010, 129.

  15. Spencer W. Kimball, “Privileges and Responsibilities of Sisters,” Ensign, nóv. 1978, 106.

  16. M. Russell Ballard, New Era, apr. 2014, 4;Líahóna, apr. 2014, 48; sjá einnig Sheri L. Dew, Women and the Priesthood (2013), einkum kafla 6, til frekari útskýringar á þessari kenningu.