Gleði og andleg þrautseigja
Þegar við einblínum á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar.
Kæru bræður og systur, í dag ætla ég að ræða um reglu sem er lykill að okkar andlegu þrautseigju. Það er regla sem verður því mikilvægari sem harmleikurinn og skrípaleikurinn eykst umhverfis.
Þetta eru síðari dagar, svo það ætti ekki að koma nokkru okkar á óvart að sjá spádóm uppfyllast. Fjöldi spámanna, þar með talið Páll, Nefí og Mormón, sáu fyrir að örðugar tíðir væru fyrir höndum, að á okkar tíma yrði heimurinn allur í uppnámi, að menn „verða sérgóðir, …ekki elskandi það sem gott er … elskandi munaðarlífið meira en Guð,“ og margir verða þjónar Satans og efla verk óvinarins. Sannarlega þá er „ baráttan við … heimsdrottna þessa myrkurs, [og] við andaverur vonskunnar í himingeimnum.“
Hvað skal taka til bragðs, eftir því sem erjur á milli þjóða stigmagnast, huglausir hryðjuverkamenn drepa fleiri saklausa og spilling eykst og verður almennari meðal fyrirtækja og stjórnvalda? Hvað getur komið okkur til hjálpar í persónulegum erfiðleikum og miklu áskorunum sem fylgja þessum síðari dögum?
Spámaðurinn Lehí kenndi andlega þrautseigju. Ígrundið fyrst aðstæður hans: Hann hafði verið ofsóttur fyrir að prédika sannleikann í Jesúsalem og verið boðið af Drottni að yfirgefa eigur sínar og flýja með fjölskyldu sína út í óbyggðirnar. Hann hafði búið í tjaldi og haldið lífi í sér með því að neyta þess sem fannst á leið hans til ókunnugs ákvörðunarstaðar og horft upp á tvo syni sína, Laman og Lemúel, breyta andstætt kenningum Drottins og gera aðför að bræðrum sínum, Nefí og Sam.
Lehí var vissulega kunnur mótlæti, áhyggjum, sársauka og sorg og sút. Já, hann lýsti keikur og án hiks yfir reglu sem Drottinn opinberaði: „Menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta.“ Hugsið ykkur! Af öllum þeim hugtökum sem hann hefði getað notað til að lýsa eðli og tilgangi lífs okkar hér í jarðlífinu, þá valdi hann hugtakið gleði!
Í lífunu er fullt af hjáleiðum og blindgötum, og hverskyns þrautum og þrengingum. Öll höfum við líklega upplifað stundir þar sem ógæfa, angist og örvænting hafa næstum heltekið okkur. Erum við samt hér til að njóta gleði?
Já! Svarið er já, algjörlega! Hvernig er það þá mögulegt! Hvað þurfum við að gera til að hljóta þá gleði sem himneskur faðir geymir okkur?
Eliza R. Snow, annar ráðgjafi í Líknarfélaginu, setti fram grípandi svar. Sökum hinnar svívirðilegu útrýmingartilskipunar Missouris-fylkis, sem gefin var út í upphafi hins harða veturs árið 1838, neyddust hún og fleiri heilagir til þess að flýja fylkið einmitt á þeim vetri. Kvöld nokkurt komst fjölskylda Elizu að litlum kofa sem notaður var af landflótta heilögum og varði þar nóttinni. Mörg bjálkaborðin höfðu verið fjarlægð og notuð sem eldiviður af þeim sem áður höfðu nýtt kofann, svo rifurnar á milli bjálkanna voru sumar svo stórar að köttur hefði komist þar í gegn. Það var ískuldi og matvæli þeirra voru gegnum frosin.
Þessa nótt vorum um 80 manns í þessum litla kofa, sem var aðeins um 6 metrar á hverja hlið. Flestir sátu eða stóðu alla nóttina til að halda á sér hita. Fyrir utan kofann var hópur karlmanna umhverfis eldstæði. Sumir þeirra sungu sálma og aðrir grilluðu frosnar kartöflur. Eliza skrifaði: „Engar kvartanir heyrðust – allir voru kátir og eins og þetta bar fyrir augum, þá hefðu ókunnugir sjálfsagt talið okkur vera skemmtiferðalanga, fremur en fylkisstjórnar-útlaga.
Greinargerð Elizu um þetta krefjandi, ískalda kvöld lýsti gríðarlegri bjartsýni. Hún sagði: „Þetta var afskaplega gleðilegt kvöld. Engir nema heilagir geta verið hamingjusamir við allar aðstæður.“
Þarna hafið þið það! Heilagir geta verið hamingjusamir við allar aðstæður. Við getum fundið gleði, þótt við höfum átt slæman dag, viku eða jafnvel ár!
Kæru bræður og systur, gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.
Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs, sem Thomas S. Monson forseti bauð okkur hér áðan að gera, og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, í öllu sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar. Gleðin á rætur í honum og er sökum hans. Hann er uppspretta hverskyns gleði. Við finnum hana á jólum, er við syngjum: „Fagna þú veröld.“og við getum fundið hana allt árið í kring. Hvað Síðari daga heilaga varðar, þá er Jesús Kristur sjálf gleðin!
Af þeirri ástæðu yfirgefa trúboðar heimili sín til að prédika fagnaðarerindi hans. Markmiðið er ekki að auka við fjölda kirkjumeðlima. Trúboðar okkar kenna og skíra öllu heldur til að færa íbúm jarðar gleði!
Á sama hátt og frelsarinn býður frið sem er „æðri öllum skilningi,“ þá býður hann líka svo djúpa og mikla gleði, að hún er æðri mannlegri röksemd eða skilningi. Það virðist til að mynda ekki mögulegt að finna gleði þegar barnið manns þjáist af ólæknandi sjúkdómi eða þegar við missum atvinnuna eða þegar maki okkar er ótrúr. Það er samt einmitt slíka gleði sem frelsarinn býður okkur. Gleði hans er varanleg og fullvissandi um að „þrengingar munu aðeins vara örskamma stund“ og verða okkur til farsældar.
Hvernig getum við þá hlotið þessa gleði? Við getum byrjað með því að „[beina] sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar“ „í öllum hugsunum.“ Við getum þakkað fyrir hann í bænum okkar og með því að halda þá sáttmála sem við höfum gert við hann og himneskan föður okkar. Gleði okkar mun aukast eftir því sem frelsarinn verður okkur raunverulegri og við biðjum hann um að veita okkur gleði sína.
Gleði er máttug og með því að einblína á gleði, munum við virkja mátt Guðs í lífi okkar. Í þessu, líkt og í öllu, þá er Jesús Kristur okkar mesta fyrirmynd, því „vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi.“ Hugsið um það! Frelsari okkar, sem gekk í gegnum óbærilegustu upplifun á jörðu, gerði það með því að einblína á gleði!
Í hverju fólst þessi gleði sem hann einbeitti sér að? Sú gleði fólst vissulega í því að hreinsa, lækna og styrkja okkur; þeirri gleði að greiða gjaldið fyrir syndir allra þeirra sem iðruðust; þeirri gleði að gera mér og þér kleift að komst aftur heim – hrein og verðug – til að dvelja hjá himneskum foreldrum og fjölskyldum okkar.
Hvað getum við þolað sem nú virðist yfirþyrmandi, sárt, ógnvænlegt, ósanngjarnt eða einfaldlega ómögulegt, ef við einblínum á þá gleði sem býður okkar eða ástvina okkar?
Faðir einn, í andlega hættulegri stöðu, einblíndi á þá gleði að vera loks hreinn og beinn frammi fyrir Drottni – að vera laus við synd og sekt – og þeirri gleði að hafa hugarró. Sá tilgangur veitti honum hugrekki að játa fyrir eiginkonu sinni og biskupi að hann ætti í vanda með klámfíkn og ótryggð sem henni fylgdi. Hann fer nú í öllu eftir ráðum biskups síns og reynir af öllu hjarta að endurheimta traust sinnar kæru eiginkonu.
Stúlka ein einblíndi á þá gleði sem felst í því að vera kynferðislega hrein, til að auðvelda sér að takast á við hæðni vina hennar, þegar hún yfirgaf vinsælar og ögrandi en andlega áhættusamar aðstæður.
Maður einn, sem áður vanvirti oft eiginkonu sína og reiddist við börn sín, einblíndi á gleðina sem fólst í því að vera verðugur þess að hafa heilagan anda sem stöðugan förunaut. Sá tilgangur hvatti hann til að afklæðast hinum náttúrlega manni, sem hann hafði svo oft alið á, og gera nauðsynlegar breytingar.
Kær félagi minn sagði mér nýlega frá þungum raunum sínum síðustu tvo áratugi. Hann sagði: „Ég hef lært að þjást í gleði. Þjáningar mínar hurfu í fögnuði Krists.“
Hvað fáum við þolað, ef við einbeitum okkur að gleðinni sem „býður okkar“? Hvaða iðrun verður þá möguleg? Hvaða veikleiki verður þá að styrkleika? Hvaða umvöndun verður þá að blessun? Hvaða vonbrigði, jafnvel hörmungar, verða okkur þá til góðs? Hvaða krefjandi þjónustu við Drottin getum við þá veitt?
Þegar við einblínum af kostgæfni á frelsarann og fylgjum fordæmi hans um að einblína á gleði, þá þurfum við að forðast það sem hefur truflandi áhrif á gleði okkar. Munið þið eftir andkristinum, Koríhor? Koríhor fór stað úr stað og dreifði lygum um frelsarann, þar til hann var færður fyrir æðsta prestinn, sem spurði hann: „Hvers vegna ferð þú um og rangsnýrð vegum Drottins? Hvers vegna kennir þú þessu fólki, að enginn Kristur komi og spillir þannig gleði þess?“
Hvaðeina sem andstætt er Kristi eða kenningu hans, truflar gleði okkar. Það á einnig við um heimspeki manna, sem svo mikið er af á netinu og bloggsíðum, sem var einmitt það sem Koríhor tileinkaði sér.
Ef við horfum til heimsins og fylgjum fyrirmynd hans um hamingju, þá munum við aldrei finna gleði. Hinir ranglátu geta upplifað allskyns tilfinningar og skynhrif, en þeir mun aldrei upplifa gleði! Gleðin er gjöf til hinna trúföstu. Hún er gjöfin sem hlýst af því að reyna af einlægni að lifa réttlátlega, eins og Jesús Kristur kenndi.
Hann kenndi okkur hvernig við getum fundið gleði. Þegar við veljum að hafa himneskan föður sem okkar Guð og þegar við skynjum virkni friðþægingar frelsarans í lífi okkar, munum við fyllast gleði. Alltaf þegar við berum umhyggju fyrir maka okkar og leiðbeinum börnum okkar, alltaf þegar við fyrirgefum einhverjum eða biðjumst fyrirgefningar, þá finnum við gleði.
Dag hvern, er við veljum að lifa eftir himnesku lögmáli, dag hvern er við höldum sáttmála okkar og hjálpum öðrum að gera slíkt hið sama, þá finnum við gleði.
Hyggið að þessum orðum sálmahöfundsins: „Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur. … Gleðignótt er fyrir augliti [Hans].“ Ef þessi regla á sér fastan stað í hjarta okkar, þá getur hver dagur veitt okkur gleði og ánægju.. Um þetta ber ég vitni, í nafni Jesú Krists, amen.