2010–2019
Miðla hinu endurreista fagnaðarerindi
Október 2016


Miðla hinu endurreista fagnaðarerindi

Það sem við köllum „meðlimatrúboð“ er ekki verkáætlun, heldur viðhorf til að elska og liðsinna þeim sem umhverfis eru.

I.

Þegar dró að lokum jarðneskrar þjónustu frelsara okkar, Jesú Krists, þá bauð hann lærisveinum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum“ (Matt 28:19) og „farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni“ (Mark 16:15). Allir kristnir eru bundnir þessu boði, um að miðla öllum fagnaðarerindinu. Margir nefna það „boðið mikla.“

Frelsarinn kenndi okkur að elska

Eins og öldungur Neil L. Andersen sagði í morgunhlutanum, þá eru Síðari daga heilagir vissulega meðal þeirra sem hafa látið mest að sér kveða í þessari mikilvægu ábyrgð. Okkur ber að gera það, því við vitum að Guð elskar öll sín börn og hefur, á síðari dögum, endurreist mikilvæga þekkingu og kraft til að blessa þau. Frelsarinn kenndi okkur að elska alla sem bræður og systur, og þá kennslu heiðrum við með því að miðla boðskap og vitnisburði um hið endurreista fagnaðarerindi „meðal allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýðs“ (K&S 112:1). Þetta er mikilvægur hluti þess að vera Síðari daga heilagur. Við álítum það ánægjuleg forréttindi. Hvað getur veitt meiri gleði en að miðla börnum Guðs sannleika eilífðar?

Í dag getum við miðlað fagnaðarerindinu á marga vegu, sem fyrri kynslóðum var ekki mögulegt að gera. Við höfum sjónvarpið, Alnetið og samfélagsmiðlana. Okkur býðst margskonar dýrmætur boðskapur, til að kynna hið endurreista fagnaðarerindi. Kirkjan er áberandi meðal margra þjóða. Trúboðum okkar hefur fjölgað mikið. Hagnýtum við okkur þessi úrræði til hins ítrasta? Ég tel að flest okkar myndu neita því. Við þráum að sýna meiri árangur við að framfylgja okkar guðlega tilnefndu ábyrgð um að boða heiminum hið endurreista fagnaðarerindi.

Í einstökum stikum eða löndum eru margar góðar hugmyndir um það hvernig miðla má fagnaðarerindinu. Hins vegar, þar sem við erum heimskirkja, þá ætla ég að leggja fram hugmyndir sem hvarvetna eiga við, í bæði nýjum og gömlum einingum, meðal þjóða sem hvort heldur eru móttækilegar fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists eða í vaxandi mæli óvinveittar trúarbrögðum. Ég ætla að leggja fram hugmyndir sem þið getið deilt meðal þeirra sem trúa staðfastlega á Jesú Krist, sem og meðal þeirra sem aldrei hafa heyrt nafn hans getið, meðal þeirra sem eru fyllilega ánægðir með eigin lifsmáta, sem og meðal þeirra sem leggja allt kapp á að bæta sig sjálfa.

Hvað er það sem ég get lagt fram og kemur ykkur að gagni við að miðla fagnaðarerindiu, hverjar sem aðstæður ykkar eru? Við þörfnumst hjálpar sérhvers meðlims og allir meðlimir geta hjálpað, því það er ærið verkefni að miðla hinu endurreista fagnaðarerindi meðal allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýðs.

Monson forseti hvetur meðlimi og trúboða til að starfa saman

Við vitum öll að þátttaka meðlima í trúboðsstarfi er nauðsynleg, bæði hvað varðar trúskipti og varðveislu. Thomas S. Monson forseti hefur sagt: „Nú er tími fyrir þegna kirkjunnar og trúboðana að koma saman … [og] vinna í víngarði Drottins við að leiða sálir til hans. Hann hefur undirbúið fyrir okkur fjöldann allan af leiðum til að miðla fagnaðarerindinu og hann vill aðstoða okkur við það starf, ef við erum fús til að starfa í trú við að uppfylla verk hans.“

Trúboðsstarf er ekki aðeins einn lykill

Að miðla hinu endurreista fagnaðarerindi, eru okkar kristilega skylda og forréttindi. Öldungur Quentin L. Cook minnti okkur á: „Trúboðsstarf er ekki eins og einn af 88 ásláttarlyklum píanós, sem endrum og eins er slegin. Það er dúrlykillinn í sannfærandi laglínu, sem stöðugt þarf að spila, allt okkar líf, ef við viljum vera í samhljóm við okkar kristilegu skuldbindingu og fagnaðarerindi Jesú Krists.“

II.

Það er þrennt sem allir meðlimir geta gert til að miðla fagnaðarerindinu, hverjar sem aðstæður þeirra eru og hvar sem þeir búa eða vinna. Við ættum öll að gera allt þetta.

Í fyrsta lagi, þá ættum við öll að biðja um þrá til að leggja okkar af mörkum við þetta mikilvæga verk sáluhjálpar. Öll viðleitni hefst á þrá.

Í öðru lagi, þá getum við sjálf haldið boðorðin. Trúfastir og hlýðnir meðlimir eru mest sannfærandi vitnin um sannleiksgildi og virði hins endurreista fagnaðarerindis. Það sem jafnvel er mikilvægara, er að trúfastir meðlimir munu ætíð hafa anda hans með sér, sér til handleiðslu, er þeir leitast við að taka þátt í hinu mikla verki að miðla hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

Í þriðja lagi, þá getum við, í okkar einstaklingsbundnu aðstæðum, beðið um innblástur varðandi það sem við sjálf getum gert til að miðla öðrum fagnaðarerindinu. Það er ekki það sama og að biðja fyrir trúboðunum eða biðja fyrir því að aðrir geti unnið verkið. Við ættum að biðja fyrir því hvað við sjálf persónulega getum gert. Þegar við biðjumst þannig fyrir, þá ættum við að hafa í huga, að slíkur innblástur og bænheyrsla hljótast aðeins ef skuldbinding er fyrir hendi – nokkuð sem ritningarnar segja vera „einlægan ásetning“ eða „einlægan ásetning hjartans.“ Biðjist fyrir staðráðin í því að fara eftir þeim innblæstri sem þið hljótið og lofið Drottni, að ef hann mun innblása ykkur að ræða við einhvern um fagnaðarerindið, þá munuð þið gera það.

Við þörfnumst leiðsagnar Drottins, vegna þess að á einhverjum tilsettum tímapunkti, þá eru sumir reiðubúnir fyrir enn frekari sannleika hins endurreista fagnaðarerindis – en aðrir ekki. Við ættum aldrei að dæma sjálf um það hvort fólk sé tilbúið eða ekki. Drottinn þekkir hjörtu allra sinna barna og ef við biðjum um innblástur, þá mun hann hjálpa okkur að finna þá sem hann veit að eru „undir það búnir að heyra orðið“ (Alma 32:6).

Sem postuli Drottins, þá býð ég öllum meðlimum og fjölskyldum í kirkjunni, að biðja til Drottins um hjálp við að finna þá sem eru undir það búnir að taka á móti boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Öldungur M. Russell Ballard veitti þessa mikilvægu leiðsögn, sem er samhljóma minni: „Treystið Drottni. Hann er góði hirðirinn. Hann þekkir sauði sína. … Ef við erum ekki að vinna að þessu, þá munu margir missa af því að heyra boðskap endurreisnarinnar sem annars hefðu heyrt hann. … Meginreglan er nokkuð einföld – biðjið í einrúmi og með fjölskyldu ykkar um tækifæri til trúboðs.“ Ef við sýnum trú okkar, þá munu slík tækifæri hljótast, algjörlega „þvingunarlaust eða … hindrunarlaust. Þau munu hljótast eðlilega, sem afleiðing elsku okkar til bræðra okkar og systra.“

Ég veit að svo er. Ég heiti því líka, að ef við trúum á liðsinni Drottins, þá munum við hljóta handleiðslu, innblástur og finna mikla gleði í þessu eilifa og mikilvæga kærleiksverki. Okkur mun skiljast, að árangur í því að miðla fagnaðarerindinu næst með því að bjóða fólki af elsku og hjálpa því af einlægum ásetningi, hver sem viðbrögð þess verða.

III.

Hér er nokkuð sem við getum gert til að miðla fagnaðarerindinu á árangursríkan hátt.

Meðlimir sýna vináttu
Meðlimir í heimsókn
Leigubílstjóri á Ólympíuleikunum í Brasilíu
  1. Við þurfum að hafa í huga að „fólk lærir þegar það er tilbúið til að læra, en ekki þegar við erum tilbúin til að kenna því.“ Það sem okkur sjálfum finnst áhugavert, eins og mikilvægar viðbótarkenningar í hinni endurreistu kirkju, er yfirleitt ekki það sem öðrum finnst áhugavert. Aðrir vilja gjarnan frekar ávexti kenningar, en ekki kenninguna sjálfa. Þegar fólk verður vitni að eða upplifir áhrif hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists á okkar líf, þá finna þau fyrir andanum og áhuginn á kenningunni vaknar. Áhugi þess getur líka vaknað, ef það leitar aukinnar hamingju, nálægðar við Guð eða dýpri skilnings á tilgangi lífsins. Við verðum því að leita dómgreindar, varlega og í bænarhug, um hvernig finna má út áhuga fólks um að læra meira. Það getur oltið á mörgu, svo sem aðstæðum fólks og sambandi okkar við það. Þetta er tilvalið að ræða í ráðum, sveitum og Líknarfélagi.

  2. Þegar við ræðum við aðra, þá þurfum við að gæta þess að betra er að bjóða öðrum að læra meira um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, heldur en að læra meira um kirkjuna okkar. Við viljum að fólk snúist til trúar á fagnaðarerindið. Það er hið mikilvæga hlutverk Mormónsbókar. Tilfinningar gagnvart kirkjunni vakna samhliða trú á Jesú Krist, en ekki áður en trúarumbreyting verður. Margir sem tortryggja kirkjur, hafa kærleiksríkar tilfinningar til frelsarans. Forgangsraðið rétt.

  3. Við ættum að sýna að við berum kærleiksríka umhyggju fyrir fólki, þegar við leitumst við að kynna því hið endurreista fagnaðarerindi. Það gerum við þegar við reynum að hjálpa fólki við tilgreind vandamál þess eða þegar við störfum með því í samfélagsþjónustu, svo sem við líknarþjónustu, umönnun fátækra og nauðstaddra eða við að bæta lífsgæði þess.

  4. Tilraunir okkar til að miðla fagnaðarerindinu ættu ekki að einskorðast við okkar takmarkaða vina- og kunningjahóp. Meðan á Ólympíuleikunum stóð, þá var okkur sagt frá SDH leigubílstjóra í Rio de Janeiro, sem hafði með sér Mormónsbækur á sjö mismunandi tungumálum og gaf þær öllum þeim sem vildu við þeim taka. Hann kallaði sig sjálfan: „Leigubílstjóra-trúboðann.“ Hann sagði: „Götur og stræti Rio de Janeiro … eru [minn] trúboðsakur.“

    Clayton M. Christensen, sem hefur afar mikla reynslu sem meðlimatrúboði, sagði: „Á undanförnum tuttugu árum, þá höfum við ekki tekið eftir að sterk sambönd séu eitthvað líklegri til þess að auka áhuga fólks á því að læra um fagnaðarerindið.“

  5. Biskupsráð deildar getur haft sérstaka sakramentissamkomu, þar sem meðlimir eru hvattir til að koma með fólk sem hefur áhuga. Meðlimir þeirrar tilteknu deildar hika þá síður við að koma með kunningja sína á slíka sakramentissamkomu, því þeir vita þá að efni samkomunnar verður vel fram sett og áhugavekjandi á kirkjunni.

  6. Við getum miðlað fagnaðarerindinu á marga aðra vegu. Mér barst til að mynda ánægjulegt bréf á liðnu sumri, frá einni nýskírðri, sem lærði um hið endurreista fagnaðarerindi, eftir að gamall skólafélagi hafði hringt í hana, til að spyrjast fyrir um sjúkdóm sem hún var að takast á við. Hún skrifaði: „Mér fannst uppörvandi hvernig hann kynnti sig fyrir mér. Eftir að hafa tekið á móti kennslu trúboðanna í nokkra mánuði, þá lét ég skírast. Frá því að það gerðist, þá hefur líf mitt orðið betra.“ Öll þekkjum við marga sem gætu notið farsældar af hinu endurreista fagnaðarerindi. Erum við að liðsinna þeim?

  7. Hinir ungu meðlimir, sem heillast af og sýna færni sína á samfélagsmiðlunum, hafa einstakt tækifæri til að vekja áhuga fólks á fagnaðarerindinu. Mormón lýsti því þegar frelsarinn birtist Nefítunum og ritaði: „Hann kenndi og þjónaði börnunum … og hann losaði um tungur þeirra … svo að þau mættu mæla“ (3 Nei 26:14). Um okkar tíma gætum við væntanlega sagt: „Losaði um [fingur] þeirra, svo þau mættu [tjá sig].“ Æskufólk, takið áskoruninni!

Miðla fagnaðarerindinu með textaskilaboðum

Að miðla fagnaðarerindinu, er ekki byrði, heldur gleði. Það sem við köllum „meðlimatrúboð“ er ekki verkáætlun, heldur viðhorf til að elska og liðsinna þeim sem umhverfis eru. Það er líka tækifæri til að bera vitni um hvað okkur finnst um hið endurreista fagnaðrerindi frelsara okkar. Eins og öldungur Ballard sagði: „Fúsleiki okkar til að miðla öðrum fagnaðarerindinu, er besti mælikvarðinn á trúarumbreytingu okkar og hversu mikið við metum fagnaðarerindið í lífi okkar.“

Ég ber vitni um Jesú Krist, sem er ljós og líf heimsins (sjá 3 Ne 11:11). Hans endurreista fagnaðarerindi lýsir upp veg jarðlífsins. Friðþæging hans veitir okkur fullvissu um líf eftir dauðann og styrk til að sýna þolgæði að ódauðleika. Friðþæging hans gerir okkur kleift að hljóta fyrirgefningu synda okkar og, fyrir hina dýrðlegu sáluhjálparáætlun Guðs, að verða hæf fyrir eilíft líf, „æðstu gjöf Guðs“ (K&S 14:7). Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, „Welcome to Conference, Liahona, nóv. 2013, 4.

  2. Quentin L. Cook, „How to Be a Member Missionary,“ New Era, feb. 2015, 48.

  3. M. Russell Ballard, „Put Your Trust in the Lord,“ Liahona, nóv. 2013, 44.

  4. M. Russell Ballard, „Put Your Trust in the Lord,“ 44.

  5. Clayton M. Christensen, The Power of Everyday Missionaries (2012), 30.

  6. Sjá Christensen, Power of Everyday Missionaries, 26–27.

  7. Sjá Gary C. Lawrence, How Americans View Mormonism: Seven Steps to Improve Our Image (2008), 34–35.

  8. Sjá Ashley Kewish, „Cab Driver Hands Out Copies of Book of Mormon to Rio Visitors,“ 8. ágúst 2016, ksl.com.

  9. Christensen, Power of Everyday Missionaries, 21.

  10. Persónulegt bréf, 21. ágúst 2016.

  11. M. Russell Ballard, „Now Is the Time,“ Liahona, jan. 2001, 89.