1 7 . kafli
Hin mikla sáluhjálparáætlun
„Hin mikla sáluhjálparáætlun er sá kjarni sem algjörlega ætti að fanga athygli okkar og líta ætti á hana sem eina bestu gjöf himins til mannkyns“
Úr lífi Josephs Smith
Í september 1831 flutti Joseph Smith og fjölskylda hans til Hiram, Ohio, 48 kílómetrum suðaustur af Kirtland, og þar bjuggu þau í um eitt ár á heimili Johns og Alice (einnig þekkt sem Elsa) Johnson. Á heimili þeirra lauk spámaðurinn við stærsta hluta verksins. Þýðing Josephs Smith á Biblíunni.
Þetta mikilvæga verk, sem spámaðurinn nefndi „grein köllunar minnar,“1 eykur verulega við skilning okkar á sáluhjálparáætluninni. Í júní 1830 hóf spámaðurinn verk þetta, þegar Drottinn bauð honum að hefja innblásna endurbót á King James Biblíuútgáfunni. Spámaðurinn hafði fyrir löngu komist að raun um að Biblían var ekki alltaf skýr varðandi sum mikilvæg mál. Hann hafði tekið eftir því að Moróní vitnaði fyrir hann í nokkrar ritningargreinar í Biblíunni „en þó með nokkru fráviki [eins og lesa má] borið saman við okkar Biblíu“ (Joseph Smith – Saga 1:36). Meðan á þýðingu 1 Nefí 13:23–29 stóð komst hann að raun um að „mörg auðskiljanleg og mjög dýrmæt atriði“ höfðu verið felld úr Biblíunni og einnig „margir af sáttmálum Guðs“ (1 Nefí 13:26).
Spámaðurinn sagði síðar: „Ég trúi á Biblíuna eins og texti hennar var þegar hann var ritaður með penna hinna upprunalegu höfunda. Fávísir þýðendur, kærulausir ritarar, eða undirförulir og spilltir prestar, hafa gert margar villur. … Lesið [Hebr 6:1] til að sjá mótsagnir: ,Þess vegna skulum vér sleppa byrjunarkenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.‘ Ef menn hverfa frá reglum í kenningu Krists, hvernig fá þeir þá frelsast með reglum? Þetta er mótsögn. Ég trúi þessu ekki. Ég birti það eins og það ætti að vera: ,Þess vegna skulum vér ekki sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.‘ “2
Joseph varði um þremur árum, leiddur af andanum, í að fara yfir Biblíuna. Hann gerði þúsundir leiðréttinga á textanum og endurnýjaði upplýsingar sem glatast höfðu. Þessar endurnýjuðu upplýsingar varpa dásamlegu ljósi á margar kenningar sem ekki eru settar fram á skýran hátt í Biblíunni, eins og hún er nú. Þessar innblásnu endurbætur á texta Biblíunnar eru þekktar sem Þýðing Josephs Smith á Biblíunni. Hundruð ritningargreina úr Þýðingu Josephs Smith eru nú í King James Biblíuútgáfu hinna Síðara daga heilögu.
Þýðing spámannsins á Biblíunni var mikilvægur þáttur í hans eigin andlegu menntun og í endurreisn á sannleika fagnaðarerindisins. Er hann endurbætti Gamla testamentið og Nýja testamentið hlaut hann oft opinberanir sem skýrðu eða bættu hinar biblíulegu ritningargreinar. Á þennan hátt hlaut spámaðurinn margar kenningar frá Drottni, að meðtöldum þeim sem nú eru í Kenningu og sáttmálum 74, 76, 77, 86 og 91, og að hluta í mörgum öðrum köflum í Kenningu og sáttmálum.
Þegar spámaðurinn hóf fyrst þýðingu Biblíunnar í júní 1830 opinberaði Drottinn honum langan kapítula úr ritum Móse. Sá texti varð 1. kapítuli bókar Móse í Hinni dýrmætu perlu. Þar er skráð sýn sem Móse sá og ræddi við Guð – svo merkileg var sú sýn að Joseph Smith nefndi hana „dýrmætt hnoss“ og „uppsprettu styrks.“3 Í þeirri sýn kenndi Guð Móse megintilgang hinnar miklu sáluhjálparáætlunar:
„Og Drottinn Guð talaði til Móse og sagði: … Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:37, 39).
Þær kenningar, helgiathafnir og þau loforð sem mynda sáluhjálparáætlunina voru opinberuð á jörðinni á þessum síðari dögum með spámanninum Joseph Smith. Spámaðurinn skildi mikilvægi þeirrar áætlunar greinilega og sagði: „Hin mikla sáluhjálparáætlun er sá kjarni sem algjörlega ætti að fanga athygli okkar og líta ætti á hana sem eina bestu gjöf himins til mannkyns.“4
Kenningar Josephs Smith
Í fortilverunni var Jesús Kristur útvalinn til að verða frelsarinn og við völdum að gangast við sáluhjálparáætluninni.
„Á fyrsta skipulagsþingi himins vorum við öll viðstödd og sáum frelsarann útvalinn og tilnefndan og sáluhjálparáætlunin var gerð og við samþykktum hana.“5
„Drottinn [er] prestur að eilífu, eftir reglu Melkísedeks, og smurður sonur Guðs, allt frá grundvöllun heimsins [sjá Sálm 110:4].“6
„Sáluhjálp Jesú Krists var fyrirbúin öllum mönnum, til að sigrast á djöflinum. … Allir munu þjást þar til þeir hlýða Kristi sjálfum.
Það varð stríð á himnum – Jesús sagði að ákveðnar sálir myndu ekki frelsast, en djöfullinn sagðist myndi frelsa þær allar og lagði áætlun sína fyrir stórþingið, sem kaus Jesú Kristi í hag. Þannig að djöfullinn reis upp gegn Guði og honum var varpað niður, ásamt öllum þeim sem með honum stóðu.“7
Við erum eilífar verur; við getum náð upphafningu með því að hlýða lögmálum Guðs.
Spámaðurinn hlaut flessa opinberun frá Drottni í maí 1833, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 93:29: „Maðurinn var einnig í upphafi hjá Guði. Vitsmunir, eða ljós sannleikans, voru ekki skapaðir eða gjörðir, né heldur er það hægt.“ Í apríl 1844 kenndi spámaðurinn: „Ég hef annað málefni að ræða um, sem tengist upphafningu mannsins. … Það snertir upprisu hinna dánu, – sjálfa sálina – huga mannsins – hinn ódauðlega anda. Hver er uppuni hans? Allir lærðir menn og guðfræðingar segja Guð hafa skapað hann í upphafi, en þannig er það ekki. Að mínu viti dregur sú hugmynd úr stöðu mannsins. Ég legg ekki trúnað á þá kenningu, ég veit betur. Heyr, öll endimörk jarðar, því Guð hefur sagt mér það; og þótt þér trúið mér ekki, verður sá sannleikur samt gildur. …
Ég ræði um ódauðlegan anda mannsins. Er rökrétt að segja að vitsmunir anda séu ódauðlegir, en að þeir eigi sér þó upphaf? Vitsmunir anda hafa hvorki upphaf, né munu þeir hafa endi.Hægt er að færa góð rök fyrir því að það sem hefur upphaf geti haft endi. Sá tími hefur aldrei verið að andar hafi ekki verið til. …
Ég dreg hring minn af fingri og líki honum við huga mannsins – ódauðlega hlutann, vegna þess að hann á sér ekki upphaf. Setjum sem svo að þið klipptuð hann í tvennt, þá hefur hann upphaf og endi, en heill og óskertur myndar hann eilífa hringrás. Það sama á við um anda mannsins. Sem Drottinn lifir þá mun hann hafa endi, ef hann á sér upphaf. Allir hinir heimsku og lærðu og vitru menn, allt frá upphafi sköpunarinnar, sem segja anda mannsins eiga sér upphaf, sanna um leið að hann hljóti þá að eiga sér líka endi. Og ef sú kenning er sönn, þá væri kenning gereyðingar einnig sönn. En fari ég með rétt mál, get ég lýst því djarflega yfir af húsþökum, að Guð hafi aldrei haft máttinn til að skapa anda mannsins. Guð gæti ekki hafa skapað sjálfan sig.
Vitsmunir eru eilífir og tilvist þeirra er óháð ytri orsökum. Þeir eru andi frá tíma til tíma og eru ekki skapaðir. Sérhver hugur og andi sem Guð hefur nokkurn tíma sent í heiminn er móttækilegur fyrir aukningu.
Fyrsta regla mannsins er sú, að þeir áttu tilveru hjá Guði. Guð sjálfur, sem var mitt á meðal anda og dýrðar, sá sér fært að setja lögmál, vegna þess að vitsmunir hans voru meiri, þar sem hinum gæfist kostur á að þróast líkt og hann sjálfur. Samband okkar við Guð gefur okkur kost á að hljóta aukna þekkingu. Hann hefur máttinn til að setja lögmál, að fræða hina veikari vitsmuni, svo þeir megi upphefjast með honum, svo þeir geti hlotið dýrð á dýrð ofan, og alla þá þekkingu, mátt, dýrð og vitsmuni, sem eru skilyrði þess að þeir geti frelsast í heimi andanna.“8
„Við teljum Guð hafa skapað menn með huga sem hefur þann eiginleika að geta lært og aukið við sig í hlutfalli við gaum og kostgæfni vitsmuna þeirra til að taka á móti því ljósi sem frá himninum streymir. Og eftir því sem menn nálgast fullkomnun, verður sýn þeirra skýrari, gleði þeirra dýpri, allt þar til þeir hafa sigrast á hinu illa í eigin lífi og útilokað alla þrá til syndar, og líkt og menn til forna, hafa náð því trúarstigi að verða yfirskyggðir krafti og dýrð skapara síns, og verða hrifnir upp til dvalar hjá honum. En við teljum þó að enginn maður nái slíku trúarstigi á augabragði.“9
Við komum til jarðarinnar til að hljóta líkama, þekkingu og sigrast á öllu fyrir trú.
„Öllum mönnum er ljóst að þeir verða að deyja. Og mikilvægt er að við þekkjum orsök og afleiðingu hverfulleika lífs og dauða, og áætlun og tilgang Guðs með komu okkar til jarðarinnar, þjáningum okkar þar og brottför okkar þaðan. Hver er tilgangurinn með tilveru okkar hér, dauða og brottför? Rökrétt er að gera ráð fyrir að Guð hafi opinberað eitthvað um það mál, og það er efni sem við ættum að kynna okkur betur en nokkuð annað. Við ættum að læra það daga og nætur, því heimurinn er fáfróður um hinar raunverulegu aðstæður sínar og samband sitt við [Guð].“10
„Áætlun Guðs, fyrir grundvöllun heimsins, var sú að við ættum að hljóta tjaldbúð [líkama], að fyrir trúfesti gætum við náð sigri og þar með hlotið upprisu frá dauðum, og á þann hátt hlotið dýrð, heiður, mátt og yfirráð.“11
„Við komum til þessarar jarðar til að hljóta líkama og sýna hann hreinan frammi fyrir Guði í himneska ríkinu. Hin mikla sæluregla felst í því að eiga líkama. Djöfullinn hefur ekki líkama og í því felst refsing hans. Hann nýtur þess að taka yfir líkama manna, og þegar frelsarinn skipar honum út, leitar hann jafnvel hælis í svínum. Það sýnir að hann kýs líkama þeirra fremur en engan. Allar verur sem eiga efnislíkama hafa vald yfir þeim sem eiga hann ekki.“12
„Sáluhjálp er til þess að maðurinn geti frelsast frá öllum sínum óvinum, því maðurinn mun ekki frelsast fyrr en hann hefur sigrað dauðann. …
Andarnir í hinum eilífa heimi eru eins og andar þessa heims. Þegar þeir hafa komið í þennan heim og hlotið líkama, síðan dáið og risið upp og öðlast dýrðlega líkama, hafa þeir áhrifavald yfir þeim öndum sem ekki hafa hlotið líkama, eða ekki staðist fyrsta stig sitt, líkt og djöfullinn. Refsing djöfulsins er sú, að hann getur ekki hlotið líkama eins og mennirnir hafa.“13
„Regla þekkingar er regla sáluhjálpar. Þá reglu er hægt að tileinka sér með trúmennsku og kostgæfni, og allir þeir sem ekki hljóta næga þekkingu til frelsunar munu fordæmdir. Regla sáluhjálpar veitist okkur fyrir þekkingu á Jesú Kristi.
Sáluhjálp er hvorki meira né minna en það að sigrast á öllum okkar óvinum og leggja þá að fótum okkar. Og þegar við höfum máttinn til að leggja alla fjendur þessa heims að fótum okkar, og höfum þekkingu til að sigrast á öllum illum öndum í komandi heimi, erum við frelsuð, líkt og í tilviki Jesú, sem ríkja átti allt þar til hann hefði lagt alla fjendur að fótum sér, og dauðinn var síðasti óvinurinn [sjá 1 Kor 15:25–26].
Hugsanlega eru þetta reglur sem aðeins fáeinir hafa leitt hugann að. Enginn maður getur hlotið þessa sáluhjálp nema hann hafi öðlast líkama.
Í þessum heimi er mannkynið eigingjarnt að eðlisfari, framagjarnt og hver reynir að sigrast á öðrum, en þó eru sumir fusir til að byggja aðra upp, líkt og sig sjálfa. Í hinum heiminum eru margbreytilegir andar. Sumir reyna að bera af, og sú var raunin með Lúsífer þegar hann féll. Hann sóttist eftir því sem var óréttmætt. Honum var því varpað niður og sagt er að hann hafi dregið marga með sér. Þungi refsingar hans var að geta ekki hlotið líkama. Það er refsing hans.“14
Guð hefur veitt okkur siðferðilegt sjálfræði og kraft til að velja gott frá illu.
„Ef menn hyggjast hljóta sáluhjálp, verða þeir, áður en þeir hverfa úr þessum heimi, að hafa gengist undir ákveðnar reglur og lögmál, sem eru óbreytanleg og sett voru áður en þessi heimur varð til. … Skipulag hinna andlegu og himnesku heima, og andlegra og himneskra vera, var í samræmi við hina fullkomnustu reglu og einingu. Þeim voru sett óbreytanleg mörk og rammi, sem þau samþykktu sjálf í himneskri tilveru sinni, og það gerðu einnig okkar fyrstu foreldrar á jörðinni. Því er öllum mönnum á jörðu, sem vænta eilífs lífs, nauðsynlegt að samþykkja og tileinka sér reglur eilífs sannleika.“15
„Allir menn eiga rétt á sjálfræði, því Guð hefur ákvarðað það þannig. Hann hefur veitt mannkyni siðferðilegt sjálfræði og kraft til að velja gott eða illt; að leita þess góða með því að tileinka sér heilagleika í þessu lífi, sem færir hugarró og gleði í heilögum anda hér, og fyllingu gleðinnar og hamingju við hægri hönd hans að því loknu; eða að leita þess illa, með því að halda sig við syndina og uppreisn gegn Guði, sem leiðir til fordæmingar sálna í þessum heimi og eilífs tjóns í komandi heimi.“16
„Satan megnar ekki að lokka okkur til syndar, nema því aðeins að við leyfum honum það. Við erum þannig gerð að við getum staðist djöfulinn; ef við værum það ekki, hefðum við ekki sjálfræði.“17
„Djöfullinn hefur aðeins vald yfir okkur, ef við leyfum honum það. Jafnskjótt og við rísum gegn einhverju sem kemur frá Guði öðlast djöfullinn vald.“18
Hinn 16. maí 1841 ávarpaði spámaðurinn hina heilögu: „Joseph Smith forseti … sagði Satan oftast vera kennt um allt hið illa sem við gerðum, en væri hann orsök alls okkar ranglætis, væri ekki hægt að fordæma mennina. Djöfullinn getur ekki þvingað mannkynið til illra verka; öll breytni er af sjálfsdáðum. Þeir sem standa gegn anda Guðs verða líklegir til að falla í freistni, og þá dregur samfélag himins sig í hlé frá þeim sem ekki vilja taka þátt í hinni dásamlegu dýrð þess. Guð beitir engri nauðung, og djöfullinn getur það ekki. Að halda öðru fram [um efni þetta], líkt og margir gera, er fráleitt.“19
Eliza R. Snow skráði: „[Joseph Smith] sagði engu skipta hversu hratt við færum á vegi dyggðar. Standið gegn hinu illa og hættan er engin. Guð, menn og englar munu ekki fordæma þá sem standa gegn hinu illa, og djöflar geta það ekki. Djöfullinn gæti eins vel reynt að steypa Jehóva af stóli, eins og að fella saklausa sál sem stendur gegn öllu því sem illt er.“20
Ábendingar um nám og kennslu
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.
-
Hvaða ákveðinn sannleika varðandi sáluhjálparáætlunina og tilgang lífsins vitum við vegna opinberana Josephs Smith? Hvernig hefur sá sannleikur hjálpað ykkur?
-
Joseph Smith kenndi að sáluhjálparáætlunin væri „efni sem við ættum að kynna okkur betur en nokkuð annað“ (bls. 208) og „sá kjarni sem algjörlega ætti að fanga athygli okkar“ (bls.205). Á hvaða hátt getum við numið sáluhjálparáætlunina? Hvernig getum við kynnt okkur sáluhjálparáætlunina betur en nokkuð annað, er við sinnum daglegu lífi? Á hvaða hátt getum við kennt öðrum sáluhjálparáætlunina?
-
Lesið kenningar Josephs Smith um stórþingið á himnum og eilíft eðli okkar (bls. 206–07). Hvernig getur það orðið okkur til blessunar í lífi ykkar á jörðinni að hafa þekkingu á þessum kenningum?
-
Spámaðurinn Joseph bar vitni: „Sérhver hugur og andi sem Guð hefur nokkurn tíma sent í heiminn er móttækilegur fyrir aukningu“ (bls. 207). Hvað teljið þið þetta þýða? Hvernig getur þessi sannleikur haft áhrif á það hvernig þið horfist í augu við erfiðleika, á sjálfsmat ykkar og möguleika, á framkomu ykkar við aðra?
-
Lesið málsgreinina sem hefst neðst á bls 207. Íhugið þær blessanir sem við hljótum er við gefum „gaum og [sýnum] kostgæfni … því ljósi sem frá himninum streymir.“
-
Lesið kenningar Josephs Smith um gildi þess að hafa efnislegan líkama (bls. 208–09). Hvernig getur þessi þekking haft áhrif á það hvernig við hugsum um líkama okkar?
-
Lesið fyrstu tvær málsgreinarnar á bls. 210. Íhugið hvaða þýðingu þessar kenningar hafa á ykkur er þið notið sjálfræði ykkar. Hvaða ákveðna hluti getum við gert til að standast áhrif Satans?
Ritningargreinar tengdar efninu: 2 Ne 2:25; 9:6–12; Al 34:31–33; K&S 76:25–32; 101:78; Abr 3:22–25