Kenningar forseta
19. Kafli: Standa staðföst í stormum lífsins


19. Kafli

Standa staðföst í stormum lífsins

„Standið staðföst, þið hinir heilögu Guðs, bíðið örlítið lengur og stormar lífsins munu líða hjá og þið munuð hljóta umbun af þeim Guði hvers þjónar þið eruð.“

Úr lífi Josephs Smith

Kvöld eitt, hinn 24. mars 1832, vakti Joseph Smith fram eftir til að huga að 11 mánaða gömlum syni sínum, Joseph, sem var veikur með mislinga. Smith fjölskyldan bjó þá á heimili Johns Johnson í Hiram, Ohio. Spámaðurinn hafði loks fallið í svefn á rennibedda þegar múgur manns, tólf eða fleiri, drukknir af viskí, ruddust inn á heimilið. Spámaðurinn lýsti síðar atburðum þessarar hræðilegu nætur:

„Múgurinn braust inn um dyrnar og umkringdi rúmið á augabragði, og … það fyrsta sem ég skynjaði var að ég var á leið út um dyrnar í höndum þessa æsta múgs. Ég barðist um í örvæntingu er ég var dreginn út og reyndi að losa mig, en tókst aðeins að losa annan fótinn, sem ég svo notaði til að sparka í einn mannanna, sem féll við í dyraþrepinu. Ég var samstundis yfirbugaður á ný, og þeir sóru … að drepa mig, ef ég yrði ekki kyrr, sem varð til að stilla mig. …

Þeir gripu svo um háls minn og þrengdu að þar til ég missti meðvitund. Þegar ég rankaði við mér, en þeir þvældust með mig eina 150 metra frá húsinu, sá ég öldung Rigdon liggja flatan á jörðinni, en þangað höfðu þeir dregið hann á hælunum. Ég taldi hann látinn. Ég tók þá að sárbiðja þá og sagði: ,Ég vona að þið sýnið mér miskunn og þyrmið lífi mínu.‘ Þeir svöruðu: , … Kallaðu á Guð þinn eftir hjálp, við sýnum þér enga miskunn.‘ “

Spámaðurinn skýrði svo frá: „Eftir nokkrar umræður ákvað múgurinn að drepa mig ekki, heldur berja mig og skráma duglega, rífa af mér bolinn og buxurnar og skilja mig eftir nakinn.… Þeir hlupu til baka og náðu í fötu af tjöru og þá sagði einn þeirra formælandi: ,Látum tjöru í munn hans,‘ og þeir reyndu að neyða tjörusleifinni upp í munn minn. Ég sneri höfðinu undan, svo þeim tókst það ekki, og þeir hrópuðu; , … Haltu uppi höfðinu svo við getum gefið þér smá tjöru.‘ Þeir reyndu síðan að neyða lyfjaflösku upp í mig, og brutu hana á tönnum mínum. Öll fötin voru rifin utan af mér nema skyrtukraginn, og einn mannanna féll á mig og klóraði á mér bakið með nöglunum, líkt og brjálaður köttur. …

Þeir skildu mig síðan eftir og ég reyndi að standa upp, en féll aftur niður. Ég losaði tjöruna af vörum mínum, svo mér yrði léttara um andardrátt og innan tíðar tók ég að ná mér, reis á fætur og sá þá tvö ljós. Ég gekk í áttina að öðru þeirra og sá að það var heimili föður Johnsons. Þegar ég kom að dyrunum … gerði tjaran það að verkum að ég sýndist ataður blóði, og þegar eiginkona mín sá mig, taldi hún mig stórslasaðan og féll í yfirlið. …

Vinir mínir voru alla nóttina að skafa af mér tjöruna og þvo og hreinsa líkama minn, svo ég gæti klæðst að morgni.“

Þrátt fyrir þessa eldraun hélt spámaðurinn trúfastur áfram að framfylgja ábyrgð sinni gagnvart Drottni. Daginn eftir var hvíldardagur. Spámaðurinn skráði: ,Fólkið kom saman á venjulegum samkomutíma og meðal þess var einnig múgurinn. … Allur skrámaður og afmyndaður, prédikaði ég fyrir söfnuðinum líkt og venjulega og eftir hádegi þennan sama dag skírði ég þrjá einstaklinga.“1 Joseph, sonur Josephs og Emmu, lést fimm dögum eftir árás múgsins, og var það afleiðing þess að hafa verið óvarinn fyrir köldu næturloftinu, því hann þjáðist af mislingum.

Wilford Woodruff, fjórði forseti kirkjunnar, sagði: „Drottinn sagðist myndi láta reyna á [Joseph], hvort hann héldi sáttmála sinn eða ekki, jafnvel allt til dauða. Hann lét reyna á hann, og jafnvel þótt allur heimurinn berðist gegn honum og hann þyldi svik falskra vina, jafnvel þótt allt hans líf væri fullt af átökum, kvíða og áhyggjum, var hann samt, í öllum sínum þrengingum, fangelsisvistun og illri meðferð múgs, alltaf trúr Guði sínum.“2

Kenningar Josephs Smith

Þeir sem fylgja Jesú Kristi verða reyndir og þeir þurfa að sanna Guði hollustu sína.

„Öryggi finnst aðeins í örmum Jehóva. Enginn annar megnar að endurleysa og hann mun því aðeins endurleysa að við sönnum honum hollustu í ákafri neyð. Því sá er þvegið hefur skikkju sína í blóði lambsins, hlýtur að hafa komið úr þrengingunni miklu [sjá Op 7:13–14], jafnvel hinni mestu allra.“3

„Örlög allra manna eru í höndum réttláts Guðs og hann mun ekki gera neinum óréttlæti; og eitt er víst, að allir sem lifa vilja í trúrækni á Jesú Krist, munu ofsóttir verða [sjá 2 Tím 3:12]. Og áður en skikkjur þeirra verða hvítar af blóði lambsins er til þess ætlast, samkvæmt opinberaranum Jóhannesi, að þeir gangi í gegnum mikla þrengingu [sjá Op 7:13–14].“4

„Menn verða að þjást svo þeir geti komið upp á Síonarfjall og orðið upphafnir ofar himnunum.“5

Joseph Smith skrifaði til meðlima kirkjunnar í miklum þjáningum sínum í fangelsisvist í Liberty-fangelsinu, veturinn 1838–39: „Kæru bræður, við segjum ykkur, þar eð Guð hefur sagst munu láta reyna á fólk sitt, að hann muni hreinsa það og skíra sem gull [sjá Mal 3:3], þá hafi hann á þessum tíma ákveðið þolraunina svo á okkur verði reynt. Og við teljum, að ef við stöndumst hana nokkuð örugglega og höldum trú okkar, að það verði þessari kynslóð til tákns, nægilega til þess að hún verði án afsökunar. Og við teljum einnig að sú þolraun muni reyna á trú okkar til jafns við trú Abrahams, og á dómsdegi munu hinir fornu ekki fá stært sig af því að hafa tekist á við meiri erfiðleika en við, og við dæmumst því jafn verðug og þeir.“6

„Þolraunir veita okkur einungis nauðsynlega þekkingu til að skilja huga hina fornu. Hvað mig varðar, þá held ég að mér gæti ekki liðið líkt og nú, ef ég hefði ekki þolað ranglætið sem á mér hefur dunið. Allt mun samverka til góðs þeim sem elska Guð [sjá Róm 8:28]“7

John Taylor, þriðji forseti kirkjunnar, sagði: „Ég heyrði spámanninn segja, er hann talaði eitt sinn til hinna Tólf: ,Þið munuð verða fyrir margs konar þrengingum á vegi ykkar. Og það er jafn nauðsynlegt að þið verðið reyndir og það var fyrir Abraham og aðra menn Guðs. Og Guð (sagði hann) mun reyna ykkur, beina sjónum sínum að ykkur og snúa hjarta ykkar, og ef þið fáið ei staðist það verðið þið ekki verðug arfleifðar í hinu himneska ríki Guðs.‘ … Joseph Smith átti ekki marga friðsæla mánuði, eftir að hann tók á móti sannleikanum, og að lokum var hann myrtur í Carthage-fangelsinu.“8

Guð mun styrkja og blessa þá sem treysta honum á reynslutíma þeirra.

„Kraftur fagnaðarerindisins mun gera okkur kleift að standast og umbera með þolinmæði þær miklu raunir sem hvarvetna dynja á okkur. … Því erfiðari sem ofsóknirnar reynast, því stórkostlegri verða gjafir Guðs til kirkjunnar. Já, allt mun samverka þeim til góðs sem fuslega gefa líf sitt sakir Krists.“9

„Mín eina von og traust felst í þeim Guði sem gaf mér líf, í honum sem er almáttugur, sem er frammi fyrir mér og nekt hjarta míns er honum stöðugt sýnileg. Hann er minn huggari og yfirgefur mig ekki.“10

„Ég veit á hvern ég legg traust mitt, ég stend á bjarginu, steypiregnið megnar ei, nei, það mun ei yfirbuga mig.“11

Eftir að spámaðurinn losnaði úr Liberty-fangelsinu hafði hann þetta að segja um reynslu sína: „Ég þakka Guði, að við erum frjálsir. Þrátt fyrir að sumir okkar ástkæru bræðra hafi þurft að staðfesta vitnisburði sína með blóði sínu og látið lífið fyrir málstað sannleikans –

Skammur en bitur var sársauki þeirra,

og gleði þeirra er eilíf.

Við skulum ekki syrgja líkt og þeir ,sem ekki hafa von‘ [sjá 1 Þess 4:13]. Tíminn nálgast ótt er við sjáum þá á ný og gleðjumst saman, án þess að óttast rangláta menn. Já, þá sem sofið hafa í Kristi mun hann taka með sér, þegar hann kemur og verður dýrðlegur gjörður í sínum heilögu og dáður af öllum trúuðum, og lætur refsingu sína dynja á óvinum sínum og öllum þeim sem ekki hlýða fagnaðarerindinu.

Á þeim tíma munu hjörtu ekknanna og hinna föðurlausu hugguð verða og hvert tár mun þerrað af augum þeirra. Þær þrengingar sem slíkir hafa þurft að þola munu samverka þeim til góðs og búa þau undir samfélag þeirra sem tekist hafa á við miklar þrengingar og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. [Sjá Róm 8:28; Op 7:13–14, 17.]“12

Spámaðurinn skrifaði eftirfarandi í bréf til hinna heilögu þann 1. september 1842, síðar skráð í Kenningu og sáttmála 127:2: „Og þær hættur, sem ég er kallaður til að ganga gegnum, virðast mér smávægilegar, þar sem ég hef alla ævi mína mátt þola öfund og reiði manna. … Engu að síður er ég vanur að synda í djúpu vatni. Það er orðið mér eðlislægt og mér fer, líkt og Páli, að ég finn fögnuð í andstreymi, því að fram á þennan dag hefur Guð feðra minna bjargað mér úr því öllu og mun bjarga mér héðan í frá. Því að sjá og tak eftir, ég mun fagna sigri yfir öllum óvinum mínum, því að Drottinn Guð hefur sagt það.“13

Hinir trúföstu mögla ekki í þrengingum sínum, en eru þakklátir fyrir gæsku Guðs.

Hinn 5. desember 1833 skrifaði spámaðurinn til leiðtoga kirkjunnar, sem í forsæti voru yfir hinum heilögu er ofsóttir voru í Missouri: „Minnist þess að mögla ekki yfir því hvernig Guð breytir við börn sín. Enn hafið þið ekki orðið fyrir jafn erfiðri reynslu og hinir fornu spámenn og postular urðu að takast á við. Minnist Daníels, hinna þriggja hebresku manna [Sadrak, Mesak og Abed-Negó], Jeremía, Páls, Stefáns og margra annarra sem eru of margir til að nefna, er voru grýttir, höggnir, þeirra freistað og þeir drepnir með sverði, og [sem] ráfa máttu um í gærum og geitaskinnum, allsvana, aðþrengdir, pyntaðir, og einskis metnir af heiminum. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum, en þó fengu þeir allir góðan vitnisburð fyrir trú sína [sjá Hebr 11:37–39], og mitt í þrengingum sínum glöddust þeir yfir að vera taldir verðugir þess að þola ofsóknir sakir Krists.

Við vitum ekki hvers af okkur verður krafist áður en Síon verður endurleyst og stofnuð, þess vegna höfum við mikla þörf fyrir að lifa nærri Guði og vera ávallt algjörlega hlýðin öllum hans boðorðum, svo að við höfum hreina samvisku fyrir Guði og mönnum. …

… Við setjum traust okkar á Guð og erum staðráðin í því, fyrir náð hans, að styðja málstaðinn og vera staðföst allt til enda, svo við verðum krýnd kórónu himneskrar dýrðar og göngum inn til þeirrar hvíldar sem fyrirbúin er börnum Guðs.“14

Fimm dögum síðar skrifaði spámaðurinn til leiðtoga kirkjunnar og hinna heilögu í Missouri: „Við skulum vera þakklát fyrir aðstæður okkar, að vera enn á lífi, og ef til vill geymir Guð margt gott í hendi sér fyrir þessa kynslóð og gefur okkur enn kost á að vegsama nafn sitt. Ég finn fyrir þakklæti fyrir að fleiri hafa ekki afneitað trú sinni, ég bið til Guðs, í nafni Jesú, að þið viðhaldið trúnni allt til enda.“15

1. janúar 1836 er þetta skráð í dagbók spámannsins: „Þar sem nú er nýtt ár að hefjast, er hjarta mitt fullt af þakklæti til Guðs yfir því að hann hefur varðveitt líf mitt og fjölskyldu minnar á þessu liðna ári. Við höfum notið styrks og varðveislu meðal ranglátrar og rangsnúinnar kynslóðar, jafnvel þótt við höfum verið berskjölduð gagnvart öllum þrengingum, freistingum og þeirri eymd sem fylgir mannlegu lífi. Fyrir það auðmýki ég mig í duft og ösku, ef svo mætti segja, frammi fyrir Drottni.“16

Spámaðurinn sagði um bata sinn frá veikindum í júní 1837: „Þetta er eitt af þeim mörgu tilvikum þar sem ég við góða heilsu, hef skyndilega staðið við dauðans dyr, en jafn skyndilega læknast, og fyrir það er hjarta mitt fullt af þakklæti til míns himneska föður. Og ég finn mig knúinn til að helga mig sjálfan að nýju og alla mína krafta þjónustunni við hann.“17

Traust á kraft, visku og kærleika Guðs mun hjálpa okkur að láta ekki hugfallast á reynslutímum.

„Alla þá erfiðleika sem á vegi okkar verða þurfum við að yfirstíga. Þótt sálin sé reynd, hjartað örmagnist og hendur verði máttvana, megum við ekki hörfa aftur, við verðum að vera einbeitt og ákveðin.“18

„Í trausti á kraft, visku og kærleika Guðs, hefur hinum heilögu tekist að halda áfram við hinar verstu aðstæður, og iðulega, þegar öllum mönnum virðist dauðinn einn standa fyrir dyrum og tortíming óumflýjanleg, hefur kraftur og dýrð Guðs opinberast og endurlausn hlotnast. Og hinir heilögu hafa, líkt og börn Ísraels sem fóru frá Egyptalandi yfir Rauðahafið, sungið lofsöng og vegsamað hans heilaga nafn.“19

“„Ég veit að erfiðleikar munu taka enda og ríki Satans verða rústað, ásamt öllum hans illu áformum, og að hinir heilögu munu koma fram líkt og gull hreinsað sjö sinnum í eldi, fullkomnaðir í þjáningum og freistingum, og að blessanir himins og jarðar, sem Guð mun veita sökum Krists, verða margfaldaðar yfir höfuð þeirra.“20

„Standið staðfastir, þið hinir heilögu Guðs, bíðið örlítið lengur og stormar lífsins munu líða hjá og þið munuð hljóta umbun af þeim Guði hvers þjónar þið eruð, sem mikils mun meta allar ykkar raunir og þrengingar sökum Krists og fagnaðarerindisins. Nöfn ykkar munu berast til niðja ykkar sem hinir heilögu Guðs.“21

George A. Smith, er þjónaði sem ráðgjafi Brighams Young, hlaut eftirfarandi leiðsögn frá spámanninum Joseph Smith á tímum mikilla erfiðleika: „Hann sagði að ég mætti aldrei láta hugfallast, hverjir sem erfiðleikarnir væru er kynnu að umlykja mig. Þótt ég sykki í dýpstu gjá Nova Scotia og Klettafjöllin hryndu ofan á mig, mætti ég ekki láta hugfallast, heldur standa keikur, efla trú og sýna hugrekki, þá stæði ég að lokum efst á tindinum.“22

Aðeins nokkrum dögum áður en spámaðurinn var myrtur, á þeim tíma er hinir heilögu vissu að líf hans var í hættu, tók Joseph í hönd Abrahams C. Hodge og sagði: „Bróðir Hodge, leyfðu því að koma sem kom vill, afneitaðu ekki trúnni og allt mun fara vel.“23

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina á bls 225–26. Hvers vegna teljið þið að spámaðurinn Joseph Smith hafi getað þolað raunir sínar? Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar er þið sjáið hann fyrir ykkur prédika fyrir söfnuðinum „allur skrámaður og afmyndaður“?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 227. Hvernig teljið þið að þjáningar geti búið ykkur undir upphafningu? (Sjá dæmi á bls. 227–28). Hvað hefur ykkur lærst af þolraunum ykkar?

  • Joseph Smith fullvissar okkur þrisvar í þessum kafla, að „þær þrengingar sem [við þurfum] að þola, munu samverka [okkur] til góðs“ (bls. 229; sjá einnig bls. 228). Hvernig hafið þið séð sannleika þessarar yfirlýsingar?

  • Lesið þriðju og fjórðu málsgreinina á bls. 228. Hvaða reynslu getið þið miðlað þar sem Drottinn hefur huggað ykkur á erfiðum stundum? Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að „standa á bjarginu“?

  • Joseph Smith ráðlagði hinum heilögu að mögla ekki eða kvarta yfir því hvernig Guð breytir gagnvart þeim (bls. 229–30). Á hvaða hátt getur mögl haft áhrif á okkur? Á hvaða hátt ættum við að bregðast við raunum? (Sjá dæmi á bls. 229–32.)

  • Hvaða þýðingu hefur það að vera „einbeitt og ákveðin“ þegar við horfumst í augu við erfiðleika? (bls. 231).

  • Lesið leiðsögn spámannsins til George A. Smith (bls. 231). Hvernig getur leiðsögn hans hjálpað ykkur þegar þið horfist í augu við raunir?

Ritningargreinar tengdar efninu: Sálm 55:22; Jóh 16:33; Al 36:3; He 5:12; K&S 58:2–4; 90:24; 122:5–9

Heimildir

  1. History of the Church, 1:126-64; skáletri sleppt; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 205–8, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Wilford Woodruff, Deseret news: Semi-Weekly, 18. október 1881, bls. 1; stafsetning færð í nútímahorf.

  3. Bréf frá Joseph Smith til Williams W. Phelps og fleiri, 18. ágúst 1833, Kirtland, Ohio; Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 1:449; úr bréfi frá Joseph Smith til Edwards Partridge og fleiri, 5. desember 1833, Kirtland, Ohio.

  5. History of the Church, 5:556; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. ágúst 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  6. History of the Church, 3:294; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty fangelsi, Liberty, Missouri.

  7. History of the Church, 3:286; úr bréfi frá Joseph Smith til Presendia Huntington Buell, 15. mars 1839, Liberty-fangelsið, Liberty, Missouri; nafn systur Buells er ranglega stafsett sem „Bull“ í History of the Church.

  8. John Taylor, Deseret News: Semi-Weekly, 21. ágúst 1883, bls. 1.

  9. Bréf frá Joseph Smith til Williams W. Phelps og fleiri, 18. ágúst 1833, Kirtland, Ohio; Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  10. Bréf frá Joseph Smith til Williams W. Phelps, 31. júlí 1832, Hiram, Ohio; Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  11. History of the Church, 2:343; úr bréfi frá Joseph Smith til Williams Smith, 18. des. 1835, Kirtland, Ohio.

  12. History of the Church, 3:330–31; stafsetning færð í nútímahorf; úr “Extract, from the Private Journal of Joseph Smith Jr.” Times and Seasons, nóv. 1839, bls. 8.

  13. Kenning og sáttmálar 127:2; bréf frá Joseph Smith til hinna heilögu, 1. sept. 1842, Nauvoo, Illinois.

  14. History of the Church, 1:450; úr bréfi frá Joseph Smith til Edwards Partridge og fleiri, 5. des. 1833, Kirtland, Ohio.

  15. History of the Church, 1:455; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til Edwards Partridge og fleiri, 10. des. 1833, Kirtland, Ohio.

  16. History of the Church, 2:352; færsla úr dagbók Josephs Smith, 1. jan. 1836, Kirtland, Ohio.

  17. History of the Church, 2:493; úr “History of the Church” (handrit), bók B-1, bls. 762–63, Skjalasafn kirkjunnar.

  18. History of the Church, 4:570; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 30. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow.

  19. History of the Church, 4:185; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, sept. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 178.

  20. History of the Church, 2:353; færsla úr dagbók Josephs Smith, 1. jan. 1836, Kirtland, Ohio.

  21. History of the Church, 4:337; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu, 7. apríl 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. apríl 1841, bls. 385.

  22. George A. Smith, George A. Smith, “History of George Albert Smith by Himself,” bls. 49, George Albert Smith, Papers, 1834–75, Skjalasafn kirkjunnar.

  23. History of the Church, 6:546; stafsetning færð í nútímahorf; úr “History of the Church” (handrit), bók F-1, bls. 147, Skjalasafn kirkjunnar.

Joseph being tarred and feathered

Nótt eina, hinn 24. mars 1832, í Hiram, Ohio, var Joseph Smith dreginn út af heimili sínu af æstum múg og tjargaður og fiðraður.

John Taylor

John Taylor

family in hospital

„Við setjum traust okkar á Guð og erum staðráðin í því, fyrir náð hans, að styðja málstaðinn og vera staðföst allt til enda.“