Kenningar forseta
23. kafli: „Hve gott og ánægjulegt það er … að dvelja saman í einingu‘


23. kafli

„Hve gott og ánægjulegt það er … að dvelja saman í einingu“

„Stöðugt átak, mikið átak og sameiginlegt átak.“

Úr lífi Josephs Smith

Hinn 27. desember 1832 hlaut spámaðurinn Joseph Smith boð frá Drottni um að hinir heilögu ættu að hefja byggingu musteris í Kirtland (K&S 88:119). Hinn 1. júní 1833 veitti Drottinn spámanninum frekari leiðsögn: „Hér er viska og hugur Drottins – lát reisa húsið, ekki að hætti heimsins, því að ég segi yður ekki að lifa að hætti heimsins … ; lát því byggja það á þann hátt, sem ég mun sýna þremur yðar“ (K&S 95:13–14).

Nokkrum dögum síðar uppfyllti Drottinn loforð sitt og veitti Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu stórkostlega sýn, þar sem þeir sáu skipulag musterisins nákvæmlega. Frederick G. Williams, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði síðar: „Joseph [Smith] tók á móti orði Drottins um að koma með ráðgjafa sína tvo, [Frederick G.] Williams og [Sidney] Rigdon fram fyrir Drottin, sem hugðist sýna þeim skipulag eða líkan hússins sem byggja átti. Við krupum á kné, ákölluðum Drottin og byggingin birtist okkur í augsýn og ég var fyrstur til að sjá hana. Síðan skoðuðum við hana allir saman. Eftir að við höfðum virt ytra útlit hússins vandlega fyrir okkur, var sem það hvolfdist yfir okkur.“1

Þegar Joseph Smith skýrði háprestaráðinu frá hinu dásamlega skipulagi sem opinberað var Æðsta forsætisráðinu, glöddust bræðurnir og héldu þegar í stað út til að velja byggingunni lóð – stað á hveitiakri sem Smith-bræðurnir sáðu í haustið áður. Hyrum Smith hljóp þegar í stað eftir orfi og ljá til að byrja að ryðja landið fyrir framkvæmdir og hrópaði: „Við búum okkur nú undir það að byggja hús fyrir Drottin og ég er staðráðinn í því að verða fyrstur til verka.“2

Eldmóður einkenndi og sameinaði hina heilögu, er þeir unnu af kappi og fórnuðu til þess að geta reist fyrsta musterið á þessum ráðstöfunartíma. Undir leiðsögn Emmu Smith unnu konurnar að því að gera sokka, buxur og síðtreyjur fyrir verkamenn musterisins. Konurnar unnu einnig að gerð gluggatjalda og gólfteppa fyrir musterið og Brigham Young hafði stjórn á öllu innanhúsverki. Bróðir John Tanner seldi 890 hektara sveitabýli sitt í New York og kom til Kirtland einmitt á þeim tíma er spámaðurinn þurfti á 2000 dollara láni að halda til þess að losa veð musterislóðarinnar, sem átti að innkalla. Menn voru settir til að gæta musterisins á næturnar, til að vernda það fyrir ógnandi múgnum, og þar sváfu þeir í sömu vinnufötunum og þeir höfðu klæðst yfir daginn.

Spámaðurinn sagði: „Mikill undirbúningur var hafinn að húsi Drottins, og þrátt fyrir að kirkjan væri fátæk, ríkti eining meðal okkar, samheldni og kærleikur, sem efldi okkur þrótt til að fara að boðum Drottins.“3

Heber C. Kimball, sem varð meðlimur Tólfpostulasveitarinnar ári áður en musterið var vígt, sagði frá þessu mikla verki: „Öll kirkjan sameinaðist í þessu verki og hver maður rétti fram hjálparhönd. Þeir sem engin dráttardýr áttu unnu í grjótnámunni og gerðu steinana klára til dráttar að húsinu.“4 Öldungur Kimball minntist einnig: „Joseph sagði: ,Komið bræður, förum inn í grjótnámuna og vinnum fyrir Drottin.‘ Spámaðurinn fór síðan sjálfur í hörhempu sína og buxur [vinnuföt] og vann í grjótnámunni líkt og hinir. Á hverjum laugardegi var svo komið með öll dráttardýrin til að draga steinana að musterinu. Þannig unnum við þar til húsið var fullklárað, og allan þann tíma prjónuðu, spunnu og saumuðu eiginkonur okkar og … unnu alls kyns störf.“5

Erfiði hinna heilögu í Kirtland var dæmigert fyrir einingu þeirra, fórn og trúfestu, sem gerði það mögulegt að tilgangur Drottins næðist á næstu árum. Þetta var eitt af þeim mörgu skiptum þar sem hinir heilögu stóðu þétt saman og hlýddu áminningum spámannsins Josephs Smith: „Stöðugt átak, mikið átak og sameiginlegt átak.“6

Kenningar Josephs Smith

Þegar við störfum saman í einingu, náum við betur fram tilgangi Guðs.

„[Við] gleðjumst yfir að koma saman með hinum heilögu á enn einni aðalráðstefnu [október 1840]. … Hinir heilögu hafa aldrei áður verið jafn kappsfullir og þróttmiklir og nú í þessu mikla verki á þessum síðari dögum, og [það] veitir okkur gleði og huggun og mikla hvatningu, þegar við glímum við þá erfiðleika sem við okkur blasa.

Látið bræðurna ávallt sýna slíkan anda og veita okkur stuðning, og við verðum og munum sækja fram. Verk Drottins mun halda áfram, musteri Drottins mun reist verða, öldungar Ísraels munu hljóta hvatningu, Síon mun byggð og verða vegsemd, gleði og dýrð jarðarinnar. Og lofsöngur, dýrð, heiður og virðing sé honum sem í hásætinu situr og lambinu, alltaf og að eilífu, og hljómi það frá hæð til hæðar, frá fjalli til fjalls, frá eyju til eyjar og frá heimsálfu til heimsálfu, og ríki þessa heims verða ríki Guðs okkar og Krists hans [sjá Op 11:15].

Við gleðjumst svo sannarlega í þeirri vitneskju að slíkur andi einingar ríki meðal allra safnaðanna, á heimilunum og erlendis, í þessari heimsálfu, sem og á eyjum úthafsins, því að samvæmt þessari reglu, og með einbeittu átaki, munum við verða fær um að koma tilgangi Guðs til leiðar.“7

„Byggingu [Nauvoo musterisins] miðar hratt áfram, allir leggja sitt af mörkum og bjóða sig fram við bygginguna af eljusemi og öllum verkum miðar vel áfram og við teljum að byggingunni verði lokið fyrir næsta haust. … Iðulega hafa um 50 manns verið við vinnu í grjótnámunni í vetur, og á sama tíma hafa margir aðrir fengist við steinadrátt og önnur verkefni. …

Á sama tíma og mannskapurinn hefur verið önnum kafinn við hina daglegu iðju og unnið einn tíunda hluta tíma síns, hafa margir aðrir óðfusir komið með tíund sína og helgar gjafir í þessum sama stórkostlega tilgangi. Allt frá stofnun kirkjunnar hefur viljinn greinilega aldrei verið meiri til að hlýða [kröfum] Jehóva, eða meiri eldmóður til að gjöra vilja Guðs, meiri einbeiting fyrir hendi, eða fórnin meiri, allt frá því að Drottinn sagði: ,Reisið musteri fyrir tíundargreiðslur fólks míns.‘ [Sjá K&S 97:10–11.] Andi framtakssemi, mannúðar og hlýðni virtist búa bæði með ungum og öldnum. Bræður og systur, piltar og stúlkur og jafnvel ókunnugir, utan kirkju, eru sameinaðir í fordæmislausu örlæti við að ljúka þessu stórkostlega verki, og ekki megnaði ekkjan, í mörgum tilvikum, að halda að sér höndum, þótt fátæk væri, og lét sína tvo smápeninga af hendi rakna.

Við viljum tjá einlægt þakklæti okkar til allra, ungra sem aldinna, bæði innan og utan kirkju, fyrir þeirra fordæmislausa örlæti, góðvild, dugnað og hlýðni, sem þau hafa sýnt við þetta tækifæri. Ekki að við höfum persónulegan eða einstaklingsbundinn fjárhagslegan hag af því, heldur hitt, að þegar bræðurnir, líkt og í þessu tilviki, eru einhuga í tilgangi sínum og áformum, og allir leggja til krafta sína, natni, erfiði, strit og umhyggju, verður hið veraldlega ekki jafn mikilvægt, ok okkar verður ljúft og byrði okkar létt [sjá Matt 11:30].“8

„Ég mun segja líkt og sálmaskáldið til forna: ,Hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman [í einingu], eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans, eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll,‘ sem er slík eining. ,Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu!‘ Eining er máttur. [Sjá Sálm 133:1–3].”9

Eining okkar vex er við kappkostum að hlýða lögum Guðs og sigrumst á eigingirni og hleypidómum.

Í desember árið 1840 skrifaði spámaðurinn til meðlimanna í Tólfpostulasveitinni og fleiri prestdæmisleiðtoga er þjónuðu í trúboði á Stóra Bretlandi: „Það … gleður huga minn mjög, að góður skilningur hefur verið milli ykkar og að hinir heilögu hafa fúslega hlýtt á ráðgjöf ykkar og unnið af kappi hvert með öðru í þessu kærleiksverki, til eflingar sannleika og réttlætis. Þannig ætti það að vera í kirkju Jesú Krists; eining er máttur. ,Hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman [í einingu]!‘ [Sálm 133:1.] Gerum hinum heilögu hins hæsta kleift að tileinka sér þessa reglu og þá munu hinar stórkostlegustu blessanir verða ávöxtur þeirra, ekki aðeins einstaklingsbundið, heldur fyrir alla kirkjuna – regla ríkisins mun varðveitast, þjónar þess heiðraðir og kröfum þess fúslega og glaðlega hlýtt. …

Sjáið til þess að hinir heilögu hafi í huga að miklir hlutir ráðast af þeirra eigin átaki og að þeir séu kallaðir til að vera samverkamenn okkar og heilags anda við að ljúka þessu mikla verki síðari daga. Og er við ígrundum umfang þess, blessanir þess og dýrð, skulum við ekki aðeins láta af eigingirni, heldur útiloka hana algjörlega. Látið kærleika Guðs og manna vera í fyrirrúmi og ríkja örugglega í hverjum huga, svo hjarta ykkar verði eitt með Enok hinum forna, og skilji alla hluti, í nútíð, fortíð og framtíð og bresti enga gjöf, meðan vænst er komu Drottins vors Jesú Krists [sjá 1 Kor 1:7].

Það verk sem við tökumst sameiginlega á við er ekkert venjulegt. Óvinirnir sem við glímum við eru slóttugir og brögðóttir, okkur ber skylda til þess að vera á varðbergi er við sameinum krafta okkar, og sjá til þess að okkar bestu tilfinningar ríki meðal okkar. Þá munum við, með hjálp hins almáttuga, fara með sigur af hólmi, okkar illu tilhneigingar munu dofna og hleypidómar okkar hverfa. Við munum ekki finna til óvildar í hjörtum okkar, ódyggðin snýr afmyndaðri ásjónu sinni undan og við munum njóta velþóknunar himins og viðurkenningar sem synir Guðs.

Við skulum gera okkur ljóst að okkur ber ekki að lifa fyrir okkur sjálf, heldur fyrir Guð. Gerum við það, munu hinar dásamlegustu blessanir á okkur hvíla um tíma og alla eilífð.“10

Við ættum að segja við hina heilögu sem koma hingað [til Nauvoo]: Við höfum lagt grundvöllinn að samansöfnun lýðs Guðs til þessa staðar, og [við] væntum þess, þegar hinir heilögu koma, að þeir hlíti leiðsögn þess sem Guð hefur útvalið. … Við reynum hér að girða lendar okkar og vísa misgjörðamönnum meðal okkar í burtu, og við berum þá von í brjósti, að þegar bræður okkar koma erlendis frá, muni þeir liðsinna okkur við þetta góða verk; að við fáum náð þessum mikilfenglega ásetningi, svo að ,Síon muni byggð verða í réttlæti, og allar þjóðir flykkjast undir merki hennar;‘ svo að við, fólk Guðs, undir hans leiðsögn og í hlýðni við hans lögmál, munum lifa í réttlæti og sannleika; að þegar tilgangi hans er náð, munum við hljóta hýbýli meðal þeirra sem helgaðir eru.“11

„Allir eigum við okkar vini, sambönd okkar, fjölskyldur og samstarfsmenn, og við skynjum að vináttan … og bróðernið hafa sterklega sameinað okkur og myndað fjölmörg kærleikssambönd. Við höfum meðtekið okkar sameiginlegu trú, jafnvel þá ,sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.‘ [Júd 1:3.] Við höfum hlotið þau forréttindi að hlýða á hið ævarandi fagnaðarerindi, sem borist hefur okkur með spádómsanda, með opnun himnanna, með gjöf heilags anda, með þjónustu engla og með krafti Guðs. … Kirkjan öll er full skyldleika og samkenndar, já, líkami Krists, sem er kirkjan, samkvæmt orðum Páls. Og enginn hluti líkamanns þjáist án þess að hann þjáist allur, því Páll segir engan lim líkamans þjást, án þess að aðrir limir hans þjáist með honum, og engan lim líkamans gleðjast án þess að aðrir limir hans gleðjist með honum [sjá 1 Kor 12:12–27].“12

Ríkulegustu stundlegu og andlegu blessanirnar streyma ætíð frá sameiginlegu átaki.

Í janúar 1841 veittu spámaðurinn Joseph Smith og ráðgjafar hans í Æðsta forsoetisráðinu hinum heilögu sem komu til Nauvoo, frá hinum ýmsu heimshornum, leiðsögn: „Við fáum aðeins komið hinu mikla verki síðari daga til leiðar með einbeittu starfi og einingu … , með því að auka áhuga okkar, bæði stundlega og andlega, því blessanir himins verða að streyma ótruflað til okkar. Við teljum engan vafa leika á þessu.

Ríkulegustu stundlegu og andlegu blessanirnar sem ætíð streyma frá samstilltu átaki, fylgdu aldrei einstaklingsbundnu erfiði eða framtaki. Saga allra fyrri alda staðfesta það ríkulega. …

Við berum þá von í brjósti að hinir heilögu skilji það, er þeir koma hingað, að þeir megi ekki vænta fullkomnunar, eða að hér ríki alls staðar eining, friður og kærleikur. Ef þeir hafa slíkar væntingar, munu þeir eflaust verða fyrir vonbrigðum, því hér eru einstaklingar sem koma ekki aðeins frá ólíkum fylkjum, heldur einnig ólíkum þjóðum, sem enn geta búið yfir fordómum menningar sinnar, og því tekur það nokkurn tíma að sigrast á slíku. Og einnig eru þeir margir sem læðast um og stuðla að misklíð, deilum og óvild, og kalla þannig illt yfir hina heilögu. … Þeir sem koma því til þessa staðar, skulu staðráðnir í því að halda boðorð Guðs, og láta ekki hugfallast yfir því sem upp hefur verið talið, því þá mun farsældar gæta – viska himins mun berast þeim, og að lokum munu þeir sjá, augliti til auglitis, fagna í fyllingu þeirrar dýrðar sem fyrirbúin er hinum réttlátu.

Mikillar áraunar er krafist af hinum heilögu til að musterið verði reist, svo að þeir byggi hús sem þóknanlegt er almættinu, og þar sem máttur hans og dýrð mun opinberast. Því skulu þeir sem fúsir eru til að fórna af tíma sínum, hæfileikum og eigum, til framgangs ríkinu, vegna elsku sinnar á málstað sannleikans, … sameinast okkur í þessu mikla verki síðari daga og með okkur takast á við andstreymið, svo að við fáum að lokum sameiginlega notið dýrðar og sigurs.“13

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Íhugið þessi orð spámannsins Josephs Smith: „Stöðugt átak, mikið átak og sameiginlegt átak“ (bls. 271). Hvað gerist ef átakið er ekki stöðugt og nægilega öflugt? Hvað gerist þegar fólk togar í allar áttir? Hvernig getum við nýtt orð spámannsins á heimilum okkar og í köllunum okkar?

  • Lesið alla fyrstu málsgreinina á bls. 273. Hvers vegna verða byrðir okkar léttar þegar við störfum saman? (Sjá dæmi á bls. 269–73.) Hvaða reglur hafa gert ykkur kleift að starfa með öðrum í meiri einingu?

  • Lesið alla fyrstu málsgreinina á bls. 274. Hvaða hættur geta stafað af eigingirni? Hvað getum við gert til að uppræta eigingirnina í okkur sjálfum? Hvernig líður ykkur þegar þið „látið kærleika Guðs og manna vera í fyrirrúmi“ í hjörtum ykkar?

  • Lesið málsgreinina á bls. 275. Á hvaða hátt hafið þið notið góðs af vináttu og kærleikssamböndum í deildum ykkar og greinum? Hvernig hafa deildir ykkar og greinar notið góðs af því að „kirkjan öll [sé] full skyldleika og samkenndar“?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 276. Hvers vegna teljið þið það vera óskynsamlegt að vænta fullkomnunar meðlima deildar ykkar eða greinar? Hvenær hafið þið séð ófullkominn hóp fólks nýta margvíslega hæfileika sína og getu í sameiginlegum málstað? Hvað hefur leitt af því sameiginlega starfi?

Ritningargreinar tengdar efninu: Matt 18:19–20; Jóh 17:6–26; Mósía 18:21; 3 Ne 11:29–30; K&S 38:24–27; HDP Móse 7:18

Heimildir

  1. Frederick G. Williams, tilvitnun Trumans O. Angell, í Truman Osborn Angell, Autobiography 1884, bls. 14–15, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Hyrum Smith, vitnað í Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1844–5, bók 14, bls. 1–2, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. History of the Church, 1:349; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 269–97, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Heber C. Kimball, “Extracts from H. C. Kimball’s Journal,” Times and Seasons, 15. apríl 1845, bls. 867–68.

  5. Heber C. Kimball, Deseret News, 27. maí 1863, bls. 377; stafsetning færð í nútímahorf.

  6. Tilvitnun Brighams Young, Deseret News: Semi-Weekly, 20. apríl 1867, bls. 2; stafsetning færð í nútímahorf.

  7. History of the Church, 4:212–13; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu, 4. okt. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 187.

  8. History of the Church, 4:608–9; stafsetning færð í nútímahorf; úr “The Temple,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 2. maí 1842; bls. 775–76; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  9. History of the Church, 6:70; úr bréfi frá Joseph Smith til hinna heilögu, 1. nóv. 1843, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. nóv. 1843, bls. 376–77; bréfið er ranglega dagsett 8. nóv. 1843, í History of the Church.

  10. History of the Church, 4:227, 230–31; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til hinna Tólf, 15. des. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. jan. 1841, bls. 258, 260–61; bréfið er ranglega dagsett 19. okt. 1840, í History of the Church.

  11. History of the Church, 5:65–66; úr “The Government of God,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júlí 1842, bls. 858; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  12. “To the Saints of God,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. okt. 1842, bls. 951; stafsetning færð í nútímahorf; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  13. History of the Church, 4:272–73; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, 15. jan. 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. jan. 1841, bls. 276–77.

Hyrum Smith

Eftir að Joseph Smith hafði skýrt frá skipulagi Kirtland-musterisins, líkt og Drottinn opinberaði það, hljóp Hyrum Smith eftir ljá og hrópaði: „Við búum okkur nú undir það að byggja hús fyrir Drottin og ég er staðráðinn í því að verða fyrstur til verka.“

men

„Eining er máttur. ,Hversu fagurt og yndislegtþað er, þegar bræður búa saman [í einingu].ʻ Gerum hinum heilögu hins hæsta kleift að tileinka sér þessa reglu.“