Kenningar forseta
36. Kafli: Hljóta helgiathafnir og blessanir musterisins


36. Kafli

Hljóta helgiathafnir og blessanir musterisins

Musterið er staður flar sem Guð getur „opinberað fólki sínu helgiathafnir húss síns og dýrð ríkis síns, og frætt fólk sitt um leið sáluhjálpar. “

Úr lífi Josephs Smith

Allt frá upphafstíma endurreisnarinnar hafði Drottinn kennt spámanninum Joseph Smith mikilvægi þess að reisa musteri. Þótt spámaðurinn hafi oftsinnis neyðst til að flytja og stöðugt att kappi við tímann og staðið frammi fyrir brýnum úrlausnarefnum, missti hann aldrei sjónar á mikilvægi þess að reisa hús Drottins. Lóð fyrir musteri hafði verið vígð í Independence, Missouri. Lokið hafði verið við byggingu og vígslu fagurs musteris í Kirtland, Ohio. Hornsteinn hafði verið lagður að musteri í Far West, Missouri, sem síðan þurfti að yfirgefa. Þegar meðlimir kirkjunnar tóku að endurskipuleggja líf sitt í Nauvoo – og margir þeirra höfðu ekki atvinnu, nægan mat eða gott húsaskjól – vissi Joseph Smith að mikilvægasta verk hinna heilögu var að reisa musteri enn á ný.

Spámaðurinn og hinir heilögu fóru að boði Drottins og héldu áfram eins hratt og mögulegt var því verki sínu að byggja hús Drottins. Spámanninum var þó ljóst að bygging þess mundi taka mörg ár, og jafnframt að hinir heilögu þurftu á öllum blessunum musterisins að halda. Af þeirri ástæðu veitti Joseph Smith, hinn 4. maí 1842, musterisgjafir til fámenns hóps trúfastra bræðra.

Bræðurnir komu saman í stærra þakherbergi Rauðsteinabyggingar spámannsins, sem hafði verið „gert þannig úr garði að það líktist sem mest musteri að innan.“1 Franklin D. Richards, í Tólfpostulasveitinni, ritaði: „Þegar andinn blés [Joseph Smith] í brjóst að það drægi að lokum lífsstarfs hans, og þegar honum varð ljóst að jarðneskir lífdagar hans gætu verið á enda áður en lokið yrði við musterið, kallaði hann á fáa útvalda til að veita þeim helgiathafnir hins heilaga musteris, svo að hinn guðlegi fjársjóður huga hans glataðist ekki heiminum með dauða hans.“2

Í sögu spámannsins er ritað: „Ég varði deginum á efri hæð verslunarinnar, … á ráðsfundi með James Adams hershöfðingja frá Springfield, Hyrum Smith patríarka, Newel K. Whitney biskupi og George Miller biskupi, Brigham Young forseta og öldungunum Heber C. Kimball og Willard Richards, og fræddi þá um reglur prestdæmisins, hvað varðar laugun, smurningu, musterisgjöf og miðlun lykla í tengslum við Aronsprestdæmið, og svo áfram allt til æðstu reglu Melkísedeksprestdæmisins, kynnti regluna í tengslum við hinn aldna dagnna, og allar áætlanir og reglur sem tryggja mönnum fyllingu þeirra blessana sem fyrirbúnar hafa verið kirkju hins frumgetna, svo þeir hlíti þeim og hljóti upphafningu í návist Elóhims í hinum eilífu heimum. Á þessum ráðsfundi var hin forna regla innleidd í fyrsta sinn á þessum síðari dögum.

Og öll samskipti sem ég átti á þessum fundi voru andlegs eðlis, og verða aðeins meðtekin af hinum andlega sinnaða. Og ekkert var þessum mönnum gert ljóst, nema það sem öllum heilögum hinna síðustu daga verður gert ljóst, um leið og þeir eru undir það búnir að taka á móti því, og viðeigandi staður er fyrir hendi til þeirrar fræðslu, og það jafnvel fyrir hinn veikasta meðal hinna heilögu. Þeir skulu því af kostgæfni byggja musterið, og öll þau hús sem Guð hefur boðið, eða mun héðan í frá bjóða að þeir reisi.“3

Þótt meirihluti hinna heilögu hafi hlotið musterisgjöfina eftir að Nauvoo-musterið hafði verið byggt, var takmörkuðum hópi karla og kvenna leyft að taka á móti þessari blessun á þeim mánuðum sem fylgdu í kjölfar fundarins í maí 1842. Mercy Fielding Thompson var ein úr þeim hópi. Þegar hún hlaut musterisgjöf sína sagði spámaðurinn við hana: „Þetta mun leiða þig úr myrkri í undursamlegt ljós.“4

Kenningar Josephs Smith

Guð býður hinum heilögu að reisa musteri.

Í janúar 1833, í Kirtland, Ohio, ritaði spámaðurinn: „Drottinn bauð okkur í Kirtland að reisa hús Guðs; … það er okkur orð Drottins, og er bindandi fyrir okkur, já, Drottinn hjálpar okkur og við hlýðum. Hann hefur lofað okkur undursamlegum hlutum, bundið hlýðni okkar, já, jafnvel að vitja okkar frá himnum og heiðra okkur með návist sinni. Við berum mikinn kvíðboga í brjósti, að við náum ekki að verðskulda þennan mikla heiður frammi fyrir Drottni, sem meistari okkar hefur í hyggju að veita okkur. Við leitum auðmýktar og sterkrar trúar, svo við þurfum ekki að fyrirverða okkur í návist hans.“5

Í september 1840 lýstu spámaðurinn og ráðgjafar hans í Æðsta forsoetisráðinu því yfir að sá tími voeri kominn að reisa skyldi musteri í Nauvoo: ,Við trúum því að nú sé sá tími upp runninn að nauðsynlegt sé að reisa hús bænar, hús reglu, hús til að tilbiðja Guð [sjá K&S 88:119], þar sem hægt er að veita helgiathafnir að hans guðlega vilja, á þessu landsvæði – og það krefst mikillar áreynslu og efnis – og þar sem hraða þarf verki þessu í réttlæti, ber hinum heilögu að meta í huga sínum mikilvægi þessara hluta, og síðan að taka nauðsynleg skref til að hefjast handa við verkið; girða sig hugrekki og einsetja sér að gera allt hvað þeir geta til að verkinu ljúki sem fyrst og helga sig því af þvílíkum áhuga, líkt og það sé aðeins undir þeim sjálfum komið að því ljúki. Geri þeir það munu þeir líkja eftir hinum dýrðlegu verkum feðranna, og tryggja sjálfum sér og niðjum sínum blessanir himins, allt fram til síðustu kynslóðar.“6

Í janúar 1841 rituðu spámaðurinn og ráðgjafar hans í Æðsta forsætisráðinu: „Musteri Drottins er í byggingu hér [í Nauvoo], þar sem hinir heilögu munu koma saman til að tilbiðja Guð feðra sinna, að reglu húss hans og krafti hins heilaga prestdæmis, og það verður þannig byggt að hægt sé að iðka réttilega allar athafnir prestdæmisins, og þar megi taka á móti fræðslu hins æðsta, og fara út þaðan til fjarlægra landa. Við skulum því helga alla okkar krafta … og keppa að því að líkja eftir verkum hinna fornu sáttmálsfeðra okkar og patríarka í því sem hefur mikla þýðingu fyrir þessa kynslóð og allar komandi kynslóðir.“7

Snemma árs 1841 kenndi Joseph Smith eftirfarandi, líkt og skráð var af William P. McIntire: „Joseph sagði, að Drottinn hefði sagt að okkur bæri að reisa hús hans nafni, þar sem skíra mætti í þágu hinna dánu. Ef við gerðum það ekki, yrði okkur hafnað, og okkar dánu með okkur, og þessi kirkja yrði honum ekki þóknanleg [sjá K&S 124:32].“8

Í apríl 1842 sagði spámaðurinn: „Kirkjan er ekki fyllilega skipulögð, að réttri reglu, og verður það ekki fyrr en lokið hefur verið við byggingu musterisins, þar sem hægt verður að framkvæma helgiathafnir prestdæmisins.“9

Í júlí 1842 sagði spámaðurinn: „Drottinn hefur boðið okkur að reisa [Nauvoo] musterið … ; og það boð er ykkur jafn bindandi og hvað annað. Og sá maður sem ekki helgar sig því verki, hefur brotið af sér líkt og hann bryti eitthvað annað boðorð. Hann fer ekki að vilja Guðs og framfylgir ekki lögmálum hans.“10

Í október 1843 hvatti spámaðurinn hina heilögu: „Hraðið verkinu í musterinu, endurnýið krafta ykkar við að leiða fram allt verk síðari daga, og gangið frammi fyrir Drottni af árvekni og í réttlæti.“11

Í mars 1844 átti spámaðurinn fund með hinum Tólf og byggingarnefnd Nauvoo-musterisins, til að ræða hvernig ráðstafa ætti fátæklegum fjármunum kirkjunnar. Á flessum fundi sagði spámaðurinn: „Við þurfum musterið meira en nokkuð annað.“12

Í musterinu lærum við um eilífðina og tökum á móti helgiathöfnum sáluhjálpar fyrir okkur sjálf og áa okkar.

„Hver er tilgangur þess að safna … fólki Guðs saman á hvaða veraldartíma sem er? … Megin tilgangurinn er sá að reisa Drottni hús þar sem hann getur opinberað fólki sínu helgiathafnir húss síns og dýrð ríkis síns og kennt því leið sáluhjálpar, því að ákveðnar helgiathafnir og reglur er aðeins mögulegt að kenna og iðka í húsi sérstaklega byggðu í þeim tilgangi.

… Ekki má breyta eða bæta við helgiathafnir prestdæmisins, til sáluhjálpar mönnum, sem innleiddar voru á himnum fyrir grundvöllun þessa heims. Allir verða að frelsast samkvæmt sömu reglum.

Það er í þeim sama tilgangi að Guð safnar saman fólki sínu á síðustu dögum, að það reisi Drottni hús til að búa það undir helgiathafnir og musterisgjafir, laugun og smurningu, o. s. frv. Ein helgiathöfn húss Drottins er skírn fyrir hina dánu. Guð bauð, fyrir grundvöllun heimsins, að þá helgiathöfn skyldi framkvæma í fonti sem ætlaður væri í þeim tilgangi í húsi Drottins. …

Kenningin um skírn fyrir hina dánu er greinilega sýnd í Nýja testamentinu; … Af þeirri ástæðu sagði Jesús við Gyðingana; ,Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.‘ [Matt 23:37] – Þeim var boðið að sjá um helgiathafnir í þágu hinna dánu, jafnt sem aðrar helgiathafnir prestdæmisins, og taka á móti opinberunum frá himnum, og fullkomnast í því sem tilheyrði ríki Guðs – en þeir vildu það eigi. Það átti við á hvítasunnudeginum. Þessum blessunum var úthellt yfir lærisveinana í því tilfelli. Guð ákvarðaði að hann mundi frelsa hina dánu, og hugðist gera það með því að safna fólki sínu saman. …

… Hvers vegna að safna fólki sínu saman á þennan stað? Í sama tilgangi og Jesús vildi safna Gyðingunum saman – til að þeir tækju á móti helgiathöfnunum, blessununum og dýrðinni sem Guð geymir sínum heilögu. Ég mun nú spyrja þennan söfnuð, og alla hina heilögu, hvort þið viljið nú reisa þetta hús og taka á móti helgiathöfnunum og blessununum sem Guð geymir ykkur, eða viljið þið ekki reisa Drottni hús, og láta hann fram hjá ykkur ganga og veita öðru fólki blessanir þessar?“13

„Um leið og [Nauvoo] musterið og skírnarfonturinn eru til reiðu, hyggjumst við veita öldungum Ísraels laugun og smurningu, og framkvæma fleiri og tilkomumeiri helgiathafnir, en án þeirra getum við ekki erft himneska ríkið. En það verður að vera helgur staður ætlaður þessum tilgangi. Yfirlýsing var gefin á þeim tíma er grundvöllur musterisins var lagður varðandi þetta, og ráðstafanir gerðar þar til verkinu er lokið, svo að menn geti hlotið musterisgjafir sínar og orðið konungar og prestar hins æðsta Guðs. … En reisa verður þó stað í þessum eina tilgangi, og til að menn geti skírst í þágu hinna dánu. …

Drottinn hefur sett lögmál tengt þessu máli: Það verður að vera sérstakur staður helgaður sáluhjálp okkar dánu. Ég trúi sannlega að staður þurfi að vera, sem menn geta farið á, ásamt fjölskyldum sínum, vilji þeir frelsa sína dánu, með því að láta skírast og taka á móti öðrum helgiathöfnum í þeirra þágu.“14

„Oft er spurt: ,Getum við ekki frelsast án þess að taka á móti öllum þessum helgiathöfnum, o. s. frv.?‘ Ég svara: Nei, ekki fyllingu sáluhjálpar. Jesús sagði: ,Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?‘ [Sjá Jóh 14:2.] Hugtakið vistarvera hefði átt að þýða hér sem ríki, og hver sá sem upphafinn er í æðstu vistarveruna verður að hlíta himnesku lögmáli, og þá öllu lögmálinu.“15

„Ef menn hljóta fyllingu prestdæmis Guðs, verða þeir að hljóta hana á sama hátt og Jesús Kristur hlaut hana, og það var með því að halda öll boðorðin og hlíta öllum helgiathöfnum húss Drottins. …

Allir menn sem erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists verða að taka á móti fyllingu helgiathafna ríkis hans. Og þeir sem ekki vilja taka á móti öllum helgiathöfnunum munu ekki hljóta fyllingu þeirrar dýrðar.“16

„Þótt við læsum og skildum allt sem ritað hefur verið frá dögum Adams, um það hvert samband mannsins við Guð og engla verður í framtíðinni, mundum við vita afar lítið um það. Þótt við læsum um reynslu annarra, eða um opinberanir sem þeir hafa hlotið, getur það aldrei veitt okkur heildrænan skilning á ástandi okkar og raunverulegu sambandi við Guð. Þekkingu á þessu er aðeins hægt að hljóta með reynslu af helgiathöfnum Guðs, sem ætlaðar eru þeim tilgangi. Ef þið gætuð horft inn í himnaríki í fimm mínútur, munduð þið hljóta meiri vitneskju um efnið, en ef þið læsuð allt sem ritað hefur verið um það. … Ég fullvissa hina heilögu um að sannleikann … er hægt og má þekkja með opinberun frá Guði, að hætti helgiathafna hans, og sem bænheyrslu.“17

„Regla húss Guðs hefur verið og mun alltaf verða sú sama, jafnvel eftir komu Krists, og hún verður sú sama að þúsund árunum liðnum. Og við munum að lokum ganga inn í hið himneska ríki Guðs, og njóta þess eilíflega.“18

Musterið er staður heilagleika, þar sem við tökum á móti þeim æðstu blessunum sem Guð geymir börnum sínum.

Spámaðurinn Joseph Smith flutti vígslubæn Kirtland-musterisins, sem veittist honum með opinberun, og síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 109, en hér er hluti hennar: „Og nú biðjum vér þig, heilagi faðir … Að dýrð þín megi hvíla á fólki þínu og á þessu húsi þínu, sem vér nú helgum þér, að það megi heilagt og helgað verða, og að heilög návist þín megi stöðugt verða í þessu húsi – Og að allir þeir, sem ganga inn fyrir þröskuld húss Drottins, megi finna kraft þinn og finna sig knúna til að viðurkenna, að þú hefur helgað það og að það sé þitt hús, staður heilagleika þíns.

Og veit þú, heilagi faðir, að öllum þeim, sem tilbiðja í þessu húsi, verði kennd vísdómsorð úr hinum bestu bókum, og þeir sækist eftir lærdómi með námi og einnig með trú, eins og þú hefur sagt – Og að þeir megi vaxa í þér og hljóta fyllingu heilags anda og laga sig að lögmálum þínum og verða undir það búnir að öðlast allt, sem gagnlegt er – Og að þetta hús verði hús bænar, hús föstu, hús trúar, hús dýrðar og Guðs, já, þitt hús. …

Og vér biðjum þig, heilagi faðir, að þjónar þínir megi fara úr þessu húsi brynjaðir krafti þínum, og að nafn þitt hvíli á þeim og dýrð þín umljúki þá og englar þínir vaki yfir þeim – Og frá þessum stað megi þeir flytja í sannleika stórfengleg og dýrðleg tíðindi til endimarka jarðarinnar. Að þeir megi vita að þetta er þitt verk og að þú hefur rétt út hönd þína til að uppfylla það, sem þú hefur talað um fyrir munn spámannanna varðandi síðustu daga.

Vér biðjum þig, heilagi faðir, að rótfesta þá, sem tilbiðja munu og heiðarlega halda nafni og stöðu sinni í þessu húsi þínu, í alla ættliði og að eilífu – Að engin vopn, sem smíðuð verða gegn þeim, verði sigursæl. Að sá, sem grefur þeim gröf, falli sjálfur í hana – Að engin ranglát samtök hafi kraft til að rísa upp og sigrast á fólki þínu, sem gengst undir nafn þitt í þessu húsi.“19

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið tvær síðustu málsgreinarnar á bls. 412. Á hvað hátt mun musterisstarf „leiða [okkur] úr myrkri í undursamlegt ljós“? Hvað teljið þið felast í því að vera „andlega sinnuð“? Hvers vegna þurfum við að vera „andlega sinnuð“ til að hljóta ljósið sem okkur stendur til boða í musterinu?

  • Þegar hinir heilögu í Nauvoo voru að byggja musterið, sagði spámaðurinn Joseph Smith við þá: „Við þurfum musterið meira en nokkuð annað“ (bls. 414). Lesið bls. 411–14 og leitið að ástæðum þess að yfirlýsing þessi er sönn. Á hvaða hátt er þessi yfirlýsing spámannsins sönn í ykkar lífi?

  • Lesið um kennslu Josephs Smith varðandi fyrirmælin um að reisa musteri (bls. 413–14). Hvers vegna teljið þið að kirkjan hafi ekki verið „fyllilega skipulögð“ án mustera og helgiathafna musterisins? Hvað getum við nú gert til að „[hraða] verkinu í musterinu? Hvers vegna þurfum við að „meta … mikilvægi“ musterisstarfsins?

  • Lesið kenningar spámannsins um helgiathafnirnar og hvað við lærum af þeim (bls. 414–17). Hver af þessum kenningum er ykkur einkar gagnleg til að skilja mikilvægi helgiathafna musterisins?

  • Lesið frystu málsgreinina á bls. 417. Ef þið hafið hlotið musterisgjöf ykkar, hugleiðið þá hvernig sú reynsla hefur veitt ykkur skilning á „ástandi [ykkar] og raunverulegu sambandi við Guð.“ Ef þið hafði aldrei komið í musterið eða ekki farið þangað aftur í nokkurn tíma, hugleiðið þá hvernig þið getið búið ykkur undir að fara í musterið.

  • Hvaða blessanir getum við hlotið af því að fara í musterið? (Sjá dæmi á bls. 417–18.) Hvernig getið þið gert musterissókn ykkar þýðingarmeiri, ef þið takið mið af því efni sem þið lásuð í þessum kafla.

Ritningargreinar tengdar efninu: Sálm 24:3–5; Jes 2:2–3; K&S 124:25–28, 39–41

Heimildir

  1. Lucius N. Scovil, Deseret News: Semi-Weekly, 15. febr. 1884, bls. 2.

  2. Franklin D. Richards, “A Tour of Historic Scenes,“ Contributor, maí 1886, bls. 301; stafsetning færð í nútímahorf.

  3. History of the Church, 5:1–2; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr ”History of the Church” (handrit), bók C-1, bls. 1328–29, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  4. Mercy Fielding Thompson, “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. júlí 1892, bls. 400.

  5. History of the Church, 1:316–17; úr bréfi frá Joseph Smith til William W. Phelps, 11. jan. 1833, Kirtland, Ohio; bréfið er ranglega dagsett 14. jan. 1833 í History of the Church.

  6. History of the Church, 4:186; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Josephs Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, sept. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 178–79.

  7. History of the Church, 4:269; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, 15. jan. 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. jan. 1841, bls. 274.

  8. William P. McIntire, skráður fyrirlestur sem Joseph Smith hélt snemma 1841 í Nauvoo, Illinois; William Patterson McIntire, Notebook 1840–45, Skjalasafn kirkjunnar.

  9. History of the Church, 4:603; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Elizu R. Snow; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  10. History of the Church, 5:65; úr “The Government of God,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júlí 1842, bls. 857–58; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  11. History of the Church, 6:52; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og Times and Seasons, 15. sept. 1843, bls. 331–32; þetta tölublað Times and Seasons var gefið út seint.

  12. History of the Church, 6:230; færsla úr dagbók Josephs Smith, 4. febr. 1844, Nauvoo, Illinois.

  13. History of the Church, 5:423–25; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  14. History of the Church, 6:319; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  15. History of the Church, 6:184; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 21. jan. 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  16. History of the Church, 5:424; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards; sjá einnig viðauka bls. 562, atriði 3.

  17. History of the Church, 6:50–51; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. okt. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og Times and Seasons, 15. sept. 1843, bls. 331; þetta tölublað Times and Seasons var gefið seint út.

  18. History of the Church, 2:309; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. nóv. 1835, í Kirtland, Ohio; skráð af Warren Parrish.

  19. Kenning og sáttmálar 109:10, 12–16, 22–26; bæn flutt af Joseph Smith 27. mars 1836, við vígslu Kirtlandmusterisins í Kirtland, Ohio.

Nauvoo Temple

Hið endurreista Nauvoo-musteri stendur á upprunalegu lóðinni. Þegar hið upprunalega Nauvoo-musteri var í byggingu, sagði spámaðurinn Joseph Smith: „við þurfum musterið meira en nokkuð annað.“

Cardston Alberta Temple

Cardston-musterið í Alberta. Í hinum helgu musterum opinberar Drottinn fólki sínu „dýrð ríkis síns“ og „leið sáluhjálpar. “