Kenningar forseta
4. Kafli: Mormónsbók: Burðarsteinn trúar okkar


4. Kafli

Mormónsbók: Burðarsteinn trúar okkar

„Ég sagði bræðrunum, að Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar.“

Úr lífi Josephs Smith

Rúm 3 ár höfðu liðið frá því að Joseph Smith baðst fyrir að morgunlagi árið 1820, til að fá vitneskju um í hvaða kirkju hann ætti að ganga. Hinn ungi spámaður var orðinn 17 ára gamall og þráði að vita hvar hann stæði frammi fyrir Guði og hljóta fyrirgefningu. Nótt eina, hinn 21. september árið 1823, gekk Joseph til hvílu í herbergi sínu uppi á háalofti heimilis fjölskyldu sinnar í Palmyra, New York, og hélt sér vakandi þar til aðrir í herberginu voru sofnaðir, og bað þess af einlægni að hljóta frekari vitneskju um tilgang Guðs með sig. „Ég tók að ákalla almáttugan Guð,“ sagði hann, „og biðja um fyrirgefningu allra synda minna og heimskupara og að ég mætti þekkja stöðu mína og ástand frammi fyrir honum, því að ég var sannfærður um, að ég ætti eftir að hljóta guðlega vitrun, líkt og ég hafði áður hlotið.“ (Joseph Smith – Saga 1:29).

Sem svar við bæn sinni sá Joseph ljós birtast í herbergi sínu og jókst það stöðugt uns birtan í herbergi hans var orðin „meiri en um hábjartan dag.“ Himneskur sendiboði birtist við rúmstokk hans, sveif þar í lausu lofti, klæddur „óviðjafnlegum hvítum“ kirtli. (Joseph Smith – Saga 1:30-31.) Sendiboði þessi var Moróní, síðasti spámaður Nefíta, sem öldum áður hafði grafið töflurnar sem Mormónsbók var letruð á, og sem nú hafði lyklana að þessum helgu heimildum (sjá K&S 27:5). Hann var sendur til að segja Joseph að Guð hefði fyrirgefið syndir hans1 og hefði dásamlegt verk fyrir hann að vinna. Sem hluti þess verks var Joseph beðinn að fara að nálægri hæð, þar sem helgar heimildir, letraðar á gulltöflur, voru grafnar. Heimildir þessar væru ritaðar af spámönnum sem til forna höfðu verið uppi í Ameríku. Með gjöf og krafti Guðs átti Joseph að þýða heimildirnar og færa þær heiminum.

Daginn eftir fór Joseph að hæðinni þar sem töflur Mormónsbókar voru grafnar. þar hitti hann fyrir Moróní og sá töflurnar, en honum var sagt að hann myndi ekki fá þær afhentar fyrr en að 4 árum liðnum. Hann átti að hefja mikilvægt tímabil undirbúnings til að gera hann hæfan fyrir það helga verk að þýða Mormónsbók. Joseph fór 22. september ár hvert, næstu 4 árin, á hæðina til að taka á móti frekari fyrimælum Morónís (sjá Joseph Smith – Saga 1:33–54.) Á þessum árum vitjuðu hans einnig margir englar Guðs, til að kunngera þá mikilfenglegu og dýrðlegu atburði sem gerast áttu á síðari dögum.“2

Á þessum undirbúningstíma naut spámaðurinn einnig þeirrar blessunar að ganga í hjónaband. Í janúar árið 1827 giftist hann Emmu Hale, sem hann kynntist er hann vann í Harmony, Pennsylvaníu. Emma átti eftir að verða spámanninum mikil stoð í þjónustu hans. Hinn 27. september árið 1827 fór hún með honum að hæðinni, en beið þar nærri á meðan Moróní afhenti spámanninum töflurnar.

Joseph, sem hafði hinar helgu heimildir meðferðis, komst brátt að ástæðu hinna ströngu fyrirmæla Morónís um að gæta taflnanna vandlega (sjá Joseph Smith – Saga 1:59–60). Bæjarmúgur tók að ofsækja spámanninn og gerði ítrekaðar tilraunir til að stela töflunum.Vetrardag einn í desember árið 1827 fóru Joseph og Emma frá Smith-fjölskyldunni og leituðu sér athvarfs hjá foreldrum Emmu í Harmony, í von um að finna stað til að geta unnið í friði. þar byrjaði spámaðurinn þýðingarstarfið. Næsta febrúarmánuð fékk Martin Harris, vinur Smith-fjölskyldunnar frá Palmyra, innblástur um að fara til Harmony og koma spámanninum til hjálpar. Með Martin sem ritara sinn, hélt Joseph áfram þýðingu hinna helgu heimilda.

Þýðing spámannsins yrði síðar gefin út sem Mormónsbók. Sú merkilega bók geymir fyllingu fagnaðarerindisins, og er vitnisburður um sannleiksgildi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og spámannlegt hlutverk Josephs Smith.

Kenningar Josephs Smith

Mormónsbók var þýdd fyrir gjöf og kraft Guðs.

Sem svar við spurningunni: „Hvernig og hvar fannst þú Mormónsbók?“ sagði Joseph: „Moróní, sem gróf töflurnar í hæðinni í Manchester, í Ontario-fylki, New York, sem látinn var og hafði verið reistur upp frá dauðum, birtist mér og sagði mér hvar þær væru og gaf mér leiðbeiningar um hvernig ég ætti að ná þeim. Ég náði í töflurnar og einnig Úrím og Túmmím, sem voru hjá þeim og ég notaði til að þýða töflurnar, en á þann hátt varð Mormónsbók til.“3

„Moróní sagði mér hvar hann hefði grafið töflurnar sem á var letraður útdráttur úr heimildum hinna fornu spámanna, sem uppi höfðu verið í þessari heimsálfu. … Heimildir þessar voru letraðar á töflur sem virtust úr gulli; hver tafla var 15 cm breið og 20 cm löng, og ekki jafn þykk og almennar tintöflur. Á þeim var leturgröftur, egypsk rittákn, og voru þær bundnar saman líkt og bók, og þrír hringir héldu þeim öllum saman. Allar töflurnar voru um 15 cm þykkar og var hluti þeirra innsiglaður. Letur óinnsiglaða hlutans var smátt og fagurlega rist. Öll bókin var forn á að líta og leturgröftur hennar var afar listrænn. Hjá heimildunum voru forvitnileg verkfæri, sem til forna voru nefnd ‚Úrím og Túmmím,‘ er voru tveir steinar greyptir í boga, festir við brjóstplötu. Með hjálp Úríms og Túmmíms þýddi ég heimildirnar fyrir gjöf og kraft Guðs.“4

„Fyrir kraft Guðs þýddi ég Mormónsbók af þessu forna egypska letri, sem geymdi þekkingu er glatast hafði heiminum, og einsamall stóð ég í þessari dásamlegu reynslu, ólærður ungur maður, að kljást við átján alda veraldlegan vísdóm og margslungna vanþekkingu með nýrri opinberun.“5

„Ég minnist á það hér að titilsíða Mormónsbókar er bókstafleg þýðing, sem tekin var af síðustu töflunni, vinstra megin töflustaflans, sem geymir heimildirnar sem þýddar hafa verið, þar sem ritmálið er sett upp að hebreskum hætti [sem er frá hægri til vinstri]; og því er tiltilsíðan alls ekki nútíma ritgerð, hvorki samin af mér né nokkrum öðrum manni sem uppi hefur verið meðal þessarar kynslóðar. … Ég set hér fram hluta af titilsíðu ensku útgáfu Mormónsbókar, sem er ósvikin og bókstafleg þýðing titilsíðunnar, úr hinni upprunalegu Mormónsbók, eins og hún var þýdd af töflunum:

Mormónsbók

Frásögn skrifuð á töflur með hendi Mormóns, fengin af töflum Nefís.

Mormónsbók er þess vegna útdráttur úr heimildum Nefíþjóðarinnar og einnig Lamaníta – Skrifuð fyrir Lamaníta, sem eru leifar af Ísraelsætt, og einnig fyrir Gyðinga og þjóðirnar– Skrifuð eftir boði og einnig með spádóms- og opinberunaranda– Skrifuð og innsigluð og falin Drottni, svo að heimildunum yrði ekki tortímt – Til að koma fram fyrir gjöf og kraft Guðs og verða þýdd – Innsigluð með hendi Morónís og falin Drottni til að koma fram á sínum tíma með þjóðunum. þýðing hennar varð fyrir gjöf Guðs.

Mormónsbók er einnig útdráttur úr Bók Eters, sem er heimild um þjóð Jareds, sem tvístrað var á þeim tíma, er Drottinn spillti máli fólksins, þegar það var að byggja turn til að ná til himins – En þetta á að sýna leifum Ísraelsættar, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir feður þeirra, og til þess að þeir fái þekkt sáttmála Drottins og viti, að þeim er ekki að eilífu vísað frá – Þetta er einnig til að sannfæra Gyðingana og Þjóðirnar, um að Jesus er Kristur, hinn eilífi Guð, er opinberar sig öllum þjóðum – En séu gallar hér á, þá eru þeir mistök manna. Dæmið því ekki það, sem Guðs er, svo að þér verðið flekklaus fundin við dómstól Krists.‘ “6

Viska Drottins er meiri en slægð djöfulsins.

Fyrir 14. júní 1828 hafði þýðingarstarf Josephs Smith af töflum Mormónsbókar skilað 116 blaðsíðna handriti. þá gerðist atvik sem var spámanninum mikil lexía um að það væri hönd Guðs sem væri að leiða fram þessar helgu heimildir. Spámaðurinn skráði: „Nokkru eftir að hr. Harris hóf að skrásetja fyrir mig tók hann að þrábiðja mig um að leyfa sér að taka heimildirnar með sér heim og sýna þær þar og biðja mig að spyrja Drottin, með Úrím og Túmmím, hvort í lagi væri að hann gerði það. Ég spurðist fyrir og hlaut svar um að hann mætti það ekki. Hann sætti sig þó ekki við þetta svar og bað mig að spyrja aftur. Ég gerði það og svarið var hið sama og áður. Samt var hann ekki ánægður og krafðist þess af mér að spyrja einu sinni enn.

Eftir þessa stöðugu þrábeiðni spurði ég Drottin aftur og var honum veitt leyfi til að taka handritið, en þó með sérstökum skilyrðum, sem voru þau að hann myndi aðeins sýna það bróður sínum, Preserved Harris, eiginkonu sinni, föður sínum og móður og frú Cobb, mágkonu sinni. Í samræmi við síðasta svarið fór ég fram á að hann gerði við mig hátíðlegan sáttmála um að gera aðeins það sem honum hafði verið sagt að gera. Það gerði hann. Hann lofaði því sem ég fór fram á við hann, tók handritið og hélt sína leið. Þrátt fyrir þær miklu takmarkanir sem hann hafði gengist undir, og hinn hátíðlega sáttmála sem hann hafði gert við mig, sýndi hann öðrum heimildirnar og með brögðum voru þær teknar af honum og hafa ekki verið endurheimtar fram til þessa dags.“7

Spámaðurinn lýsti yfir í formála fyrstu útgáfu Mormónsbókar að tilgangur Guðs yrði ekki hindraður þótt síðurnar 116 hefðu glatast: „Þar sem margar falskar frásagnir hafa borist út varðandi [Mormónsbók], og einnig margt ólögmætt verið gert af illa gerðum mönnum til að tortíma mér og þessu verki, vil ég skýra ykkur frá því að ég þýddi með gjöf og krafti Guðs og afrakstur þess er skráning hinna eitt hundrað og sextán blaðsíðna, er ég tók úr bók Lehís, sem er útdráttur af frásögn á töflum Lehís, af hendi Mormóns; og þá frásögn hefur einhver einstaklingur, eða einstaklingar, tekið ófrjálsri hendi og haldið frá mér, þótt ég hafi reynt til hins ítrasta að endurheimta hana – og Drottinn hefur boðið mér að endurþýða ekki þetta sama efni, því að ef ég kæmi fram með sama texta, eða með öðrum orðum, ef ég þýddi hið sama aftur, yrði hið stolna birt og Satan myndi ólmast í hjörtum fólks þessarar kynslóðar, svo það mundi ekki meðtaka verk þetta: Sannlega segi ég þér, að ég leyfi ekki, að Satan komi sínum illu fyrirætlunum fram í þessu máli. Þú skalt þýða áletrunina, sem grafin er á töflur Nefís, þar til þú kemur að því sem þú hefur þýtt og varðveitt; og sjá þú skalt birta það sem frásögn Nefís; og þannig mun ég smána þá, sem breytt hafa orðum mínum. Ég mun ekki leyfa, að þeir tortími verki mínu. Já, ég mun sýna þeim að viska mín er meiri en slægð djöfulsins. [Sjá K&S 10:38–43].

Ég hef þess vegna fyrir náð og miskunn Guðs og hlýðni við boðorð hans fengið áorkað því sem hann hefur boðið mér varðandi þetta mál.“8

Mormónsbók er orð Guðs.

„Ég sagði bræðrunum að Mormónsbók væri réttasta bók á allri jörðu og burðarsteinn trúar okkar og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar.“9

Trúaratriðin 1:8: „Vér trúum, að Biblían sé orð Guðs, að svo miklu leyti sem hún er rétt þýdd. Vér trúum einnig, að Mormónsbók sé orð Guðs.“10

„[Mormónsbók] segir frá því að frelsari okkar hafi birst í þessari heimsálfu eftir að hann var upprisinn; að hann hafði stofnsett fagnaðarerindið þar í allri fyllingu þess og auðgi, krafti og blessunum; að fólkið hafi haft postula, spámenn, hirða, kennara og trúboða, sömu regluna, sama prestdæmið, sömu helgiathafnirnar, gjafirnar og blessanirnar og voru fyrir hendi í austurálfu; að fólkið hefði verið útilokað vegna brota þess; að síðustu spámennirnir sem uppi hefðu verið meðal þess hefðu fengið fyrirmæli um að rita heimildir um spádóma þeirra, sögu o. þ. h., og fela þær í jörðu, til að þær kæmu fram og sameinuðust Biblíunni og tilgangur Guðs næði fram að ganga á hinum síðari dögum.“11

David Osborn var viðstaddur þegar Joseph Smith prédikaði í Far West, Missouri, árið 1837. Hann minntist þessara orða spámannsins: „Mormónsbók er sönn, rétt eins og hún segist vera, og ég vænti þess að þurfa að standa skil á þeim vitnisburði á dómsdegi.“12

Ritningarnar gleðja, hugga og veita visku okkur til sáluhjálpar.

„Prentun og dreifing Mormónsbókar tengist uppbyggingu ríkisins, svo og Kenning og sáttmálar … og ný þýðing [Biblíunnar]. Ekki er nauðsynlegt að segja nokkuð um þessi ritverk. Þeir sem hafa lesið þau og drukkið í sig þá þekkingu sem þau geyma, kunna að meta þau og enda þótt heimskingjar kunni að gera lítið úr þeim, er þeim ætlað að færa mönnum visku og sáluhjálp og sópa burtu rykvefjum alda og hjátrúar og varpa ljósi á verk Jehóva, sem þegar hefur náð fram að ganga, og marka framtíðina samkvæmt hinum hræðilega og dýrðlega raunveruleika. Þeir sem hafa notið góðs af því að nema þessi ritverk, munu eflaust sækjast eftir því af sameiginlegum áhuga að verða sendir út um heim allan, svo að allir synir Adams fái notið sömu forréttinda og geti glaðst í sama sannleika.“ 13

„[Síðari daga ritningar eru gefnar út] svo að hinir heiðarlegu í hjarta megi hljóta gleði og huggun og halda áfram í fögnuði, þar sem sálir þeirra hafa lokist upp og skilningur þeirra uppljómast af þekkingu á verki Guðs meðal ættfeðranna á fyrri tímum, sem og því sem hann hyggst gera á síðari dögum til uppfyllingar orðum sínum.“14

„Við tökum hin helgu rit okkur í hendur og viðurkennum að þau séu veitt með innblæstri mönnum til góðs. Við trúum að Guði hafi hugnast að tala frá himnum og láta í ljós vilja sinn varðandi alla menn, til að gefa þeim réttvís og helg lög, sem beini þeim og breytni þeirra á hinn rétta veg, svo að hann geti á sínum tíma tekið þá og gert þá að samörfum sonar síns.

En þegar sú staðreynd hefur verið viðurkennd, að ritningarnar hafi að geyma vilja himins, erum við þá ekki bundin því, sem vitsmunaverur, að lifa í samræmi við öll lífsgildi þeirra? Mun játningin ein og sér, um það að þær geymi vilja himins, verða okkur til góðs, ef við lifum ekki eftir öllum kenningum þeirra? Erum við ekki í andstöðu við hina almáttugu vitsmuni himins, ef við játum aðeins hinn kenningarlega sannleika þeirra, en hlítum honum ekki? Breytum við ekki þvert á vitneskju okkar, og þá visku sem himininn hefur veitt okkur, ef við högum okkur þannig? Ef við höfum hlotið opinberanir beint frá himnum, hafa þær vissulega ekki, samkvæmt þessum rökum, verið gefnar til að farið sé léttilega með þær, heldur mun sá sem lætur þær sig litlu varða kalla yfir sig vanþóknun, og sé einhver réttvísi til á himnum, en hún er fyrir hendi, verða allir menn að gangast undir hana, sem játa sannleikann og mátt kenninga Guðs, blessanir hans og fordæmingu, líkt og fram kemur í hinum helgu ritningum. …

… Sá sem er fær um að skilja mátt hins almáttuga, sem himnarnir hafa ritað, fær einnig auðkennt ritmál Guðs í hinni helgu ritningu: Og sá sem les hana oft, mun meta hana að verðleikum, og sá sem er henni kunnugur, mun þekkja hönd hans í öllu og þegar menn hafa loks uppgötvað hana, munu þeir ekki aðeins sætta sig við staðfestingu, heldur hlíta öllum himneskum kenningum hennar.“15

„Ó, þið Tólf, og allir heilagir, njótið hags af þessum mikilvæga lykli! – Lítið til hans í öllum ykkar erfiðleikum, freistingum, hörmungum, fjötrum, fangelsun, sorgum og dauða, svo að þið bregðist ekki himninum, svo að þið bregðist ekki Jesú Kristi, svo að þið bregðist ekki bræðrunum, svo að þið vanvirðið ekki opinberanir Guðs, hvort heldur í Biblíunni, Mormónsbók eða Kenningu og sáttmálum eða sem á annan hátt verða gefnar mönnum í þessum heimi eða í þeim sem koma mun.“16

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið um þá reynslu sem Joseph Smith hlaut 21. september 1823 og 22. september 1827 (bls 57–59). Hvernig teljið þið að sú reynsla hafi búið hann undir að þýða af töflunum? Hvernig hafið þið verið búin undir köllun frá Drottni?

  • Lesið alla fyrstu málsgreinina á bls. 62, með sérstaka áherslu á tilgang Mormónsbókar. Á hvaða hátt hafið þið séð tilgang þennan uppfyllast í lífi ykkar og annarra?

  • Hvað lærið þið um Guð er þið ígrundið frásögn spámannsins þar sem honum var boðið að endurþýða ekki 116 blaðsíður hins glataða handrits (bls. 62–63)? Hvernig getur skilningur á þessari frásögn haft áhrif á ákvarðanatöku okkar?

  • Lesið aðra málsgreinina á bls. 63. og veitið athygli að burðarsteinn í hlöðnum steinboga er efstur og heldur öllum hinum steinunum í skorðum. Á hvaða hátt er Mormónsbók „burðarsteinn trúar okkar“? Hvernig hefur Mormónsbók gert ykkur kleift að komast „nær Guði“?

  • Joseph Smith ræddi um blessanir sem hljótast af því að hafa „drukkið í sig þá þekkingu“ sem ritningarnar geyma og „notið góðs“ af orði Guðs (bls. 64–65). Hvaða þýðingu finnst ykkur þessi orð hafa varðandi ritningarnám? Hvað getum við gert til að ritningarnám okkar verði innihaldsríkara?

  • Lesið aðra málsgreinina á bls. 64. Hvers vegna teljið þið að hjá þeim sem nemi ritningarnar vakni þrá til að deila þeim með öðrum? Hvað getum við gert til að miðla Mormónsbók? Hver er reynsla ykkar af því að miðla Mormónsbók eða af því að einhver hefur miðlað ykkur henni?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 64. Hvaða ritningargreinar í Mormónsbók hafa veitt ykkur „gleði og huggun“? Á hvaða hátt hefur Mormónsbók upplýst skilning ykkar?

Ritningargreinar tengdar efninu: Esek 37:15–17; formáli Mormónsbókar; 1 Ne 13:31–42; 2 Ne 27:6–26; K&S 20:6–15; JS – S 1:29–54

Heimildir

  1. Sjá Joseph Smith, History 1832, bls. 4; Letter Book 1, 1829–35, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 4:537; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og George Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1.mars 1842, bls. 707.

  3. History of the Church, 3:28; úr ritstjórnargrein í Elders’ Journal, júlí 1838, bls. 42–43; Joseph Smith var ritstjóri þessa tímarits.

  4. History of the Church, 4:537; stafsetning færð í nútímahorf; málsgreinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og George Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1842, bls. 707.

  5. History of the Church, 6:74; úr bréfi frá Joseph Smith til James Arlington Bennet, 13. nóv. 1843, Nauvoo, Illinois; eftirnafn James Bennet er ranglega stafsett „Bennett“ í History of the Church.

  6. History of the Church, 1:71–72; orð í sviga upprunaleg; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 34–35, Skjalasafn kirkjunnar.

  7. History of the Church, 1:21; stafsetning færð í nútímahorf; málsgreinaskilum bætt við; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 9–10, Skjalasafn kirkjunnar.

  8. Formáli fyrstu (1830) útgáfu Mormónsbókar, málsgreinaskilum bætt við.

  9. History of the Church, 4:461; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. júní 1841, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  10. Trúaratriðin 1:8.

  11. History of the Church, 4:538; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og George Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1842, bls. 707–8.

  12. Tilvitnun Davids Osborn, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 15. mars 1892, bls. 173.

  13. History of the Church, 4:187; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, sept. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 179.

  14. Bréf frá Joseph Smith til Times and Seasons, í kringum mars 1842, Nauvoo, Illinois; Miscellany, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar; bréfið var greinilega ekki sent.

  15. History of the Church, 2:11, 14; stafsetning færð í nútímahorf; málsgreinaskilum bætt við; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, febr. 1834, bls. 136; mars 1834, bls. 142.

  16. History of the Church, 3:385; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. júní 1839, í Montrose, Iowa; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards. Skráning þessa fyrirlesturs öldungs Richards var byggð á skráningu annarra á fyrirlestrinum. Öldungur Richards notaði einnig skráningu annarra þegar hann skráði fyrirlestur spámannsins sem hann hélt 27. júní 1839 og fyrirlestranna tveggja sem dagsettir eru „í kringum júlí 1839.“ Vísað er í þessa fyrirlestra víða í bókinni.

Joseph receiving gold plates

Joseph Smith fékk gulltöflurnar frá Moróní 22. september 1827. „Ég náði í töflurnar,“ vitnaði spámaðurinn, „og einnig Úrím og Túmmím, sem voru hjá þeim, og ég notaði til að þýða töflurnar, en á þann hátt varð Mormónsbók til.“

first edition of Book of Mormon

Vinstra megin: Titilsíða fyrstu útgáfu Mormónsbókar.

couple reading scriptures

Síðari daga ritningar eru gefnar út „svo að hinir heiðarlegu í hjarta megi hljóta gleði og huggun og halda áfram í fögnuði.“