Kenningar forseta
7. Kafli: Skírn og gjöf heilags anda


7. Kafli

Skírn og gjöf heilags anda

„Skírn með vatni án skírnar með eldi og heilögum anda er til einskis, flví fletta tvennt er nauðsynlegt og óaðskiljanlega tengt.“

Úr lífi Josephs Smith

Á tímum Josephs Smith rann Susquehanna-fljótið í stórum bugðum um skóg harðviðartrjáa og furutrjáa, umlukt aflíðandi hæðum og kornökrum. Það var stærsta áin í Pennsylvaníu og miðja landslagsins umhverfis Harmony, Pennsylvaníu. Þar sem áin var nærri heimili spámannsins og bauð upp á friðsæla staði, fór hann stundum þangað til að íhuga og biðjast fyrir.

Það var að bökkum þessa fljóts sem spámaðurinn og Oliver Cowdery fóru 15. maí 1829 til að biðjast fyrir um mikilvægi skírnar. Þeir urðu bænheyrðir með því að Jóhannes skírari birtist þeim og veitti þeim Aronsprestdæmið og gaf þeim fyrirmæli um að skíra hvor annan. Þá blessun, sem þeir höfðu leitað eftir, var nú hægt að framkvæma á viðeigandi hátt og með krafti og valdi Guðs. Þeir fóru ofan í ána og skírðu hvor annan, Joseph skírði Oliver fyrst, eins og Jóhannes hafði gefið fyrirmæli um. Joseph lagði þar næst hendur á höfuð Olivers og vígði hann Aronsprestdæminu og það sama gerði Oliver við Joseph. Spámaðurinn sagði:

,Við upplifðum undursamlegar og dýrðlegar blessanir frá himneskum föður. Um leið og ég hafði skírt Oliver Cowdery kom heilagur andi yfir hann, og hann reis á fætur og spáði fyrir um margt, sem senn átti eftir að gerast. Og um leið og ég hafði skírst af hans hendi, kom spádómsandinn yfir mig er ég reis á fætur, og tók að spá um uppgang þessarar kirkju og margt annað tengt kirkjunni og þessari kynslóð mannanna barna. Við fylltumst heilögum anda og fögnuðum í Guði hjálpræðis okkar“ (Joseph Smith - Saga 1:73).

Blessun skírnar var síðan fljótlega veitt öðrum sem trúðu. Síðar, í maímánuði, kom Samuel, yngri bróðir spámannsins, í heimsókn til Josephs og Olivers í Harmony. ,Við … reyndum mikið að sannfæra hann um fagnaðarerindi Jesú Krists, sem nú var rétt í þann mund að opinberast í fyllingu sinni,“ sagði spámaðurinn. Samuel hlaut vitnisburð um verkið og Oliver Cowdery skírði hann. Samuel „sneri síðan til heimilis föður síns og vegsamaði og lofaði Guð af miklum móði, fylltur heilögum anda.“1 Í júní skírði spámaðurinn eldri bróður sinn, Hyrum, sem lengi og staðfastlega hafði trúað boðskap spámannsins. „Upp frá þessu tóku margir trú,“ skráði Joseph, „og sumir létu skírast meðan við héldum áfram að kenna og sannfæra.“2

Spámaðurinn var einkar þakklátur er faðir hans, Joseph Smith eldri, lét skírast. Spámaðurinn elskaði föður sinn innilega, en hann hafði verið fyrstur til að trúa boðskap hans eftir fyrstu heimsókn Morónís. Joseph Smith eldri skírðist 6. apríl 1830, sama dag og kirkjan var stofnuð. Móðir spámannsins, Lucy Mack Smith, sagði: „Joseph var á þurru landi þegar faðir hans kom upp úr vatninu og hrópaði um leið og hann tók í hönd hans: , … Ég hef lifað það að sjá föður minn skírast í hina einu sönnu kirkju Jesú Krists.‘ Og hann huldi andlit sitt í faðmi föður síns og grét af gleði, líkt og Joseph gerði til forna er hann sá föður sinn koma til Egyptalands.“3

Á stofndegi kirkjunnar meðtóku margir hinna heilögu, sem áður höfðu látið skírast, gjöf heilags anda með valdi Melkísedeksprestdæmisins. Spámaðurinn Joseph Smith lagði mikla áherslu á bæði skírn og gjöf heilags anda með handayfirlagningu í kennslu sinni. „Skírn með vatni án skírnar með eldi og heilögum anda, er til einskis,“ sagði hann, „því þetta tvennt er nauðsynlegt og óaðskiljanlega tengt. Menn verða að fæðast af vatni og anda til að komast í Guðs ríki.“4

Kenningar Josephs Smith

Helgiathöfn skírnar er nauðsynleg til upphafningar.

„Guð hefur sett mörg tákn á jörðina, sem og á himininn, til dæmis skógareikina, ávexti trjánna og jurtir akranna – allt ber þetta vitni um að fræjum hafi verið sáð þar, því Drottinn hefur boðið að hvert það tré, hver sú planta eða sú jurt sem ber fræ, skuli aðeins gefa af sér eigin tegund, en ekki aðrar eftir öðru lögmáli eða annarri reglu.

Samkvæmt sömu reglu fullyrði ég að skírn er tákn vígt af Guði, sem þeir er trúa á Krist taka á sig til að komast í ríki Guðs, en frelsarinn sagði: ,Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda‘ [sjá Jóh 3:5]. Það er tákn og fyrirmæli sem Guð hefur veitt manninum til inngöngu í ríki hans. Þeir sem leita inngöngu á annan hátt gera það til einskis, því Guð mun hvorki taka á móti þeim, né munu englar viðurkenna verk þeirra, þar sem þeir hafa hvorki hlítt helgiathöfnunum, né gefið þeim táknum gaum sem Guð hefur ákvarðað manninum til sáluhjálpar, til að búa hann undir og veita honum rétt til himneskrar dýrðar. Og Guð hefur boðið að allir þeir sem ekki hlýði rödd hans skuli ekki fá umflúið fordæmingu heljar. Hvað er fordæming heljar? Að ganga til liðs við samfélag þeirra sem ekki hafa hlýtt fyrirmælum Guðs.

Skírn er Guði, englum og himni til tákns um að við lútum vilja Guðs, og undir himnum finnst engin önnur leið sem Guð hefur vígt manninum til frelsunar, og til inngöngu í ríki Guðs, nema fyrir trú á Jesú Krist, iðrun og skírn til fyrirgefningar syndanna; og allar aðrar leiðir eru til einskis; og þá hafið þið fyrirheit um gjöf heilags anda.“5

„Þegar við skoðum hinar helgu síður Biblíunnar og könnum kenningar spámannanna og postulanna, finnst ekkert efni sem tengist meira sáluhjálp en skírnin. … Við skulum átta okkur á að hugtakið skírn er dregið af grísku sögninni baptiso, sem þýðir að niðurdýfa. …

“… Við ættum að kynna okkur leiðsögn og fyrirmæli Jesú sjálfs um þetta efni. – Hann sagði við hina Tólf, eða fremur hina ellefu á þeim tíma: ,Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður‘: Þannig er það skráð í Matteusarguðspjalli [Matt 28:19–20]. Í Markús eru þessi mikilvægu orð: ,Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða‘ [Mark 16:15–16]. …

“… ,Nikódemus, … ráðsherra meðal Gyðinga … kom til Jesú um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum. Jesús svaraði honum: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju. Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst? Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda‘ [Jóh 3:1–5].

Þetta áhrifamikla og jákvæða svar Jesú um skírn með vatni er svar við spurningunni: Ef Guð er sá sami í dag og í gær og alla daga, er engin furða að slíkrar jákvæðni gæti í þessari dásamlegu yfirlýsingu: ,Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.‘ [Mark 16:16.] Ekkert annað nafn hefur verið gefið undir himninum, og engin önnur helgiathöfn heimiluð, sem menn geta frelsast fyrir: Engin furða að postulinn hafi sagt að þegar við vorum ,greftraðir með Kristi í skírninni,‘ munum við öll rísa upp frá dauðum! [Kól 2:12.] Engin furða að Páll hafi þurft að rísa á fætur til að láta skírast og hreinsa burtu syndir sínar [sjá Post 9:17–18].“6

Hinir heilögu hafa á öllum ráðstöfunartímum látið skírast í nafni Jesú Krists.

„Hinir fornu, sem í raun voru forfeður kirkjunnar á hinum ýmsu öldum, á blómaskeiðum hennar á jörðinni, … voru innvígðir í ríkið með skírn, því það kemur glögglega fram í ritningunni – að Guð breytist ekki. Postulinn segir fagnaðarerindið vera kraft Guðs til hjálpræðis þeim sem trúa; og upplýsir einnig að lífið og ódauðleikinn hafi verið gerð að veruleika með fagnaðarerindinu [sjá Róm 1:16; 2 Tím 1:10]. …

Þegar við gefum okkur að ritningin segi það sem hún meinar og meini það sem hún segir, byggjum við á nægilega sterkum grunni til að sannreyna í Biblíunni að fagnaðarerindið hafi alltaf verið hið sama, svo og helgiathafnir þess og embættisskyldur og táknin og ávextirnir sem af fyrirheitunum leiða. Nói hlýtur því að hafa látið skírast og verið vígður prestdæminu með handayfirlagningu o. s. frv., því hann var prédikari réttlætis. Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron [sjá Hebr 5:4]. …

… Greinilegt og rétt er að þar sem synd var meðal manna var iðrun jafn nauðsynleg á einum tíma heims sem öðrum – og engan annan grunn geta menn lagt en þann sem þegar hefur verið lagður, sem er Jesús Kristur. Ef Abel var því réttlátur maður, hefur hann orðið það með því að halda boðorðin; ef Enok var nægilega réttlátur til að koma í návist Guðs og ganga með honum, hlýtur hann að hafa orðið það með því að halda boðorðin. Og þetta á við um alla réttláta menn, hvort heldur Nóa, prédikara réttlætis; Abraham, föður hinna trúföstu; Jakob, sigurvegara í Guði; Móse, manninn sem ritaði um Krist og leiddi fram lögmálið, samkvæmt fyrirmælum, sem tyftara til að leiða menn til Krists; eða sjálfan Jesú Krist, sem hafði enga þörf fyrir iðrun, því hann var syndlaus, líkt og hin hátíðleg yfirlýsing til Jóhannesar gefur til kynna: – Lát mig skírast af þér, því enginn maður kemst inn í ríkið án þess að hlíta þessari helgiathöfn, því þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti [sjá Þýðing Joseph Smith – Matt 3:43]. Og þar sem Jóhannes og Jesús Kristur, frelsarinn, þurftu vissulega að fullnægja öllu réttlæti með því að láta skírast – ber vissulega öllum öðrum mönnum sem leita himnaríkis að fara að því fordæmi, því það eru dyrnar, og reyni einhver að fara yfir annars staðar er sá hinn sami þjófur og ræningi! [Sjá Jóh 10:1–2.]

Á fyrri öldum heimsins, áður en frelsarinn kom til jarðar í holdinu, voru ,hinir heilögu‘ skírðir í nafni Jesú Krists sem koma átti, þar sem annað nafn hafði aldrei verið gefið sem menn gætu frelsast fyrir. Og eftir að hann kom í holdinu og var krossfestur, voru hinir heilögu skírðir í nafni Jesú Krists, sem krossfestur var, reis upp frá dauðum og sté upp til himins, svo að þeir yrðu greftraðir og skírðir og reistir upp í dýrð, líkt og hann. Og þar sem aðeins er einn Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra [sjá Ef 4:5–6], eru einnig einar dyr að hýbýlum himnasælunnar.“7

Börn sem deyja fyrir ábyrgðaraldur hafa enga þörf fyrir skírn; þau eru endurleyst fyrir friðþægingu Jesú Krists.

„Skírn er til fyrirgefningar synda. Börn eru syndlaus. Jesús blessaði þau og sagði: ,Gjörið það sem þið hafið séð mig gjöra.‘ Börn eru öll gerð lifandi í Kristi og þeir sem eldri eru verða það fyrir trú og iðrun.“8

„Sú kenning að skíra verði börn, eða dreypa á þau vatni, ella verði þau að kveljast í helju, er ekki sönn, er ekki studd í hinu helga riti, og er ekki í samræmi við eðli Guðs. Öll börn eru endurleyst fyrir blóð Jesú Krists og á sama andartaki og þau kveðja þennan heim, eru þau tekin í faðm Abrahams.“9

Spámaðurinn Joseph Smith lýsti eftirfarandi sem hluta af sýn sem hann fékk hinn 21. janúar 1836, og síðar varð Kenning og sáttmálar 137:1, 10: „Himnarnir lukust upp fyrir okkur og ég sá hið himneska ríki Guðs og dýrð þess. … Og sá einnig, að öll börn, sem deyja áður en þau ná ábyrgðaraldri, eru hólpin í himneska ríkinu.“10

Að lokinni skírn með vatni meðtökum við heilagan anda með handayfirlagningu.

„Fagnaðarerindið krefst skírnar með niðurdýfingu til fyrirgefningar syndanna, sem á hinu upprunarlegu máli merkir – að greftra eða dýfa í kaf. … Ég hef trú á gjöf heilags anda með handayfirlagningu, [líkt og fram kemur] er Pétur prédikaði á hvítasunnudegi, Post 2:38. Menn geta rétt eins skírt sandpoka eins og mann, sé það ekki gert til fyrirgefningar syndanna og viðtöku heilags anda. Skírn með vatni er aðeins annar hluti skírnar og er einskis virði án hins hlutans – sem er skírn með heilögum anda. Frelsarinn sagði: ,Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.‘ [Jóh 3:5.]“11

Daniel Tyler minntist ræðu sem spámaðurinn flutti í Springfield, Pennsylvaníu, árið 1833: „Meðan á stuttri heimsókn hans stóð prédikaði hann á heimili föður míns, sem var lítill bjálkakofi. Hann las 3. kapítula Jóhannesarguðspjalls, … og sagði til að útskýra 5. versið: ,Að fæðast af vatni og anda‘ merkir að vera dýft ofan í vatnið til fyrirgefningar syndanna og þar á eftir að meðtaka gjöf heilags anda. Hún er veitt með handayfirlagningu af þeim sem valdsumboð hefur til þess, veitt honum af Guði.“12

„Endurfæðing fæst af anda Guðs með helgiathöfnum.“13

„Skírn er helgiathöfn sem kemur á undan viðtöku á gjöf heilags anda. Hún er leið og lykill að veitingu heilags anda. Gjöf heilags anda með handayfirlagningu verður ekki veitt eða móttekin samkvæmt neinum öðrum reglum en reglum réttlætisins.“14

„Hvað ef við freistuðumst til að hljóta gjöf heilags anda á einhvern annan hátt en að ráði og tilhögun Guðs – hlytum við hana? Vissulega ekki, allar aðrar leiðir brygðust. Drottinn segir að ef við förum að orði hans, muni hann blessa okkur.

Vissa lykla og tákn tilheyrandi prestdæminu verður að virða til að hljóta blessunina. Táknið sem Pétur [kenndi] var að iðrast og láta skírast til fyrirgefningar syndanna, með fyrirheiti um gjöf heilags anda; og á engan annan hátt er mögulegt að hljóta gjöf heilags anda [sjá Post 2:38].

Munur er á heilögum anda og gjöf heilags anda. Kornelíus meðtók heilagan anda áður en hann var skírður, sem var honum sannfæringarkraftur Guðs um sannleika fagnaðarerindisins, en gjöf heilags anda gat hann ekki hlotið fyrr en eftir að hann lét skírast. Hefði hann hvorki tekið á sig táknið, né helgiathöfnina, hefði heilagur andi, sem sannfærði hann um sannleika Guðs, yfirgefið hann. [Sjá Post 10:1–48.] Hann hefði ekki getað læknað sjúka eða boðið illum anda að fara út af mönnum, og hinn illi andi hlýtt því, fyrr en hann hefði hlýtt þessum helgiathöfnum og meðtekið gjöf heilags anda með handayfirlagningu, að reglu Guðs. Því hinn illi andi hefði getað sagt það sama við hann og illu andarnir sögðu við syni Skeva: ,Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?‘ [Sjá Post 19:13–15.]“15

Í desember árið 1839, er Joseph Smith og Elias Higbee voru í Washington, D.C., og reyndu að fá bætt úr flví ranglæti sem hinir heilögu höfðu þolað í Missouri, rituðu fleir eftirfarandi: „Í viðtali okkar við forsetann [Bandaríkjanna], spurði hann okkur ítarlega út í það hvað skildi okkar trúarbrögð frá öðrum trúfélögum samtímans. Bróðir Joseph sagði okkur hafa ólíkan hátt á við skírn og veitingu gjafar heilags anda með handayfirlagningu. Við teldum öll önnur álitamál varða gjöf heilags anda.“16

Gjöf heilags anda veitir okkur frið, gleði, guðlega leiðsögn og aðrar gjafir.

„Við trúum að við njótum gjafar heilags anda nú, engu síður en gert var á tímum postulanna. Við trúum að [gjöf heilags anda] sé nauðsynleg til að glæða og skipuleggja prestdæmið, að enginn maður geti verið kallaður til að gegna einhverju þjónustuembætti án hennar. Við höfum einnig trú á spádómum, tungutali, vitrunum og opinberunum, á gjöfum og lækningu, og að ekki sé mögulegt að hljóta þetta án gjafar heilags anda. Við trúum að hinir helgu menn til forna hafi talað knúnir af heilögum anda og að hinir helgu menn á okkar tímum tali samkvæmt sömu reglu. Við trúum að hann sé huggari og vitnari, að hann minni okkur á allt, leiði okkur í allan sannleika, og sýni okkur það sem verða mun. Við trúum að ,enginn [geti] sagt: Jesús er Drottinn! nema af heilögum anda.‘ [sjá 1 Kor 12:3.] Við höfum trú á þessu [gjöf heilags anda] í allri sinni fyllingu, veldi, mikilleika og dýrð.“17

Í febrúar árið 1847, nær þremur árum eftir að spámaðurinn Joseph Smith var myrtur, birtist hann Brigham Young forseta og veitti honum flessi boð: „Segðu fólkinu að vera auðmjúkt og staðfast og hafa örugglega anda Drottins, sem mun leiða það rétta leið. Að gæta sín á að hrekja ekki burtu hina lágu og hljóðlátu rödd. Hún mun segja [ykkur hvað] gera skal og hvert halda skal og leiða fram ávexti ríkisins. Segðu bræðrunum að vera opnir í hjarta, þannig að þegar heilagur andi kemur til að sannfæra þá, verði þeir viðbúnir því í hjarta að hlýða á hann. Þeir geta greint anda Drottins frá öllum öðrum öndum. Hann mun hvísla friði og gleði í sálir þeirra og afmá illgirni, öfund, erjur og allt illt úr hjörtum þeirra; og þeir munu aðeins þrá að gera gott, koma réttlæti til leiðar og byggja upp ríki Guðs. Segðu bræðrunum, að fylgi þeir anda Drottins, muni þeir halda réttri stefnu.“18

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið bls. 89–90, þar sem spámaðurinn Joseph Smith lýsir tilfinningum sínum er hann og Oliver Cowdery skírðust og er faðir hans skírðist. Hvaða minningar hafið þið um skírn ykkar eða um skírn vinar eða fjölskyldumeðlims? Íhugið að skrá þær minningar í dagbók ykkar eða ævisögu.

  • Fullyrðingarnar á bls. 91–94 eru teknar úr boðskap sem Joseph Smith flutti fólki sem þegar hafði skírst. Hvers vegna teljið þið að meðlimir sem skírðir eru í kirkjuna þarfnist þess að vera minntir á þennan sannleika? Hvaða nýjan skilning hafið þið hlotið við að nema þessar kenningar?

  • Hvað getið þið sagt við vin sem telur skírnina ekki mikilvæga? Hvað getið þið sagt við vin sem telur ungbörn hafa þörf á skírn? (Sjá dæmi á bls. 94–95.)

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 94. Hvers vegna er skírn ,einskis virði‘ án gjafar heilags anda? Joseph Smith sagði: ,Munur er á heilögum anda og gjöf heilags anda‘ (bls. 96). Hvaða blessanir getum við hlotið, ef við höfum gjöf heilags anda, samkvæmt reynslu ykkar?

  • Lesið fyrstu málsgreinina á bls. 97. Hvers vegna er háttur skírnar á þýðingarmikinn hátt öðruvísi í hinni endurreistu kirkju en í öðrum kirkjum? Hvers vegna er gjöf heilags anda á þýðingarmikinn hátt öðruvísi? Hvernig má það vera að „öll önnur álitamál … [varði] gjöf heilags anda“?

  • Íhugið síðustu málsgreinina í kaflanum (bls. 97). Íhugið hvernig þið getið hagað lífi ykkar til að vera verðug þess að hljóta og þekkja innblástur heilags anda.

Ritningargreinar tengdar efninu: Jóh 15:26; Róm 6:3–6; 2 Ne 31:13; 3 Ne 11:18–41; Moró 8:1–23

Heimildir

  1. History of the Church, 1:44; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 19, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 1:51; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 23, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. Lucy Mack Smith, “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,” handrit 1844–45, bók 9, bls. 12, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 6:316; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 7. apríl 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff, Willard Richards, Thomas Bullock og William Clayton.

  5. History of the Church, 4:554–55; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff; sjá einnig viðauka í þessari bók, bls. 562, atriði 3.

  6. “Baptism,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. sept. 1842, bls. 889–90; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; skáletri sleppt; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  7. “Baptism,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. sept. 1842, bls. 904–5; stafsetning færð í nútímahorf; skáletri sleppt; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  8. History of the Church, 5:499; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júlí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  9. History of the Church, 4:554; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  10. Kenning og sáttmálar 137:1, 10; sýn veitt Joseph Smith 21. jan. 1836, í musterinu í Kirtland, Ohio.

  11. History of the Church, 5:499; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júlí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  12. Daniel Tyler, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 1. febr. 1892, bls. 93–94; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  13. History of the Church, 3:392; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í júlí 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  14. History of the Church, 3:379; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 27. júní 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  15. History of the Church, 4:555; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 20. mars, 1842, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  16. History of the Church, 4:42; úr bréfi frá Joseph Smith og Elias Higbee til Hyrums Smith og fleiri leiðtoga kirkjunnar, 5. des. 1839, Washington, D.C.; forseti Bandaríkjanna á þessum tíma var Martin Van Buren.

  17. History of the Church, 5:27; fyrsta og þriðja orð í svigum upprunalegt; úr “Gift of the Holy Ghost,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júní 1842, bls. 823; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  18. Vitnað í Brigham Young, í embættisgögn Brighams Young, Office Files, Brigham Young, Vision, 17. febr. 1847, Skjalasafn kirkjunnar.

Joseph Smith Sr.

Faðir spámannsins, Joseph Smith eldri, var skírður 6. apríl 1830. Þegar faðir hans sté upp úr vatninu, „ huldi [spámaðurinn] andlit sitt í faðmi föður síns og grét af gleði.“

Alma baptizing others

Alma skírir í Mormónsvötnum. Joseph Smith kenndi: „Áður en frelsarinn kom … í holdinu, voru ,hinir heilögu‘ skírðir í nafni Jesú Krists sem koma átti, þar sem annað nafn hafði aldrei verið gefið sem menn gætu frelsast fyrir.“

young woman being confirmed

Gjöf heilags anda er „veitt með handayfirlagningu af fleim sem valdsumboð hefur til þess, veitt honum af Guði.“