8. Kafli
Hið ævarandi prestdæmi
„Melkísedeksprestdæmið … er sá farvegur sem öll þekking, kenning, sáluhjálparáætlun og öll mikilvæg atriði sem opinberuð eru frá himni fer um.“
Úr lífi Josephs Smith
Eftir að Joseph Smith og Oliver Cowdery tóku á móti Aronsprestdæminu og helgiathöfn skírnar, upplifðu þeir blessanir sem þeir höfðu ekki þekkt áður. Spámaðurinn skráði: „Þar eð andar okkar höfðu nú verið upplýstir, fóru ritin að verða okkur auðskildari, og hin raunverulega merking og tilgangur hinna dulúðugustu málsgreina varð okkur ljós með hætti, sem við höfðum aldrei áður kynnst eða okkur til hugar komið“ (Joseph Smith – Saga 1:74). Með þessum aukna skilningi héldu þeir áfram því verki að þýða Mormónsbók. En spámaðurinn hafði enn ekki hlotið eina mikilvæga blessun – þá sem var nauðsynleg áður en hann megnaði að koma reglu á kirkjuna, stofna embætti prestdæmisins og veita gjöf heilags anda. Hann varð að hljóta Melkísedeksprestdæmið.
Í samræmi við loforð Jóhannesar skírara, var þessi blessun veitt Joseph Smith og Oliver Cowdery eftir að þeim var veitt Aronsprestdæmið. Hinir fornu postular Pétur, Jakob og Jóhannes, birtust og veittu þeim Melkísedeksprestdæmið á afskekktum stað nærri Susquehanna-fljótinu. Joseph sagði síðar að hann hefði heyrt „rödd Péturs, Jakobs og Jóhannesar í óbyggðinni milli Harmony í Susquehannasýslu og Colesville í Broomesýslu, á Susquehanna-fljótinu, skýra frá því, að þeir hefðu lykla ríkisins og að ráðstöfuninni í fyllingu tímanna!“ (K&S 128:20).
Á næstu árum var Josephs Smith vitjað af mörgum öðrum prestdæmishöfum frá fornum tímum. Þessir sendiboðar frá Guði birtust til að endurreisa lykla prestdæmisins, sem nauðsynlegir voru til að blessanir fagnaðarerindisins í fyllingu sinni yrðu tiltækar fyrir börn Guðs. Þeir komu einnig til að kenna spámanninum, sem leiða átti þessa ráðstöfun í fyllingu tímanna.
John Taylor, þriðji forseti kirkjunnar, útskýrði: „Móse, Elía, Elías og margir aðrir leiðtogar sem getið er um í ritningunum, er voru leiðtogar á hinum ýmsum ráðstöfunartímum, vitjuðu Josephs og veittu honum ýmsa lykla, vald, rétt, forréttindi og [heimild] sem þeir sjálfir nutu á sínum tímum. … Hver sú þekking, gáfa, prestdæmi, vald og opinberun sem þessum mönnum veittist á hinum ýmsu öldum, var endurreist að nýju á jörðu, fyrir þjónustu og milligöngu þeirra sem uppi voru og höfðu hið heilaga prestdæmi Guðs á hinum ýmsu ráðstöfunartímum.“1
Taylor forseti sagði einnig: „Ef við ættum þess kost að spyrja Joseph að því hvernig Adam væri í útliti, hefði hann getað svarað því um hæl. Hann hefði greint okkur frá stærð hans, útliti og öllu öðru um hann. Við gætum hafa spurt hann að því hvers konar menn Pétur, Jakob og Jóhannes væru, og hann hefði getað sagt ykkur það. Hvers vegna? Vegna þess að hann hafði séð þá.“2
Í september árið 1842 skrifaði spámaðurinn bréf til kirkjunnar til að lýsa gleði sinni yfir því að búið væri að endurreisa þekkingu og lykla prestdæmisins á jörðinni: „Og hvað heyrum við enn fremur? Gleðitíðindi frá Kúmóra! Moróní, engill frá himni, tilkynnir uppfyllingu spádómanna – bókin skal opinberuð. … Og rödd Míkaels, erkiengilsins, rödd Gabríels og Rafaels og hinna ýmsu engla, allt frá Míkael eða Adam til þessa tíma, er allir skýra frá sínum ráðstöfunum, rétti, lyklum, heiðri, hátign og dýrð, og valdi prestdæmis síns, og gefa orð á orð ofan, setning á setning ofan, örlítið hér og örlítið þar, og færa okkur hughreystingu með því að sýna það sem koma skal, og styrkja von okkar!“ (K&S 128:20–21).
Kenningar Josephs Smith
Prestdæmið er ævarandi og spámenn allra ráðstöfunartíma hafa haft það.
„Allt frá Adam fram að okkar tíma hefur keðja valdsumboðs og kraftar verið við lýði.“3
„Prestdæmið var fyrst veitt Adam, honum voru veittir lyklar Æðsta forsætisráðsins og hann hafði lykla þess frá kynslóð til kynslóðar. Hann hlaut þá í sköpuninni, áður en heimurinn var myndaður, líkt og segir í 1 Mós. 1:26, 27, 28. Honum voru falin yfirráð yfir öllum lifandi verum. Hann er Míkael erkiengill, sem getið er um í ritningunum. Síðan Nói, sem er Gabríel, hann kemur næstur Adam hvað vald prestdæmisins varðar; hann var kallaður af Guði í þessa þjónustu, og var faðir allra lifenda á hans tíma og honum voru falin yfirráð. Þessum mönnum voru fengnir lyklarnir fyrst á jörðinni og síðan á himninum.
Prestdæmið er ævarandi regla sem verið hefur til hjá Guði frá eilífð og verður um eilífð, án upphafs daganna eða loka áranna [Sjá Þýðingu Josephs Smith, Hebr 7:3]. Lyklana þarf ávallt að afhenda frá himnum þegar fagnaðarerindið er sent. Þegar þeir eru opinberaðir frá himni, er það með valdi Adams.
Í sjöunda kafla Daníels ræðir Daníel um hinn aldraða; hann á við elsta manninn, föður okkar Adam, Míkael. Hann mun kalla börn sín saman og halda með þeim þing til að búa þau undir komu mannssonarins [sjá Dan 7:9–14]. Hann (Adam) er faðir allra manna og er í forsæti allra anda mannanna og allir þeir sem hafa haft lykla munu standa frammi fyrir honum á þessu stórþingi. … Mannssonurinn stendur frammi fyrir honum, og honum er gefin dýrð og yfirráð. Adam afhendir Kristi þá ráðsmennsku sína sem honum var fengin, sem var að hafa lykla alheims, en verður áfram höfuð mannkynsins.
… Faðirinn kallaði alla anda fyrir sig við sköpun mannsins og skipulagði þá. Hann (Adam) er höfuðið og var boðið að margfaldast. Lyklarnir voru fyrst veittir honum og síðan frá honum til annarra. Hann þarf að gera grein fyrir ráðsmennsku sinni og þeir honum.
Prestdæmið er ævarandi. Frelsarinn, Móse og Elías [Elía] veittu Pétri, Jakobi og Jóhannesi lyklana á fjallinu, er þeir voru ummyndaðir frammi fyrir honum. Prestdæmið er ævarandi – án upphafs daganna eða loka áranna; föðurlaust og móðurlaust o. s. frv. Ef engin breyting er á helgiathöfnum, er engin breyting á prestdæminu. Þar sem helgiathafnir fagnaðarerindisins eru framkvæmdar, þar er prestdæmið.
Hvernig höfum við meðtekið prestdæmið á hinum síðustu dögum? Það kom niður, í reglubundinni röð. Pétur Jakob og Jóhannes veittu þeim það og þeir veittu það öðrum. Kristur er hinn mikli æðsti prestur og Adam þar á eftir. Páll ræðir um að kirkjan komi til tugþúsunda engla – til Guðs, dómara allra – til anda réttlátra sem fullkomnir eru orðnir, til Jesú meðalgöngumanns hins nýja sáttmála [sjá Hebr 12:22–24].“4
Spámenn sem haft hafa prestdæmislykla til forna hafa sameinast um að gera verk síðustu ráðstöfunarinnar að veruleika.
„Ég sá Adam í dalnum Adam-ondi-Ahman. Hann kallaði saman börn sín og blessaði þau með patríarkablessun. Drottinn birtist meðal þeirra og hann (Adam) blessaði sérhvert þeirra og sagði fyrir um hvað myndi mæta þeim allt fram að síðustu kynslóð.
Þetta er ástæða þess að Adam blessaði niðja sína. Hann þráði að leiða þá í návist Guðs. Þeir væntu þeirrar borgar, o. s. frv. [,sem Guð er smiður að og byggingarmeistari‘ – Hebr 11:10]. Móse leitaðist við að leiða Ísraelsmenn í návist Guðs með krafti prestdæmisins, en megnaði það ekki. Á fyrstu öldum jarðarinnar reyndu þeir að stofna hið sama, og Elíasar voru reistir upp, sem reyndu að endurreisa þessar sömu dýrðir, en þær veittust þeim ekki; en þeir spáðu fyrir um þann dag er þessi dýrð mundi opinberast. Páll talaði um ráðstöfun í fyllingu tímanna, er Guð safnaði öllu undir eitt, o. s. frv. [sjá Ef 1:10]; og menn þessir, sem lyklana fengu, þurfa að verða þar; og án okkar geta þeir ekki orðið fullkomnir.
Menn þessir eru á himnum, en börn þeirra eru á jörðinni. Hjörtu þeirra brenna af elsku til okkar. Guð sendir niður menn af þessari ástæðu. ,Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja.‘ [Matt 13:41.] Allir þessir fullgildu einstaklingar munu koma niður og sameinast okkur í því að koma þessu verki til leiðar.
Ríki himins er líkt við mustarðskorn. Mustarðskornið er smátt, en verður að stóru tré og fuglar hreiðra um sig á greinum þess. [Sjá Mark 4:30–32.] Fuglarnir eru englarnir. Þeir englar koma niður, sameinaðir í því að safna saman börnum þeirra. Án þeirra getum við ekki orðið fullkomin, né heldur þeir án okkar; þegar þetta er yfirstaðið, mun mannssonurinn stíga niður, hinn aldraði sitja hjá; við munum verða meðal tugþúsunda engla, hafa samneyti við þá og fá fyrirmæli frá þeim.“5
Helgiathafnir prestdæmisins voru stofnsettar frá upphafi og þeim verður að viðhalda að tilnefningu Guðs.
„Adam … var fyrsti maðurinn sem getið er um í Daníel sem ,hinn aldraði‘ [Dan 7:9], með öðrum orðum, hinn fyrsti og elstur allra, hinn mikli og stórbrotni ættfaðir, sem á öðrum stað er sagður vera Míkael, því hann var hinn fyrsti og faðir allra, ekki aðeins hvað niðja varðar, heldur fyrstur til að hljóta andlegar blessanir, til að þekkja skipulag helgiathafna til sálarhjálpar niðjum sínum, allt til loka, og honum opinberaðist Kristur fyrst, og með honum var Kristur opinberaður frá himnum og mun ávallt verða opinberaður. Adam hefur lyklana að ráðstöfuninni í fyllingu tímanna; ráðstafanir allra tíma hafa verið og munu verða opinberaðar með honum allt frá upphafinu og til Krists og frá Kristi til loka allra þeirra ráðstöfunartíma sem opinberaðir verða. …
… [Guð] bjó svo um að helgiathafnirnar yrðu þær sömu alltaf og að eilífu, og bauð Adam að varðveita þær, til að opinbera þær frá himnum til manna eða senda engla til að opinbera þær. ,Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?‘ [Hebr 1:14.]
Englar þessir lúta stjórn Míkaels eða Adams, sem lýtur stjórn Drottins. Af áðurgreindri tilvitnun vitum við að Páll hafði skilning á tilgangi Guðs hvað varðar samband hans við mennina, og hinni dásamlegu og fullkomnu reglu sem hann sjálfur öðlaðist skilning á og sendir því út kraft, opinberun og dýrð.
Guð mun ekki viðurkenna það sem hann hefur ekki sjálfur kallað, vígt og útvalið. Í upphafi mælti Guð til Adams eigin röddu. ,Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu? “ Hann svaraði: ,Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig.‘ [Sjá 1 Mós 3:9–10]. Adam tók á móti boðorðum og fyrirmælum frá Guði. Þannig var fyrirkomulagið frá upphafi.
Að hann hafi tekið á móti opinberunum, boðorðum og helgiathöfnum frá upphafi er án alls vafa. Hvernig hefðu menn að öðrum kosti getað fært Guði þóknanlegar fórnir? Og ef þeir færðu fórnir urðu þeir að fá vald til þess með vígslu. Í 1. Mósebók [4:4] lesum við að Abel hafi fært fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra, og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans. …
Þetta er þá eðli prestdæmisins. Hver maður hefur forsæti sinnar ráðstöfunar, og einn þeirra hefur forsæti allra þeirra, já, Adam; og Adam var veitt forsæti sitt og vald frá Guði, en megnar ei að meðtaka fyllingu fyrr en Kristur færir föðurnum ríkið, sem verða mun við lok síðustu ráðstöfunarinnar.
Vald, dýrð og blessanir prestdæmisins geta ekki haldist í þeim sem vígðir eru, nema þeir ástundi stöðugt réttlæti, því Kain var einnig boðið að færa fórn, en varð fordæmdur, því hann færði hana ekki í réttlæti. En það sýnir að helgiathafnir verða að vera nákvæmlega eins og Guð hefur tilnefnt þær, annars verður prestdæmi þeirra þeim til fordæmingar í stað blessunar.“6
Melkísedeksprestdæmið er sá farvegur sem Guð opinberar sig og tilgang sinn.
„Í ritningunum er getið um tvö prestdæmi, eða Melkísedeksprestdæmið og Aronsprestdæmið eða Levíprestdæmið. Þótt prestdæmin séu tvö, nær Melkísedeksprestdæmið yfir Aronsprestdæmið og Levíprestdæmið og er aðal höfuðið, og spannar æðsta vald prestdæmisins og hefur lykla Guðs ríkis á öllum öldum heimsins allt til loka niðjanna á jörðinni, og er sá farvegur sem öll þekking, kenning, sáluhjálparáætlun og allt sem mikilvægt er fer um og er opinberað frá himnum.
Það var stofnað áður en Guð ,grundvallaði jörðina … er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu‘ [sjá Job 38:4–7], og er æðsta og heilagasta prestdæmið, og er eftir reglu sonar Guðs, og öll önnur prestdæmi eru aðeins viðauki, grein, vald og blessanir sem tilheyra því og fellur undir stjórn þess. Það er sá farvegur sem hinn almáttugi notaði í upphafi sköpunar þessarar jarðar til að opinbera dýrð sína og heldur áfram að nota til að opinbera sig mannana börnum allt fram á þennan tíma og sem hann notar til að gera tilgang sinn kunnan allt til loka tímans.“7
„Kraftur Melkísedeksprestdæmisins er að hafa kraft yfir ,óendanlegum lífum,‘ því ekki er mögulegt að brjóta hinn ævarandi sáttmála. … Hver var kraftur Melkísedeks? Það var ekki prestdæmi Arons sem þjónustaði í ytri helgiathöfnum og fórnarathöfnum. Þeir sem hafa fyllingu Melkísedeksprestdæmisins eru konungar og prestar hins æðsta Guðs, hafa lykla valds og blessana. Það prestdæmi er í raun fullkomið lögmál guðveldis og með því setur Guð fólkinu lögmál og útdeilir sonum og dætrum Adams óendanlegum lífum. …
,[Föðurlaust, móðurlaust, ekki ættfært], og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. … [Er líkt] syni Guðs, [sem] heldur áfram að vera prestur um aldur.‘ [Hebr 7:3.] Melkísedeksprestdæmið hefur rétt frá eilífum Guði, og á hvorki uppruna hjá föður né móður; og það prestdæmi er eilíft líkt og Guð sjálfur, er hvorki kennt við upphaf daga né endi lífs. …
… Levíprestdæmið [Aronsprestdæmið] hafa prestar sem sinna ytri helgiathöfnum, það er án eiðs, en Melkísedeksprestdæminu fylgir eiður og sáttmáli.“8
„Melkísedeksprestdæmið er einskis annars prestdæmi en sonar Guðs; … Ákveðnar helgiathafnir heyra til prestdæminu og þær leiða til ákveðinna hluta. … Ein stórkoslegustu forréttindi prestdæmisins er að hljóta opinberanir um huga og vilja Guðs. Forréttindi Melkísedeksprestdæmisins eru einnig að vanda um við, áminna og aðvara, jafnframt því að hljóta opinberun.“9
„Melkísedeksprestdæmið er allt prestdæmið, en innan þess eru mismunandi stig og hlutar. … Allir spámennirnir höfðu Melkísedekspresdæmið.“10
„Ég hvet alla til að ganga veg fullkomnunar og sökkva sér æ dýpra í leyndardóma guðleikans. Menn geta ekkert gert af sjálfum sér nema Guð leiði þá á réttan veg, og sá er tilgangur prestdæmisins.“11
Menn verða að hafa vald frá Guði og vera vígðir prestdæminu til að þjóna við helgiathafnir sáluhjálpar.
Trúaratriðin 1:5: „Vér trúum, að maður verði að vera kallaður af Guði með spádómi og með handayfirlagningu þeirra sem vald hafa, til að prédika fagnaðarerindið og framkvæma helgiathafnir þess.“12
„Við trúum að enginn maður geti veitt sálum manna hjálpræði með fagnaðarerindinu í nafni Jesú Krists, nema hann hafi til þess vald frá Guði, með opinberun, eða hafi verið vígður af einhverjum sem Guð hefur sent með opinberun, líkt og skráð er af Páli í Rómverjabréfi 10:14: ,En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur?‘ Og ég spyr: Hvernig geta þeir verið sendir án opinberana, eða einhverrar annarrar vitrunar eða staðfestingar frá Guði? Og enn í Hebreabréfi 5:4: ,Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron.‘ – Og ég spyr: Hvernig var Aron kallaður öðruvísi en með opinberun?“13
„Engill bauð hinum gamla góða Kornelíusi að senda eftir Pétri til að fræðast um eigin endurlausn [sjá Post 10:21–22]: Pétur gat skírt, en englar gátu það ekki meðan í holdinu voru lögmætir fulltrúar sem höfðu lykla ríkisins eða vald prestdæmisins. Eitt til viðbótar er þessu til staðfestingar, en það er þegar Jesús sjálfur birtist Páli á leið hans til Damaskus og skýrði honum ekki frá því hvernig hann gæti frelsast. Hann hafði stofnað kirkju sína fyrst með postulum og í öðru lagi með spámönnum, til að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té o. s. frv. [sjá Ef 4:11–12]; og meginregla himins var sú að ekkert skyldi gjört á jörðinni án þess fyrst að opinbera þjónum hans, spámönnunum, leyndardóma Guðs, líkt og getið er um í Amos 3:7, því gat Páll ekki fengið mikla fræðslu frá Drottni um hinar almennu skyldur mannsins til sáluhjálpar, en þær gat hann fengið frá fulltrúum Krists, sem kallaðir væru af Drottni til þeirrar himnesku köllunar og gæddir krafti til þess frá upphæðum – svo að það sem þeir myndu leysa á jörðu, yrði leyst á himni, og það sem þeir myndu binda á jörðu, yrði bundið á himni [sjá Matt 16:19].“14
Það eru mikil forréttindi að efla hvaða embætti prestdæmisins sem er.
„Prestdæminu … má líkja við mannslíkamann, sem hefur mismunandi hluta, þar sem hver gegnir sínu hlutverki, hver starfar í sínu embætti, og allir eru þar nauðsynlegir á sínu sviði, líkt og allir limir líkamans þurfa að vera heilir til að líkaminn starfi rétt. … Skilji prestur skyldu sína, köllun og þjónustu og prédikar með heilögum anda, verður gleði hans sú sama og væri hann í forsætisráðinu, en þjónusta hans er líkamanum nauðsynleg, og það sama á við um kennara og djákna.“15
Eliza R. Snow skráði: „[Joseph Smith gaf] fyrirmæli varðandi ólík embætti, og mikilvægi þess að sérhver einstaklingur starfi á því sviði sem honum er falið að starfa á, og gegni hinum ýmsu embættum sem honum eru útnefnd. Hann ræddi um þá tilhneigingu marga að telja lægri embætti kirkjunnar minni að virðingu, og líta með afbrýði í auga til þeirra sem kallaðir hafa verið til að vera í forsæti yfir þeim. Það er heimska og kjánaskapur mannshjartans að girnast aðrar stöður en þær sem Guð hefur útnefnt manni, betra væri slíkum að efla sínar eigin kallanir. … Hver og einn ætti aðeins að sækjast eftir að efla sitt eigið embætti og köllun.“16
Ábendingar um nám og kennslu
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.
-
Lesið frásögnina af Pétri, Jakobi og Jóhannesi er þeir veittu Joseph Smith og Oliver Cowdery Melkísedeksprestdæmið (bls. 101). Hvaða blessanir hafið þið og fjölskylda ykkar hlotið vegna endurreisnar Melkísedeksprestdæmisins?
-
Í þessum kafla ber Joseph vitni um keðju prestdæmisvaldsins er fylgir erfðaröð spámanna. Hvers vegna teljið þið að mikilvægt hafi verið að hann kenndi þessa kenningu á þessum tíma? Hvers vegna verðum við að skilja þessa kenningu nú? Hvernig tengist valdakeðjan, sem Joseph skýrði frá, prestdæmisvaldalínu manna?
-
Þegar þið lesið þennan kafla, veitið því þá athygli að spámaðurinn notar orðin ævarandi, eilíft og eilífð. Hvað segja þessi hugtök ykkur um eðli og mikilvægi prestdæmisins?
-
Joseph Smith kenndi að Guð hafi búið svo um að „helgiathafnirnar yrðu þær sömu alltaf og að eilífu“ og „helgiathafnir verða að vera nákvæmlega eins og Guð hefur tilnefnt þær“ (bls. 106). Hvernig auka þessar kenningar skilning ykkar á helgiathöfnum fagnaðarerindisins?
-
Lesið kennslu spámannsins um Melkísedeksprestdæmið (bls. 106–107). Íhugið hvernig Melkísedeksprestdæmið er nauðsynlegt út frá öllum sviðum fagnaðarerindisins. Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar er þið hugleiðið Melkísedeksprestdæmið á þennan hátt?
-
Íhugið síðustu tvær málsgreinar kaflans (bls. 110). Hvernig sjáið þið að hver meðlimur kirkjunnar gegnir mikilvægu hlutverki í verki Drottins? Hvaða afleiðingar kann það að hafa að ,líta með auga afbrýði‘ til þeirra sem kallaðir eru sem leiðtogar kirkjunnar? Íhugið hvað þið getið gert til að efla ykkar eigin kallanir.
Ritningargreinar tengdar efninu: Al 13:1–12; K&S 27:5–14; 84:33–44, 109–10; 107:6–20; 121:34–46