Kenningar forseta
9. Kafli: Gjafir andans


9. Kafli

Gjafir andans

„Ef þið lifið eftir fagnaðarerindinu af heiðarleika, heiti ég ykkur því, í nafni Drottins, að gjafirnar sem frelsari okkar gaf fyrirheit um munu fylgja ykkur. “

Úr lífi Josephs Smith

Titilsíða Mormónsbókar skýrir frá því hvernig þessi merkilega ritning verður gerð heiminum aðgengileg. Til forna voru gulltöflurnar ,[letraðar og innsiglaðar og faldar] Drottni, svo að [þeim] yrði ekki tortímt.‘Á síðari dögum áttu þær ,að koma fram fyrir gjöf og kraft Guðs‘ og verða þýddar ,fyrir gjöf Guðs.‘ Guð útvaldi Joseph Smith til að þýða helgu heimildirnar, og var það uppfylling þessa spádóms. Augljóslega hlaut Joseph ekki hæfileika eða menntun til að þýða hið forna letur. Hann hlaut aðeins kunnáttu í lestri, skrift og reikningi í barnaskóla. Geta hans til að þýða heimildirnar, sem ritaðar voru öldum áður á tungumáli sem hann hafði enga þekkingu á, barst honum sem gjöf frá sjálfum Guði.

Emma Smith, sem í fyrstu var ritari í verki eiginmanns síns, bar vitni um þessa himnesku gjöf: „Enginn maður hefði getað lesið ritmál heimildanna, án þess að vera innblásinn, því þegar ég var ritari hans, las Joseph mér fyrir í margar klukkustundir; og þegar hann sneri aftur eftir máltíðir, eða eftir truflanir, tók hann þegar til starfa frá fyrri lokum, án þess svo mikið sem líta á handritið eða láta lesa það að hluta fyrir sig.“1

Drottinn veitti spámanninum mikilvæga stundlega hjálp, sem gerði honum kleift að halda þýðingarstarfinu áfram. Vinur spámannsins Joseph Knight eldri gafJoseph peninga og mat nokkrum sinnum. Á miklum örvæntingartíma fór bróðir Knight heim til spámannsins og gaf Joseph og Oliver „tunnu af makríl, línustrikuð skrifblöð“ ásamt með „níu eða tíu skeppum af korni og fimm eða sex skeppum af kartöflum.“ Bróðir Knight sagði: „Joseph og Oliver … sneru heim og sáu mig þar með matarbirgðir og voru því fegnir, þar eð þeir voru uppiskroppa.“2

Í apríl og maí 1829 trufluðu ofsóknir í síauknum mæli þýðingarstarf spámannsins á heimili hans í Harmony, Pennsylvaníu. Oliver Cowdery skrifaði vini sínum David Whitmer og greindi honum frá verkinu helga, og bað hann að leyfa sér að halda verkinu áfram á heimili Whitmer-fjölskyldunnar í Fayette, New York. Í lok maí eða byrjun júní 1829 ferðuðust spámaðurinn og Oliver með David Whitmer á eineykis hestvagni hans að sveitabýli föður Davids, Peters Whitmer eldri. Þýðingunni lauk í júnímánuði, með gjöf og krafti Guðs, í þakherbergi á heimili Whitmer-fjölskyldunnar.

Oliver Cowdery lýsti þeirri dásamlegu reynslu að þjóna sem ritari spámannsins: „Þetta voru ógleymanlegir dagar. Það vakti djúpa þakklætistilfinningu í brjósti mér að sitja undir hljómi raddar, sem barst með innblæstri frá himni. Dag eftir dag hélt ég ótruflað áfram að skrifa niður það, sem frá munni hans barst, þegar hann þýddi söguna eða heimildina, sem nefnd er ,Mormónsbók,‘ með hjálp Úríms og Túmmíms.“3

Á þessum tíma komst Joseph Smith að því að hin guðlega gjöf var aðeins virk í honum þegar hann var verðugur leiðsagnar andans. David Whitmer sagði: „Morgun einn þegar [Joseph Smith] hugðist byrja á þýðingunni, hafði eitthvað farið úrskeiðis á heimilinu og hann var ekki í jafnvægi út af því. Emma, eiginkona hans, hafði gert eitthvað. Oliver og ég fórum upp á loft og Joseph kom nokkru síðar til að halda áfram við þýðinguna, en hann kom engu í verk. Hann gat ekki þýtt eitt einasta orð. Hann fór niður, út í garðinn og ákallaði Drottin. Hann var í burtu í um eina klukkustund – fór svo inn í húsið, bað Emmu fyrirgefningar og kom síðan til okkar upp á loftið og þá gekk þýðingin greiðlega fyrir sig. Hann gat ekkert gert nema hann væri auðmjúkur og trúfastur.“4

Hinn ungi spámaður var auðmjúkur og trúfastur er hann notaði þá gjöf sem Guð gaf honum og lauk því að því er virðist ógerlega verki að þýða næstum alla Mormónsbók frá apríl byrjun til júní loka 1829.

Kenningar Josephs Smith

Okkur eru öllum gefnar gjafir andans; gjafir sérhvers eru nauðsynlegar í kirkjunni.

Trúaratriðin 1:7: „Vér höfum trú á gjöf til að tala tungum, gjöf spádóma, opinberana, sýna, lækninga, túlkunar tungna og svo framvegis.“5

„Við … höfum trú á spádómum, tungutali, vitrunum og opinberunum, á gjöfum og lækningu; og að ekki sé mögulegt að hljóta slíkt án gjafar heilags anda.“6

Amasa Potter sagði: „Ég minnist þess þegar spámaðurinn stóð upp til að prédika fyrir fjölmennum söfnuði í trálundinum vestan megin við musterið í Nauvoo. Hann sagðist ætla að ræða um andlegar gjafir. … Joseph sagði að sérhver Síðari daga heilagur ætti sér gjöf, og með því að lifa réttlátu lífi og biðja um hana myndi heilagur andi opinbera viðkomandi gjöfina.“7

„Páll sagði: ,Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu … öðrum lækningagáfu,‘ og einnig, ,hvort eru allir spámenn? … Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?‘ Þetta sýnir glögglega að ekki hafi allir átt þessar upptöldu gjafir, heldur hlaut einn eina gjöf, og annar aðra – ekki spáðu allir, ekki töluðu allir tungum, ekki gerðu allir kraftaverk, en allir hlutu gjöf heilags anda. Stundum töluðu menn tungum og spáðu á tímum postulunna og stundum ekki. …

Kirkjan er samhæfður söfnuður ólíkra meðlima, sem líkja má nákvæmlega við mannslíkamann, og Páll sagði eftir að hann ræddi um hinar ýmsu gjafir: ,Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig. Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum. … Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn? … Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?‘ Augljóst er að svo er ekki; samt tilheyra allir meðlimirnir einum söfnuði. Ekki eru allir meðlimir hins náttúrlega líkama augað, eyrað, höfuðið eða höndin – og hvorki getur augað sagt við eyrað, ég þarfnast þín ekki, né getur höfuðið sagt við fótinn, ég þarfnast þín ekki; þeir gegna allir sínu hlutverki í hinum fullkomna vélbúnaði – í einum líkama; og þjáist einn meðlimur, þjást allir meðlimirnir með honum, og gleðjist einn meðlimur, gleðjast allir meðlimirnir með honum, allir hinir vegsamast með honum. [Sjá 1 Kor 12:9–10, 18–21, 26–30.]

Þetta eru því allt gjafir, þær koma frá Guði, þær eru af Guði, þær eru allar gjafir heilags anda.“8

Við hljótum gjafir andans fyrir hlýðni og trú.

„Vegna skorts á trú er skortur á ávöxtum trúar. Allt frá upphafi heimsins hefur enginn maður átt trú án þess að eitthvað hafi fylgt henni. Hinir fornu slökktu logandi elda, sneiddu hjá sverðseggjum, konur heimtu aftur sína framliðnu, o. s. frv. Fyrir trú voru heimarnir gjörðir. [Sjá Hebr 11:3, 34–35.] Sá maður sem á enga gjöf hefur enga trú, og hann blekkir sjálfan sig ef hann álítur sig hafa hana. Skortur hefur verið á trú, ekki aðeins meðal hinna heiðnu heldur einnig meðal þeirra sem játa kristni, svo að tungutal, lækningar, spádómar, spámenn og postular, og allar gjafir og blessanir, hefur skort.“9

„Þessi vetur [1832–33] var nýttur til að þýða ritningarnar, sækja skóla spámannanna og sitja á ráðstefnum. Ég átti margar dýrðlegar og dásamlegar stundir. Þeim gjöfum sem fylgja þeim er trúa og hlýða fagnaðarerindinu, til tákns um að Drottinn sé ávallt hinn sami í samskiptum sínum við hina auðmjúku sem unna og fylgja sannleikanum, mun úthellt yfir okkur, líkt og gert var til forna.“10

Edward Stevenson var viðstaddur þegar Joseph Smith prédikaði í Pontiac, Michigan, árið 1834. Hann minntist þessara orða spámannsins: „Ef þið lifið eftir fagnaðarerindinu af heiðarleika heiti ég ykkur því, í nafni Drottins, að gjafirnar sem frelsari okkar gaf fyrirheit um munu fylgja ykkur, og af því getið þið sannreynt mig sem þjón Guðs.“11

Gjafir andans hlotnast yfirleitt hljóðlega og einslega, án ytri sýna.

„Menn deila og hafa ólíkar skoðanir á gjöfum heilags anda. Sumir eru fastir í þeirri hugsun að ætla að sérhver yfirnáttúrleg vitrun sé frá anda Guðs, en aðrir telja engar vitranir tengjast honum, og að einungis sé um hugarburð að ræða eða innri tilfinningu, hugljómun, leyndan vitnisburð eða leynda sönnun, sem menn búa yfir, og að engar dramatískar vitranir séu til.

Það er því engin furða að menn séu að miklu leyti fáfróðir um reglur sáluhjálpar, einkum um eðli, kraft, áhrif og blessanir gjafar heilags anda, sé tekið mið af því að svarta myrkur hafi grúft yfir mannkyni og fáfræði ríkt um aldir, án opinberana eða nokkurrar réttmætrar viðmiðunar, [sem veitt gæti] þekkingu á því sem Guðs er og aðeins er mögulegt að þekkja með anda Guðs. Því er það ósjaldan, þegar öldungar kirkjunnar boða íbúum jarðari að þeir muni hljóta gjöf heilags anda ef þeir lifi eftir fagnaðarerindinu, að fólk væntir þess að verða vitni að stórkostlegum sýnum og miklum kraftaverkum. …

Mannkyni hættir til þess að fara öfganna á milli, einkum í trúarlegum efnum, og því er algengt að fólk vænti annað hvort sýna og kraftaverka eða hafi alls enga trú á gjöfum heilags anda. Leggi öldungur hendur sínar á höfuð einhvers, hafa margir þá hugmynd að sú manneskja muni samstundis taka að tala tungum og spá. Sú hugmynd á rætur að rekja til þess að Páll lagði hendur á höfuð ákveðinna einstaklinga, sem áður höfðu verið skírðir upp á skírn Jóhannesar (eins og þeir héldu fram); og þegar hann hafði skírt þá ,töluðu [þeir] tungum og spáðu.‘ [Sjá Post 19:1–6.] …

Við trúum að heilagur andi sé veittur með handayfirlagningu þeirra sem hafa til þess vald, og að gjöf tungutals og gjöf spádóms séu gjafir andans, og séu veittar fyrir hans milligöngu. En sé það síðan fullyrt að menn spái alltaf og tali tungum eftir slíka handayfirlagningu, er um ranga fullyrðingu að ræða, sem andstæð er verklagi postulanna, og ekki samkvæmt helgri ritningu. …

… Allar gjafir andans eru ekki sjáanlegar hinu náttúrlegu auga, eða höndlanlegar skilningi mannsins; afar fáar þeirra eru það. … Fæstar þeirra fengu almennir menn þekkt. Pétur og Jóhannes voru postular, samt dæmdi dómstóll Gyðinga þá til refsingar sem svikara. Páll var bæði postuli og spámaður, samt var hann grýttur og færður í fangelsi. Fólkið vissi ekkert um gjafirnar, jafnvel þótt hann hafi búið að gjöf heilags anda. Frelsari okkar var ,[smurður] gleðinnar olíu fram yfir sína jafningja‘ [Hebr 1:9], samt þekkti fólkið hann alls ekki, því það sagði hann vera Beelsebúl og krossfesti hann sem svikara. Hver á meðal þess gat borið kennsl á prédikara, kennara eða boðbera fagnaðarerindisins, jafnvel þótt allir þessir hafi búið yfir gjöf heilags anda?

En hvað varðar aðra meðlimi kirkjunnar, og könnun gjafanna sem Páll ræddi um, munum við komast að því að heimurinn fær almennt ekkert vitað um þær, og að aðeins er mögulegt að bera kennsl á eina eða tvær þeirra þegar í stað, ef þeim væri öllum úthellt samtímis með handayfirlagningu. Í [1 Kor 12:4–11] segir Páll: ,Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami, og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami, og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum. Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er. Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda. Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.‘

Hér er minnst á nokkrar gjafir, en hverja þeirra gæti áhorfandinn borið kennsl á við sjálfa handayfirlagninguna? Vísdómsorðið og orð þekkingar eru jafn góðar gjafir og aðrar gjafir. Hver bæri kennsla á það að manneskja hlyti báðar þessar gjafir með handayfirlagningu? Annar gæti hlotið gjöf trúar, án þess að nokkur hefði hugmynd um það. Við getum einnig sagt sem svo að sé einhver gæddur gjöf lækninga eða mætti til að gera kraftaverk, yrði það ekki sjáanlegt; það krefðist tíma og aðstæðna að gera slíkar gjafir virkar. Hver getur dæmt áreiðanleika þess sem gæti greint anda? Hvað ef einhver gæti túlkað tungur? Yrði sá hinn sami ekki að vera þögull, nema því aðeins að einhver talaði á óþekktri tungu? Það eru aðeins tvær gjafir sem mögulega geta verið áþreifanlegar – gjöf tungutals og gjöf spádóms. Þetta eru þær gjafir sem mest er rætt um, og jafnvel þótt einhver talaði á óþekktri tungu, myndu þeir sem hjá væru telja hann vitfirrtan [sjá 1 Kor 14:11]. Þeir myndu segja mál hans vera þvaður og ef hann færi að spá, myndu þeir segja það rugl. Gjöf tungutals er líklega minnst allra gjafa, en samt er það hún sem flestir sækjast eftir.

Samkvæmt vitnisburði ritninganna og vitrana andans til forna vissi mannfjöldinn því afar lítið um þetta efni, nema í sérstökum tilvikum, líkt og á hvítasunnudeginum. Hinar mestu og bestu og nytsömustu gjafir vissi áhorfandinn ekkert um. …

Staðfesting á gjöf heilags anda, á þjónustu engla eða á mætti, hátign eða dýrð Guðs var sjaldan veitt meðal almennings, og það á einnig almennt við um fólk Guðs, líkt og sýndi sig með Ísraelsmenn. Yfirleitt hefur það verið svo við komu engla, eða þegar Guð opinberar sig, að þeir hafa vitjað manna einslega, í herbergjum þeirra, í óbyggðum eða á ökrum, og yfirleitt án skarkala og uppnáms. Engillinn frelsaði Pétur úr fangelsi um miðja nótt; hann vitjaði Páls án þess að gera sig sýnilegan samferðamönnum hans; hann birtist Maríu og Elísabet án vitundar hinna; hann talaði til Jóhannesar skírara án þess að fólkið umhverfis heyrði það.

Þegar Elísa sá stríðsvagna og hesta Ísraelsmanna, var það ókunnugt öðrum. Þegar Drottinn birtist Abraham, gerði hann það við tjalddyr hans; þegar englarnir vitjuðu Lots, sá enginn þá nema hann sjálfur, og það átti sér líklega einnig stað í tilviki Abrahams og eiginkonu hans; þegar Drottinn birtist Móse, gerði hann það í hinum brennandi runna, í tjaldbúðinni og á fjallstindinum; þegar Elía var tekinn í eldlega vagninn, vissi heimurinn það ekki; og þegar hann var í hellinum, kom stormur, en Drottinn var ekki í storminum; og það kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum; þá barst lág hljóðlát rödd, sem var rödd Drottins, og hann sagði: ,Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?‘ [Sjá 1 Kon 19:11–13.]

Drottinn þekkist ekki ávallt af þrumurödd sinni, af dýrð sinni eða með því að sýna mátt sinn, og þeir sem eru hvað óþreyjufyllstir að fá að sjá þessa hluti eru þeir sem síst eru undir það búnir. Og ef Drottinn sýndi mátt sinn, líkt og hann sýndi Ísraelsmönnum, munu slíkir verða fyrstir til að segja: ,En lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki.‘ [Sjá 2 Mós 20:19.]“12

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Drottinn veitti Joseph Smith gjöf sem gerði honum kleift að þýða gulltöflurnar (bls. 113–15). Hvenær hefur Drottinn veitt ykkur gjafir ykkur til hjálpar við að taka þátt í verki hans?

  • Hvað getum við lært af sögunni sem David Whitmer sagði á bls. 115? Hvaða reynslu hafið þið orðið fyrir, sem hefur kennt ykkur að vera verðug þess að nota andlegar gjafir ykkar?

  • Lesið undirkaflann sem hefst á bls. 116. Á hvaða hátt nýtur kirkjan góðs af því að hafa meðlimi með mismunandi gjafir andans? Hvernig hefur þú notið góðs af andlegum gjöfum annarra? Hvenær hafið þið séð fólk með mismunandi gjafir starfa saman og hjálpa hvert öðru?

  • Nemið undirkaflann á bls. 117. Íhugið þær andlegu gjafir sem myndu styrkja ykkur persónulega eða hjálpa ykkur að þjóna Drottni og öðru fólki. Ákveðið hvað þið getið gert til að ,leita af einlægni hinna bestu gjafa‘ (K&S 46:8).

  • Lesið undirkaflann sem hefst neðst á bls. 117. Íhugið eða ræðið þá sérstöku leiðsögn sem þið finnið um hvernig hægt sé að bera kennsl á andlegar gjafir. Hvers vegna er mikilvægt að vita að andlegar gjafir „koma sjaldan fram meðal almennings“? (bls. 119). Hvers vegna teljið þið að margar andlegar gjafir komi hljóðlega og einslega? Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga, að það „[krefst] tíma og aðstæðna að gera … gjafir virkar“? (bls. 119).

  • Hver mynduð þið segja að væri tilgangur andlegra gjafa, eftir að þið hafið lesið þennan kafla?

Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Kor 12:1–31; 3 Ne 29:6; Moró 10:6–23; K&S 46:8–33

Heimildir

  1. Emma Smith, viðtal við Joseph Smith III, febr. 1879, Saints’ Herald (tímarit sem gefið er út af Reorganized Church of Jesus Christ of Latter Day Saints, sem nú heitir Community of Christ), 1. okt. 1879, bls. 290.

  2. Joseph Knight, Reminiscences, bls. 6, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  3. Oliver Cowdery, vitnað í Joseph Smith – Saga 1:71, neðanmálstexta; úr bréfi frá Oliver Cowdery til Williams W. Phelps, 7. sept. 1834, Norton, Ohio, birt í Messenger and Advocate, okt. 1834, bls. 14.

  4. David Whitmer, viðtal við William H. Kelley og George A. Blakeslee, 15. sept. 1881, Saints’ Herald, 1. mars 1882, bls. 68.

  5. Trúaratriðin 1:7.

  6. History of the Church, 5:27; úr “Gift of the Holy Ghost,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júní 1842, bls. 823; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  7. Amasa Potter, “A Reminiscence of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 15. febr. 1894, bls. 132.

  8. History of the Church, 5:28–29; úr “Gift of the Holy Ghost,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júní 1842, bls. 823–24; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  9. History of the Church, 5:218; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. jan. 1843, í Springfield, Illinois; skráð af Willard Richards.

  10. History of the Church, 1:322; dagsetningar í svigum upprunalegar; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 270, Skjalasafn kirkjunnar.

  11. Tilvitnun Edwards Stevenson, Reminiscences of Joseph, the Prophet, and the Coming Forth of the Book of Mormon (1893), bls. 4.

  12. History of the Church, 5:26–31; orð í svigum í annarri málsgrein upprunaleg; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “Gift of the Holy Ghost,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. júní 1842, bls. 823–24; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

Book of Mormon manuscript

Hluti af síðu frá upprunalegu handriti Mormónsbókar. Þessi texti var hluti af frásögn Lehís um sýn hans um lífsins tré, eins og hún er í 1. Nefí 8:11–23.

Abraham receiving inspiration

„Staðfesting á … mætti, hátign eða dýrð Guðs koma sjaldan fram meðal almennings. … Þegar Drottin birtist Abraham, gerði hann það við tjalddyr hans [sjá Mós 18:1].“