Ritningar
1 Nefí 11


11. Kapítuli

Nefí sér anda Drottins og honum er sýnt lífsins tré í sýn — Hann sér móður Guðssonarins og fræðist um lítillæti Guðs — Hann sér skírn, helga þjónustu og krossfestingu Guðslambsins — Hann sér einnig köllun og helga þjónustu hinna tólf postula lambsins. Um 600–592 f.Kr.

1 Því að svo bar við, að eftir að löngun hafði vaknað hjá mér til að kynnast því, sem faðir minn hafði séð, og í trú á, að Drottinn gæti kynnt mér það, hreif andi Drottins mig, á meðan ég sat og hugleiddi þetta í hjarta mér, já, upp á ákaflega hátt fjall, sem ég hafði aldrei áður augum litið og aldrei áður stigið fæti á.

2 Og andinn spurði mig: Sjá. Hvers æskir þú?

3 Og ég sagði: Mig langar að sjá það, sem faðir minn .

4 Og andinn spurði mig: Trúir þú því, að faðir þinn hafi séð tréð, sem hann talaði um?

5 Og ég svaraði: Já, þú veist, að ég legg trúnað á öll orð föður míns.

6 Og þegar ég hafði mælt þessi orð, hrópaði andinn hárri röddu: Hósanna, lof sé Drottni æðstum Guði, því að hann er Guð yfir allri jörðunni, já, reyndar ofar öllu. Og blessaður ert þú, Nefí, því að þú trúir á son hins æðsta Guðs, og þess vegna munt þú sjá það, sem þig langar að sjá.

7 Og sjá. Þetta mun gefið þér sem tákn. Þegar þú hefur séð tréð, sem bar ávöxtinn, er faðir þinn bragðaði á, þá munt þú einnig sjá mann stíga niður af himni. Þú munt verða sjónarvottur að því, og þegar þú hefur séð það, muntu bera vitni um, að hann er sonur Guðs.

8 Og svo bar við, að andinn sagði við mig: Sjá! Og ég leit upp og sá tré, og það var eins og tréð, sem faðir minn sá. Og það var fegurra en allt, sem fagurt er, og svo hvítt, að það var hvítara en nýfallin mjöll.

9 Og svo bar við, að þegar ég hafði séð tréð, sagði ég við andann: Mér er ljóst, að þú hefur sýnt mér tréð, sem er öllu öðru dýrmætara.

10 Og hann spurði mig: Hvers æskir þú?

11 Og ég svaraði honum: Að vita, hvað það táknar — því að ég ræddi við hann eins og maður ræðir við mann, því að ég sá, að hann var í mannsmynd. Engu að síður vissi ég, að það var andi Drottins, og hann ræddi við mig eins og maður ræðir við mann.

12 Og svo bar við, að hann sagði við mig: Sjá! Og ég leit til hans, en sá hann ekki, því að hann var horfinn augsýn minni.

13 Og svo bar við, að ég leit upp og sá hina miklu borg Jerúsalem og einnig aðrar borgir. Og ég sá borgina Nasaret, og í borginni Nasaret sá ég mey, sem var frábærlega fögur og björt yfirlitum.

14 Og svo bar við, að ég sá himnana opnast, og engill sté niður og staðnæmdist frammi fyrir mér. Og hann sagði við mig: Nefí, hvað sérð þú?

15 Og ég svaraði: Mey, sem er fegurri og bjartari en allar aðrar meyjar.

16 Og hann spurði mig: Þekkir þú lítillæti Guðs?

17 Og ég svaraði: Ég veit, að hann elskar börn sín. Samt þekki ég ekki merkingu allra hluta.

18 Og hann sagði við mig: Sjá, mærin, sem þú sérð, er móðir Guðssonarins að hætti holdsins.

19 Og svo bar við, að ég sá, að hún var numin burt í andanum, og þegar hún hafði verið numin burt í andanum nokkra hríð, ávarpaði engillinn mig og sagði: Sjá!

20 Og ég leit og sá meyna aftur með barn í örmum sér.

21 Og engillinn sagði við mig: Sjá Guðslambið, já, son hins eilífa föður! Veist þú, hvaða merking felst í trénu, sem faðir þinn sá?

22 Og ég svaraði honum og sagði: Já það er elska Guðs, sem breiðir úr sér í hjörtum mannanna barna, hún er því eftirsóknarverðust af öllu.

23 Og hann talaði til mín og mælti: Já, það sem færir sálinni mesta gleði.

24 Og að þessum orðum mæltum sagði hann við mig: Sjá! Og ég leit upp og sá son Guðs ganga fram meðal mannanna barna. Og ég sá marga falla að fótum hans og tilbiðja hann.

25 Og svo bar við, að mér varð ljóst, að stöngin úr járni, sem faðir minn hafði séð, var orð Guðs, sem vísaði veginn að uppsprettu hins lifandi vatns eða að lífsins tré, en það vatn táknar elsku Guðs. Og ég sá einnig, að lífsins tré táknaði elsku Guðs.

26 Og engillinn sagði aftur við mig: Líttu á og sjáðu lítillæti Guðs!

27 Og ég leit og lausnara heimsins, sem faðir minn hafði talað um. Og ég sá einnig spámanninn, sem ætlað var að greiða götu hans. Og Guðslambið gekk fram og lét hann skíra sig, en að skírninni lokinni sá ég himnana opnast, og heilagur andi sté niður af himni og kom yfir hann í dúfulíki.

28 Og ég sá hann ganga fram og veita fólkinu þjónustu sína í veldi sínu og mikilli dýrð. Og mannfjöldinn safnaðist saman til að hlusta á hann, og ég sá, að þeir vísuðu honum burtu frá sér.

29 Og ég sá einnig tólf menn aðra, sem fylgdu honum eftir. Og svo bar við, að þeir voru numdir burtu í andanum frá augliti mínu, svo að ég sá þá ekki.

30 Og svo bar við, að engillinn ávarpaði mig á ný og mælti: Sjá! Og ég leit upp og sá himnana opnast enn á ný. Og ég sá engla stíga niður til mannanna barna. Og þeir veittu þeim þjónustu sína.

31 Og enn ávarpaði hann mig og sagði: Sjá! Og ég leit upp og sá Guðslambið ganga fram meðal mannanna barna. Og ég sá fjölmarga, sem veikir voru, haldnir alls konar sjúkdómum, djöflum og óhreinum öndum. Og engillinn talaði og sýndi mér allt þetta. Og þeir urðu heilir fyrir kraft Guðslambsins. Og djöflunum og óhreinu öndunum var stökkt burt.

32 Og svo bar við, að engillinn talaði enn til mín og sagði: Sjá! Og ég leit upp og sá Guðslambið og að fólkið tók hann höndum. Já, heimurinn dæmdi son hins ævarandi Guðs. Ég sá það og ber því vitni.

33 Og ég, Nefí, sá, að honum var lyft upp á krossinum og hann var deyddur fyrir syndir heimsins.

34 Og eftir að hann hafði verið deyddur, sá ég mannmergð jarðar safnast saman til að berjast gegn postulum lambsins, en svo nefndi engill Drottins hina tólf.

35 Og ég sá mannmergð jarðar samankomna í stórri, rúmmikilli byggingu, sem var eins og bygging sú, er faðir minn sá. Og engill Drottins ávarpaði mig enn og sagði: Líttu á heiminn og heimsins visku. Já, sjá! Ísraelsætt hefur safnast saman til að berjast gegn hinum tólf postulum lambsins.

36 Og svo bar við, að ég bæði sá og ber því vitni, að hin stóra og rúmmikla bygging var hroki heimsins. Og hún féll, og fallið var geipimikið. Og engill Drottins talaði aftur til mín og sagði: Þannig munu allar þjóðir, kynkvíslir, tungur og lýðir tortímast, sem berjast gegn hinum tólf postulum lambsins.