106. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 25. nóvember 1834. Þessari opinberun er beint til Warrens A. Cowdery, eldri bróður Olivers Cowdery.
1–3, Warren A. Cowdery er kallaður sem yfirembættismaður staðarins; 4–5, Síðari koman mun ekki koma yfir börn ljóssins eins og þjófur; 6–8, Miklar blessanir fylgja dyggri þjónustu í kirkjunni.
1 Það er vilji minn að þjónn minn Warren A. Cowdery verði tilnefndur og vígður ráðandi háprestur kirkju minnar í Freedom landi og nærliggjandi héruðum —
2 Að hann boði hið ævarandi fagnaðarerindi mitt og hefji upp raust sína og aðvari fólkið, ekki aðeins á sínu svæði, heldur í nærliggjandi sýslum —
3 Og helgi þessari háu og heilögu köllun, sem ég nú veiti honum, allan tíma sinn og leiti af kostgæfni himnaríkis og réttlætis þess, og allt nauðsynlegt mun bætast honum að auki, því að verður er verkamaðurinn launa sinna.
4 Og sannlega segi ég yður enn, að koma Drottins nálgast og kemur yfir heiminn sem þjófur á nóttu —
5 Girðið þess vegna lendar yðar, svo að þér verðið börn ljóssins og þessi dagur komi ekki yfir yður eins og þjófur.
6 Og sannlega segi ég yður enn, gleði var á himni, þegar þjónn minn Warren laut veldissprota mínum og sagði skilið við slægð mannanna —
7 Blessaður er því þjónn minn Warren, því að ég mun vera honum miskunnsamur, og þrátt fyrir fordild hjarta hans mun ég hefja hann upp, svo sem hann er auðmjúkur gagnvart mér.
8 Og ég mun veita honum náð og fullvissu, svo að hann fái staðist. Og sé hann áfram staðfast vitni og kirkjunni ljós, hef ég fyrirbúið honum kórónu í híbýlum föður míns. Já, vissulega. Amen.