Ritningar
Kenning og sáttmálar 118


118. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Far West, Missouri, 8. júlí 1838, sem svar við bæninni: „Sýn oss, ó Drottinn, vilja þinn varðandi hina tólf.“

1–3, Drottinn mun annast fjölskyldur hinna tólf; 4–6, Skipað í stöður meðal hinna tólf.

1 Sannlega, svo segir Drottinn: Ráðstefna skal haldin nú þegar. Hinir tólf skulu skipulagðir og menn skulu útnefndir til að fylla sæti þeirra, sem fallið hafa.

2 Lát þjón minn Thomas halda um stund kyrru fyrir í landi Síonar, til að gefa út orð mitt.

3 Lát aðra halda áfram að prédika frá þessari stundu, og gjöri þeir það af hjartans lítillæti, hógværð og auðmýkt og með umburðarlyndi, gef ég, Drottinn, þeim loforð um, að ég mun annast fjölskyldur þeirra og að áhrifamiklar dyr munu opnast þeim héðan í frá.

4 Og næsta vor skulu þeir halda yfir hin miklu vötn og birta þar fagnaðarerindi mitt, fyllingu þess, og bera nafni mínu vitni.

5 Þeir skulu yfirgefa mína heilögu í borginni Far West tuttugusta og sjötta dag aprílmánaðar næstkomandi, á byggingarlóð húss míns, segir Drottinn.

6 Lát útnefna þjón minn John Taylor og einnig þjón minn John E. Page og einnig þjón minn Wilford Woodruff og einnig þjón minn Willard Richards, til að taka sæti þeirra sem fallið hafa, og verði opinberlega tilkynnt um útnefningu þeirra.