Ritningar
Kenning og sáttmálar 131


131. Kafli

Leiðbeiningar spámannsins Josephs Smith, gefnar í Ramus, Illinois, 16. og 17. maí 1843.

1–4, Himneskt hjónaband er nauðsynlegt til upphafningar í hinum æðsta himni; 5–6, Hvernig menn eru innsiglaðir til eilífs lífs er útskýrt; 7–8, Allur andi er efni.

1 Í hinni himnesku dýrð eru þrír himnar eða stig —

2 Og til þess að ná því æðsta, verður maðurinn að ganga inn í þessa prestdæmisreglu [það er, hinn nýja og ævarandi hjónabandssáttmála]

3 Og gjöri hann það eigi, getur hann ekki náð því.

4 Hann getur gengið inn í hin, en lengra nær ríki hans ekki. Hann getur ekki bætt við sig.

5 (17. maí 1843). Hið áreiðanlegra spámannsorð þýðir, að maðurinn veit með opinberun og spádómsanda, fyrir kraft hins heilaga prestdæmis, að hann er innsiglaður til eilífs lífs.

6 Ógerlegt er að maðurinn frelsist í vanþekkingu.

7 Ekkert er til án efnis. Allur andi er efni, en hann er fíngerðari og tærari og aðeins hægt að greina hann með tærari augum —

8 Við getum ekki séð hann, en þegar líkamar okkar eru hreinsaðir munum við sjá, að hann er allur efni.