2021
Píanó fyrir Prophet
Mars 2021


Píanó fyrir Prophet

Þessi frásögn gerðist í Accra, Gana.

Drengur að nafni Prophet átti sér tvö mikilvæg markmið.

„Tónlist er tungumál sem allir geta skilið“ (Barnasöngbók, iii).

hands on piano keyboard

Prophet unni tónlist. Hann unni sérstaklega Barnafélagssöngvunum og sálmum kirkjunnar. Hann raulaði lögin allan liðlangan daginn. Hann ímyndaði sér að hann sæti við píanó og spilaði uppáhalds lögin sín. Hann ímyndaði sér líka að hann kenndi öðrum hvernig ætti að spila.

Það var aðeins eitt vandamál. Hann átti ekki píanó.

Einn daginn átti Prophet viðtal við biskupinn sinn.

„Hefur þú sett þér markmið fyrir barna- og unglingaáætlunina?“ spurði biskupinn.

„Já,“ svaraði Prophet. „Ég vil læra að spila á píanó.“

„Það er gott markmið,“ sagði biskupinn.

„Þegar ég næ þessu markmiði,“ sagði Prophet, „þá á ég mér annað markmið. Ég vil kenna 20 manns hvernig á að spila.“

„Þú hefur tvö góð markmið,“ sagði biskupinn.

„Ég hef líka eitt vandamál,“ sagði Prophet. „Ég á ekki píanó.“

„Jæja, við skulum sjá hvað við getum gert í því.“

Í kirkju, næsta sunnudag, sagði biskupinn Prophet að hann hafi fundið trúboðshjón sem gætu kennt honum. Þau myndu hafa hljómborð með í för, svo hann og aðrir gætu æft sig. Þau vildu kenna fullt af fólki að spila á píanó.

Biskupinn talaði við fólk. Prophet talaði við fólk. Fjölskylda Prophet talaði við fólk. Bráðlega urðu píanótímar að umræðuefni allrar deildarinnar. Líka annarra.

„Margir af vinum mínum, sem ekki eru meðlimir, vildu líka læra,“ sagði Prophet við biskupinn.

„Þau eru auðvitað velkomin líka,“ sagði biskupinn. „Trúboðarnir gefa þér bók og hjálpa þér að læra lexíurnar. Þegar þú hefur lært þær getur þú hjálpað þeim að kenna öllum hinum.“

„Það er annað markmiðið mitt!“ sagði Prophet.

Prophet var fljótlega byrjaður að æfa sig með trúboðunum. Hann hafði yndi af því að læra hvað hver nóta þýddi og að heyra þær raða sér upp og mynda lag. Tveir af vinum hans í kirkjunni, Kelvin og Alexander, lærðu líka. Eftir mánuð voru drengirnir þrír byrjaðir að kenna líka.

Þeir kenndu á hljómborð í kirkjubyggingunni á hverjum degi. Til að byrja með voru um 10 nemendur, svo 20, svo 50!

„Þetta er skemmtilegt!“ sagði Kelvin þegar kennslu var lokið einn daginn.

„Ég held að himneskur faðir sé ánægður, af því að við erum að hjálpa öðrum að læra,“ sagði Alexander.

Prophet kinkaði kolli. Markmið hans hafði nú þegar hjálpað svo mörgum.

Það var nokkuð annað sem veitti Prophet hamingju. Nemendurnir lærðu líka um himneskan föður, þegar þeir æfðu Barnafélagssöngvana. Nokkrir þeirra spurðu Prophet hvort þeir gætu lært meira um kirkjuna.

Í raun létu einhverjir þeirra skírast, sem höfðu fyrst lært um kirkjuna vegna píanónámsins.

„Nú sameinumst við á samkomum,“ sagði Prophet, „og syngjum söngvana sem við höfum dálæti á.“

Friend Magazine, 2021/03-04 Mar/Apr

Myndskreytingar eftir Violet Lemay