Undirbúningur fyrir páska
„[Tilbiðjið] föðurinn í hans nafni með hreinum hjörtum og flekklausum höndum (2. Nefí 25:16).
„Vaknaðu, Lydia,“ sagði mamma. „Það er Tiltektar fimmtudagur!“ Í Rússlandi, þar sem Lydia býr, er Tiltektar fimmtudagur sérstakur dagur til að undirbúa sig fyrir páskana.
Lydia rúllaði sér og leit út um gluggann. Það var enn dimmt úti.
„Mamma, ég er svo þreytt,“ sagði Lydia. „Get ég sofið örlítið lengur og unnið síðar?“
Mamma brosti og settist á rúmið. „Það er ástæða fyrir því að við vöknum svo snemma í dag. Veistu hver hún er?“
Lydia hugsaði sig vel um, en hún vissi það ekki.
„Við leggjum hart að okkur við að hreinsa heimili okkar í dag til að minna okkur á það þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Hann elskaði og þjónaði öðrum og við viljum þjóna á heimili okkar eins og Jesús gerði. Í dag er dagur til minningar um Jesú!“ sagði mamma.
Lydia vildi þjóna eins og Jesús og dreif sig upp úr rúminu. Það sem eftir lifði dags lagði hún hart að sér. Hún hreinsaði gólfið, þvoði föt og hjálpaði til við að elda mat. Þegar dagurinn var á enda var hún hreykin. Allt var tandurhreint.
Á morgun var föstudagurinn langi. Lydia, mamma og pabbi gerðu páskaegg. Þau gerðu lítil göt á eggjaskurnina og tóku út innihaldið. Þau teiknuðu mynstur á eggin og huldu hvert þeirra með vaxi. Síðan dýfðu þau öllum eggjunum í ljósrauðan, fjólubláan og grænan lit. Lydiu fannst æðislegt hversu falleg mynstrin voru.
Þegar eggin þornuðu, þá rúllaði Lydia litlum fjölskyldumyndum upp og setti eina ofan í hvert egg. Þessi föstudagur var dagur samveru og minningar um fórn Jesú. Á þessum degi vikunnar hafði Jesús dáið. Eggin minntu Lydiu á gröfina sem Jesús var lagður í. Fjölskylda Lydiu gerði sitt besta til að minnast hans.
Á laugardegi fyrir páska, gerði mamma kulich (páskabrauð). Að gera kulich var mikilvægur páskasiður í Rússlandi. Fólk reyndi alltaf að sýna virðingu þegar kulich var bakað. Lydia hugsaði um fjölskyldu sína, upprisu Jesú og þá hluti sem hún var þakklát fyrir. Það var auðveldara að hugsa um andlega hluti þegar húsið hennar var svo hreint og friðsælt.
Loks rann páskadagur upp! Lydia var afar spennt. Frændsystkini hennar komu í heimsókn. Þau borðuðu ljúffengan matinn sem hún hafði hjálpað við að elda. Á boðstólnum voru bökur, kulich, pylsur og ostar. Þau miðluðu vitnisburði sínum þegar þau borðuðu og töluðu um það sem þau voru þakklát fyrir.
Eftir kvöldmat fóru þau í skemmtilegan leik. Hver einstaklingur hélt á skreyttu eggi og bankaði létt á annað egg. Sá sem átti fyrsta brotna eggið, tapaði leiknum. Handleggir Lydiu titruðu þegar hún þrýsti egginu sínu að eggi frænku sinnar. „Áfram, egg!“ hrópaði hún. Bjartfjólubláa eggið hennar brotnaði í mola. Inni í brotinni eggjaskurninni var mynd af fjölskyldu hennar.
Lydia brosti þegar hún skoðaði myndina. Hún var ekki vonsvikin yfir því að tapa leiknum. Hlý, glaðleg tilfinning fyllti hjarta hennar. Hún hafði lagt hart að sér við að undirbúa páskana með því að hjálpa og elska fjölskyldu sína. Vegna upprisu Krists skyldu þau öll lifa aftur!