2022
Jesús Kristur býður okkur von
September 2022


„Jesús Kristur býður okkur von,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2022.

Jesús Kristur býður okkur von

Þegar við þjónum öðrum, býður Jesús Kristur okkur von um að hlutirnir gangi upp í lífi okkar.

Ljósmynd
piltar ýta á undan sér hjólbörum

Piltar frá Cusco, Perú, vinna þjónustuverk saman.

Lífið er fullt af áskorunum. Þið hafið væntanlega upplifað nokkrar nú þegar. Margar ástæður eru fyrir stressi og áhyggjum, ótta og kvíða. Þegar við upplifum slíkt, er tilhneigingin sú að horfa inn á við – að annast okkur sjálf og þarfir okkar fyrst og fremst. Við höldum að ef við verjum tíma okkar og orku í að reyna að „laga“ hlutina, getum við unnið okkur úr vandræðunum.

Jesús Kristur sýndi okkur þó betri leið. Hann kenndi: „Sá sem vill sjá lífi sínu borgið mun týna því en sá sem týnir því mun öðlast líf“ (Lúkas 17:33). Fljótlegasta leiðin til að finna von í raunum ykkar er að snúa af öllu hjarta til frelsarans og fylgja fordæmi hans og þjóna öðrum.

Ljósmynd
Kristur læknar manninn við Betesdalaug

Lækningin við Betesdalaug, eftir Gary Smith

Líf frelsarans var fullkomið fordæmi um elsku og gæsku til allra manna. Hann gleymdi sér ætíð í þjónustu við aðra. Verk hans endurspegluðu óeigingirni, hvern dag lífs hans, og takmörkuðust ekki við ákveðinn tíma.

Ef við snúum hjörtum okkar út á við, eins og frelsarinn gerði, munum við vissulega finna óendanlega möguleika til að gefa öðrum af okkur sjálfum af gæsku og yfirlætisleysi.

Þannig getum við kynnst frelsaranum betur og fundið sjálf frið á jörðu, er við þroskum með okkur aukinn kærleika til annarra. Þegar þið „[týnið] lífi [ykkar]“ við það að hjálpa öðrum og fylgið fordæmi frelsarans, mun hann hjálpa ykkur.

Ljósmynd
piltar lyfta leirsteinum

Englar hversdagsins

Frelsarinn beinir oft öðrum inn í líf okkar, til að færa okkur þann frið og huggun sem við þurfum á að halda á erfiðleikatímum. Okkur finnst þetta blessaða fólk vera sem englar sem sendir eru frá himni, vissulega hlýtur það að vera rétt.

Ég og fjölskylda mín upplifðum sjálf slíkar tilfinningar huggunar og friðar, af nokkrum ólíkum tilefnum, sem nútíma englaskari fær vakið. Ég ætla að segja frá einu slíku tilviki. Árið 2003 fluttum við frá heimalandi okkar, Brasilíu, til Utah, í Bandaríkjunum.

Þann vetur skall á einn mesti snjóstormur sem komið hafði yfir Utah í nokkur ár. Við höfðum aldrei séð neitt þessu líkt áður, þar sem við vorum alin upp meðal pálmatrjáa og sandstranda. Heimili okkar var staðsett á hornlóð á hæð, með langri gangstétt.

Þegar tók að snjóa, byrjaði eiginkona mín djarflega að nota snjóblásarann á innkeyrsluna og gangstéttina. Ég var ófær um að hjálpa, því ég hafði runnið á klaka og brotið úlnlið nokkrum dögum áður. Slysið leiddi til skurðaðgerðar og stórt gifs var sett á handlegginn.

Þegar mín kæra eiginkona byrjaði að snjóblása í fyrsta sinn á ævi sinni, hafði hún ekki hugmynd um að hún þyrfti að breyta stefnu blásarans eftir að hafa hreinsað heimreiðina öðru megin. Þegar hún því fór hinum megin til að hreinsa snjóinn, hafði blásarinn blásið snjónum þangað. Hún fór fram og til baka án nokkurs árangurs. Hvílíkt klandur!

Hún fékk síðan mikla eyrnabólgu af því að vera svo lengi úti í kuldanum og varð næstum heyrnarlaus í tvo mánuði. Á sama tíma hafði 16 ára sonur minn meiðst á baki í sleðaferð og þurfti að vera rúmliggjandi til að ná bata. Þannig var ástandið á heimilisfólkinu, einn rúmfastur, annar heyrnarlaus, enn annar í gifsi og öll skjálfandi af kulda.

Ég er viss um að nágrönnunum fannst ekki sjón að sjá okkur. Á einum af þessum köldu morgnum í bítið, um klukkan fimm, vaknaði ég við hljóð í snjóblásara fyrir utan gluggann. Ég leit út og sá nágranna minn, bróður Blaine Williams, sem bjó hinum megin við götuna. Næstum orðinn sjötugur, hafði hann farið út úr sínu hlýja og þægilega heimili og snjóhreinsað heimreiðina og gangstéttina okkar, því hann vissi að við gætum ekki gert það sjálf.

Ljósmynd
snjóblásari

Ljósmynd frá Getty Images

Annar vinur, bróðir Daniel Almeida, kom á heimili okkar til að aka mér niður í Salt Lake City til vinnu, þar sem ég gat ekki ekið með hið fyrirferðarmikla gifs. Þeir voru til staðar fyrir mig á hverjum morgni og sýndu þann kærleika sem þeir báru með þessum einföldu góðverkum, þar til fjölskylda mín hafði náð sér og við urðum sjálfbjarga að nýju.

Þessir englum líku bræður voru sendir okkur þennan kalda vetur, árið 2003. Þessir tveir bræður fylgdu fordæmi frelsara okkar og tóku þarfir okkar fram yfir sínar eigin.

Frelsarinn býður frið

Þjónusta við aðra veitir okkur æðri og heilagri sýn. Þegar við þjónum öðrum, býður Jesús Kristur okkur von um að hlutirnir gangi upp í lífi okkar.

Að snúa hjörtum okkar út á við, eins og frelsarinn gerði, mun blessa okkur með óendanlegum möguleikum til að gefa öðrum af okkur sjálfum af gæsku og yfirlætisleysi. Að lifa á sama hátt og frelsarinn lifði, hjálpar okkur einnig að auka kristilegan kærleika til annarra. Það hjálpar okkur að finna til meiri elsku, friðar, ljóss og endurnýjaðs styrks.

Ljósmynd
systur

Frelsarinn býður okkur að leita hans með hverri hugsun og að fylgja honum. Þetta er loforð um að við getum gengið í ljósi hans og að leiðsögn hans komi í veg fyrir áhrif myrkursins á líf okkar. Þegar þið „[týnið]“ lífi ykkar í honum, mun hann hjálpa ykkur að finna ykkur sjálf.

Ljósmynd
drengir í skóla

Ljósmynd frá Getty Images

Snúið ykkur til Krists, alltaf

Ég ber hátíðlegt vitni um að Jesús reis frá dauðum og að hann lifir. Ég ber ykkur vitni um að sökum hans og altækrar friðþægingar hans, hefur frelsarinn veitt okkur leið til að sigrast á dauða, bæði líkamlegum og andlegum.

Til viðbótar, býður hann okkur einnig huggun og fullvissu á erfiðleikatímum. Ég fullvissa ykkur um að er við treystum Jesú Kristi og guðlegri friðþægingu hans, stöndum stöðug í trú okkar allt til enda, munum við njóta loforða ástríks himnesks föður okkar, sem gerir allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa okkur að koma aftur í návist hans einhvern daginn.

Prenta