2022
Fjögur lykilatriði Nefís til að skilja Jesaja
September 2022


„Fjögur lykilatriði Nefís til að skilja Jesaja,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2022.

Kom, fylg mér

Jesaja

Fjögur lykilatriði Nefís til að skilja Jesaja

Áttu í erfiðleikum með að lesa Jesaja? Nefí kemur okkur til hjálpar!

Ljósmynd
Nefí ritar á gulltöflur

Myndskreytingar eftir Kevin Keele

Það er augljóst að ritmál spámannsins Jesaja í Gamla testamentinu er mikilvægt, þar sem Nýja testamentið og Mormónsbók vitna oft í þau. Frelsarinn sagði sjálfur: „Mikil eru orð Jesaja“ (3. Nefí 23:1).

Af hverju þurfa þau samt að vera svo torskilin?

Ekki missa kjarkinn! Nefí þekkti erfiðleika okkar. Hann var sammála að „margt af því, sem Jesaja sagði, var … torskilið“ (2. Nefí 25:1). Til allrar hamingju hefur Nefí gefið okkur fjögur lykilatriði sem geta hjálpað okkur að skilja merkingu orða Jesaja.

Lykilatriði eitt: Að lifa á síðustu dögum

Nefí skrifaði að þeir sem lifðu á „síðustu dögum“ gætu „[skilið]“ orð Jesaja (2. Nefí 25:8). Ef til vill er það vegna þess að fólk á síðustu dögum hefði innsýn sem fólkið á tíma Jesaja hafði ekki. Fyrir löngu skildi fólk kannski ekki hvernig fólk gæti „[kallað] hið illa gott og hið góða illt“ (Jesaja 5:20), en við sjáum þetta gerast allt umhverfis.

Fólk í fortíðinni skildi kannski ekki heldur hvað Drottinn átti við, þegar hann sagði: „Ég [mun] … fara undarlega með þetta fólk, undarlega og undursamlega“ (Jesaja 29:14).

Nútíma spámenn hafa sagt þetta „undarlega og undursamlega“ verk eiga við um það þegar Mormónsbók var leidd fram og áframhaldandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists. Þið eruð blessuð að lifa á tíma þar sem hægt er að verða vitni að uppfyllingu margra spádóma Jesaja.

Lykilatriði tvö: Hafið anda spádóms

Nefí sagði að orð Jesaja geti verið „ljós öllum þeim, sem fylltir eru anda spádóms“ (2. Nefí 25:4). Þetta gæti í fyrstu hljómað yfirþyrmandi, en það þýðir ekki að aðeins spámenn geti fengið skilið Jesaja. Ritningarnar kenna að „vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar“ (Opinberunarbókin 19:10). Með öðrum orðum, ef þið trúið á Jesú Krist, hafið þið nú þegar grunn að því sem þarf til að skilja Jesaja!

Ritmál Jesaja vitnar um Jesú Krist og friðþægingu hans. Jafnvel nafn hans vitnar um frelsarann! Nafnið Jesaja þýðir „Drottinn er hjálpræði“ eða „Jesús bjargar.“

Lykilatriði þrjú: Skilningur á ljóðlist og táknum

Nefí útskýrði að orð Jesaja væru erfið fyrir þá sem ekki væru kunnugir „[spádómsháttum] meðal Gyðinga“ (2. Nefí 25:1). Orð Jesaja verða skiljanlegri þegar við lærum meira um rithefðir Austurlanda á tímum Jesaja, t.d. ljóðlist og tákn. Jesaja notaði yfirleitt flókin tákn í ritmáli sínu.

Jesaja skrifaði t.d. að þeir sem „hreykja sér hátt“ væru sem „[sedrustré] Líbanons“ og „[eikur] í Basan [í Sýrlandi]“ (2. Nefí 12:13). Sedrus- og eikartré eru harðviðartré. Jesaja sagði á ljóðrænan hátt að þeir sem væru dramblátir og sjálfumglaðir væru eins og hávaxin tré, því þeir hefðu hert hjörtu sín og fundist þeir betri en aðrir. Að lesa Jesaja eins og ljóð, getur hjálpað okkur að skilja betur kenningar hans.

Lykilatriði fjögur: Þekkið landafræðina

Jesaja nefnir 108 mismunandi staði í ritmáli sínu. Það getur verið frekar ruglandi að fylgjast með þessu, sérstaklega ef maður hefur ekki búið þarna! Fjórða lykilatriði Nefís er að þekkja „[svæðin], sem að [Jerúsalem] liggja“ (2. Nefí 25:6).

Jerúsalem er á sama stað og hún hefur ávallt verið, en til forna lá hún milli þriggja heimsvelda sem áttu í baráttu. Babýlon lá til austurs, höfuðstöðvar lista og tísku. Assýría í norðri, herveldi á dögum Jesaja. Egyptaland til suðvesturs, miðstöð viðskipta. Bara þessi vitneskja, getur verið gagnleg til að fylgjast með því hver hótaði að ráðast á Ísrael og færa fólkið í ánauð. Táknrænt stendur Babýlon fyrir veraldarhyggju, Assýría fyrir dramb og Egyptaland fyrir ríkidæmi.

Orð Jesaja eru ætluð ykkur

Jesaja kenndi margt annað sem er okkur mikilvægt að skilja. Hann vitnaði um tvístrun og samansöfnun Ísraels, sem Russell M. Nelson forseti hefur sagt að sé „mikilvægasta verk á jörðinni í dag. … Þið getið tekið aukinn þátt í henni, ef við viljið og kjósið“ („Hope of Israel“ [heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní 2018], 8, HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org; sjá Jesaja 49:13–23).

Ljósmynd
Síðari koma Jesú Krists

Jesaja vitnaði einnig um uppbyggingu Síonar til undirbúnings síðari komu frelsarans og þúsund ára ríkisins (sjá, t.d., Jesaja 5152). Með vitnisburð um Jesú Krist, getur andinn vitnað fyrir ykkur um mikilvægi orða Jesaja og hvernig þau geta hjálpað og blessað líf ykkar á þessum tíma.

Prenta