2022
Jesús Kristur getur …
September 2022


„Jesús Kristur getur …,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2022

Kom, fylg mér

Orðskviðirnir; Prédikarinn; Jesaja

Jesús Kristur getur …

Þau sannindi sem rituð voru fyrir þúsundum ára, kenna okkur hvað Drottinn getur gert fyrir okkur nú á tímum.

Jesús Kristur og Pétur ganga á vatni

Fullkomnari trúarinnar, eftir J. Alan Barrett

Sannleikur Guðs rennur aldrei úr gildi. Þetta er vegna þess að hann er vitneskja „um hlutina eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða“ (Jakob 4:13).

Þau sannindi sem rituð voru fyrir þúsundum ára í Gamla testamentinu eru enn sönn. Sum þeirra hjálpa ykkur að sjá hvað Drottinn getur gert fyrir ykkur nú á tímum. Hér eru nokkur slík sannindi úr Orðskviðunum, Prédikaranum og Jesaja (sem þið lærið í þennan mánuðinn). Þau sýna ykkur að Jesús Kristur getur …

Gert leiðir ykkar greiðar

Stundum erum við öll ráðvillt, týnd eða þörfnumst leiðsagnar. Ef þið leggið fullt traust ykkar á Drottin, „mun hann gera leiðir [ykkar] greiðar“ (sjá Orðskviðina 3:5–6).

Ef þið haldið boðorð hans, „[leiðir hann] þig þann veg sem þú skalt ganga“ og gerir „[hamingju ykkar] sem fljót“ (Jesaja 48:17–18).

Jesús og piltur

Mæta frelsaranum, eftir Jen Tolman

Veitt ykkur yfirsýn

Viðhorf og lífstíll heimsins gætu virst flott eða ánægjuleg. Kenningar Jesú Krists geta þó hjálpað okkur að sjá hve innantóm og skammvinn leið heimsins er.

Allt „sem [unnið er] undir sólinni … [er] hégómi og eftirsókn eftir vindi“ (Prédikarinn 1:14). Með öðrum orðum, þá færir leið heimsins ergelsi. Líkt því að eltast við vindinn og reyna að ná honum. Við öðlumst hamingju þegar við virðum Guð, sýnum honum lotningu og höldum boðorð hans (sjá Prédikarann 12:13).

Margt fólk í heiminum „[kallar] hið illa gott og hið góða illt, … [gerir] myrkur að ljósi og ljós að myrkri, … [gerir] hið ramma sætt og hið sæta rammt“ (Jesaja 5:20). Drottinn sýnir okkur þó sannleikann. Með því að fylgja leið hans og orði, getum við „[farið] burt fagnandi og [verið] örugg … leidd af stað“ (sjá Jesaja 55:8–12).

(Sjá einnig Jesaja 40:6–8; 51:7–8.)

Fyrirgefið syndir ykkar

Við höfum öll gert mistök. Við höfum öll syndgað. Ef við iðrumst og höldum áfram að leggja okkur fram við að halda boðorð Guðs, getur Jesús Kristur gert okkur hrein og heil á ný. „Hann [mun miskunna] honum, … því að hann fyrirgefur ríkulega“ (Jesaja 55:7). Hann hefur sagt:

„Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri skulu þær verða sem ull“ (Jesaja 1:18).

„Ég afmái afbrot þín, … ég einn, og minnist ekki synda þinna“ (Jesaja 43:25).

Jesús Kristur faðmar einhvern

Ljósmynd eftir Mark Mabry

Styrkt ykkur

Við erum öll stundum veikburða og þreytt. Jesús Kristur getur veitt okkur styrk. „Drottinn [Jehóva] er eilíft bjarg“ (Jesaja 26:4). Ef þið eruð auðmjúk og treystið honum, getur hann hjálpað ykkur að standast freistingu, taka erfiðar ákvarðanir eða hreinlega að halda stefnu ykkar frammi fyrir erfiðleikum. Hann hefur sagt:

„Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér“ (Jesaja 41:10).

Aldrei gleymt ykkur

Frelsarinn Jesús Kristur fórnaði sér fyrir ykkur vegna þess að hann elskar himneskan föður okkar – og hann elskar ykkur. Fórn hans gerir ykkur kleift að rísa upp og hafa tækifæri til að verða eins og himneskur faðir. Hann mun aldrei yfirgefa ykkur eða gleyma ykkur. Hann hefur sagt:

„Fær kona gleymt brjóstbarni sínu …? Og að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.

Ég hef rist þig í lófa mér“ (Jesaja 49:15–16).

Fyrst hann hefur gert svo mikið fyrir okkur og mun aldrei gleyma okkur, ættum við líka að leitast við að „hafa hann ávallt í huga“ (Kenning og sáttmálar 20:77, 79).