Guð er við stjórnvölinn
Boðorð og sáttmálar eru ómetanlegur sannleikur og kenningar, sem finna má í hinu gamla skipi Síonar, þar sem Guð er við stjórnvölinn.
Á síðustu október aðalráðstefnu hvatti ég þá sem hlýddu á til að tileinka sér þá leiðsögn Brighams Young um að halda sig um borð í hinu gamla skipi Síonar, sem er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, og ríghalda sér með báðum höndum.1 Ég gleðst yfir því að frá þeim tíma hafa nokkrir í fjölskyldunni, og aðrir sem á hlýddu, spurt mig: „Hvert er gamla skipið sem við eigum að halda okkur um borð í?“ Ég minni þau á það sem Brigham Young forseti sagði: „Við erum í gamla Síonarskipinu. … [Guð] er við stjórnvölinn, og verður þar áfram. … Hann leiðir og fer fyrir okkur. Ef fólkið mun hafa algjört traust á Guði sínum, aldrei hverfa frá sáttmálum sínum eða Guði, mun hann koma því í höfn.“2
Himneskur faðir og Drottinn Jesús Kristur, hafa augljóslega búið hið gamla skip Síonar skýrum og eilífum sannleika, sem gerir okkur kleift að halda stefnu í erfiðum sjó jarðlífsins. Hér eru fáein sannleikskorn.
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur ávallt verið leidd af lifandi spámönnum og postulum. Þótt þjónar Drottins séu jarðneskir og mannlega breyskir, eru þeir engu að síður innblásnir til að auðvelda okkur að forðast andlega ógnandi aðstæður og komast örugg í gegnum jarðlífið, til okkar endanlega himneska ákvörðunarstaðar.
Á mínu 40 ára samstarfi, hef ég upplifað af eigin raun er bæði hljóður innblástur og afgerandi opinberun hafa knúið spámenn og postula til aðgerða, og aðra aðalvaldhafa og leiðtoga aðildarfélaga. Þótt þessir góðu karlar og konur séu hvorki fullkomin, né óskeikul, þá helga þau sig algjörlega því að leiða verk Drottins, eins og hann leiðbeinir.
Velkist ekki í vafa um þetta: Drottinn stjórnar kirkjunni sinni með lifandi postulum og spámönnum. Þannig hefur hann ætíð framkvæmt verk sitt. Frelsarinn kenndi vissulega: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim, sem ég sendi, hann tekur við mér.“3 Við getum ekki aðskilið Krist frá þjónum hans. Án postula hans, hefðum við ekki frásagnir sjónarvotta um margar kenningar hans, þjónustu, þjáningar í Getsemanegarðinum og dauða hans á krossinum. Án vitnisburða þeirra, hefðum við ekki postulegt vitni um tómu gröfina og upprisuna.
Hann bauð þessum fyrstu postulum:
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,
og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“4
Þetta mikla boð var aftur gefið á okkar tíma, er Drottinn kallaði Joseph Smith til að endurreisa kirkjuna, með vígðum postulum, og lýsti yfir fagnaðarerindi sínu í síðasta sinn áður en hann kæmi aftur.
Heimurinn hefur ætíð átt erfitt með að staðfesta og viðurkenna lifandi spámenn og postula, en þeir eru nauðsynlegir til að fá nægjanlega skilið friðþæginguna og kenningar Jesú Krists og taka á móti fyllingu blessana prestdæmisins, sem veitt er þeim sem hann hefur kallað.
Of margir telja að kirkjuleiðtogar og meðlimir skuli vera fullkomnir eða næstum fullkomnir. Slíkir gleyma að náð Drottins nægir til að jarðneskir menn fái framkvæmt verk hans. Ásetningur leiðtoga okkar er góður, en stundum verður okkur á. Þetta einskorðast ekki við kirkjulegt samstarf, því hið sama á við um samskipti okkar við vini, nágranna og vinnufélaga og maka og fjölskyldu.
Nokkuð auðvelt er að greina mannlegan breyskleika í öðrum. Okkur verður aftur á móti hörmulega á, ef við aðeins einblínum á hið mannlega eðli í öðrum og sjáum ekki hönd Guðs að verki í þeim sem hann hefur kallað.
Að einblína á hvernig Drottinn innblæs sína útvöldu leiðtoga og hvernig hann knýr hina heilögu til að framkvæma margt einstakt og undursamlegt, þrátt fyrir mannlegan breyskleika þerra, er ein leið til að ríghalda sé í fagnaðarerindi Jesú Krists og halda sig um borð í hinu gamla skipi Síonar.
Annar sannleikur er kenningin um áætlun sáluhjálpar. Fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith, sá Guð okkur yfir Mormonsbók, Kenningu og sáttmálum og mörgum fleiri kenningum kirkjunnar. Þetta veitir okkur þekkingu á áætlun sáluhjálpar, sem sýnir hvaðan við komum, tilgang okkar hér á jörðinni og hvert við förum eftir að við deyjum. Áætlunin veitir okkur líka einstæða eilífa yfirsýn um að við erum andabörn Guðs. Ef við skiljum hver faðir okkar á himnum er og samband okkar við hann og hinn ástkæra son hans, Jesú Krist, munum við hlíta boðorðum þeirra og gera sáttmála við þá, sem mun leiða okkur í eilífa návist þeirra.
Í hvert sinn er ég held á nýfæddu barni, þá hugsa ég með mér: „Hver ert þú, litli minn? Hvað mun friðþæging Krists gera úr þér?“
Við spyrjum álíka íhugulla spurninga þegar einhver ástvinur deyr: „Hvar eru þau? Hvað sjá þau og upplifa? Heldur lífið áfram? Hvernig verður sambandið við þá sem við elskum í hinum mikla heimi anda hinna dánu?“
Í þeim heimi á ég tvær barnadætur, Söru og Emily, og einn barnason, Nathan. Við, sem fjölskylda, héldum fast um sannleika fagnaðarerindisins við missi hvers barnabarns. Spurningum okkar var svarað með hughreystingu og fullvissu fyrir friðþægingu frelsarans. Þótt við hjónin söknum barnabarna okkar, þá vitum við að þau lifa og að við munum sjá þau aftur. Hve þakklát við erum fyrir þennan andlega skilning er erfiðleikar hrjá okkur eða fjölskyldu okkar.
Annar mikilvægur sannleikur í kirkjunni, er sá að himneskur faðir skapaði Adam og Evu í æðri tilgangi. Það féll í þeirra hlut – og síðar afkomenda þeirra – að skapa jarðneska líkama fyrir andabörn Guðs, svo þau gætu upplifað jarðlífið. Í því ferli þá sendi himneskur faðir andabörn sín til jarðarinnar, til að læra og þroskast af reynslu sinni þar. Guð sendi himneska sendiboða og postula, því hann elskar börn sín, til að kenna þeim um hið mikilvæga hlutverk Jesú Krist sem frelsara.
Í aldaraðir hafa spámenn framfylgt þeirri skyldu sinni að aðvara fólk um hætturnar umhverfis. Postulum Drottins er skylt að vaka yfir, aðvara og liðsinna þeim sem leita svara við spurningum lífsins.
Fyrir 20 árum gáfu Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin út skjalið „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“ Í því innblásna skjali eru þetta lokaorðin: „Við vörum við því að þeir sem rjúfa sáttmála skírlífis, sem misþyrma maka eða barni, eða sinna ekki ábyrgð sinni gagnvart fjölskyldunni, munu síðar meir verða að standa ábyrgir frammi fyrir Guði. Enn fremur viljum við vara við því að sundrung fjölskyldunnar mun leiða yfir einstaklinga, samfélög og þjóðir þær hörmungar sem spámenn fyrr og nú hafa sagt fyrir um.“5
Við, sem postular, staðfestum þessa mikilvægu aðvörun nú. Hafið í huga að boðorð og sáttmálar eru ómetanlegur sannleikur og kenningar, sem finna má í hinu gamla skipi Síonar, þar sem Guð er við stjórnvölinn.
Önnur mikilvæg kenning, sem við getum tileinkað okkur til, er að halda hvíldardaginn heilagan. Það gerir okkur kleift að vera óflekkuð af heiminum, sér okkur fyrir líkamlegri hvíld og þeirri andlegu endurnæringu sem fæst af því að tilbiðja himneskan föður og son hans á hverjum sunnudegi.6 Þegar við finnum gleði á hvíldardegi hans, er það tákn um elsku og skuldbindingu til þeirra.7
Við höfum, í þeim tilgangi að stuðla að gleði hvíldardagsins, beðið svæðisleiðtoga og kirkjumeðlimi um að hafa í huga að sakramentissamkoma heyrir Drottni til og ætti að vera grundvölluð á kenningum hans. Framsetning helgiathafnar sakramentis á sér stað er við endurnýjum sáttmála okkar og staðfestum elsku okkar til frelsarans og minnumst fórnar hans og friðþægingar.
Sami andi tilbeiðslu ætti að ríkja á hinum mánaðarlegu föstu- og vitnisburðarsamkomum. Sakramentissamkoma er höfð í þeim tilgangi að meðlimir geti tjáð himneskum föður og Jesú Kristi elsku og þakkir fyrir hið endurreista fagnaðarerindi og borið þessu vitni. Föstu- og vitnisburðarsamkoma er ætluð til að miðla stuttum innblásnum orðum, tilfinningum og hátíðlegum vitnisburði. Þær eru ekki ætlaðar til ræðuflutnings.
Ung börn ættu að æfa sig í því að gefa vitnisburð í Barnafélaginu og á fjölskyldukvöldum með foreldrum sínum, þar til þau skilja mikilvægi vitnisburðar.
Rekja má hina auknu áherslu á að gera hvíldardaginn að feginsdegi, beint til þess að leiðtogar kirkjunar hafa hlotið innblástur frá Drottni. Meðlimir deildarráðs ættu með nokkurra vikna fyrirvara að aðstoða biskupsráð við að endurskoða tónlistina og efnið sem lögð hafa verið til fyrir hverja sakramentissamkomu.
Við njótum öll blessunar þegar hvíldardagurinn er fylltur elsku til Drottins, bæði heima og í kirkju. Þegar börnum okkar er kennt að hætti Drottins, lærist þeim að skynja og breyta samkvæmt anda hans. Við munum öll þrá að koma hvern sunnudag til að meðtaka sakramentið, ef við skynjum anda Drottins. Allir, bæði ungir og aldnir, sem bera þungar byrðar, munu finna hina andlegu upplyftingu og huggun sem stafar af hvíldardeginum og trúfastri ígrundun um himneskan föður og Drottin Jesú Krist.
Til allrar hamingju, þá er Kirstur ætíð nálægur, okkur til reiðu og fús til að liðsinna okkur þegar við biðjum um hjálp og erum fús til að iðrast og koma til hans.
Þegar við nú höfum hugleitt aðeins fáein sannleikskorn sem finna má í hinu gamla skipi Síonar, þá skulum við halda okkur um borð og minnast þess að skip er skilgreint sem farartæki og að tilgangur farartækis er að koma fólki á einhvern ákvörðunarstað.
Ákvörðunarstaður skipsins okkar eru allar blessanir fagnaðarerindisins, himnaríki, himnesk dýrð og návist Guðs!
Áætlun Guðs hefur verið sett fram. Hann er við stjórnvölinn og hans máttuga skip siglir í átt að sáluhjálp og upphafningu. Hafið í huga að við fáum ekki náð þangað, ef við stökkvum frá borði og reynum að synda þangað á eigin spýtur.
Upphafning er markmið þessarar jarðnesku ferðar og enginn nær því án fagnaðarerindis Jesú Krists: Án friðþægingar hans, helgiathafna og þeirra leiðbeinandi kenninga og reglna sem eru að finna í kirkjunni.
Það er í kirkjunni sem við lærum um verk Guðs og meðtökum af náð Drottins Jesú Krists, sem endurleysir okkur. Það er í kirkjunni sem við setjum fram skuldbindingu og sáttmála um eilífar fjölskyldur, sem verða okkur sem vegabréf til upphafningar. Það er kirkjan sem er knúin af prestdæminu, til að leiða okkur yfir hin óútreiknanlegu vötn jarðlífsins.
Við skulum vera þakklát fyrir hið fallega gamla skip Síonar, því án þess værum við stefnulaus, ein og yfirgefin í ógnar straumi, stjórnlaus án stýris eða ára, og værum á valdi veðra og vinda óvinarins.
Haldið ykkur rígfast, bræður og systur, og siglið áfram í þessu dýrðarskipi, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, og við munum ná okkar eilífa ákvörðunarstað. Þetta er minn vitnisburður og bæn fyrir hönd okkar allra, í nafni þess sem hið gamla skip Síonar er nefnt eftir, já, Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, amen.