2011
Þyrnisveigur, sigursveigur
Apríl 2011


Uns við hittumst á ný

Þyrnisveigur, sigursveigur

Þyrnisveigurinn er mér táknrænn fyrir vitneskju frelsarans um allan okkar hulda sársauka—og getu hans til að græða okkur.

Ágústmánuður í Landinu helga. Umhverfis okkur blikaði á rústir Kapernaum í síðdegishitanum. Þetta var heillandi staður að vera á, en leiðsögumaður okkar og söngtifa nokkur, þar rétt hjá, höfðu bæði látið móðan mása um stund, og hugur minn tók því að reika.

Skyndilega fangaði leiðsögumaðurinn athygli mína er hann benti á tréð sem við nutum skuggans af og sagði óformlega: „Þau kalla það ‚Þyrnisveigstréð‘.“ Ég leit upp á laufskrýdda krónu þess. Hvar eru þyrnarnir? Ég teygði mig og náði að toga litla grein að mér.

Á henni sá ég þyrnana á milli fíngerðra laufblaðanna. Þeir voru grannir og grænir, afar beittir og jafn langir þumalfingri mínum og voru ekki sýnilegir nema nær þeim væri komið. En hver sá sem snerti eina hinna smávöxnu laufskrúðugu greina fyndi örugglega sársauka.

Mér varð hugsað um hinar fjölmörgu myndir sem ég hafði séð af frelsaranum standa frammi fyrir æpandi múgnum, í purpuralitum kyrtli, með hvassan þyrnisveig á höfði. Skyndilega læddist að mér sú hugsun að sá þræll eða hermaður, sem falið var að búa til sveiginn, hefði kosið að vinna með sveigjanlegar grænar greinar, líkt og trésins ofan við mig—í stað stökkra, þurra spreka. Líklegt er að sveignum hafi ekki aðeins verið ætlað að framkalla sársauka, heldur einnig að vera til háðungar og spotts.

Í hinum forna heimi voru grænir laufgaðir sveigar eða kransar—yfirleitt búnir til úr ilmandi lárviði—oft settir á höfuð sigurvegara eftir orrustur og keppni. Lárviðarsveigur var settur á höfuð konunga og keisara til að krýna þá. Hinn ógnvænlegi þyrnisveigur, sem þrýst var ofan á höfuð frelsarans, átti hugsanlega að vera laufgaður og grænn, sem hæðnisleg tilvísun í þann heiðurssið til forna. Þetta er aðeins tilgáta en ekki kenning. En sjálfum finnst mér einn þáttur friðþægingarinnar verða skýrari sé þetta hugsað þannig: Frelsarinn þekkir huldar sorgir okkar og megnar að gera okkur heil.

Kyrtillinn sem settur var yfir hann var hæðnislegt tákn um konungsdóm hans. Hann huldi rákirnar og svöðusárin eftir svipuhöggin sem hann hafði rétt áður fengið að kenna á. Á sama hátt átti hinn laufgaði þyrnisveigur að líta út sem sigursveigur, og í raun fela sársaukann sem hann framkallaði.

Svo mörg okkar bera hulinn sársauka. Sálmur einn segir: „Í hjarta hljóðu er hulin sorg sem augað fær ei greint“ („Lord, I Would Follow Thee,“ Hymns, nr. 220). En frelsarinn megnar að sjá. Hann er velkunnugur sálarkvöl. Öll hans þjónusta var bundin væntingum um friðþæginguna og upprisuna. En þeir sem hann kenndi og blessaði og læknaði vissu það ekki. Jafnvel lærisveinar hans voru ómeðvitaðir um það.

Frelsarinn sér handan „kyrtlanna“ og „þyrnisveiganna,“ sem hylja sorgir okkar fyrir öðrum. Eftir að hafa þolað „alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar,“ er hann fullur miskunnar og megnar að liðsinna okkur þegar við leggjum byrðar okkar að fótum hans (sjá Alma 7:11–12). Hann er smyrslið sem megnar að græða, jafnvel hið dýpsta og leyndasta sár. Og sveigurinn sem hann býður okkur er vissulega sigursveigur.

Kristur með þyrnisveiginn, eftir Carl Heinrich Bloch, birt með leyfi Þjóðminjasafnsins í Friðriksborg, Hillerød, Danmörku, óheimilt að afrita