Örugg sigling um Marshalleyjar
Þegar við siglum um grynningar lífsins, mun sérhvert okkar hafa af því hag að njóta leiðsagnar trúfastra meðlima við að komast að nýju til okkar himnesku heimkynna.
Sæfarendur sigldu til forna um höfin og fundu leið sína eftir staðsetningu sólar, tungls og stjarna. Á næturna fylgdust þeir grannt með Pólstjörnunni, en föst staðsetning hennar var sem himneskt akkeri fyrir sæfarendur, er gerði þeim kleift að taka rétta siglingastefnu til ákvörðunarstaðar síns.
Á Marshalleyjum í Kyrrahafi uppgötvuðu sæfarendur annars konar tækni. Þar flæða sjávarstraumar, eða undiralda sjávar, á ákveðinn reglubundinn hátt á milli kóralrifanna og eyjanna. Reyndur sjómaður getur ferðast hundruð kílómetra með því að sigla eftir margbrotnu neti sjávarstrauma—sem hver um sig er líkt og einstefnugata—frá einni eyju eða kóralrifseyju til annarrar. Þeir sem vita hvar straumarnir eru og hvert þeir liggja, geta leitt aðra sæfarendur örugglega til ákvörðunarstaðar síns.
Jesús Kristur er okkur á líkan hátt fullkomið fordæmi og hið sanna ljós hans leiðir okkur. Lögmál hans og helgiathafnir eru líkt og sjávarstraumarnir, sem leiða okkur örugglega til himneskra heimkynna. Öll þurfum við á þjónustu og stuðningi þeirra að halda sem tekið hafa að sér meistarahlutverk sæfarenda. Í eftirfarandi frásögn greina þrír íbúar Marshalleyja frá því hvernig aðrir hafa hjálpað þeim að finna leið til Krists í gegnum grýttar grynningar og storma lífsins.
Áhrif réttlátrar konu
Hirobo Obeketang sat brosandi á legubekknum sínum. Hann og eiginkona hans, Linda, höfðu rétt áður lokið fjölskyldukvöldinu með fjórum barna sinna og systratrúboðunum. Þau buðu trúboðunum einnig í kvöldmat, heilsteiktan fisk með hausi og sporði—sem er hefðbundin máltíð á Majuro, höfuðborg Marshalleyja. Þegar Hirobo segir frá lífi sínu tjáir hann þakklæti fyrir kirkjuna, fagnaðarerindið og fjölskyldu sína, einkum eiginkonu sína.
Þetta var í júní 2009. Daginn áður var Majuro-stikan á Marshalleyjum stofnuð og Hirobo var kallaður til að þjóna sem fyrsti framkvæmdaritari stikunnar. Hirobo er, eins og hinn nýju stikuforseti, Arlington Tibon, lýsti honum, „afskaplega sterkur,“ einn af túföstum leiðtogum eyjanna.
En Hirobo var fyrstur til að benda á að raunin hafi ekki verið sú fyrr en nýverið. Hann sagði eiginkonu sína í raun vera sterkari í trúnni—því hún hafi gert gæfumuninn í lífi hans. Hann sagði: „Ég skírðist átta ára gamall, en varð svo líttvirkur 16 ára gamall.“
Fáeinum árum síðar hófu hann og Linda sambúð, þótt þau væru ekki gift. Linda var ekki meðlimur kirkjunnar. Árið 2000, nokkru eftir að Linda komst að því að Hirobo hafði skírst sem barn, vaknaði áhugi hennar á kirkjunni og hún tók að eiga samskipti við systratrúboðana.
„Hún lærði í tvö ár og ákvað að láta skírast,“ sagði Hirobo. „Við urðum fyrst að gifta okkur, en ég hafði ekki áhuga á að giftast. Ég var ráðvilltur, því freistingar heimsins voru mér hugleiknar. Ég hafði ekki skilning á mikilvægi fjölskyldunnar og stóð á sama um það sem aðrir sögðu.“
Linda, sem enn var óskírð, ól börnin upp í kirkjunni. Á hverju ári bað hún Hirobo að giftast sér, svo hún gæti skírst, en hann neitaði henni alltaf. Eftir því sem árin liðu voru tvær dætur þeirra skírðar, en Hirobo var ekki viðstaddur skírn þeirra.
Þá gerðist það árið 2006 að níu ára gamall sonur þeirra, Takao, lést af flogi og háum hita. Um 300 meðlimir úr Majuro-umdæminu komu í útförina til að styðja fjölskylduna.
„Stuðningur þeirra hafði mikið að segja fyrir mig,“ sagði Hirobo. „Ég fór að hugsa sem svo að Guð væri líklega að segja mér eitthvað.“
Hann fór að hugleiða að hann stæði í vegi fyrir því að eiginkona hans gæti látið skírast, jafnvel þótt hann væri sjálfur meðlimur kirkjunnar. „Hún varð stöðugt staðfastari og sterkari. Hún var mér í raun innblástur,“ sagði hann.
„Ég settist því niður og íhugaði stöðu mína á miðju lífsskeiði mínu. Ég spurði sjálfan mig: ‚Ætla ég að halda áfram á sömu braut? Get ég starfað fyrir Guð á síðara lífsskeiði mínu?‘ Ég tók að biðjast fyrir og íhuga að koma aftur í kirkju til að starfa fyrir Guð.“
Hirobo tók að læra hjá trúboðunum og rifja upp kenningarnar. Nelson Bleak forseti Majuro-trúboðsins á Marshalleyjum liðsinnti honum, svo og fleiri meðlimir, þ.á.m umdæmisforsetinn sem þá var, Arlington Tibon. Loks einsetti Hirobo sér að koma aftur og áður en hann vissi af sótti hann ekki aðeins sakramentissamkomur, heldur einnig sunnudagaskóla og prestdæmisfundi. Að endingu gerði Hirobo upp hug sinn.
„Þegar ég kom aftur, sagði ég: ‚Nú er komið að því. Þetta ætla ég að gera.‘ Og það breytti lífi mínu algjörlega.“
Hirobo og Linda giftu sig 30. ágúst 2008. Hann hlaut brátt Aronsprestdæmið og skírði eiginkonu sína. Tveimur mánuðum síðar hlaut Hirobo Melkísedeksprestdæmið og var kallaður sem framkvæmdaritari umdæmisins.
Hirobo leit á eiginkonu sína og brosti. „Hún trúði því ekki að ég væri sá sem skírði hana,“ sagði hann. „Hugsaðu þér—það tók hana átta ár, frá 2000 til 2008. Hún er undraverð.“
Fordæmi réttláts föður
Stundum veitir leiðsögumaðurinn okkur nákvæma leiðsögn, líkt og stýrimaður, og kennir okkur það sem við þurfum að vita til að komast klakklaust í gegnum lífið. Í mörgum tilvikum sýnir stýrimaðurinn okkur með fordæmi hvað gera skal. Það átti við um föður Patriciu Horiuchi, Frank.
Eftir að Frank hitti trúboðana, bauð hann þeim reglubundið heim í kvöldmat. Að því kom svo að hann lærði lexíurnar. En allir aðrir í fjölskyldunni vildu ekkert með kirkjuna hafa. „Þegar við sáum trúboðana birtast,“ sagði Patricia, „forðuðum við okkur öll—ég og yngri bræður mínir og systur.“
Frank lét síðan skírast í júlí 2007, af trúboðsforsetanum, Nelson Bleak. Það var afgerandi stund fyrir Patriciu og systkini hennar.
„Ég fylgdist með breytingunum sem urðu á föður mínum,“ sagði hún. „Ég vissi að ef fagnaðarerindið megnaði að hafa áhrif á föður minn, megnaði það einnig að hafa áhrif á mig og breyta lífi mínu. Ég einsetti mér því að læra með systratrúboðunum og þær hvöttu mig til að læra Mormónsbók og Biblíuna. Bróðir minn og ég höfðum áður átt í deilum og ég hafði ekki fyrirgefið honum. Þá las ég í ritningunum að ef við fyrirgæfum öðrum, mundi Guð fyrirgefa okkur.“ (Sjá 3 Ne 13:14–15.)
Patriciu varð ljóst að hún yrði að fyrirgefa bróður sínum til að geta breytt lífi sínu, orðið hrein og fundið frið. Og hún gerði það.
„Eftir að ég hafði breytt slæmu viðmóti mínu og orðið að nýrri manneskju sem hélt boðorðin, fylltist ég eldmóði. Ég vissi að ég yrði að láta skírast, svo ég gæti verið í hinni sönnu kirkju,“ sagði hún. „Kirkjan kom mér á rétta braut. Ég útilokaði slæm áhrif úr lífi mínu. Það kenndi mér að virða foreldra mína, að halda mig við skólann og á hinni réttu braut.“
Áhrif réttláts manns
Lydia Kaminaga fæddist inn í kirkjuna, líkt og Hirobo Obeketang, en varð líttvirk á unglingsárum sínum. En frásögnin um ferð hennar til baka er undraverð og merkileg.
Lydia og eiginmaður hennar, Kaminaga Kaminaga, ólust bæði upp í kirkjunni. „Ég efaðist aldrei um kenningar kirkjunnar,“ sagði Kaminaga. „Ég hafði alltaf trú á þeim.“
En raunin varð önnur í lífi Lydiu. „Þegar ég var í sjöunda bekk,“ sagði hún, „var ég eini mormóninn í skólanum og mér fannst ég útundan. Ég gerði það sem vinir mínir gerðu. Forgangsröðun mín var röng.“
Foreldrar Lydiu sendu hana til Provo, Utah, í Bandaríkjunum, til dvalar hjá fjölskyldu þar, í þeirri von að það hefði áhrif á Lydiu til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Þótt hún hafi lært ýmislegt sem kom henni að gagni síðar í lífinu, þá hafði hún ekki áhuga á starfi kirkjunnar á þessum tíma.
Lydia fór aftur til Marshalleyja í janúar 2002, aðeins mánuði eftir að Kaminaga sneri aftur frá túboði sínu í Japan. Þau kynntust nokkru eftir það. Þótt Lydia hefði ekki lifað eftir stöðlum kirkjunnar, hélt Kaminaga áfram að koma heim til hennar og lét sem hann væri að heimsækja frænda hennar, Gary Zackious.
Kaminaga einsetti sér loks að ræða við foreldra hennar um að fara á stefnumót með Lydiu—heilbrigða dægrastyttingu. Þau reyndu í fyrstu að tala um fyrir Kaminaga, en hann lýsti þessu svo: „Loks sagði ég við þau: ‚Hún getur ennþá breyst.‘ Þegar ég sagði þetta var sem andrúmsloftið í herberginu breyttist. Faðir hennar tárfelldi og sagði: ‚Ég hef alltaf þráð að hún kæmi til baka í kirkjuna. Þú getur reynt.‘ “
Í fyrstu tók Lydia Kaminaga ekki alvarlega. Þegar allt kom til alls var hann trúfastur og nýkominn heim af trúboði sínu og hún hafði verið óvirk.
„En hann sá eitthvað sem ég gerði mér ekki grein fyrir, sagði Lydia. Þar sem hún átti ekki stefnumót við neinn annan, samþykkti hún að fara út með honum. „Hann leiddi mig til baka. Ég varð að lifa eftir stöðlunum, þar sem ég var unnusta hans. Hann minnti mig á sáttmálann sem ég gerði við skírnina. Hann minnti mig á allt það sem ég saknaði í raun heilmikið, líkt og ritningalestur og fjölskyldukvöld. Kaminaga og ég tókum saman þátt í þjónustuverkefnum. Við lásum Mormónsbók. Við fórum á kvöldvökur. Hann sýndi mér hvernig lifa má öðruvísi. Þegar ég fór í kirkju sótti ég ekki aðeins sakramentissamkomu, heldur einnig sunnudagaskólann og Líknarfélagið.“
Þegar þau gáfu sér tíma saman til að stunda heilbrigða dægrastyttingu á stefnumótum sínum, tók líf Lydiu stakkaskiptum og vitnisburður hennar efldist. Hún þurfti þó að útkljá ýmislegt í lífi sínu.
„Það var erfitt að koma til baka,“ sagði hún. „Iðrun er ekki auðveld, en ég á mjög sterkan vitnisburð um iðrunina. Á margan hátt snerust stefnumót okkar um að kynnast hvort öðru betur og að fá mig aftur í kirkjuna, svo ég sæi lífið öðrum augum.“
„Þetta snýst um sambönd,“ sagði Kaminaga.
Lydia og Kaminaga giftu sig 28. nóvember 2002. Ári síðar voru þau innsigluð í Laie-musterinu á Hawaii og öfluðu sér menntunar við Brigham Young háskólann á Hawaii. Þau búa nú á Marshalleyjum ásamt þremur börnum sínum. Lydia þjónar sem kennari unga fólksins í sunnudagaskóla deildar þeirra og Kaminaga þjónar sem forseti Piltafélagsins.
Líkt og Hirobo, Patricia og Lydia bera vitni um, þá er ýmislegt mögulegt þegar við sýnum biðlund og þolgæði og leitum blessana Drottins. Þeir sem fylgja frelsaranum og hlusta á innblástur heilags anda geta, líkt og stýrimenn sem leiddu sæfarendur heim til forna, gert gæfumuninn í lífi annarra.