Meðalgangarinn Jesús Kristur
Tekið úr „The Mediator,“ Ensign, maí 1977, 54–56.
Jesús Kristur, meðalgangari okkar, reiddi gjaldið af höndum sem okkur er um megn að greiða, svo við fáum að nýju dvalið hjá himneskum föður.
Leyfið mér að segja ykkur sögu—dæmisögu.
Einu sinni var maður sem þráði eitthvað mjög heitt. Það virtist mikilvægara en nokkuð annað í lífi hans. Við að eignast það komst hann í mikla skuld.
Hann hafði verið varaður við að stofna til svo mikilla skulda og sérstaklega varaður við lánardrottninum, þeim er lánaði peningana. En það virtist honum svo mikilvægt að gera það sem hann vildi gera og fá það sem hann vildi fá þegar í stað. Hann var viss um að hann gæti borgað það síðar.
Hann undirritaði því samning. Hann mundi greiða skuldina einhvern tíma síðar meir. Hann hafði ekki af því miklar áhyggjur, gjalddaginn virtist langt fram undan. Hann átti það sem hann langaði í og það virtist skipta mestu máli.
Lánardrottinn hans var samt alltaf einhvers staðar í hugarfylgsnum hans og hann sýndi lit með því að greiða af og til, en virtist þó telja að dagur reikningsskila mundi í raun aldrei renna upp.
Réttlæti eða miskunn?
En dagurinn kom, eins og alltaf verður, og samningurinn féll allur í gjalddaga. Skuldin hafði ekki verið greidd að fullu. Lánardrottinn hans birtist og krafðist fullrar greiðslu.
Ekki fyrr en þá varð honum ljóst að lánardrottinn hans gat ekki aðeins náð eignarhaldi á öllum eigum hans, heldur gat hann líka látið varpa honum í fangelsi.
„Ég get ekki borgað þér, ég á ekki fyrir því,“ viðurkenndi hann.
„Þá förum við eftir samningnum,“ sagði lánardrottinn hans, „tökum eigur þínar og þú ferð í fangelsi. Þú samþykktir það. Það var þín ákvörðun. Þú undirritaðir samninginn og nú verður honum fullnægt.“
„Geturðu ekki framlengt hann eða gefið mér upp skuldina?“ spurði skuldunauturinn bænarrómi. „Komið því einhvern veginn svo fyrir að ég geti haldið því sem ég á og þurfi ekki að fara í fangelsi? Þú hlýtur að hafa trú á miskunn. Viltu ekki sýna miskunnsemi?“
Lánardrottinninn svaraði: „Miskunn er alltaf einhliða. Hún mundi aðeins þjóna þér. Ef ég sýni þér miskunn fæ ég enga greiðslu. Ég krefst réttlætis. Trúir þú á réttlæti?“
„Ég hafði trú á réttlætinu þegar ég undirritaði samninginn,“ sagði skuldunauturinn. „Það var mín megin þá, því að ég hélt að það mundi vernda mig. Ég þurfti ekki á miskunnsemi að halda þá, né taldi að ég þyrfti hennar nokkru sinni með.“
„Það er réttlætið sem krefst þess að þú greiðir samninginn eða takir afleiðingunum ella,“ svaraði lánardrottinn hans. „Þannig eru lögin. Þú hefur samþykkt það og þannig verður það að vera. Miskunnsemin getur ekki rænt réttvísina.“
Þannig stóðu þeir: Annar hélt fram réttlætinu, hinn bað um miskunn. Hvorugur gat sigrað nema á kostnað hins.
„Ef þú getur ekki gefið upp skuldina er um enga miskunn að ræða,“ sagði skuldunauturinn.
„Ef ég geri það er ekki um neitt réttlæti að ræða,“ var svarið.
Svo virtist sem hvorugu lögmálinu væri hægt að þjóna. Þar er um tvær eilífar hugmyndir að ræða, sem virðast í andstöðu hvor við aðra. Er engin leið til að þjóna réttlætinu að fullu og jafnframt sýna miskunn?
Til er leið! Hægt er að uppfylla réttlætislögmálið algerlega og einnig auðsýna fulla miskunn—en til þess þarf þriðja aðilann. Og það gerðist í þessu tilviki.
Meðalgangari hans
Skuldunauturinn átti vin. Hann kom til hjálpar. Hann þekkti skuldunautinn vel. Hann taldi hann hafa hagað sér heimskulega með því að koma sér í slíkar ógöngur. Engu að síður vildi hann hjálpa honum, því honum þótti mjög vænt um hann. Hann gerðist meðalgangari, sneri sér að lánadrottninum og bar fram þetta boð. „Ég skal greiða skuldina, ef þú vilt leysa skuldunaut þinn undan samningnum, svo að hann geti haldið eigum sínum og losnað við fangelsi.“
Meðan skuldareigandinn hugleiddi boðið, bætti meðalgangarinn við: „Þú krafðist réttlætis. Þó að hann geti ekki borgað, mun ég gera það. Þá hefur þú notið réttlætis og getur ekki farið fram á meira. Það væri ekki réttlátt.“
Lánardrottinninn samþykkti.
Meðalgangarinn sneri sér þá að skuldaranum. „Ef ég greiði skuld þína viltu þá viðurkenna mig sem lánardrottin þinn?“
„Ó já, já,“ hrópaði skuldnauturinn. „Þú bjargar mér frá fangelsi og sýnir mér miskunn.“
„Þá munt þú greiða mér skuldina og ég set fram skilmálana,“ sagði góðgerðarmaðurinn. „Það verður ekki auðvelt, en það er hægt. Ég mun sjá þér fyrir leið til þess. Þú þarft ekki að fara í fangelsi.“
Og þannig fékk skuldareigandinn greitt að fullu. Hann naut réttlætis. Enginn samningur hafði verið rofinn. Jafnframt hafði skuldunautnum verið sýnd miskunn. Báðum lögmálunum var fullnægt. Vegna meðalgangarans hafði réttlætinu verið fullnægt, og miskunnsemin samt náð fram að ganga.
Meðalgangari okkar
Sérhvert okkar er á nokkurs konar andlegum yfirdrætti, skuldasöfnun. Dag einn verður reikningnum lokað og uppgjörs krafist. Þótt við kunnum að virða það að vettugi nú, munum við á þeim degi er gjaldþrotið verður, sem nálgast óðum, leita í ofvæni og angist eftir einhverjum sem getur liðsinnt okkur.
Og samkvæmt eilífu lögmáli er ekki mögulegt að veita okkur miskunn, nema einhver komi til sem er fús og hæfur til að gjalda skuld okkar og setja skilmálana fyrir björgun okkar.
Ef meðalgangari liðsinnir okkur ekki, ef við eigum ekki vin að, mun réttvísin falla yfir okkur af fullum þunga. Við verðum að gjalda fyrir brot okkar að fullu og öllu, hversu smátt eða stórt sem það kann að vera.
En vitið þetta: Sannleikurinn, hinn dýrðlegi sannleikur, er sá að til er slíkur meðalgangari. „Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús“ (1 Tím 2:5). Fyrir hans tilverknað er mögulegt að veita okkur öllum miskunn að fullu, án þess að misbjóða hinu eilífa lögmáli réttvísinnar.
Við hljótum ekki miskunn sjálfkrafa. Hana hljótum við með því að gera og halda sáttmála við hann. Hann verður gerður að hans skilmálum, sanngjörnum skilmálum hans, sem fela í sér algjöra nauðsyn þess að láta skírast með niðurdýfingu til fyrirgefningar synda.
Allt mannkyn getur notið verndar réttvísinnar og jafnframt getur sérhvert okkar þegar í stað notið hinnar endurleysandi og græðandi blessunar miskunnar.