2011
Tilgangur Líknarfélagsins
Apríl 2011


Boðskapur heimsóknarkennara

Tilgangur Líknarfélagsins

Lærið efnið með bænarhug og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.

Trú • Fjölskylda • Líkn

Þegar forsætisráð okkar var fyrst kallað, var okkur fært efni um sögu Líknarfélagsins. Við kynntum okkur það vandlega, því við vildum þekkja tilgang Líknarfélagsins og hvað Drottinn vildi að við gerðum. Okkur lærðist að tilgangur Líknarfélagsins, líkt og Drottinn hefur sett hann fram, er að kenna og innblása dætur hans og búa þær undir blessanir eilífs lífs.

Drottinn hefur, til að uppfylla tilgang Líknarfélagsins, boðið hverri systur og öllu félaginu að:

  1. Auka trú og persónulegt réttlæti.

  2. Efla fjölskyldur og heimili.

  3. Veita líkn með því að þjóna Drottni og börnum hans.

Við getum aðeins unnið verk Drottins að hans vilja, þegar við leitum persónulegrar opinberunar, hljótum hana og breytum samkvæmt henni. Án persónulegrar opinberunar náum við ekki árangri. Ef við breytum eftir persónulegri opinberun, getur okkur ekki mistekist. Spámaðurinn Nefí segir okkur að heilagur andi muni sýna okkur „allt, sem [okkur] ber að gjöra“ (2 Ne 32:5). Við verðum að sýna næga rósemd og stillingu til að hlusta á rödd andans.

Systur, við gegnum mikilvægu hlutverki í uppbyggingu Guðs ríkis og aðdragandanum að komu Drottins. Verk Drottins getur í raun ekki orðið að veruleika án hjálpar dætra hans. Þess vegna væntir Drottinn þess að við fórnum meiru. Hann væntir þess að við framfylgjum tilgangi Líknarfélagsins sem aldrei fyrr.

Julie B. Beck, aðalforseti Líknarfélagsins.

Úr ritningunum

5. Mós 6:5–7; Lúk 10:30–37; Jakbr 1:27; 2 Ne 25:26; Mósía 3:12–13

Úr sögu okkar

Á Líknarfélagsfundi 9. júní 1842 fræddi spámaðurinn Joseph Smith systurnar um að félagi þeirra bæri „ekki aðeins að líkna fátækum, heldur einnig að frelsa sálir.“1 Staðhæfing þessi, sem á bæði við um andlegan og stundlegan tilgang, er einkennandi fyrir Líknarfélagið í allri sögu þess. Árið 1906 kenndi Joseph F. Smith forseti (1838–1918): „[Líknarfélagið] þarf ekki aðeins að annast nauðþurftir hinna fátæku, sjúku og nauðstöddu, heldur er hluti af skyldum þess—sem einnig er stærsti hlutinn—að annast andlega velferð og sáluhjálp mæðra og dætra Síonar; að sjá til þess að engin þeirra sé vanrækt, að allar njóti þær verndar gegn ógæfu, hörmungum, myrkravöldum og illsku sem ógnar þeim í heiminum.“2 Árið 2001 ítrekaði öldungur M. Russell Ballard, í Tólfpostulasveitinni: „Sérhver systir í þessari kirkju, sem gert hefur sáttmála við Drottin, hefur guðlega tilskipun um að leggja sitt af mörkum við að frelsa sálir, vera leiðandi afl fyrir konur heims, efla heimili Síonar og byggja upp ríki Guðs.“3

Heimildir

  1. Joseph Smith, History of the Church, 5:25.

  2. Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith (1998), 185.

  3. M. Russell Ballard, „Women of Righteousness,“ Líahóna, des. 2002, 39.

Teikning eftir Christina Smith