Ég hef ekki áhuga á kirkjunni
Tanintoa Sexton, Marshalleyjum
Ég vildi ekkert með kirkjuna hafa þegar eiginkona mín spurði hvort trúboðar mættu kenna sonum okkar. En ég aftók það ekki því hún var þegar meðlimur.
Þegar trúboðarnir tóku að koma heim til okkar tvisvar í viku, var ég vanur að fara til vinar míns í næsta húsi. Vinur minn var sterkur meðlimur í annarri kristinni kirkju. Alltaf þegar ég heimsótti hann vildi hann ræða um Biblíuna. Ég sagði honum að ég væri ekkert fyrir þess konar og hefði ekki hug á að nema trúarbrögð. En hann hélt áfram að reyna að sannfæra mig og loks lét ég til leiðast. Ég kynnti mér því Biblíuna löngum stundum með vini mínum meðan trúboðarnir kenndu sonum mínum.
Dag einn voru trúboðarnir á leið heim til okkar. Í stað þess að fara í burtu ákvað ég að halda mig í næsta herbergi. Þegar trúboðarnir tóku að kenna sonum mínum fann ég mig knúinn til að leggja við hlustir. Ég færði mig nær dyrunum svo ég heyrði betur. Þeir voru að kenna sonum mínum um postula og spámenn.
Síðar áttaði ég mig á að mig langaði að læra meira. Ég ræddi við trúboðana og ákvað að læra lexíur þeirra—einslega. Eiginkona mín var alltaf viðstödd, en enginn annar vissi af þessu.
Þannig að þegar trúboðarnir komu til að kenna sonum mínum tvisvar í viku fór ég til vinar míns í næsta húsi. Þeir kenndu mér síðan á öðrum degi.
Eitt sinn er vinur minn sagði eitthvað slæmt um kirkjuna, kom ég henni til varnar. Líkt og margir á Marshalleyjum vissi hann ekki margt um kirkjuna og misskildi sumt sem varðar trú Síðari daga heilagra. Þegar hann sagði fleira neikvætt um kirkjuna, tók ég enn á ný upp hanskann fyrir hana.
Þannig var staðan í sjö mánuði. Dag einn varð mér svo ljóst að heilagur andi hafði staðfest fyrir mér að allt sem trúboðarnir kenndu mér væri sannleikur. Ég áttaði mig á að ég yrði að skírast, jafnvel þótt ég vissi enn afar lítið um fagnaðarerindið.
Eftir skírn mína árið 2007 var ég afar hamingjusamur. Við tókum að leggja fyrir fé til að komast til musterisins á Hawaii, og þar vorum ég, eiginkona mín og þrjú börn innsigluð í desember 2008.
Að vera meðlimur kirkjunnar hefur haft gríðarleg áhrif á líf mitt. Ég ákvað að hætta í aukastarfi mínu sem skemmtikraftur á veitingahúsi, því ég kom seint heim á kvöldin og musterisnærklæði mínu voru gegnsýrð af tóbaksreyk. Þrátt fyrir missi þessara aukatekna, hefur Drottinn annast okkur.
Ég veit að kirkjan er sönn og að Joseph Smith er spámaður Guðs, vegna andans sem ég hef upplifað og blessananna sem ég hef hlotið.