Boðskapur Æðsta forsætisráðsins
Hann er ekki hér, hann er upp risinn
Borgin Kapernaum, við vatnsbakkann, sem var miðpunkturinn í þjónustu frelsarans í Galelíu, er nú aðeins rústir einar. Þar prédikaði hann í samkunduhúsinu, kenndi við sjávarsíðuna og læknaði á heimilunum.
Þegar Jesús hóf þjónustu sína vitnaði hann í texta í Jesaja: „Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn“ (Jes 61:1; sjá einnig Lúk 4:18)—. Greinileg yfirlýsing um hina guðlegu áætlun um að frelsa syni og dætur Guðs.
En prédikun Jesú í Galelíu var aðeins upphafið. Fyrir mannssyninum átti alltaf að liggja að eiga hörmulegt mót við hæðina sem kölluð var Golgata.
Eftir síðustu kvöldmáltíðina var Jesús tekinn höndum í Getsemanegarðinum, hrifinn frá lærisveinum sínum, hrækt var á hann, réttað yfir honum og hann auðmýktur, og síðan gekk hann riðandi undan þungri byrði krossins í átt að Hauskúpuhæðinni. Sigrandi sætti hann svikráðum, þjáningum og dauða á krossinum.
Að texta lagsins: „Hin helga borg“:
Sögusviðið breyttist þar. …
Morgunninn kaldur, napur var,
er skugga krossins yfir bar,
á ógnar hæð þjáningar.1
Í okkar þágu gaf faðir okkar á himnum son sinn. Í okkar þágu gaf eldri bróðir okkar líf sitt.
Á síðustu stundu hefði meistarinn getað snúið til baka. En hann gerði það ekki. Hann laut neðar öllu, svo að hann gæti frelsað allt: Mannkynið, jörðina og allt líf sem á henni hefur verið.
Engin orð kristninnar hafa meiri þýðingu fyrir mig en þau sem engillinn mælti við grátandi Maríu Magdalenu og hina Maríu, þegar þær nálguðust gröfina á fyrsta degi vikunnar, til að annast líkama Drottins síns: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn“ (Lúk 24:5–6).
Þessi yfirlýsing hefur í för með sé, að þeim sem lifað hafa og dáið, þeim sem nú lifa og eiga eftir að deyja og þeim sem enn eiga eftir að fæðast og deyja, mun bjargað verða.
Sigur Krists yfir gröfinni hefur í för með sér að við munum öll rísa upp. Það er endurlausn sálarinnar. Páll ritaði:
„Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.
Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.
Þannig er og um upprisu dauðra“ (1 Kor 15:40–42).
Við keppum að himneskri dýrð. Við þráum að dvelja í návist Guðs. Við viljum eiga hlutdeild í ævarandi fjölskyldu.
Ég ber vitni um hann, sem frelsaði sérhvert okkar frá óendanlegum dauða. Hann er kennari sannleikans—en hann er meira en kennari. Hann er fyrirmynd að fullkomnu lífi—en hann er meira en fyrirmynd. Hann er hinn mikli græðari—en hann er meira en græðari. Hann er bókstaflega frelsari heimsins, sonur Guðs, Friðarhöfðinginn, Hinn heilagi Ísraels, já, hinn upprisni Drottinn, sem sagði: „Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum“ (K&S 110:4).
„Ég veit minn lifir lausnarinn.“ Hve ljúf ég þessi orðin finn.2
Um þetta ber ég vitni.