2011
En það er engin kirkja hér
Apríl 2011


En það er engin kirkja hér

Julie Ismail, Western Australia, Ástralíu

Á ferðalagi um Miðjarðarhafið sótti ég alltaf kirkjusamkomur af kostgæfni þegar ég átti þess kost. Á Sevilla, Spáni, bað ég móttökustjóra hótelsins um aðstoð, fletti upp í símaskrá svæðisins og nýtti mér borgarkortið til að finna samkomuhús Síðari daga heilagra. Ég skrifaði hjá mér heimilisfangið og nafn kirkjunnar á spænsku. Á laugardagskvöldið baðst ég fyrir til að fá að vita á hvaða tíma samkoman hæfist og ég fékk sterkt hugboð um að ég þyrfti að vera þar fyrir kl. 10 árdegis.

Áður en ég lagði af stað í kirkju, kl. 9:30 á sunnudagsmorgni, baðst ég fyrir að nýju um að mér tækist að finna samkomuhúsið. Ég notaði kortið og reyndi að fylgja flóknu gatnakerfinu eftir til samkomuhússins. Þetta var fallegur morgunn. Ég gekk framhjá veitingahúsum og fuglamarkaði með fullt af skrækjandi fuglum.

Ég kom að tilteknu heimilisfangi og komst að því að þar var ekkert sem gæti verið samkomuhús. Ég gekk upp og niður götuna án þess að finna nokkuð. Ég fylltist kvíða og efasemdum og klukkan var að verða tíu.

Loks bað ég til himnesks föður: „Þú hefur boðið mér að fara í kirkju og hér er ég, en ég sé enga kirkju.“

Í þeim svifum kom jakkafataklæddur maður gangandi fyrir hornið. Hann leit út fyrir að vera meðlimur kirkjunnar og ég stöðvaði hann. Í hálfgerðu fáti sagði ég honum frá því að ég væri að leita að kirkju. Hann mælti eitthvað sem ég ekki skildi og ég varð ráðþrota. Hann opnaði þá skjalatösku sína og í henni sá ég tvær leðurbundnar bækur sem líktust ritningunum. Ég rétti honum miðann sem ég hafði skrifað á „La Iglesia de Jesucristo“ (Kirkja Jesú Krists). Hann brosti og benti aftur fyrir mig, þaðan sem ég hafði komið, og saman gengum við í kirkju. Samkomuhúsið hafði annað heimilisfang, rétt þar hjá, og auðvelt var að sjást yfir það, ef maður vissi ekki af því. Það var baka til á litlu torgi, fyrir innan stórt hlið.

Í samkomuhúsinu komst ég að því að maðurinn sem hafði hjálpað mér var enginn annar en biskup deildarinnar og að samkoman hæfist kl. 10:30, svo ég hafði enn nægan tíma.

Á föstu- og vitnisburðarsamkomunni fann ég mig knúinn til að flytja vitnisburð minn. Trúboði þýddi orð mín yfir á spænsku og ég gaf vitnisburð minn og lýsti því hvernig Drottinn hafði greitt mér leið til að komast í kirkju. Biskupinn bar síðan vitni og útskýrði að hann hefði orðið að leggja bílnum lengra í burtu þennan morgun og því verið seinni en vanalega. Þegar hann sá mig, fannst honum ég geta verið meðlimur kirkjunnar og því hefði hann hinkrað við til að hjálpa mér. Hann ræddi síðan um meðlimi sem væru andlega vegvilltir og hvatti okkur til að hjálpa þeim að koma í kirkju.

Minningar mínar um umhverfi Sevilla hafa dofnað, en minning mín er ljós um hvernig ég fann kirkjuna. Sú minning er mér vitnisburður um þá miklu elsku sem himneskur faðir ber til okkar og að hönd hans getur verið áþreifanleg í lífi mínu, ef ég aðeins leita þess sem hans er, þá „samverkar allt [mér] til góðs“ Róm 8:28).