2011
Þjáningar hans milda okkar þjáningar
Apríl 2011


Þjáningar hans milda okkar þjáningar

Barbara Winter, Arisóna, Bandaríkjunum

Sem hjúkrunarkona á gjörgæslu fæðingardeildarinnar annast ég sjúk og máttvana, og stundum afar smávaxin, ungbörn. Nótt eina var mér falið að annast lítinn dreng sem fæðst hafði 17 vikum fyrir tímann og var aðeins hálft kíló. Hendur hans voru afar smáar, litlir fótleggir hans að ummáli eins og fingur mínir og fætur hans sömu stærðar og þumalfingur minn. Hann átti við alvarlega öndunarerfiðleika að stríða og læknarnir áttu ekki von á að hann lifði af nóttina.

Grafarþögn ríkir á deildinni þegar kornabarn berst fyrir lífi sínu. Mikið álag er á öllum, einkum hjúkrunarkonu hins nýfædda barns, og þessa nótt var það ég. Foreldrar hans höfðu verið hjá honum mest allan daginn og voru úrvinda. Móðir hans hafði farið í herbergið sitt til að fá nauðsynlega hvíld.

Í einkaherbergi barnsins voru hitakassi, aflestrarskjáir, loftræstir og öndunartæki, til að hjálpa því að lifa. Barnið var svo veikt og þurfti svo mikla umönnun að mér var ekki falið að sjá um aðra sjúklinga þessa nótt. Mér bar að vera við hlið barnsins alla nóttina, til að gefa því lyf, fylgjast með skjáritanum, annast meðferð og gera prófanir.

Þegar líða tók á nóttina reyndi ég að ímynda mér hvernig mér liði ef ég væri móðir barnsins. Sorgin hefði verið óbærileg.

Ég þvoði andlit þess gætilega, snerti hendur þess og fætur, vafði það í nýtt mjúkt teppi og breytti um stöðu þess. Ég hugleiddi hvað meira ég gæti gert fyrir litla sjúklinginn minn. Hvað hefði móðir hans gert? Hvað vildi himneskur faðir að ég gerði?

Þessi dýrmæti, saklausi smái andi mundi brátt snúa að nýju til föður síns á himnum. Ég velti því fyrir mér hvort barnið væri hrætt. Mér varð hugsað til minna eigin barna. Þegar þau voru lítil og hrædd söng ég fyrir þau. „Guðs barnið eitt ég er“ var eftirlætið þeirra. Ég hélt aftur af tárunum og söng fyrir barnið.

Sem hjúkrunarkona sá ég leiðslurnar og blóðið, taldi inn- og útöndun barnsins, hlustaði á hjartaslátt þess og fylgdist með tölunum á skjáritanum. Sem Síðari daga heilagur sá ég himneskan anda og dáðist að sáluhjálparáætluninni.

Þegar lengra leið á nóttina hrakaði heilsu barnsins. Ástand þess varð að endingu til þess að það blæddi inn á lungun.

Þegar leið að morgni fór þessi litli sjúklingur minn hljóðlega í gegnum huluna. Hann yfirgaf fang móður sinnar og var „[fluttur] heim til þess Guðs, sem gaf [honum] líf“ (Alma 40:11).

Þessa nótt komst ég nær frelsaranum og himneskum föður. Ég hlaut aukinn skilning á elsku Drottins til alls mannkyns—og elsku hans til mín. Ég var minnt á, jafnvel undraðist, þá djúpu elsku sem ég bar til hans. Og ég þráði að vera ljúfari, betri, fúsari að fyrirgefa, samúðarfyllri—líkari honum—einn dag og einn hjartslátt í einu.