2011
Útsaumsmynd mín af smáhestum
Apríl 2011


Útsaumsmynd mín af smáhestum

Sandra Jennings, New Mexico, Bandaríkjunum

Ég á útsaumsmynd af tveimur smáhestum sem ég hef unnið að í næstum ár. Ég hafði næstum lokið henni þegar ég tók eftir því að ég hafði notað rangan lit á annan hestinn. Þar sem liturinn hefði getað verið hestalitur, urðu mistökin mér ekki ljós fyrr en ég sá að liturinn á hestinum var sá sami og átti að vera á grunninum.

Ég varð miður mín. Ég hafði eytt miklum tíma í myndina og hugsunin um að rekja útsauminn upp var yfirþyrmandi. Með tár í augum opnaði ég ruslafötina og henti myndinni.

Ég settist við saumaborðið, syrgði fallegu hestamyndina mína og tókst á við önnur verkefni. En ég gat ekki einbeitt mér—ég hreinlega gat ekki hætt að hugsa um myndina sem ég hafði lagt svo mikla vinnu í. Ég opnaði ruslafötuna og náði í myndina. Ég fann hnút á bakhlið myndarinnar þar sem rangi liturinn var og klippti hann gætilega. Ég sneri myndinni við og tók að rekja upp þráðinn.

Stundum gekk það hratt fyrir sig. Aðra stundina var það erfiðara. Ég var ekki viss um hvernig best væri að rekja upp þráðinn. Stundum þurfti ég að klippa saum eftir saum. Sonur minn lét aðdáun í ljós yfir að ég legði allt þetta á mig til að fá myndina rétta. Þetta var jú aðeins útsaumsmynd.

Þegar ég rakti upp þráðinn, tók ég að hugsa um iðrun og hve erfitt það hefur verið að leiðrétta sum þau mistök sem ég hef gert. Sönn iðrun krefst djúprar þrár, erfiðis og þjáninga, en hún er þess virði.

Þegar ég rakti upp þráðinn varð mér hugsað um að iðrunin gerir það mögulegt að friðþæging Jesú fjarlægi syndablettina úr lífi mínu og ég byrji að nýju. „Iðrunarhestamyndin mín“ er upp á vegg á heimili mínu og er ljúf og ljóslifandi áminning um rétta breytni, að gefast aldrei upp, þótt á móti blási, og hafa í huga að fyrir iðrun megnar friðþægingin að gera gæfumuninn.