Handbókaþjálfun með áherslu á sáluhjálparstarfið
Á heimsþjálfunarfundi í febrúar 2011 bauð Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin þátttakendum að nota nýju handbækurnar enn betur en gert hefur verið. Fundurinn var framhald af heimsþjálfunarfundinum í nóvember 2010, þar sem handbækurnar voru kynntar.
Ræðumenn lögðu áherslu á að nýju handbækurnar skuli nota á mun andlegri hátt, á mikilvægi þess að skilja kenningargrunn þeirra, hvernig laga eigi aðlögunarreglurnar að kirkjustarfinu, hvernig hagnýta beri breytingarnar í handbókunum við sáluhjálparstarfið og á hlutverk kvenna í ráðum.
Þátttakendur í útsendingunni voru Henry B. Eyring forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forstætisráðinu; öldungarnir Russell M. Nelson, Dallin H. Oaks, Richard G. Scott, Robert D. Hales, Jeffrey R. Holland, David A. Bednar, Quentin L. Cook, D. Todd Christofferson og Neil L. Andersen, í Tólfpostulasveitinni; öldungarnir Craig C. Christensen; Bruce D. Porter og W. Craig Zwick, af hinum Sjötíu; og aðalforsetar aðildarfélaganna.
Handbækur notaðar á andlegri hátt
Eyring forseti sagði fundinn vera „annað tækifæri til að komast að því hvernig nota á handbækurnar enn betur,“ og hvatti leiðtoga til að auka hæfni sína til að hljóta opinberun.
„Aðeins með andanum munuð þið vita hvernig hagnýta á það sem þið lesið í handbókunum,“ sagði hann. „… Ykkur kann að finnast óhagkvæmt að gera ráð fyrir eða jafnvel vonast eftir því streymi opinberunar sem þið þurfið á að halda í ykkar daglegu þjónustu. Það er mögulegt, en gerist ekki án trúar og mikillar vinnu.“
Eyring forseti hét leiðtogum því, að ef þeir legðu hart að sér og bæðust fyrir til að „skilja orðs lífsins og fylgja því,“ mundi Drottinn gera þeim kleift að veita þjónustu og leiðsögn umfram eigin getu.
Kenningargrunnur handbókanna
„Handbókin er kenningarlegs eðlis,“ sagði öldungur Oaks, „og hún er styttri en fyrri handbókin, því í henni fer minna fyrir leikreglum og leiðbeiningum. Þess í stað eru þar meginreglur sem innblásnir leiðtogar geta hagnýtt sér … allt eftir aðstæðum heimasvæðis.“
Öldungur Bednar og öldungur Christofferson vöruðu leiðtoga við því að líta fram hjá fyrstu köflum Handbókar 2 og kynna sér aðeins reglurnar í köflunum þar á eftir. Fyrstu kaflarnir leggja kenningarlegan grunn að því að skilja og hagnýta reglurnar sem á eftir koma.
Öldungur Bednar sagði handbækurnar vera „byggðar á meginreglum, þar sem minna væri um útfærslur og leiðbeiningar, og því gerðu þær mun meiri kröfur til okkar allra um aukið andríki og nákvæmni.“
Reglur aðlögunar
„Við bregðum ekki út af handbókinni hvað varðar kenningar, sáttmála og reglur sem Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa sett fram,“ sagði öldungur Nelson. „Sveigjanleiki er leyfður hvað varðar aðrar athafnir til að koma til móts við aðstæður heimasvæða.“
Að sögn öldungs Porter, er 17. kaflanum, „Uniformity and Adaptation“ (Samræmi og aðlögun), ætlað að hjálpa leiðtogum að fylgja leiðsögn andans og ákveða hvenær viðeigandi er að aðlaga ákveðna dagskrá. Í kaflanum er tilgreint hverju má ekki breyta og fimm aðstæður nefndar þar sem aðlögun er heimil: Fjölskylduaðstæður, takmarkaðar samgöngur og samskipti, fámennar sveitir og/eða námsbekkir, of fáir leiðtogar og öryggisástæður.
„Viðeigandi aðlögun veikir ekki kirkjuna, heldur styrkir hana,“ sagði öldungur Porter í ræðu sem lesin var af öldungi W. Craig Zwick, af hinum Sjötíu. Sé innblásin aðlögun gerð, ætti svæðisleiðtogum ekki að líða líkt og þeir þyrftu að sætta sig við lakari kost en þann besta. „Allar einingar í kirkjunni hafa aðgang að kenningum, helgiathöfnum, prestdæmiskrafti og þeim gjöfum andans sem nauðsynlegar eru til sáluhjálpar og upphafningar barna Guðs,“ ritaði öldungur Porter.
Sáluhjálparstarfið
Þeim breytingum sem gerðar eru í Handbook 2 er ætlað að hraða sáluhjálparstarfinu. Eyring forseti sagði: „Handbókin verður ykkur afar gagnleg þegar þið notið hana til að hjálpa öðrum að velja veg eilífs lífs. Sá er tilgangur hennar.“
Í 5. kaflanum, sem ber heitið „The Work of Salvation in the Ward and Stake“ (Sáluhjálparstarfið í deild og stiku), eru nokkur efnisatriði sameinuð sem áður var fjallað um aðskilið, og má þar nefna meðlimatrúboðsstarf, varðveislu trúskiptinga, virkjun einstaklinga, musteris- og ættfræðistarf og kennslu fagnaðarerindisins.
„Páll sagði, að á þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna, yrði öllu safnað undir eitt höfuð í Kristi,“ sagði öldungur Bednar (sjá Efe 1:10). „Þetta er samstillt verk.“
Það sem sumir hafa til að mynda áður talið aðskilin hlutverk kirkjunnar er „sama starfið á mismunandi sviðum,“ sagði hann. Trúboðsstarfið er að boða fagnaðarerindið og bjóða öðrum að taka á móti helgiathöfnum og gera sáttmála. Að fullkomna hina heilögu—þ.m.t. varðveisla, virkjun einstaklinga og kennsla—er sú viðleitni að bjóða fólki að heiðra helgiathafnir og sáttmála. Að endurleysa hina dánu með ættfræði og musterisstarfi er að gera hinum dánu kleift að taka á móti helgiathöfnum og gera sáttmála.
Öldungur Holland sagði að almennt vektu breytingarnar í handbókinni þann skilning að leiðtogum sveita og aðildarfélaga beri ekki aðeins að hugsa um eigin sveit eða félag á deildarráðsfundi, heldur bera þeir sameiginlega ábyrgð á andlegri velferð allra meðlima.
Öldungur Cook útskýrði hvernig sumar hinna breyttu reglna í Handbook 2 styddu við sáluhjálparstarfið.
Hann lagði áherslu á mikilvægi biskups og deildarráðs í velferðarmálum nú þegar velferðarfundir væru ekki lengur fyrir hendi. Hann útskýrði aukna ábyrgð leiðtoga Melkísedeksprestdæmis við að ráðgast við meðlimi sveita. Hann útskýrði einnig að sú breyting hefði verið gerð, að feðrum sem ekki væru fyllilega musterisverðugir væri nú heimilt að taka þátt í helgiathöfnum og veittum blessunum fjölskyldumeðlima við ákveðnar aðstæður.
„Hlutverk okkar er ekki að halda úti verkefnum eða stjórna félagi,“ sagði öldungur Bednar. „Það er nauðsynlegt, en ekki fullnægjandi. Þetta er sáluhjálparstarf. Og í tengslum við helgiathafnir og sáttmála ættu prestdæmisleiðtogar eðlilega að spyrja sig: Hvaða helgiathöfn þarf þessi einstaklingur, eða þessi fjölskylda að hljóta næst í lífi sínu og hvernig getum við hjálpað í því ferli?“
Konur í ráðum
Öldungur Scott lét þær áhyggjur í ljós að á sumum stöðum gæfu leiðtogar konum ekki kost á að taka þátt í ráðagerðum með þeim. „Þegar [konur] eru hvattar til að taka frjálslega þátt í deildarráðsfundum, koma þær alltaf með gagnlegar og innblásnar hugmyndir,“ sagði hann.
Leiðtogar geta hvatt systurnar til þátttöku með því að nefna þær með nafni og láta þakklæti í ljós fyrir innsæi þeirra og tillögur, útskýrði öldungur Scott.
„Sú blessun sem veitist heimilum þeirra prestdæmisleiðtoga“ sem hlíta þessari leiðsögn, er að „þessir menn hljóta aukið þakklæti fyrir hið helga hlutverk eiginkvenna þeirra á heimilinu,“ bætti hann við.
Hann kenndi mikilvægi þess að leita einróma samþykkis meðlima ráðsins. Þegar slík tilfinning er fyrir hendi, getur leiðtogi áttað sig á henni og beðið um stuðning ráðsins í heild. Í tilvikum þar sem meðlimir eru ekki sammála, ættu leiðtogar að leita ráða hjá hverjum meðlimi deildarráðsins, tjá þakkir fyrir insýn þeirra, taka ákvörðun og biðja meðlimi ráðsins að styðja þá ákvörðun samhljóma. Öldungur Scott lagði áherslu á mikilvægi trúnaðar í málefnum deildarráðs.
Þráður árangur
Öldungur Nelson lauk þjálfuninni með því að benda á þrennt sem vænst er: Að þessi einföldun verði til þess að meðlimir geti nýtt betur tíma sinn og úrræði, að hver prestdæmishafi hljóti aukinn prestdæmiskraft til að blessa hvern einstakling og hverja fjölskyldu í kirkjunni og hver meðlimur finni til aukinnar skyldurækni og ábyrgðar lærisveinsins.