2011
Rebecca Swain Williams: „Stöðug og óhagganleg‘
Apríl 2011


Rebecca Swain Williams: Stöðug og óhagganleg

Þrátt fyrir óvild fjölskyldu hennar í garð kirkjunnar, hélt hún áfram að vera staðföst og trú verkinu.

Í júní 1834 skrifaði ung huguð móðir, sem stóð frammi fyrir því að faðir hennar gerði hana arflausa, tilfinningaþrungið bréf, þar sem hún miðlar sannfæringu sinni um endurreisnina. Þótt Rebeccu Swain Williams hafi verið ljóst að ekki væri líklegt að hún fengi hann til að skipta um skoðun, var hún engu að síður staðföst þrátt fyrir yfirvofandi afleiðingar. Hún lýsti því yfir við föður sinn, Isaac, að Mormónsbók og kirkjan væru sönn, rétt eins og spámaðurinn Joseph Smith hafði sagt, og að hún hefði heyrt vitnin þrjú „lýsa yfir á opinberri samkomu að þeir hefðu séð heilagan engil koma með töflurnar frá himni og sýnt þeim þær.“1

Vitnisburður Rebeccu er ekki aðeins tilfinningaþrunginn sökum þess hve kröftugur hann er, heldur einnig sökum óhagganlegrar staðfestu og óbugandi vilja. Þrátt fyrir höfnun föður hennar og þeirrar staðreyndar að eiginmaður hennar, Frederick G. Williams, varð fráhverfur kirkjunni um hríð, féll Rebecca aldrei í vantrú. Óþreytandi og óbifanleg er Rebecca okkur nú fordæmi um hvernig við getum verið staðföst og óhagganleg mitt í erfiðleikum lífsins, jafnvel þegar þeir sem standa okkur næst hafna trú okkar og forsmá okkur.

Snúast til trúar á kirkjuna

Rebecca Swain fæddist í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum, árið 1798, og var yngst tíu systkina.2 Þegar hún var um níu ára gömul, flutti fjölskylda hennar til Niagara, nálægt landamærum Bandaríkjanna og Kanada. Þau voru það nærri Niagra virkinu að þau heyrðu byssuhvellina þegar ráðist var á virkið í stríðinu 1812. Rebecca sýndi jafnvel óttaleysi allt frá bernsku. Eitt sinn, er hún fór einsömul gegnum skóginn, stóð hún allt í einu frammi fyrir birni á slóðinni. Hún hélt á sólhlíf í hendinni og opnaði hana og lokaði nokkrum sinnum upp við andlit bjarnarins, sem hljóp ringlaður í burtu.3

Þegar Rebecca var 17 ára fór hún yfir Lake Ontario til að heimsækja systur sína í Detroit. Í sjóferðinni hitti hún hinn hávaxna og dökkeygða stýrimann skipsins, Frederick Granger Williams. Tíð stefnumót þeirra urðu brátt til þess að væntumþykjan breyttist í ást og þau tvö giftu sig síðla árs 1815. Williams-hjónin fluttu víða um vestursvæði Ohio, Bandaríkjunum, áður en þau settust endanlega að í Kirtland um 1828. Eiginmaður hennar tók að stunda lækningar og varð vel þekktur fyrir þá hæfni sína, og Rebeccu lærðist að aðstoða hann við lækningarnar. Þau eignuðust fjögur börn saman.

Haustið 1830 komu fyrstu trúboðar mormóna til Kirtland. Rececca hlustaði af athygli á þá og sótti allar trúarsamkomur þeirra og hafði jafnvel börnin með sér. Frederick kom eins oft og lækningar hans leyfðu. Þau lærðu og ræddu tvö saman, en Frederick var þó efablandnari. Rebecca varð hins vegar sannfærð um sannleiksgildi fagnaðarerindisins.

Ævisöguritari í fjölskyldunni lýsti Rebeccu sem einskonar Evu í aldingarðinum Eden: Hún varð „fyrri til að sjá mikilvægi þess“ að ganga til fullrar aðildar að sáttmála fagnaðarerindisins.4 Hún var skírð í október 1830.

Frederick var á báðum áttum. Stundum vildi hann láta kirkjuna alveg eiga sig, en þegar upp var staðið gat hann það ekki, því hann fann sig dragast að hinni helgu, nýju ritningu: Mormónsbók. Andinn hafði stöðug áhrif á hann og hann viðurkenndi sannleiksgildi fagnaðarerindisins og fylgdi í fótspor Rebeccu með því að láta skírast.

Trúföst þjónusta

Kirkjan var brátt þungamiðjan í lífi Fredericks og Rebeccu og áhrifanna gætti þegar í lífi fjölskyldunnar. Frederick var vígður öldungur rétt eftir skírn hans og staðfestingu. Strax daginn eftir tók hann áhugasamur á móti því verkefni að fara innan nokkurra vikna í trúboð með Oliver Cowdery. Búist var við að trúboðið tæki þrjár vikur, en raunin var sú að það varð að tíu mánaða ferð til Missouri. Þessi langa fjarvera hans frá heimilinu varð sú fyrsta af mörgum sem Rebecca þurfti að sætta sig við. Frederick var oft fjarverandi vegna trúboðsins og köllunar hans í Æðsta forsætisráðinu. Rebecca var, líkt og margar aðrar konur mormóna, án eiginmannsins svo mánuðum skipti við heimilishaldið og barnauppeldið.

Þrátt fyrir miklar annir hélt Rebecca trúföst áfram og þjónaði fúslega. Spámaðurinn Joseph Smith og fjölskylda hans dvaldi um hríð á heimili Williams-hjónanna þegar Smith-hjónin fluttu fyrst til Kirtland. Rebecca reyndist holl spámanninum og fjölskyldu hans er hún annaðist þau á erfiðum tímum. Eitt sinn kom múgur aðvífandi og umkringdi húsið í leit að Joseph. Rebecca dulbjó Joseph í kufli sínum og hatti. Joseph tókst að yfirgefa húsið og komast klakklaust í gegnum mannþröngina.

Í mars 1832 veitti Rebecca spámanninum ómetanlega hjálp þegar múgur réðst á býli Johns Johnson í Hiram, Ohio, og misþyrmdi Joseph Smith og Sidney Rigdon hrottalega. Eftir að hafa barið Sidney til meðvitundarleysis og reynt að þvinga eitri ofan í kok Josephs, tjargaði og fiðraði múgurinn spámanninn. Þegar Emma Smith sá eiginmann sinn, taldi hún tjöruna vera blóð og féll í yfirlið.5 Rebecca og Frederick voru alla nóttina að skafa tjöruna af sárum og blóðugum líkama Josephs og annast börn Smith-hjónanna. Hjálp þeirra var vel þegin og Joseph varð nægilega þróttmikill til að prédika um morguninn.

Miðla fagnaðarerindinu af sannfæringu

Rebecca batt sína stærstu von við að fjölskylda hennar, einkum faðir hennar, mundi taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi og hljóta gleðiríkar blessanir trúarinnar. Hún hafði, líkt og Lehí, kynnst elsku Guðs og vildi miðla henni sínum nánustu (sjá 1 Ne 8:12). Með það í huga skrifaði Rebecca af ákefð til fjölskyldu sinnar um trúskipti sín og vitnisburð og hina dásamlegu gleði sem hún upplifði sem meðlimur kirkjunnar.

Trúskipti Rebeccu urðu hins vegar til að reita föður hennar til reiði. Í stuttu svari sínu krafðist hann þess að hún yfirgæfi kirkjuna. En Rebecca lét það ekki hagga sér. Hún svaraði, líkt og sagnaritari fjölskyldunnar skrifaði, að „hún hefði aðeins orðið enn fastari fyrir í sannfæringu sinni um sannleika kenninga mormóna“ og bætti svo við kröftugum vitnisburði sínum.6 Henni til armæðu urðu áhrif bréfsins ekki þau sem hún hafði vonast eftir. Faðir hennar hótaði að útskúfa henni og hét því að slíta öll samskipti ef hún yfirgæfi ekki kirkjuna.

Rebecca lét ekki bugast og hélt áfram að miðla fagnaðarerindinu. Árið 1834 skrifaði hún annað bréf til föður síns—hið eina sem varðveist hefur—þar sem hún greinir frá dýpt trúar sinnar og særindunum sem hún upplifði þegar hann neitaði að samþykkja nokkuð er viðkæmi mormónum.

Faðir hennar hafði lesið fréttagrein um árásir á kirkjuna, einkum á Mormónsbók og vitnisburð vitnanna þriggja, og reynt að fá Rebeccu ofan af trú sinni á þeim forsendum.

„Það særir mig að heyra að Mormónsbók hafi valdið þér slíku hugarangri,“ sagði hún. Rebecca vitnaði í ritningargrein í Mormónsbók og úr nýjum opinberunum Josephs Smith, og miðlaði vitnisburði sínum um Mormónsbók. Hún útskýrði einnig að í bókinni væri einnig spáð um útvalningu þriggja vitna að henni. Til staðfestingar vitnaði hún í hinn forna spámann Eter, en hann sagði „af munni þriggja vitna“ mun sannleikur bókarinnar „[staðfestur]“ (Eter 5:4).7

Rebecca lýsti síðan hvernig hún hefði sjálf séð vitnin þrjú—David Whitmer, Martin Harris og Oliver Cowdery—og heyrt þau vitna um að hafa séð engil og gulltöflurnar. Eftir að hafa komið vitnisburði þeirra til varnar, brýndi hún fyrir föður sínum að kynna sér verkið betur. Hún skrifaði til föður síns, að ef „þú og móðir mín væruð jafn kunnug verkinu og við erum, er ég viss um að þið hefðuð trú á því.“8

Rebecca endurtók loforð Morónís aftast í Mormónsbók og sárbað að fjölskylda hennar bæði Guð að „upplýsa hugi þeirra til að þekkja sannleikann.“ Og síðan hugðist hún senda trúboða, sem „gæti kennt þeim kenningar fagnaðarerindisins, líkt og það er í Jesú,“ til að hjálpa þeim enn frekar.9 Niðurstaðan varð sú að faðir hennar vildi ekkert hafa með það að gera.

Bréfin sem Rebecca sendi bróður sínum, John—sem hún var einkar náin—voru jafnvel send ólesin til baka. Á bakhlið eins bréfsins sem sent var til baka skrifaði John: „Faðir okkar bannar mér að lesa bréfin þín og skrifa þér. Ég kveð þig og Guð blessi þig alltaf. Þinn bróðir, John.“10

Trúboð Rebeccu bar þó árangur hvað elstu systur hennar, Söru Swain Clark, varðaði. Hún gekk í kirkjuna í Michigan árið 1832. Dóttir Söru gekk einnig í kirkjuna og þær urðu trúfastar alla ævi.

Trúföst allt til enda

Særindin sem Rebecca upplifði vegna ákvörðunar föður síns urðu ekki til að draga úr ást hennar til hans. Hún skrifaði: „Ég syrgi í hjarta mínu yfir blóðtengdum ættingjum mínum. … Ég bið þess að Drottinn hughreysti þig á þínum efri árum með hans heilaga anda og megi þau verða þín bestu ár. … Ég vona að þú finnir friðsæld í huga hvað þetta verk varðar. Ég fullvissa þig um að við erum staðföst í þeirri vitneskju, að Drottinn er við stjórnvölinn.“11

Rebecca þurfti ekki aðeins að fást við vantrú föður síns, heldur einnig hollustu eiginmannsins gagnvart trúnni. Á árunum 1837 og 1838 var eiginmaður hennar, Frederick, sem þá var meðlimur í Æðsta forsætisráðinu, stöðugt á skjön við aðra kirkjuleiðtoga. Hann yfirgaf jafnvel kirkjuna um tíma og var gerður brottrækur. En Frederick auðmýkti sig þó nokkru síðar, gekk að nýju í kirkjuna og lést í fullri aðild. Við eigum ekki heimildir um líðan Rebeccu á þessum tíma, en hún lét ekki af hollustu sinni við hina heilögu og var áfram staðföst.

Þegar föður Rebeccu, Isaack, bárust þau tíðindi í New York, að Frederick hefði gengið af trúnni, vonaði hann að Rebecca gerði hið sama. En Rebecca sendi honum bréf sem staðfesti óhagganlega hollustu hennar. Eftir að Isaac hafði lesið bréfið, hristi hann hægt höfuðið og sagði: „Ekki eitt orð um iðrun.“12

Rebecca var óþreytandi í því að koma Joseph Smith og hinni endurreistu kirkju til varnar. Og þrátt fyrir fórnirnar sem hlutust af því að velja kirkjuna fram yfir föður sinn, hélt hún áfram að heiðra hann. Hún mat mikils það sem faðir hennar hafði kennt henni og lét elsku og þakklæti í ljós til hans. Hún lauk bréfi sínu frá 1834 á því að taka fram að hún mundi „alltaf heiðra kennslu … síns ástkæra föður.“13

Faðir Rebeccu lést árið 1839. Aðeins þremur árum síðar missti hún eiginmann sinn. Þrátt fyrir þessa erfiðu reynslu var Rebecca ávallt trúuð og hugrökk. Þegar hinir heilögu héldu vestur til Utah, ferðaðist hún með fjölskyldu sonar síns Ezra og ók eigin eyki. Síðar hafði hún umsjá með býli á Mill Creek. Þegar byggingu Laufskálans í Salt Lake lauk og hinir heilögu voru beðnir að leggja af mörkum það sem þeir gátu, gaf hún silfurskeiðar sem notaðar voru til að búa til bakka fyrir sakramentið. Og loks árið 1860, þótt afar veikbyggð væri orðin, var hún fús til að flytjast búferlum enn á ný þegar Brigham Young bað fjölskyldu hennar að setjast að í hinum afskekkta Cache-dal í Utah— og aftur ók hún eigin eyki.

Rebecca lést í Smithfield, Utah, 25. september 1861. Hún stóð fast á sannfæringu sinni, á þekkingunni á sannleikanum og eigin reynslu. Hún var „staðföst og óbifanleg“ allt til enda (Mósía 5:15).

Heimildir

  1. Rebecca Swain Williams til Isaac Fischer Swain, 4. júní 1834, Church History Library, Salt Lake City.

  2. Æviágrip eru frá Nancy Clement Williams, Meet Dr. Frederick Granger Williams … and His Wife Rebecca Swain Williams: Read Their True Story in the First Introduction—after 100 Years (1951); og Frederick G. Williams, „Frederick Granger Williams of the First Presidency of the Church,“ BYU Studies, bindi 12, nr. 3 (1972): 243–61.

  3. Williams, Meet Dr. Frederick Granger Williams, 5.

  4. Williams, Meet Dr. Frederick Granger Williams, 55.

  5. History of the Church, 1:263.

  6. Williams, Meet Dr. Frederick Granger Williams, 63.

  7. Sjá einnig bréf frá Rebeccu Williams, 4. júní 1834.

  8. Bréf frá Rebeccu Williams, 4. júní 1834.

  9. Bréf frá Rebeccu Williams, 4. júní 1834.

  10. Williams, Meet Dr. Frederick Granger Williams, 63.

  11. Bréf frá Rebeccu Williams, 4. júní 1834.

  12. Bréf frá George Swain, 17. mars 1839, vélritaður texti, Church History Library, Salt Lake City.

  13. Bréf frá Rebeccu Williams, 4. júní 1834.

Teikning eftir Richard Hull