2011
Hreinsandi máttur Getsemane
Apríl 2011


Sígildar trúarsögur

Hinn hreinsandi máttur Getsemane

Bruce R. McConkie fæddist 29. júlí 1915 í Michigan, Bandaríkjunum. Hann var studdur í fyrstu sveit hinna Sjötíu 6. október 1946 og vígður postuli 12. október 1972. Hann lést 19. apríl 1985, í Salt Lake City, Utah. Ræða þessi var flutt á aðalráðstefnu 6. apríl 1985.

Elder Bruce R. McConkie

Mér finnst, og andinn virðist því samhljóma, að mikilvægasta kenningin sem ég fæ útskýrt, og öflugasti vitnisburðurinn sem ég fæ gefið, sé um friðþægingarfórn Drottins Jesú Krists.

Friðþæging hans er óviðjafnanlegasti atburðurinn sem átt hefur eða mun eiga sér stað frá upphafi sköpunar og í gegnum allar aldir óendanlegrar eilífðar.

Hún er æðsta náðar- og kærleiksverk sem Guð einn megnar að koma til leiðar. Fyrir hennar tilverknað verða allir skilmálar og skilyrði hinnar eilífu sáluhjálparáætlunar föðurins fullgild.

Fyrir hennar tilverknað verða ódauðleiki og eilíft líf mannsins að veruleika. Fyrir hennar tilverknað munu allir menn frelsast frá dauða, helju, djöflinum og óendanlegri kvöl.

Og fyrir hennar tilverknað munu allir sem trúa á hið dýrðlega fagnaðarerindi Guðs og hlíta því, allir sem eru sannir og trúfastir og sigra heiminn, allir sem þjást fyrir Krist og orð hans, allir sem agaðir eru og hirtir vegna málsstaðar hans, sem við heyrum til—verða sem skapari þeirra, sitja í hásæti og ríkja með honum eilíflega í ævarandi dýrð.

Ég mun nota eigin orð er ég ræði um þessa undursamlegu hluti, þótt þið gætuð haldið að þau væru orð ritninganna, orð frá öðrum postulum og spámönnum.

Satt er að aðrir hafa áður mælt þau, en nú eru þau mín, því heilagur andi Guðs hefur borið mér vitni um að þau eru sönn, og nú er sem Drottinn hafi opinberað mér þau fyrst. Ég hef því heyrt rödd hans og þekki orð hans.

Í Getsemanegarðinum

Fyrir tvö þúsund árum, utan við múra Jerúsalem, var fallegur garður, sem gekk undir nafninu Getsemane, þar sem Jesús og nánustu vinir hans voru vanir að eiga stundir til að ígrunda og biðja.

Í honum kenndi Jesús lærisveinum sínum kenningarnar um ríkið og allir ræddu þeir í trúnaði við föður okkar allra, sem þeir helguðu þjónustu sína og erindagjörð.

Sá reitur er, líkt og Eden þar sem Adam dvaldi, líkt og Sínaí þar sem Jehóva veitti lögmál sitt, líkt og Golgata þar sem sonur Guðs gaf líf sitt til lausnargjalds fyrir marga, helg jörð, þar sem hinn syndlausi sonur hins eilífa föður tók á sig syndir allra manna, gegn því að þeir iðrist.

Við fáum hvorki skilið eða komið því í orð, né fær nokkur jaðneskur hugur skilið að fullu það sem Kristur tókst á við í Getsemane.

Við vitum að blóð streymdi úr hverri svitaholu líkama hans, er hann drakk hinn beiska bikar í botn, sem faðir hans ætlaði honum.

Við vitum að hann þjáðist bæði á líkama og í anda, meira en nokkur maður fær þolað, nema til dauða.

Við vitum að á einhvern hátt, utan okkar skilnings, uppfylltu þjáningar hans kröfur réttvísinnar, urðu lausnargjald hinum iðrunarfullu sálum frá kvöl og refsingu syndar, og gerðu miskunn mögulega fyrir þá sem trúa á hans heilaga nafn.

Við vitum að hann féll til jarðar, yfirbugaður af sársauka og angist, af hinni óendanlegu byrði sem olli því að með hrolli óskaði hann þess að þurfa ekki að bergja hinn beiska bikar.

Við vitum að engill var sendur úr návist himins dýrðar til að styrkja hann í þessari eldraun, og við teljum það hafa verið hinn máttuga Míkael, sem fyrstur féll, svo að menn mættu lifa.

Að okkar bestu vitund stóð þessi óendanlega kvöl—þessi ógnar þjáning—yfir í um þrjár til fjórar klukkustundir.

Handtakan, réttarhöldin og húðstrýkingin

Að þessu loknu—er líkami hans var þorrinn kröftum—tókst hann á við Júdas og aðra holdgervinga djöfulsins, sem sumir voru frá sjálfu æðsta ráði Gyðinga; og hann var leiddur burtu í hálsbandi, sem ótýndur glæpamaður, til að verða dæmdur af erki-glæpamönnunum, Gyðingum sem sátu í sæti Arons, og Rómverjum, sem fóru með vald Sesars.

Þeir fóru með hann til Annas, til Kaífasar, til Pílatusar, til Heródesar og aftur til Pílatusar. Hann var ákærður, honum var formælt og hann laminn. Ógeðslegir hrákar þeirra láku niður andlit hans um leið og grimmdarleg högg þeirra drógu enn frekar máttinn úr sárum líkama hans.

Af heiftarreiði létu þeir reyrhöggin dynja á baki hans. Blóðið lak niður andlit hans þegar þyrnum sveigsins var þrýst inn í enni hans.

Og alvarlegast var að hann var hýddur, hýddur einu höggi undir fjörutíu, hýddur með svipu sem á voru festar leðurreimar, er alsettar voru hvössum beinum og málmhlutum.

Margir dóu af hýðingunni einni, en hann stóð upp eftir það kvalræði, svo hann mætti deyja smánarlegum dauða á harðneskjulegum krossinum á Golgata.

Hann bar kross sinn sjálfur þar til hann hneig niður undan þunga hans og sársaukanum og angistinni allri.

Á krossinum

Loks, á hæð einni, sem kölluð var Golgata—sem einnig var utan við múra Jesúsalem—í augsýn hjálparvana lærisveinanna sem á eigin skinni skynjuðu angist dauðans nærri, lögðu rómversku hermennirnir hann á krossinn.

Með þungum tréhömrum ráku þeir járnnagla í gegnum fætur hans, hendur og úlnliði. Vissulega var hann særður vegna okkar synda og kraminn vegna okkar misgjörða.

Krossinn var síðan reistur, svo allir mættu sjá og gapa, formæla og hæðast. Þetta gjörðu þeir af illkvittni, í þrjár stundir, frá níu árdegis til hádegis.

Þá myrkvuðust himnarnir. Myrkrið grúfði yfir landinu í þrjár stundir, líkt og gerðist hjá Nefítum. Á skall mikill stormur, líkt og sjálfur Guð náttúrunnar liði angist.

Og vissulega gerði hann það, því meðan hann hékk á krossinum í aðrar þrjár stundir, frá hádegi til þrjú síðdegis, þoldi hann að nýju hina óendanlegu angist og vægðarlausan sársaukann sem hann upplifði í Getsemane.

Og loks, þegar angist friðþægingarinnar var yfirstaðin—er sigur hafði unnist, er sonur Guðs hafði framfylgt vilja föður síns í öllu—sagði hann: „Það er fullkomnað“ (Jóh 19:30), og sjálfviljugur gaf hann upp andann.

Í andaheiminum

Þegar friður og fró miskunnsams dauða frelsuðu hann frá sársauka og sorg jarðlífsins, fór hann í paradís Guðs.

Þegar sál hans hafði verið færð að fórn fyrir synd, var hann albúinn að sjá niðja sína, að messíasarorði.

Sem eru allir hinir helgu spámenn og trúfastir heilagir frá alda öðli; allir sem tekið hafa á sig nafn hans, og orðið synir hans og dætur, jafnvel líkt og á við um okkur, og verið andlega getnir af honum; allir þeir voru saman komnir í andaheimi, til að líta ásjónu hans og hlýða á raust hans.

Eftir um 38 eða 40 stundir—þrjá daga að mælikvarða Gyðinga—kom okkar blessaði Drottinn að gröf Arímaþeans, þar sem smurðum líkama hans hafði verið komið fyrir af Nikódemusi og Jósef frá Arímaþeu.

Upprisan

Síðan, á okkur óskiljanlegan hátt, íklæddist hann þeim líkama, sem enn var óspilltur, og reis upp til dýrðlegs ódauðleika, sem gerði hann líkan hinum upprisna föður sínum.

Honum var svo falinn allur máttur á himni og jörðu, hann hlaut eilífa upphafningu, birtist Maríu Magdalenu og mörgum öðrum, og steig upp til himins, þar sem hann situr til hægri handar Guði, hinum almáttuga föður, til að ríkja eilíflega í ævarandi dýrð.

Upprisa hans á þriðja degi kórónaði friðþæginguna. Aftur, okkur á einhvern óskiljanlegan hátt, kom upprisa hans því til leiðar að allir menn munu rísa úr gröfum sínum.

Líkt og Adam innleiddi dauða, innleiddi Kristur lífið; líkt og Adam er faðir dauðleikans, er Kristur faðir ódauðleikans.

Og án þeirra beggja, dauðleikans og ódauðleikans, fær maðurinn ekki unnið að sáluhjálp sinni og stigið upp til hæstu hæða, ofar öðrum himnum, þar sem guðir og englar dvelja eilíflega í ævarandi dýrð.

Skilningur á friðþægingunni

Friðþæging Krists er algjör grundvallarkenning fagnaðarerindisins og er sú sem við skiljum síst af öllum okkar opinberaða sannleika.

Mörg okkar búa yfir lítilli þekkingu og reiða sig á Drottin og góðleika hans við að leiða okkur í gegnum raunir og örðugleika lífsins.

En ef við viljum eiga sömu trú og Enok og Elía, verðum við að trúa því sem þeir trúðu, vita það sem þeir vissu og lifa líkt og þeir gerðu.

Má ég bjóða ykkur að ganga til liðs við mig í því að hljóta áreiðanlega og örugga vitneskju um friðþæginguna.

Við verðum að leggja heimspeki manna til hliðar og visku hinna vitru og ljá þeim anda eyra sem okkur er gefinn til að leiða okkur í allan sannleikann.

Við verðum að rannsaka ritningarnar, viðurkenna þær sem huga, vilja og rödd Drottins og kraft Guðs til sáluhjálpar.

Þegar við lesum, ígrundum og biðjum, munum við hljóta skilning á því sem gerðist í görðunum þremur—aldingarðinum Eden, Getsemanegarðinum og garði hinnar tómu grafar, þar sem Jesús birtist Maríu Magdalenu.

Sköpunin, fallið og friðþægingin

Í Eden munum við sjá allt skapað í paradísardýrð—án dauða, án getnaðar, án reynslutíma.

Við munum komast að því að slík sköpun, sem nú er óþekkt mönnum, var eina leiðin til að fallið yrði að veruleika.

Við munum síðan sjá Adam og Evu, fyrsta karlinn og fyrstu konuna, fara frá ódauðleika og paradísardýrð og verða fyrstu dauðlegu mannverur jarðarinnar.

Jarðneskt ástand, með getnaði og dauða, kom í heiminn. Og vegna brotsins, hófst tími reynslu og prófrauna.

Í Getsemanegarðinum munum við svo komast að því að sonur Guðs galt lausnargjald mannsins frá stundlegum og andlegum dauða, sem yfir okkur koma vegna fallsins.

Og loks, fyrir framan tóma gröfina, munum við komast að því að Kristur, Drottinn okkar, hefur rofið hlekki dauðans og stendur sigri hósandi yfir gröfinni.

Sköpun kom því á undan fallinu; og með fallinu kom hið dauðlega líf; og með Kristi kom ódauðlegt og eilíft líf.

Ef fall Adams hefði ekki átt sér stað, sem hafði dauða í för með sér, hefði friðþæging Krists, sem gefur líf, ekki náð fram að ganga.

Friðþægingarblóð hans

Og nú, hvað viðkemur þessari fullkomnu friðþægingu, sem náðist fram með úthellingu blóðs Guðs—ber ég vitni um að hún átti sér stað í Getsemane og á Golgata, og hvað viðkemur Jesú Kristi, ber ég vitni um að hann er sonur hins lifanda Guðs og var krossfestur fyrir syndir heimsins. Hann er Drottinn okkar, Guð okkar og konungur okkar. Þetta veit ég af sjálfum mér óháð öllum öðrum mönnum.

Ég er eitt af vitnum hans, og á komandi degi mun ég þreifa á naglaförum handa hans og fóta og baða fætur hans tárum mínum.

En ég mun ekki vita betur þá en nú, að hann er sonur almáttugs Guðs, að hann er frelsari okkar og lausnari og að sáluhjálp fæst á engan annan hátt en fyrir friðþægingarblóð hans.

Guð gefi að við megum öll vera í ljósinu, líkt og Guð faðir okkar er í ljósinu, svo að blóð Jesú Krists, sonar hans, muni hreinsa okkur af allri synd, líkt og fyrirheitin kveða á um.

Hluti af VERÐI ÞINN VILJI EN EKKI MINN, eftir Harry Anderson © Pacific Press Publishing

Hluti af Tómas hinn efablandni eftir Carl Heinrich Bloch, birt með leyfi Þjóðminjasafnsins í Friðriksborg, Hillerød, Danmörku