Sáttmáli er ævarandi
Álit heimsins skiptir mig engu þegar kemur að ákvörðunum sem ég hef tekið í tengslum við sáttmála við ástkæran himneskan föður.
Þegar ég var unglingur gaf forseti Stúlknafélagsins hverri stúlku gjöf: Mynd af musteri. Hún ræddi við okkur um sáttmála og hreint líferni. Hún hvatti okkur síðan til að setja okkur það markmið að fara í musterið.
Ég fór að ráðum þessarar systur og ákvað að hafa slíkan undirbúning í fyrirrúmi. Ekkert musteri var á Costa Rica á þessum tíma, en ég vissi af nýlegri skírn minni hvað sáttmáli er, og ég leit fram til þess tíma er ég gæti gert fleiri sáttmála við Drottin.
Enginn annar í fjölskyldu minni var meðlimur kirkjunnar á þessum tíma, svo fagnaðarerindið var ekki kennt á heimili mínu. Ég ákvað samt að læra sjálf um reglur fagnaðarerindisins og lifa eftir þeim. Undirbúningur minn fólst í því að sækja trúarskólann, jafnvel þótt hann væri hafður árla morguns. Hann fólst í því að fara ekki á stefnumót fyrr en ég næði 16 ára aldri. Og hann fólst í því að lifa eftir skírlífislögmálinu—sem vissulega var ekki vinsælt eða jafnvel almennt meðal jafnaldra minna, en ég vissi samt að ég gæti gert það, því ég hafði gert sáttmála við Drottin um að gera það.
Ritningarnám, bæði í trúarskólanum og í einrúmi, veitti mér enn frekari styrk til að lifa skírlífu og hreinu lífi. Ég man að ég hlaut mikinn styrk af frásögninni um hina 2000 ungu stríðsmenn. En líkt og segir í Alma 53:20–21, þá voru þessir ungu menn „sérlega hugdjarfir og kjarkmiklir, sterkir og athafnasamir. En sjá. Þetta var ekki allt—þetta voru menn, sem alltaf voru trúir því, sem þeim var treyst fyrir. … Þeir voru menn sannleika og árvekni, því að þeim hafði verið kennt að halda boðorð Guðs og ganga grandvarir frammi fyrir honum.“ Ég vildi líka vera trú því sem mér hafði verið treyst fyrir, þar á meðal skírnarsáttmála mínum.
Ég hlaut aukinn skilning á sáttmálum þegar ég var kölluð til að þjóna í eystri San Salvador trúboðinu í El Salvador. Þegar ég hlaut musterisgjöf mína, kom Kenning og sáttmálar 82:10 upp í huga minn: „Ég, Drottinn, er bundinn, þegar þér gjörið það sem ég segi, en þegar þér gjörið ekki það sem ég segi, hafið þér engin loforð.“ Í trúboði mínu tók skilningur minn á sáttmálum—að okkur bæri að standa við okkar hluta og Drottinn stæði við sinn hluta—að knýja mig til að gera mitt besta. Þegar ég gerði það nutum við, ég og félagi minn, blessana í starfi okkar.
Það eru mörg ár liðin síðan ég þjónaði í trúboði, en ég hlýt áfram aukinn styrk er ég held sáttmálana sem ég hef gert. Síðan þá hef ég notið þeirrar blessunar að þjóna í sjö ár í San José musterinu á Costa Rica. Þjónusta mín sem starfsmaður musterisins var mér stöðug áminning um sáttmálana sem ég gerði. Ég hef hlotið álíka áminningu í þjónustu minni í Stúlknafélaginu, þar sem ég hef reynt að kenna mikilvægi sáttmála, líkt og leiðtogar mínir kenndu mér.
Að halda sáttmála okkar er ekki alltaf auðvelt. Margir hafa þá skoðun á skírlífislögmálinu (eða í sumum tilvikum á trúarlegri breytni almennt) að það sé úrelt. Sem betur fer finn ég ekki mikinn þrýsting frá þeim sem ekki hafa sömu trúarskoðanir og ég. Ég lít yfir farinn veg, á það sem ég hef reynt sem ung kona, þegar leiðtogar okkar hvöttu okkur til að búa okkur undir að lifa eftir sáttmálum musterisins. Sú ákvörðun sem ég tók þá er sú sem ég fylgi nú.
Ég stend óhagganleg við ákvarðanir mínar, því þær voru ekki aðeins teknar af sjálfri mér eða fyrir sjálfa mig. Þær eru teknar sem hluti af sáttmála sem ég hef gert við elskandi himneskan föður. Engu skiptir hvað heiminum finnst. Ég hef lofað Drottni að hlíta boðorðum hans. Það snýst um heiður. Sáttmálinn sem ég gerði við skírnina og sáttmálarnir sem ég gerði í musterinu eru jafn gildir nú og þegar ég gerði þá. Sáttmáli við Guð er ævarandi.
Að lifa á þann hátt sem Guð hefur boðið okkur er ekki alltaf auðvelt, en ég ber vitni um að það er mögulegt. Við getum hlotið staðfestu og kraft til að lifa eftir sáttmálum okkar og getum verið viss um að himneskur faðir mun aldrei skilja okkur ein eftir. Okkur eru allir vegir færir, ef hann er með okkur (sjá Moró 7:33).