2011
Loks tók ég að hlusta
Apríl 2011


Loks tók ég að hlusta

„Hún er gömul vinkona og þetta er ekki stefnumót,“ sagði ég við sjálfan mig. Hvers vegna var andinn þá að aðvara mig um að vera ekki þarna?

Þegar ég var í framhaldsskóla naut ég þeirrar blessunar að afla mér starfsnáms í fjarlægri borg. Gömul vinkona mín bjó ekki all fjarri og þótt við værum ekki sömu trúar, hafði skoðanamunur okkar ekki haft áhrif á vináttu okkar.

Þegar ég kynntist Madeline fyrst (nafni er breytt) unnum við bæði með annarri ungri konu sem var mjög gott fordæmi um Síðari daga heilagan. Ég man að andinn benti mér á ýmsan lítilsháttar mun á hverri stúlku og hvernig smávægilegar ákvarðanir gætu haft afleiðingar síðar í lífinu. Ég hef í raun árum saman munað eftir þessum andlegu hugboðum.

Þegar við Madeline hittumst að nýju að nokkrum árum liðnum, ákváðum við tíma til að hittast og gera eitthvað saman. Þegar leið að tilsettu kvöldi, varð ég undarlega kvíðinn. Ég tók lest til hennar borgarhluta og þegar ég nálgaðist sagði rödd í huga mínum og hjarta: „Þér ber að fara aðeins á stefnumót við þær sem lifa eftir háum stöðlum.“

„Þetta er ekki stefnumót,“ hugsaði ég með mér. „Ég er bara að hitta gamla vinkonu.“ Andinn aðvaraði mig að nýju og lét mig ekki í friði, þar til ég viðurkenndi að ég væri í raun að fara á stefnumót og ég tók að hugsa um lífsstíl vinkonu minnar. „Hún veit að ég er SDH,“ réttlætti ég sjálfan mig. „Hún er kunnug þeim stöðlum sem ég lifi eftir, svo þetta verður ekkert mál.“

Ég tók samt að velta því fyrir mér hvort þær „smávægilegu ákvarðanir“ sem ég hafði tekið eftir áður, hefðu orðið til þess að bilið milli okkar væri nú stærra en ég gerði mér grein fyrir. Ég ákvað því að fylgja innblæstri andans og hringdi í vinkonu mína til að afboða stefnumótið. Ég óttaðist mikið að móðga hana. Hvernig gat ég útskýrt andlega leiðsögn fyrir vinkonu sem ekki viðurkennir hlutverk heilags anda?

Ég útskýrði að mér liði ekki vel með eitt af því sem við hugðumst gera og vonaði að það gæfi mér ásættanlega átyllu fyrir því að fara ekki út með henni. Hún varð fyrir vonbrigðum og bauðst til að breyta áformum okkar. Mér létti og ég samþykkti breytinguna, því ég hugsaði sem svo: „Kannski var andinn að vara mig við því sem við hugðumst gera.“ En kvíðatilfinningin virtist ekki hverfa.

Við skemmtum okkur vel um kvöldið, en andinn áminnti mig endrum og eins um mikilvægi fyrri aðvörunar. Í fyrstu var ekkert sem hafa þurfti áhyggjur af, en þegar á kvöldið leið, varð ljóst að þótt við hefðum svipaðan bakgrunn, stefndum við sitt í hvora áttina. Við höfðum ekki sömu staðla—jafnvel í mörgu smávægilegu. Þegar hún pantaði áfengi gerði ég henni grein fyrir að ég vildi síður greiða fyrir áfengi. Hún virti þá ósk mína og greiddi sjálf fyrir áfengið.

Hinn andlegi kvíði ágerðist eftir því sem leið á kvöldið. Þegar kvöldverðinum lauk, var ég orðinn órólegur í stólnum og vildi fara heim, því mér var ljóst að síðasta kvöldlestin færi að leggja af stað og ég hafði ekki ráð á að taka leigubíl, þar sem ég bjó svo fjarri. Vinkona mín varð vör við áhyggjur mínar og bauð mér að gista heima hjá sér. Andinn lét mig ekki í friði og staðfesti það sem ég vissi sjálfur: Gisting var ekki valkostur.

Þegar ég fylgdi henni heim gangandi reyndi ég að látast rólegur. „Ertu viss um að þú viljir ekki gista?“ spurði hún. Ég sagðist viss. Hún var ekki frökk eða særandi, en andinn talaði hljóðlega og skýrar en nokkur þrumuraust. Ég mátti ekki missa af lestinni!

Ég hinkraði uns ég vissi að hún var innandyra og hljóp síðan eins hratt og fætur toguðu til að ná á lestarstöðina í tæka tíð. Ég komst ekki hjá því að hugsa um Jósef í Egyptalandi, þegar hann hljóp undan freistingunni (sjá 1 Mós 39:7–12).

Þegar mér verður hugsað aftur til þess sem gerðist þetta kvöld, finn ég bæði til ótta og þakklætis: Ótta yfir því sem hefði getað gerst og þakklætis fyrir samfélag heilags anda. Andinn talaði og jafnvel þótt ég hefði átt að leggja fyrr við hlustir, þá gerði ég það að lokum.

Augljóst var að yfirsýn mín á aðstæðum kvöldsins var ekki jafn skýr og Drottins. Líkt og Jesaja skráði:

„Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir segir Drottinn.

Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum“ (Jes 55:8–9).

Sumar ákvarðanir sem við stöndum frammi fyrir í lífinu eru skjótteknar og falla fljótt í gleymsku. Aðrar ákvarðanir veita okkur lexíu sem okkur væri best að gleyma aldrei. Ég er líka þakklátur fyrir að vita, að þegar við hlítum innblæstri heilags anda—og þegar við gerum það samstundis—reynist okkur auðveldara að vera á veginum sem Jesús Kristur gerði okkur kleift að fylgja.

Teikning eftir Jeff Ward