2011
Máttur ritninganna
Apríl 2011


Máttur ritninganna

Þegar tveir ungir Tahitíbúar gáfu ritningunum tækifæri, tók líf þeirra breytingum.

Rooma vildi í raun ekki læra ritningarnar. Vaitiare vildi í raun ekki fara í trúarskólann. Og þau þurftu þess ekki. En þegar þau ákváðu að gera það, breyttist líf þeirra.

Hvers vegna ekki?

Af hverju ætti unglingur að ákveða að eyða tveimur klukkustundum á hverju þriðjudagskvöldi í að læra ritningarnar með móður sinni? Fyrir ári velti Rooma Terooatea frá Tahití örugglega fyrir sér því sama.

Nú gæti hann spurt hvers vegna unglingur ætti ekki að gera það.

Á þeim þremur árum sem Rooma hafði verið í trúarskóla, hafði hann í raun aldrei veitt því athygli þegar kennarinn sagði honum að lesa ritningargreinar heima fyrir næstu kennslustund. „Ég vildi ekki lesa þær,“ sagði hann. „Ritningarnar vöktu ekki mikinn áhuga hjá mér.“

En hann velti því fyrir sér af hverju kirkjuleiðtogar í deild hans og stiku notuðu alltaf ritningarnar við ræðuflutning og kennslu. Hann fylgdist með leiðtogum sínum. Hann veitti því athygli hve stikuforsetanum reyndist auðvelt að vitna í ritningarnar.

Þegar nemendum trúarskólans í Faaa-stiku á Tahití var skipt upp í hópa til að keppa í ritningarleikni á síðasta ári Rooma í trúarskólanum, einsetti hann sér að læra ritningarnar.

Og einmitt þá hófst hið vikulega heimaritningarnám með móður hans. Á hverju þriðjudagskvöldi lærðu þau saman fyrir bekkjarkeppnina daginn eftir. Hann lærði mikilvæg ritningarvers og sum jafnvel utanbókar.

Og þá tók ýmsilegt að breytast hjá Rooma. Ritningarnámið varð til að efla samband hans við móður sína. Hann tók að greina samsvörun með því sem ritningarnar kenna og því sem átti sér stað í heiminum. Þegar hann baðst fyrir um það sem hann las, varð honum ljóst að efnið var frá Guði.

Það gerði honum líka kleift að leiða lið sitt til sigurs í keppni stikunnar í ritningarleikni.

Meðal þeirra blessana sem Rooma hlaut var að honum lærðist ákveðin lexía. „Í Mósía 2:24 kennir Benjamín konungur, að þegar við veljum að gera það sem Drottinn býður okkur að gera, hljótum við þegar í stað blessanir,“ sagði Rooma. Ein mesta blessunin sem hann hlaut „eftir að hafa lært ritningarnar þetta árið, var að vita að Mormónsbók er sönn.“

Segðu mér ekki hvað gera skal

Í upphafi skólaársins var Vaitiare Pito jafnvel ekki meðlimur kirkjunnar. Hvernig gat þá nýr meðlimur, sem aldrei áður hafði verið í trúarskóla, hjálpað liði sínu að sigra í ritningarkeppni Faaa-stikunnar?

„Ég hafði ekki áhyggjur af reynsluleysi mínu,“ sagði hún. „Ég lærði mörg þessara ritningarversa í trúboðslexíunum.“

Flestir í fjölskyldu Vaitiare gengu í kirkjuna eftir óvænt lát föður hennar og eftir að trúboðsleiðtogi deildarinnar kom með trúboða á heimili þeirra. Þeir ræddu um samheldni og eilíft samband fjölskyldu. „Það varð til að breyta fjölskyldu minni,“ sagði hún.

Það breytti þó ekki þeirri tilhneigingu 17 ára tánings að vera sjálfstæður. „Eftir að ég skírðst sögðu allir að ég ætti að fara í trúarskólann,“ sagði hún. „Mér líkar ekki að aðrir segi mér fyrir verkum, svo það leið nokkur tími þar til ég lét til leiðast.“

Hún einsetti sér loks að fara af sjálfsdáðum og komst að því að hún naut trúarskólans. Hún var tilnefnd í sama lið og Rooma í ritningarleiknum.

Í fyrstu lagði hún ekki á sig að lesa ritningarverkefnin. En þegar hún ákvað loks að gera það, tók hún brátt að skynja fjölda blessana.

„Ritningarnar hafa verið afar gagnlegar,“ sagði hún. „Ég hef lært margt af ritningunum,“ þar á meðal um mikilvægi bænar og að himneskur faðir bænheyrir okkur.

Henni lærðist líka að betra er ef hún ákveður sjálf að skuldbinda sig einhverju, t.d. því að fara í trúarskólann eða lesa ritningarnar og halda boðorðin, heldur en ef henni er skylt að gera það eða hún „verður“ að gera það.

Nú, þegar skólaárinu er lokið, er Vaitiare þakklát fyrir að hún ákvað að fara í trúarskólann og læra ritningarnar: „Ég veit að við hljótum blessanir þegar við lesum ritningarnar.“

Þegar Rooma Terooatea (að neðan) og bekkjarnemar hans ferðuðust til Moorea (vinstri) til að láta reyna á ritningarleikni sína, skipti útkoman ekki máli—Rooma var þegar sigurvegari.

Þegar Vaitiare Pito frá Tahití hafði loks einsett sér að læra ritningarnar, fór hún að skynja blessanirnar.

Ljósmyndun: Adam C. Olson, nema annað sé tekið fram; efst: ljósmynd © iStock; ljósmynd af blómi © iStock