Ungt fullorðið fólk
Verða betri ráðsmenn jarðarinnar sem Guð skapaði fyrir okkur.
Úr ræðu sem flutt var á 18. árlegu málþingi Stegner miðstöðvarinnar í Utah háskóla í Salt Lake City, 12. apríl 2013.
Því betur sem við hugum að þessum heim og öllu því sem honum tilheyrir, því betur mun hann viðhalda, innblása, styrkja, lífga og gleðja hjörtu okkar og anda.
Áhugamál mitt er útivera í náttúrunni, svo sem gönguferðir, skíði, sjókajaksiglingar, hjólreiðar eða jafnvel könnunarferðir. Þegar ég var barn naut ég þess að vera úti í skógi og upplifa sígræn, gnæfandi trén bera þögult og tignarlegt vitni um skaparann. Þegar ég hef fullorðnast, hef ég lært með námi og trú, að ef við skiljum hver við erum, tilgang lífsins og ástæðu þess að jörðin var sköpuð – og höfum það hugfast – munum við annast þessa jörðu, og allt sem á henni er, á æðri og göfugri hátt.
Tilgangur Guðs með sköpun jarðar
Drottinn hefur, með spámönnum sínum, bæði fyrr og síðar, reynt að hjálpa okkur að skilja og meta þá gjöf að dvelja á þessari fallegu jörðu. Í Gamla testamentinu íhugaði Davíð hin tignarlegu sköpunarverk Guðs og undraðist ástæðu þess að Guð hefði sérstakt dálæti á manninum – af öllum þessum undrum (sjá Sálmarnir 8:4). Davíð ályktaði að maðurinn væri sérstakur, „litlu minni en Guð“ (Sálmarnir 8:5).
Móse sá líka í sýn óteljandi heima1 og sagði: „Af þessu veit ég, að maðurinn er ekkert, en það hafði ég aldrei talið“ (HDP Móse 1:10).
Móse, sem var fullur auðmýktar frammi fyrir sköpunarverki Guðs, skildi ekki mikilvægan sannleika. Drottinn sýndi honum því aftur hin óendanlegu sköpunarverk sín og sagði að hann – Guð – hefði skapað þetta til „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39). Þessi jörð – já allt sem skapað er – er ætluð okkur til hjálpar við að öðlast ódauðleika og eilíft líf.
Drottinn ræddi áfram um tilgang jarðar og sagði: „Við munum gjöra jörð, sem þessir [sem erum við] geta dvalið á – og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim“ (Abraham 3:24–25; sjá einnig vers 26). Lífið á jörðinni, ásamt gjöf siðferðilegs sjálfræðis, gefur okkur kost á að velja að leita Guðs og einhvern tíma hljóta allt sem hann hefur að bjóða.2
Þegar sköpun jarðar var lokið, var Guð ánægður, því hann sá að hún myndi þjóna tilgangi sínum fyrir okkur, börn hans.3 Synir og dætur Guðs og fjölskyldur þeirra eru ekki bara boðflennur á þessari jörðu; þau eru öllu heldur megin tilgangur hennar.4
Við eigum að vera góðir ráðsmenn
Lífið á jörðinni er bæði blessunarríkt og bundið ábyrgð. Drottinn lýsir yfir: „Því að sjá, dýr merkurinnar og fuglar loftsins og það, sem af jörðu kemur, er ætlað manninum til fæðu og klæðis, svo að hann hafi gnægð“ (Kenning og sáttmálar 49:19). Hins vegar, þar sem jörðin og allt sem henni tilheyrir er „verk handa [hans]“ (Kenning og sáttmálar 29:25), þá er hún hans.5 Við, sem stundlegir íbúar þessarar jarðar, erum ráðsmenn – ekki eigendur . Sem slík erum við ábyrg frammi fyrir Guði – eigandanum – varðandi meðferð okkar á sköpunarverki hans: „Því að æskilegt er, að ég, Drottinn, gjöri sérhvern mann ábyrgan sem ráðsmann þeirra jarðnesku blessana, sem ég hef gjört og fyrirbúið lífverum mínum“ (Kenning og sáttmálar 104:13).
Hvernig við hirðum um jörðina, hvernig við nýtum hana og skiptum gæðum hennar og hvernig við önnumst allt sem okkur hefur verið falið, er hluti af okkar jarðnesku prófraun. Við eigum að hagnýta okkur það sem Drottinn hefur fært okkur af þakklæti, forðast að eyða lífi og auðlindum og nota gnægð jarðar til að annast hina fátæku.6 Drottinn lætur sér afar annt um allt líf, einkum þó börn sín og mun gera okkur ábyrg fyrir því sem við völdum að gera (eða að gera ekki) við gnægðir sköpunarverks hans.
Drottinn lofar, að ef við fylgjum honum og nýtum auðlindir jarðarinnar af skynsemi, virðingu og þakklæti: „Verður fylling jarðarinnar [okkar], dýr merkurinnar og fuglar loftsins. … Og það er Guði gleðiefni að hafa gefið manninum allt þetta, því að í þeim tilgangi var það gjört, til að notast af forsjá, hvorki í óhófi né með áníðslu“ (Kenning og sáttmálar 59:16, 20).
Við eigum að nota þessar auðlindir af dómgreind og þakklæti, með það í huga að hjálpa öðrum – kynslóðum fortíðar, nútíðar og framtíðar – að hljóta blessanirnar sem himneskur faðir þráir fyrir börn sín.
Sjá lengra en sem nemur okkur sjálfum
Því miður þá búum við í heimi þar sem menn geta valið að hafna Guði og vanvirt sköpunarverk hans. Þegar það á sér stað, þjáist Guð og náttúran.
Enok ritaði að Guð grét yfir slæmum ákvörðunum og mikilli eigingirni barna sinna.7 Moróní spáði að á síðari dögum myndi spyrjast um „elda, fárviðri og eimyrju … [og] mikil mengun verður á yfirborði jarðar,“ og að því ástandi fylgdi „alls kyns viðurstyggð. Þá munu margir segja, gjörið þetta eða gjörið hitt, það breytir engu“ (Mormón 8:29, 31). Þegar menn menga þennan heim andlega eða stundlega, þá þjáist Guð ekki bara, heldur líka náttúran!8
Mikilvægt er að blessanirnar og krafturinn sem fást með hinni endurreistu kirkju og fagnaðarerindi Drottins, megna að móta og breyta mannssálinni umfram það sem við sjálf getum, til að innblása kærleika til Guðs og sköpunarverks hans og gera okkur kleift að huga að velferð annarra og þörfum komandi kynslóða.
Náttúran færir okkur nær Guði
Jörðin og allt líf á henni er meira en neysluvara; sumt sem henni tilheyrir er einnig til varðveislu. Hin óspillta náttúra og „allt, sem af jörðu kemur … er ætlað manninum til heilla og gagns … til að þóknast auganu og gleðja hjartað … og lífga sálina“ (Kenning og sáttmálar 59:18–19).
Náttúran í sínu ósnortna ástandi færir okkur nær Guði, hreinsar huga og hjarta af hávaða og truflunum veraldarhyggjunnar, lyftir okkur upp á hærra og æðra svið og hjálpar okkur að þekkja Guð okkar betur: „Jörðin svífur á vængjum sínum og sólin veitir birtu sína á daginn og tunglið veitir birtu sína á nóttunni og stjörnurnar veita einnig birtu sína. … Sérhver maður, sem hefur séð eitthvert þeirra eða hið minnsta þeirra, hefur séð Guð hreyfa sig í hátign sinni og veldi“ (Kenning og sáttmálar 88:45, 47).
Ég nýt þess enn að ganga hátt á fjöll, meðal stórkostlegra granítsteina og tinda. Þótt þeir séu þögulir, þá vitna þeir um kraft og tign Guðs – og óviðjafnanlegan smekk hans fyrir fegurð. Alma vitnaði: „Allir hlutir sýna fram á, að Guð er til. Já, jafnvel jörðin og allt, sem á henni er … bera því vitni, að til er æðri skapari“ (Alma 30:44).
Ég hef gaman af stjörnuskoðun á nóttunni og að hugleiða eilífð, tíma og rúm þess sem ég fæ séð. Ég undrast alltaf þá þekkingu sem berst á þessum kyrrlátu stundum um að þrátt fyrir hinn óendanlega geim, þá þekkir Drottinn alheims mig, svo agnarsmár sem ég er. Hann þekkir okkur öll. Sköpunarverkið ber vitni um skaparann og ef við varðveitum hina sérstöku, óspilltu staði, mun þeir tignarlega og mikilfenglega bera vitni um Guð og hvetja okkur áfram.
Því betur sem við hugum að þessum heim og öllu því sem honum tilheyrir, því betur mun hann viðhalda, innblása, styrkja, lífga og gleðja hjörtu okkar og anda – og búa okkur undir að dvelja hjá himneskum föður, ásamt fjölskyldum okkar, á himneskum vettvangi, sem einmitt verður jörðin sem við nú dveljum á, en í dýrðlegu ástandi.9
Megum við annast þessa jörðu af þakklæti – sem heimkynni okkar nú og mögulega um framtíð.