2021
Það sem gólfsópun kenndi mér um prestdæmið
Mars 2021


Liðsinni við uppeldi

Það sem gólfsópun kenndi mér um prestdæmið

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Húsverk barna minna var svar við bæn minni.

Ljósmynd
children cleaning a floor with brooms and a mop

Myndskreyting eftir David Green

Ég vaknaði morgun einn og fannst lífið yfirþyrmandi. Mér fannst skyldur mínar sem foreldri erfiðar og ég var mjög meðvituð um veikleika mína. Það virtist vera mikil gjá á milli þess hvernig ég ímyndaði mér að ég yrði sem foreldri og hvernig ég var í raun.

Ég kraup til að biðja og tjáði himneskum föður hversu heitt ég elskaði hann. Ég tjáði honum hversu heitt ég elskaði börnin sem hann hefur blessað fjölskyldu okkar með. Ég tók að segja honum hvernig ég reyndi að vera gott foreldri, en fannst ég ekki standa mig nógu vel. Þegar ég baðst fyrir, hugsaði ég um hversu miklu betri börnin mín yrðu ef Guð myndi bara ala þau upp sjálfur.

Þá kom mynd upp í hugann. Ég sá fyrir mér börnin mín sópa eldhúsgólfið. Það er eitt af mörgu sem þeim var ætlað að gera til að hjálpa fjölskyldu okkar. Stundum fæ ég hroll af því að horfa á þau við þá iðju, því þau eru enn að læra og skilja eftir fullt af blettum. Ég leyfði þeim þó að sópa, sem og að gera önnur húsverk, því ég sá þau í stærra samhengi. Ég vissi að með allri þessari ófullkomnu iðkun, myndu þau læra og vaxa. Endanlega myndu þau geta gert það eins fljótt og vel og ég get. Sú sýn að þau verði ábyrg og sjálfstæð er miklu meira gefandi en ef ég gerði þetta allt sjálf. Ég er ekki að ala upp börn til skammtíma velgengni – ég er að reyna að hjálpa þeim að ná árangri til langframa.

Ég velti fyrir mér hvort eitthvað álíka eigi líka við um himneska foreldra okkar. Himneskur faðir veit að starf okkar sem foreldra getur ekki verið fullkomið. Sumt sem við gerum gæti ef til vill líka vakið honum hroll, en hann leyfir það vegna þess að hann veit að við erum að læra og vaxa. Hann hefur fullkomna langtíma yfirsýn. Hann sér okkur fyrir sér einhvern tíma verða foreldri eins og hann er, að elska fullkomlega, kenna á áhrifaríkan hátt og verða fullkomin fyrirmynd. Þegar okkur verður á, þá veit hann að við erum að þróa eiginleika eins og þolinmæði og kærleika. Af visku sinni leyfir hann okkur að starfa og mistakast og reyna aftur.

Hve ég vildi að ég gæti nú þegar verið fullkomið foreldri! Líkt og Joseph Smith ritaði: Ég geri mig oft sekan um „heimskuleg glappaskot“ (Joseph Smith – Saga 1:28). Ég finn þó huggun í því að vita að Guð skilur hjarta mitt, sem þýðir að hann veit að ég reyni að vera námfús. Ég finn fyrir gleði þegar börnin mín spyrja: „Hvernig get ég gert þetta betur?“ og virðast vilja bæta sig. Ég get að minnsta kosti verið þannig fyrir himneskan föður.

Þegar allar þessar hugsanir fóru í gegnum huga minn, fékk ég enn eitt bakfallið. „Hvað ef mistök mín sem foreldris bitna á börnunum mínum?“ spurði ég. „Ég vil ekki halda aftur af þeim, jafnvel þótt ég verði að einhverju yndislegu í ferlinu.“

Aftur kom myndin upp í huga minn af þrifum barna minna. Eftir að dóttir mín reynir að vanda sig við að skúra gólfið og flýtir sér svo til að leika sér eða ljúka við annað verkefni, þvæ ég yfirleitt óhreinu blettina sem eftir verða. Ég hugsa þá um óendanlega miskunn og mátt Jesú Krists og hvernig friðþægingin þvær öll óhreinindin okkar. Náð hans bætir upp vankanta mína sem foreldris, rétt eins og náð hans bætir upp sársauka barna minna vegna annmarka minna. Á þann hátt sem enginn okkar fær skilið, megnar friðþæging hans að lækna þetta allt.

Ég hugga mig mjög við þá persónulegu opinberun sem ég hlaut þennan dag. Mér fannst andinn kenna mér að mín besta viðleitni, í samstarfi við Drottin, dygði til. Ég veit að himneskur faðir mun áfram, smátt og smátt, vinna með börnin mín, til að fullkomna það sem ég geri svo ófullkomlega. Með hjálp hans geta börnin mín einhvern tíma sjálf verið skært ljós, jafn skært og ef himneskur faðir hefði sjálfur alið þau upp frá byrjun. Áætlun hans gerir mér líka kleift að breyta mér í þessu ferli – helga og móta mig til að verða líkari honum. Hve mikil er viska Guðs okkar!

Prenta