Hafa tónlist sem kjarna tilbeiðslu
Tónlist hefur alltaf verið – og mun alltaf verða – kjarni tilbeiðslu í kirkjunni og á heimilinu.
Nokkrum vikum eftir að kirkjan var stofnuð, fól Drottinn Emmu „val á heilögum sálmum, sem mér er þóknanlegt að hafa í kirkju minni“ (Kenning og sáttmálar 25:11). Hinir heilögu þurftu að geta lært nýlega opinberaðan trúarlegan sannleika og sameinast í lofgjörð til Guðs. Sálmar myndu vera kjarni tilbeiðslu þeirra og náms.
Fyrir mörgum árum, þegar fjölskylda mín gekk í kirkjuna, hvöttu foreldrar mínir okkur til að læra lög okkar nýju trúar. Ég hef skýrar minningar um þann tíma:
-
Læra sálminn „Bænin er andans einlægt mál“ (Sálmar, nr. 46) utanbókar með fjölskyldu minni.
-
Hlusta á sálminn „Ó, minn faðir“ (Sálmar, nr. 96) og læra að ég á himneskan föður og móður, sem ég get séð aftur einhvern daginn.
-
Finna elsku Guðs er við sungum lagið „Himnafaðir elskar mig“ (Barnasöngbókin, 16) – jafnvel þótt ég byggi í eyðimörk og hefði aldrei séð ilmvið!
Ég fer nú hratt fram til sakramentissamkomu síðla ferbrúar árið 2020. Nokkrir meðlimir deildarinnar voru að berjast við krabbamein og ég fann mikla hughreystingu þegar deildarkórinn söng: „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál“ (Sálmar, nr. 21). Nokkrum vikum síðar varð óvænt atburðarás: Sóttkví, afboðun kirkjusamkoma og jarðskjálftahrinur, ásamt eftirskjálftum. Þessi sálmur tók þá að hljóma í huga mínum aftur:
Ei hræðstu, ég Guð þinn mun gefa þér mátt,
á göngunnar leið, sem þú fyrir þér átt.
Þó reynist í heiminum vegferðin vönd,
þig verndar og leiðir mín almáttug hönd.
Stundum virðist sem heimslægar og persónulegar áskoranir fari næstum daglega vaxandi. Aldrei sem áður þörfnumst við endurnæringar með sálmum, Barnfélagssöngvum og annarri helgri tónlist.
Engin breyting á tilgangi eða mikilvægi
Þegar við breyttum í tveggja tíma dagskrá fyrir kirkjusamkomur, veltu sumir fyrir sér hvort hlutverk tónlistar hafi verið skert í tilbeiðslu okkar. Svarið er nei.
-
Helgir sálmar eru enn hluti af öllum sakramentissamkomum, þar á meðal til að búa hjörtu okkar undir helgiathöfn sakramentisins. Enn er hægt að skipuleggja safnaðarsöng og aðra helga tónlist til að auðga samkomur, á sama hátt og áður. Í Kóvíd-19 heimsfaraldrinum var heilög tónlist enn mikilvægur þáttur í styttri sakramentissamkomum, jafnvel þó að hún hafi aðeins verið spiluð á hljóðfæri.
-
Börnin okkar verja nú helming tíma síns í Barnafélaginu í að læra fagnaðarerindið með tónlist.
-
Á síðari samkomunum eru engir inngangssálmar eða lokasálmar í námsbekkjum fullorðinna og ungmenna. Tónlist má þó áfram hafa í námsbekkjum til kennslu og innblásturs.
-
Aldrei hefur verið auðveldar en nú að hlusta á helga tónlist með símum og tölvum og nota til þess smáforritið Church Sacred Music.
Minni forskrift, meiri ásetningur
Það hefur samt verið einhver misskilningur í gangi. Einn páskasunnudag sagði kennari gestabekkjar afsakandi: „Ég veit að við eigum ekki að syngja í sunnudagaskólanum, en mig langar mikið að við syngjum saman: ‚Ég veit minn lifir lausnarinn.‘“ Þessi kennari er líklega ekki einn um þennan misskilning.
Í raun er tónlist ennþá jafn nauðsynleg í tilbeiðslu okkar og hún hefur verið. Verið vitni að tímamótauppfærslu sálma- og barnasöngva okkar sem nú stendur yfir. Sem hluta af því verkefni, þá sendu kirkjumeðlimir um heim allan inn dásamlega 16.000 nýja sálma, söngva og texta.
Með minni tíma til að syngja á sumum sunnudagssamkomum okkar, þá verðum við nú að huga meira að skipulagi og notkun tónlistar.
Tvær reglur geta hjálpað okkur að hafa tónlist sem kjarna tilbeiðslu okkar:
1. Ómissandi í kennslu
Við getum litið svo á að ræður og umræður séu megin aðferðin til að flytja boðskap fagnaðarerindisins á heimilinu og í kirkjunni. Við kunnum að verja mestum tíma í þessar aðferðir. Tónlist er þó ekki bara aukaskreyting. Hún er kjarni þess að kenna með krafti og anda.
Líkt og Páll postuli leiðbeindi hinum fyrri heilögu: „Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar“ (Kólussubréfið 3:16).
Tónlist getur þegar í stað laðað að andann í kennslu eða á samkomu. Að velja lag til að syngja í námsbekk sunnudagaskólans eða fyrir umræðu námsefnisins Kom, fylg mér, verðskuldar sömu vandlegu íhugun og ritningarversin sem við veljum að lesa eða sá hluti lexíunnar sem við kjósum að miðla. Tónlist sem er vandlega valin getur snert hjörtu og vakið andleg áhrif sem geta varað alla ævi.
2. „Bæn til mín“
Á einhverjum tímum gætum við öll upplifað stundir þegar okkur finnst við vera niðurbrotin, þegar leiðin framundan er óljós. Stundum finnst okkur við stöðugt tjá himni okkar brýnu þarfir, en án þess að fá svar eða lausn. Á slíkum stundum gæti verið freistandi að draga þá ályktun að Guði standi á sama eða að við séum óverðug umhyggju hans. Stundum myndum við jafnvel vilja gefast upp á bæninni.
Þegar okkur finnst við ekki ná andlegu sambandi við himininn, þá er hér hughreystandi sannleikur: Helg tónlist getur í raun verið form bænar. Drottinn staðfesti þetta þegar hann bauð Emmu að taka saman fyrstu sálmana: „Því að sál mín hefur unun af söng hjartans, já, söngur hinna réttlátu er bæn til mín“ (Kenning og sáttmálar 25:12; skáletrað hér).
Þegar við bjóðum Drottni einlægan söng hjartans, lofar hann ætíð að svara með blessun: „Og henni mun svarað með blessun yfir höfuð þeirra. Lyft því upp hjarta þínu og fagna“ (Kenning og sáttálar 25:12–13).
Á einum erfiðum tíma í lífi mínu gat ég ekki í langan tíma greint svör við hjartans bænum mínum. Kær vinkona mín var líka sjálf að takast á við erfiðleika. Þegar við hins vegar spiluðum og sungum sálma og trúarsöngva saman, upplifðum við oft mikla huggun og vitnisburð. Mér er nú ljóst að Drottinn var að efna loforð sitt. Aftur og aftur var hann að svara söng hjarta míns. Það hjálpaði mér vissulega, huggaði mig og gerði mér kleift að halda áfram.
Alla sunnudaga
Alla sunnudaga getum við verið viss um að einhverjir í söfnuði okkar, námsbekk eða fjölskyldu, takast á við miklar þrengingar. Aðrir eru kyrrlátari og njóta mikilla blessana. Enn aðrir eru bara að læra grundvallarsannleika fagnaðarerindisins.
Þegar við höfum tónlist á sínum rétta stað sem kjarna tilbeiðslu okkar, getum við hjálpað öllum að finna fyrir andanum, læra sannleika fagnaðarerindisins og lofa Drottin fyrir gæsku hans. Við getum líka hjálpað öllum að hljóta bænheyrslu fyrir hjartans söng þeirra, á þann hátt sem einungis kærleiksríkur, eilífur faðir okkar fær gert.