2021
Keppa að fyllingu Krists
Mars 2021


Keppa að fyllingu Krists

Úr ræðu sem heitir „The Measure of the Stature of the Fulness of Christ,“ flutt á fjölsvæðasamkomu ungs fullorðins fólks í Stanford, Kaliforníu, Bandaríkjunum, 9. febrúar 2020.

Komið til Jesú Krists á þessum páskum og leitið hughreystandi raddar hans um frið.

Ljósmynd
Jesus with arms outstretched

Verið óhræddir, eftir Michael Malm

Ég ætla að greina frá einhverjum hugsunum mínum um hina persónulegu leit ykkar allra til að ná vaxtartakmarki Krists „fyllingar“ (sjá Efesusbréfið 4:13). Ég vona að þær komi ykkur að einhverju gagni á þessum mótandi tíma í lífi ykkar og í aðstæðum ykkar nú.

Sum ykkar eruð þar sem þið viljið vera eða vitið hið minnsta hvert þið viljið stefna í lífinu. Ótal blessanir og dásamlegir valkostir virðast bíða einhverra ykkar. Aðrir meðal ykkar gætu af einhverri ástæðu upplifað sig um tíma vera síður gæfusöm með færri fyrirliggjandi góða framtíðarvalkosti.

Hvert sem þið stefnið og hvernig sem þið takist á við áskoranir ykkar til að komast þangað, þá bið ég ykkur að koma til frelsarans, Jesú Krists, sem brýnt fyrsta skref í að komast á ákvörðunarstað ykkar, er þið keppið að persónulegri hamingju og styrk og náið endanlegum örlögum ykkar og farsæld (sjá 1. Nefí 10:18; 2. Nefí 26:33; Omní 1:26; Kenning og sáttmálar 18:11).

Allt þetta getur orðið ykkar, ef svarið við spurningunni: „Hvert ferð þú?“ (HDP Móse 4:15) er: „Þar sem þú ert, Drottinn.“

Lífið getur verið áskorun. Við upplifum sársauka og eftirsjá og höfum raunveruleg vandamál til að vinna úr. Við tökumst á við vonbrigði og sorgir, allskyns hæðir og lægðir. Drottinn og spámenn hans hafa þó mælt nægilega mörg hughreystandi orð um hvernig takast ber á við þessi vandamál, svo fylla megi alheims dagbók.

„Frið gef ég yður“

Fyrirbæn frelsarans í þágu lærisveina sinna, jafnvel er sársauki og angist Getsemane og Golgata voru fyrir höndum, eru hjartnæmust allra þeirra orða. Á þessari nóttu, sem var sú sársaukafyllsta allra í þessum heimi eða mun nokkurn tíma verða, sagði frelsarinn: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. … Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóhannes 14:27).

Hve hrífandi lífssýn á mestu angistarstundu allra! Hvernig gat hann mögulega sagt þetta, vitandi um það sem beið hans? Hann gat sagt það vegna þess að hann er kirkjan og fagnaðarerindi hamingjuríks endis. Sigurinn hefur þegar unnist fyrir okkur. Hann sér lengra; hann sýnir heildarmyndina.

Ég held að sum okkar hljóti þó enn að hafa í okkur hinar klisjukenndu leifar purítanískrar arfleifðar sem segir að það sé á einhvern hátt rangt að láta huggast eða njóta hjálpar, að við þurfum að vera vansæl öllum stundum varðandi eitthvað. Ég játa að boðið um að „[vera hughraustur]“ (Jóhannes 16:33) og keppa að því að ná „vaxtartakmarki Krists fyllingar“ (Efesusbréfið 4:13) gæti verið það sem flestir óhlýðnast, jafnvel hinir trúföstustu meðal Síðari daga heilagra; og vissulega er ekkert annað sem vekur Drottni jafn mikla sorg í hans miskunnsama hjarta.

Jafn áhyggjufullur og ég yrði ef einu barna minna yrði einhvern tíma í lífinu verulega órótt eða óhamingjusamt eða óhlýðið, þá yrði ég óendanlega meira niðurbrotinn ef ég teldi að á slíkum tíma gæti barnið ekki treyst á hjálp mína eða talið mig áhugalausan eða sig óöruggt í umsjá minni.

Í þessum sama anda er ég sannfærður um að ekkert okkar getur metið hve djúpt það særir kærleiksríkt hjarta Guðs föður eða sonar hans, frelsara heimsins, þegar þeir komast að því að fólk finnur sig ekki öruggt í umsjá þeirra, í höndum þeirra eða treysta ekki á boðorð þeirra. Kæru vinir, af þeirri ástæðu einni ber okkur skylda til að vera hughraust!

„Náð [hans] nægir“

Önnur hvatning til að leita Krists og vaxtartakmarkar fyllingar hans, átti sér stað eftir að Jesús hafði framkvæmt kraftaverkið að fæða 5.000 með fimm brauðhleifum og tveimur fiskum (sjá Matteus 14:13–21). (Hafið ekki áhyggjur af því að Kristur verði uppiskroppa með kraftaverk til að hjálpa ykkur.) „Náð [hans] nægir“ [2. Korintubréf 12:9]. Hér er andleg, eilíf lexía um þetta kraftaverk. Hann hefur gnægð blessana til skiptanna og nokkrar körfur fullar af afgöngum! Trúið og njótið boðs hans um „brauð lífsins“! [Jóhannes 6:35].)

Eftir að Jesús hafði mettað mannfjöldann, sendi hann þau burtu og setti lærisveina sína í fiskibát til að fara yfir hinum megin við Galíleuvatn. Hann gekk síðan „til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi“ (Matteus 14:23).

Þegar lærisveinarnir lögðu af stað á bát sínum, var liðið að kvöldi og nóttin stormasöm. Vindar hljóta að hafa verið sterkir frá upphafi. Vegna vinda settu þessir menn líklega aldrei upp segl, heldur réru aðeins – og erfitt hlýtur það að hafa verið.

Við vitum þetta vegna þess að „er langt var liðið nætur“ (Matteus 14:25) – einhvers staðar á milli klukkan 3:00 og 6:00 – höfðu þeir einungis komist nokkra kílómetra (sjá Jóhannes 6:19). Þá var báturinn staddur í sannkölluðu ofsaveðri.

Eins og alltaf vakti Kristur yfir þeim. Þegar frelsarinn sá erfiðleika þeirra fór hann einfaldlega beinustu leið að báti þeirra og stikaði yfir öldurnar til að koma þeim til hjálpar.

Ljósmynd
Jesus Christ helping Peter up out of the stormy seas

Fullkomnari trúarinnar, eftir J. Alan Barrett

„Verið óhræddir“

Lærisveinarnir horfðu út í myrkrið og sáu þessa undraveru í blaktandi skikkju koma að þeim í öldurótinu. Þeir hrópuðu af skelfingu við þessa sjón og héldu að þetta væri draugur á öldunum. Í gegnum storminn og myrkrið – þegar sjórinn virtist svo stór og báturinn svo smár – kom hin kyrrláta og hughreystandandi rödd friðar frá meistara þeirra: „Það er ég, verið óhræddir“ (Matteus 14:27).

Þessi ritningarfrásögn minnir okkur á að þegar við komum til Krists, keppum að fyllingu hans eða ef hann kemur sjálfur til að færa okkur þá fyllingu, gæti fyrsta skrefið fyllt okkur einhverju sem gæti verið hrein skelfing. Það ætti ekki að gera það, en gerir það stundum. Ein af kaldhæðni fagnaðarerindisins er að oft flýjum við það úrræði hjálpar og öryggis sem að okkur er rétt af mannlegri skammsýni.

Ég hef séð trúarnema flýja skírn, hver sem ástæðan hefur verið. Ég hef séð öldunga flýja trúboðsköllun. Ég hef séð elskendur flýja hjónaband. Ég hef séð meðlimi flýja krefjandi kallanir. Ég hef líka séð fólk flýja aðild að kirkjunni.

Of oft höfum við flúið það sem mun frelsa og hugga okkur. Of oft sjáum við trúarlega skuldbindingu sem eitthvað sem þarf að hræðast og síðan forðast.

Öldungur James E. Talmage (1862–1933) sagði: „Hver fullorðin manneskja mun takast á við reynslu, líkt og sæfarar berjast við storma og stórsjó; oft stendur barátta og hættan langt fram á nótt áður en liðsinni veitist; og þá er hin frelsandi hjálp of oft talin vera enn meiri ógnvaldur. [En,] líkt og gerðist með [þessa lærisveina] á miðju ólgandi vatninu, svo og munu allir sem erfiða í trú upplifa rödd bjargvættsins: ‚Það er ég, verið óhræddir.‘“1

Komið til hans

Það dásamlega við þetta boð um að taka á móti frelsaranum, keppa að vaxtartakmarki fyllingar hans, er að hver sem er getur gert það. Það þýðir ekki að allir sem þið þekkið vilji halda boðorðin eða að allir sem þið rekist á séu að halda boðorðin. Það sem það þó þýðir er að það er hægt að halda boðorðin án sérstakrar gjafar eða arfleifðar.

Ég sárbið um trú sem er „skínandi og björt og hrein og sterk,“ um að Kristur „verði hluti af öllu því sem heyrir til menningar [okkar]“2 og að við náum vaxtartakmarki Krists fyllingar í lífi okkar (sjá Efesusbréfið 4:13).

Lífið verður áskorun fyrir ykkur. Erfiðleikar munu koma. Harmur mun koma. Ástvinir munu deyja. Hver sem stefna ykkur því er, farið þá fyrst til Jesú Krists. Hafið hugfast að þjáningar hans og upprisa gera sigur okkar mögulegan yfir erfiðleikum og dauða. Gerið sáttmála við hann og haldið þá á ferðalagi ykkar.

Af öllum veikleika mínum, sem ég fúslega gengst við, þrái ég að við munum ná „vaxtartakmarki fyllingar Krists.“ Ég vil koma til hans. Ég vil að hann komi til mín, ef mögulegt er. Þeirrar blessunar óska ég sannlega öllum okkar.

Heimildir

  1. James E. Talmage, Jesus the Christ (1916), 337.

  2. Eric Metaxas, Bonhoeffer: Pastor, Martyr, Prophet, Spy (2010), 248.

Prenta